Nesfréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 6

Nesfréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 6
6 Nesfrétt ir Aðfaranótt föstudagsins 10. maí árið 1940 hernámu Bretar Ísland. Fyrirboði hernámsins var flugvél sem flaug frekar lágt yfir borgina og vakti nokkra borgarbúa. Sumir óttuðust það versta og héldu að Þjóðverja væru að gera innrás. Fjögur herskip lögðust að bryggju í Reykjavík og stuttu síðar var bærinn fullur af her mönnum. Engin mótspyrna var veitt og ekki var hleypt af skoti. Ísland var hernumið af því að það var talið hafa hernaðarlegt mikilvægi. Bretar lofuðu að skipta sér ekki af stjórn landsins en stóðu ekki við loforðið því fyrsta verk þeirra var að handtaka Þjóðverja sem voru á Íslandi og senda þá í fangabúðir í Bretlandi. Bretar lögðu undir sig nokkrar byggingar í Reykjavík, meðal annars Hótel Borg sem þeir gerðu að aðalstöðvum sínum. Talið er að um 25 þúsund breskir hermenn hafi verið á landinu þegar mest var árið 1941 og höfðu þeir flestir búsetu í Reykjavík og nágrenni. Þann 7. júlí 1941 hófu Bandaríkjamenn að landa herliði og fluttu hingað samtals 45.000 hermenn. Bretar fóru samt ekki allir fyrr enn eftir stríðslok. Hernámið snerti flestar byggir landsins þótt með mismiklum hætti væri. Seltjarnarnesi er ekki undanskilið. Hernaðarumsvif og mannvirki voru nokkur á Nesinu einkum á Valhúsahæð en einnig í Suðurnesi. Auður Sigurðardóttir sem bjó á Bjargi við Norðurströnd ræddi við jólablað Nesfrétta 2012. Hún sagði í viðtali við blaðið að her setan á stríðsárunum hafi nokkuð mótað umhverfið. „Herinn var hér í túninu á Bergi og eitt af því sem hann gerði var að sprengja fyrir virki. Þar voru hermenn á vakt, eftirlitsmenn sem áttu að fylgjast með öllum skipaferð um inn til Reykjavíkur. Stríðinu lauk og herinn fór en ummerkin eru enn þá hér á garðinum. Virkið og gangbrautin. Okkur vantaði einhverju sinni mold í garðinn og Hafsteinn maðurinn minn sagði þá að nóg væri af henni, við þyrftum bara að grafa virkið upp sem við gerðum. Virkið setur mikinn svip á garðinn og krökkunum fannst þetta ekki ónýtt leiksvæði – sjálft Bretavirkið.Auður gekk síðan með tíðindamanni út í garðinn að baki Bergi og sýndi honum hervirkið. Camp Grótta Bæjarstjórn Seltjarnarness lét fyrir nokkrum árum hefist handa við að endurreisa gamlar stríðsminjar. Um var að að ræða tvenn mannvirki, byrgi á Valhúsahæð og ljóskastarahús í Suðurnesi. Mannvirkin voru hluti af stjórnstöð strandvarna Reykjavíkur í síðari heimsstyrjöld en Bretar létu reisa það ásamt tveimur fallbyssum um sumarið 1940. Stjórnstöðinni var ætlað að verja innsiglinguna að Reykjavíkurhöfn og flotastöð Breta í Hvalfirði fyrir skipum og kafbátum Þjóðverja. Þrátt fyrir starfsemi á vegum hernámsaflanna í stríðinu eru lítil verksummerki eru um hana nú. Stríðsminjarnar teljast ekki til fornminja vegna þess að þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í tímans rás hafa þessi mannvirki hrunið og skemmst en bæjarstjórnin hafði hug á að endurbyggja þau aftur og varðveita til lengri tíma. Á hernámsárunum reistu Bretar ,,Camp“ Grótta á Valhúsahæð, þar sem bæði voru braggar og skotvarna­ byrgi. Þar voru einnig settar upp loftvarnabyssur og fallbyssur til að verja innsiglinguna til Reykjavíkur og Hvalfjarðar. Einu ummerkin nú eru steyptar grunnplötur og stakar rústir skotvarnabyrgja. Á Valhúsahæð voru árið 1980 skráðar 14 rústir hernaðar­ mannvirkja á sérstök númer, auk þess sem 15 til 20 rústir á austan og norðaustanverðri hæðinni voru skráðar saman á eitt númer. Margar þessara rústa eru nú horfnar, enda hefur talsvert rask verið á hæðinni síðan þær voru skráðar. Úr höggnu grjóti og steinsteypu Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði hefur rannsakað þessi mál og fjallað um þau. Hann fagnaði því að Seltjarnarnesbær ætli að varðveita þessar minjar, þar sem nær skipulega hafi verið gengið fram í því að eyðileggja stríðsáraminjar í landinu á umliðnum áratugum. Í grein sem hann birti um málið sagði hann að sérstök byggingardeild úr landgönguliði breska flotans hafi verið send til landsins til þess að gera smíði þeirra sem best úr garði. Eitt það merkilegasta við mann­ virkin hafi verið byggingaraðferðin en virkjagerðarmennirnir reistu byrgin á Valhúsahæð úr höggnu grjóti og steinsteypu og var þar fylgt sér stökum byggingarstaðli við virkja­ gerð sem ekki sást annars staðar á landinu. Þessi deild ferðaðist svo um landið og reisti önnur sam bærileg mannvirki fyrir stöðvar Breta á landsbyggðinni, til dæmis í Hvalfirði og Eyjafirði. Skip lýst upp Ljóskastararnir á Seltjarnarnesi lýstu upp skip að nóttu til, svo að aðgreina mætti hvort þar væri vinur eða fjandmaður á ferð. Einnig var strengdur sérstakur strengur, sem nam breytingar á segulsviði, frá stjórnstöð í Bollagörðum á Seltjarnarnesi og yfir til Akraness. Var þannig hægt að vara við ferðum kafbáta og annarra skipa sem sigldu óboðin yfir strenginn. Vinveittum skipum var hins vegar gert að sýna sérstakar veifur að degi til og ljós­ merki að nóttu til, sem höfðu verið ákveðin þann daginn Stærstu byssur á Íslandi Í grein Þórs kemur fram að fall­ byssurnar tvær sem reistar voru á Valhúsahæðinni hafi ásamt sam skonar byssum í Hvalfirði verið þær stærstu sem Bretar létu reisa á Íslandi, með sex þumlunga (15 cm) í hlaupvídd. Þær drógu um 12 kílóme­ tra út á haf, og var ætlað að reyna að koma í veg fyrir að Þjóðverjar myndu gera hér innrás. Þrátt fyrir það þóttu byssurnar heldur lítilfjörlegar og telur Þór ljóst að líklega hefðu byssurnar ekki haldið innrásarflota Þjóðverja lengi frá og hér hefði orðið fátt um varnir. Þegar Bandaríkjamenn tóku við hervörnum hér sumarið 1941 kom í ljós að þeim þótti lítið til koma til bresku byssanna. Bættu þeir þó sjálfir ekki úr, þar sem innrásar­ hættan frá Þjóðverjum minnkaði eftir því sem leið á stríðið. Ekki kom til skipskaða af þessum aðförum og höfðu hernaðarumsvifin í heild takmörkuð áhrif á líf fólks. Hernámsárin á Seltjarnarnesi Stærstu byssur Breta á Íslandi Stríðsminjar á Valhúsahæð. Þessi mynd mun tekin á öðrum áratug liðinnar aldar. Trúlega um 1912. Þarna sést vel af hverju Bretar völdu Valhúsahæð. Gott útsýni bæði til lofts og sjávar allt um kring.

x

Nesfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nesfréttir
https://timarit.is/publication/1112

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.