Vestfirðir - 17.01.2019, Page 9
9 17. janúar 2019
yfirgefið hana: Hvers vegna skráðir
þú þig úr kirkjunni? Er það vegna
þess að einhver prestur hefur sagt
eitthvað ógætilegt eða eitthvað sem
þú samþykkir ekki eða gert eitthvað
alvarlegt af sér? Er það vegna launa
biskupsins? Er það vegna þess að
þú heldur að kirkjan sé á framfæri
ríkisins og vilt ekki sjá að Þjóðkirkjan
hefur afhent ríkinu eignir uppá
milljarðatugi. Samning kirkju og ríkis
vill ríkið nú svíkja eftir 21 ár. Ég sagði
á sínum tíma að það væri glapræði að
láta ríkið hafa gullforða kirkjunnar
og fá í staðinn pappírssamning
sem stjórnmálamenn túlka sér í
hag á hverjum tíma í atkvæðaleit í
pólitískum hráskinnaleik. Ástæðurnar
þínar sem hefur yfirgefið kirkjuna
kunna að vera margvíslegar, en ég
spyr: Standast þær rök og vitræna
gagnrýni í öllum tilfellum? Foreldrar
þínir, ömmur og afar, langömmur
og langafar, sem fylgdu þúsund ára
íslenskri hefð og báru þig til skírnar,
voru þau öll vitgrannir kjánar, eða
vildu þau bara í einlægri trú sinni fela
þig á vald því æðsta og fegursta sem
þau þekktu og búa þig þannig undir
að lifa af í viðsjárverðum heimi eftir
hugmyndafræði Krists og undir vernd
hans?
Þjóðkirkjan er veraldleg stofnun
og tímanleg sem leitast við að
þjóna eilífum gildum. Henni eru
mislagðar hendur eins og öðrum
jarðneskum félögum og stofnunum.
Hún hefur til að mynda oft á tíðum
reynst fara klaufalega með sín mál
á vettvangi fjölmiðla. Hún virkar
stundum ögn bernsk í háttum á
hinu veraldlega sviði. Hvers vegna
tapar Þjóðkirkjan t.d. máli efti máli
fyrir dómstólum? Þarf yfirstjórn
kirkjunnar ekki að fá betri ráðgjöf á
sviði lögfræði og dómsmála?Hvers
vegna kemur Þjóðkirkjan svo illa út
í fjölmiðlum sem raun ber vitni? Ég
nefni stjórnsýslu innan kirkjunnar
sem er ekki nógu vönduð eða skilvirk
þegar ég ber hana saman við norsku
kirkjuna. Hér er verk að vinna og
ekki bara innan kirkjunnar heldur í
þjóðfélaginu öllu.
Gott og vel. Kirkjan er mistæk.
En hvað með að leggja kirkjuna til
hliðar um stund og gleyma henni
sem stofnun og mannlegu félagi, en
huga að grunni kirkjunnar, Kristi
sjálfum? Ertu á móti honum? Ertu á
mót kærleiksboðskap hans? Ertu á
móti kenningum hans um miskunn,
náð, fyrirgefningu, viðurkenningu
á öllu fólki, samstöðu með konum,
skilningi hans á ólíkum viðhorfum
fólks og lífsháttum? Hefurðu lesið
Nýja testamentið og kynnt þér
afstöðu Jesú til fólks á sínum tíma.
Ertu virkilega á móti honum? Segja
má að hann og Sókrates séu helstu
hugsuðir og fulltrúar hinna tveggja
elfa sem mynda hugsanafljótið. Ertu
á móti þeim og þeirra hugmyndum?
Hvorugur þeirra skrifaði staf á bók en
eru báðir þekktir fyrir hugsanir sínar
gegnum skrif annarra. Báðir voru
dæmdir af yfirvöldum og teknir af lífi
fyrir skoðanir sínar. En þar með var
áhrifum þeirra ekki lokið.
Ég er í kirkjunni vegna þess að
þar finn ég Krist og boðskap hans.
Ég hitti þar líka manneskjur af öllu
tagi, breyskar manneskjur, bara
breyskar, mistækar eins og allar aðrar
manneskjur, en betra vinnuumhverfi
hef ég hvergi fundið og hef þó víða
komið.
Hversu djúpt hefurðu hugsað
afstöðu þína til lífsins, til fólks og
heims? Hefur þú vit til að koma með
eitthvað betra og dýpra en það sem
fyllir hugsanafljótið og hefur tekið
mörg þúsund ár að þroskast og þróast?
Maður nokkur hitti prest og sagði
með fyrirlitningu að hann hefði engan
áhuga á kirkjunni vegna þess að þar
væru bara eintómir hræsnarar. Prestur
svaraði og sagði: Hér er nú alltaf pláss
fyrir einn í viðbót!
Gagnrýnisraddir
Á íslenskum fjölmiðlum starfar
margt gott fólk og vel meinandi en
á hinum síðari árum tel ég hafa sótt
þangað einstaklingar sem virka mjög
uppteknir af því að gagnrýna kirkju
og kristni. Þetta er í flestum tilfellum
ungt fólk með takmarkaða lífsreynslu
eða skilning á sögu og menningu.
Það telur sig margt vera hlutlaust og
trúlaust en boðar samt trú sína – sem
það kannast þó ekki við sem trú – með
ekki síður miklum ákafa en trúboðinn
sem frumbyggjar myrtu í Asíu og sagt
var frá á RÚV á aðventunni. Fjölmiðlar
eru ekki nógu prinsipp fastir að mínu
mati því þeir leyfa starfsfólki í allt of
mörgum tilfellum að vafra um í eigin
hugmyndaheimi og fordómum án
þess að vera rótfestir í gildagrunni síns
miðils – ef hann er þá til á annað borð.
Ég tel að grunnskólar hafa brugðist
hvað varðar miðlun hinna jákvæðu
gilda sem bárust til landsins með
kristninni. Ég hef hitt kennara sem
veigruðu sér við að kenna kristinfræði
vegna þess að þeir töldu sig ekki nógu
trúaða? Hver hefur krafist þess að
kennarar þurfi að játa kristna trú til
þess að kenna um hana? Þurfa þeir að
vera múslimar til að kenna um islam?
Hvers vegna yfirgáfu Íslendingar sína
gömul trú og tóku Kristni? Höfðu
þeir ekki fundið betri lífsgrundvöll
en þeir höfðu fyrir? Framhaldsskólar
kenna varla staf um kristni eða
kristna guðfræði. Við lærum ekki
að hugsa á guðfræðilegum nótu og
varla heldur heimspekilegum. Og því
er umræðan eins og raun ber vitni á
Alþingi, í fjölmiðlum, á netmiðlum
og yfir latte og expressobollum. Við
erum ekki flink sem þjóð í rökræðum
og erum fákunnandi í að ræða trú
okkar. Margir eiga sína barnatrú sem
aldrei hefur þó fengið að þroskast með
rökræðum og því er hún lítt rædd.
Kirkjan hefur stundað sitt trúboð í
tvö þúsund ár og hún getur verið stolt
af ávöxtum þeim sem heilbrigð trú og
góð guðfræði hafa borið í aldanna rás,
en verður eins og allir aðrir að kannast
við mistök sín og bernskusyndir á
hverjum tíma. Hið sama á við um
stjórnmálamenn, valdamenn og
aðra í aldanna rás. Ísland var ekki
bara mótað af einu mengi, kirkjunni.
Kirkjan er eins og ég og þú, hún er
lifandi veruleiki, sem leitast við að
lifa og þroskast í mannlegu samfélagi.
Við erum öll mistæk. Öll höfum við
fordóma af ýmsu tagi. Fordómar
eru eins og arfi sem sækir að góðum
gróðri. Verkefni daganna er að reita
arfann úr eigin beði. Trúboðarnir sem
ganga harðast fram gegn kirkjunni
virðast oft byggja málflutning sinn á
hreinum fordómum og oft á fáfræði
enda leiðast þau effin tvö oftast hönd
í hönd. Við höfum öll fordóma gegn
einhverju eða einhverjum. Hvernig
væri að líta í eigin barm og kannst
við eigin takmarkanir, en líta svo
upp úr arfanum og skoða söguna
og menninguna sem skapast hefur
í andlegum beðum og lystigörðum
vestrænnar menningar? Og þá er vert
að gleyma ekki hugsanafljótinu mikla,
vizku þess og þeim áhrifum sem það
hefur haft á okkur öll. Hvaðan fengum
við Íslendingar ritmenningu okkar?
Hvar liggja rætur heilbrigðiskerfisins
og skólanna? Þær liggja í kirkjunni
sem sinnti sjúkum fyrr á öldum
í miklum mæli, einkum á þeim
sviðum sem heimilin réðu ekki við
og kirkjan kom á kennslu ungmenna
í kjölfar nýrrar kirkjuskipanar eftir lok
miðalda.
Trú, lífsgildi og boðun
Hverju trúir þú? Hvaða trú boðar
þú? Hvaða lífsviðhorf? Þú ert trúboði
hvort sem þú vilt eða þorir að kannast
við það eða ekki. Ég boða mína trú og
gengst við því og skammast mín ekki
fyrir það. Ég boða þá trú sem ég tel að
hafi fært mér góðan og heilbrigðan
lífsgrundvöll.
Lífsviðhorf má ræða, um
hugmyndafræði má þrátta.
Hugmyndafræði af öllum toga
þarf að ræða og þrátta um. Hinn
pólitíski rétttrúnaður, sem svo
er nefndur, er stundum sagður
borinn uppi af fólki á vinstri væng
stjórnmálanna en fyrirfinnst í öllu
hinu pólitíska litrófi held ég. Þessi
rétttrúnaður leyfir ógjarnan að við
Vesturlandabúar ræðum til dæmis
inntak og hugmyndafræði islam. Slíkt
er talin vanvirðing við múslima. En
það má eftir sem áður tæta í sundur
kirkju og kristni án þess að fulltrúar
sama rétttrúnaðar lyfti sínum litla
fingri. Við verðum að fá að ræða
hugmyndafræðina, fá að fara í
boltann, án þess að tækla fólkið sjálft.
Kristin hugmyndafræði hefur verið
tætt í sundur og brotin til mergjar í tvö
þúsund ár og enn stenzt hún gagnrýni.
Þið, sem harðast gagnrýnið
kirkju og kristni, búið við vestræn
mannréttindi, sem sprottin eru úr
hugsanafljótinu, sem Sókrates og
Kristur eru helstu fulltrúar fyrir.
Ykkur er velkomið að halda áfram
gagnrýni ykkar. Tjáskipti eru mikilvæg
og gagnrýni er þörf. Tjáningarfrelsi
er stjórnarskrárvarinn réttur okkar
allra. Gagnrýni á kirkju og kristni,
á guðfræðikenningar og túlkun
kirkjunnar á veruleikanum er ekki ný
af nálinni. Kirkjan hefur sætt gagnrýni
í tvö þúsund ár. Andstæðingar kirkju
og kristni kunna að vinna einhverja
sigra með gagnrýni sinni á hverjum
tíma. Ég er ekki að fara fram á að ekki
megi gagnrýna kirkjuna en ég bið um
sanngirni og virðingu í tjáskiptum. Ég
virði það að fólk hafi aðra trú en ég en
ég bið fólk að skilgreina þá trú sína
ekki á grundvelli illsku í garð kirkju og
kristni heldur á eigin forsendum.
Sú gagnrýnin á kirkju og kristni,
sem hent er á lofti nú á tímum, var
þegar fyrir hendi á fyrstu öldum
kristninnar. Öll rökin hefur kirkjan
þekkt í tvöþúsund ár. Ekkert er nýtt
undir sólunni, segir í máltækinu.
Kirkjan hefur staðist þetta allt og
svarað því öllu með sínum rökum
fyrir margt löngu og gerir áfram með
því að boða kærleiksboðskap Krists í
orði og verki.
Kærleiksboðskapur Krists mun
ekki úreldast og kirkjan lifir áfram.
Íslenska þjóðkirkjan siglir nú í
kröppum sjó en hún á hann að sem
megnar að lægja vind og sjó. Þegar
Pétri postula hafði opinberast hver
Jesús væri í raun, sagði Jesús við hann:
„Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum
kletti mun ég byggja kirkju mína
og máttur heljar mun ekki á henni
sigrast.” (Matt 16.18)
Með bestu óskum um
blessunarríkt nýtt ár.
Örn Bárður Jónsson
Höfundur er sóknarprestur í Nes
söfnuði í Noregi.