Vestfirðir - 04.10.2018, Qupperneq 8

Vestfirðir - 04.10.2018, Qupperneq 8
8 4. október 2018 Ávarp forseta Íslands Guðna th. Jóhannessonar við fyrstu skólasetningu Lýðháskólans á Flateyri 22. september 2018 Nemendur og starfslið Lýðhá- skólans á Flateyri, skólastjóri og stjórnarformaður, formað- ur bæjarráðs, bæjarstjórar, alþingis- menn, aðrir góðir gestir. Til hamingju með daginn! Til hamingju með nýja skólann hér á Flateyri. Megi hann hvetja nemendur til dáða og efla byggðarlagið, okkur öllum í þessu landi til heilla. Með stofnun þessa skóla verður menntakerf- ið fjölbreyttara, meira í boði fyrir hvern og einn sem vill afla sér aukinnar visku. Nú er hugmynd um lýðháskóla ekki ný af nálinni. Við getum helst rakið lýðskólahugmyndinna til hugsuðarins Grundtvigs og annarra í Danmörku sem mæltu fyrir umbótum og aukinni alþýðumenntun á nítjándu öld. Ytra kynntust Íslendingar lýðháskólum og það skal fúslega viðurkennt að sitt sýndist hverjum. Þannig vissi Matth- ías Jochumsson, sá frjálslyndi andans maður, ekki alveg hvaðan á hann stóð veðrið í heimsókn til lýðháskólans fræga í Askov. Þarna blésu aðrir vindar en hann hafði áður kynnst, mikið frelsi og próf þekktust varla. „Mér fannst allt svo laust og óákveðið sem kennt var,“ sagði Matthías, „sífelldur söng- ur og fyrirlestrar, lítil yfirheyrsla, fáar æfingar, allt miðað meira við tilfinn- ingar en við eiginlegt nám og skilning eða ákveðna kunnáttu.“ En samt – eða kannski þess vegna – var eitthvað sem heillaði hinn hugsandi mann. Hann gat ekki annað en hrifist af þessum eldmóði menntunar og mannúðar, samkenndar og sjálfsræktar. Skáldið sagði áfram, og það er kjarni málsins: „Skólarnir áttu að vera líf fremur en ákveðinn lærdómur, vöknun og hjartans hressing fremur en erfiði og áreynsla.“ Og að því kom að lýðskólum á ung- mennastigi var komið á fót hér á landi. Einna fremstur þar í flokki var Guð- mundur Hjaltason alþýðufræðimaður, þekktur á sinni tíð en fáum kunnur um okkar daga. Próf voru eitur í hans beinum og öll ítroðsla sömuleiðis. Í heilræðum til barnakennara, kvæði sem Guðmundur birti árið 1889, orti hann svo um eðli sanns lærdóms: Ætíð sé í allri kennslu eitthvað nýtt, eitthvað sem að gjörir geðið glatt og hlýtt. Og enn fremur: Lærdómur sem leikur verði ljúfur þeim, þeir í skóla sjálfum sjái sælugeim. Fylg þú þeim um fjöll og dal með fróðleiks-tal, horf með þeim á himna ljós og holtarós. Þetta voru fögur áform, áheyrendur góðir. En hugsjónir lýðskólafólks fengu ekki nægan hljóm- grunn hér á landi. Skólakerfið þróaðist í aðra átt. Vissulega var framför að skóla- skylda festist í sessi. Í því kerfi urðu sumir þó ofan á en aðrir út undan, börn- um raðað í bekki eftir meintri getu, og oftar en ekki mátti rekja frammistöðu í þröngum prófum til þess hvernig atlæti var heima fyrir frekar en hvaða kost- um nemandinn var í raun búinn. Svo- nefndir „tossabekkir“ tuttugustu aldar eru ömurlegur vitnisburður um hörku og misrétti í garð þeirra sem síst skyldi, og þessi skipting í góða nemendur og vonda gat svo sannarlega dregið dilk á eftir sér eins og Sigurður Pálsson skáld skrifaði í minningum sínum: „Þessi dilkadráttur var ákvörðun um örlög fyrir lífið, hvorki meira né minna.“ Gott og vel, en hvað með jákvæðan aga og álag, ekki síst þegar við horfum til framhaldsnáms, þar sem hver og einn á að bera ábyrgð á sjálfum sér? Vissulega þarf að gera kröfur í námi, leik og starfi. Við viljum eiga verkfræðinga sem hafa sýnt og sannað að þeir viti sínu viti um burðarþol; við verðum að treysta því að nýútskrifaðir læknar kunni sína líffæra- fræði. Fólk í námi þarf að reyna á sig, leggja sig fram, finna kosti sína og efla þá. En um leið þurfum við að rækta með okkur víðsýni og umburðarlyndi, vinna gegn þröngsýni og fordómum. Er sá læknir bestur sem kann allt í anató- míu en ekkert í mannlegum samskipt- um? Er sá verkfræðingur frábær sem getur reiknað og teiknað öll heimsins mannvirki en ber ekkert skynbragð á samband manns og náttúru? Og sjálf- sagðar kröfur mega ekki skapa ofur- kvíða. Er það farsælt veganesi í fram- tíðina, sem fregnir berast af, að fjöldi háskólanema neyti örvandi lyfja til að geta kannski svarað betur spurningum á prófdegi? Er það rétt sem Kári Stef- ánsson sagði eitt sinn, að próf væru uppfinning andskotans? Kæru nemendur lýðháskólans, og aðrir góðir gestir: Við þurfum fjöl- breytni í mannlífinu, og þá að sjálfsögðu í skólakerfinu líka. Hér við þennan nýja skóla á Flateyri vantar ekki metnað þótt farnar séu ótroðnar leiðir að því marki að auðga einstaklinga og samfélagið um leið – byggðina hér, um gervallt landið og í raun víða veröld. Vissulega má var- ast klisjur. Það er hins vegar satt, sem oft er sagt, að enginn er góður í öllu en allir góðir í einhverju. Það skuluð þið staðfesta, nemendur og kennarar hins nýja skóla. Góðir áheyrendur: Ég óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju með Lýðháskólann á Flateyri. Ábyrgð ykkar er allnokkur. Þið þurfið að sýna hvað í ykkur býr, sanna að nú hafi verið stigið gæfuskref. Gangi ykkur vel, megi gifta fylgja hinum nýja skóla og öllum sem hann sækja. Runólfur Ágústsson, formaður skólanefndar Forseti íslands situr í bókabúð- inni á Flateyri. Forseti Íslands heilsar Eyþóri Jóvinsson við bókabúðina Bræðurnir Eyjólfsson Myndir: Halla Signý Kristjánsdóttir, Marzellíus Sveinbjörnsson, Runólfur Ágústsson

x

Vestfirðir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vestfirðir
https://timarit.is/publication/1082

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.