Fréttir - Eyjafréttir - 23.03.2023, Page 17
23. mars 2023 | | 17
„Þetta gekk virkilega vel og við
höfðum bullandi trú á þessu en
auðvitað var mótlætið mikið
fyrir leik og í leiknum sjálfum
en við létum það aldrei á okkur
fá. Nýttum það til að þétta okkur
enn betur saman og klára þetta,“
sagði Hrafnhildur Hanna í samtali
við í samtali við Eyjafréttir á
sunnudagskvöldið.
„Tilfinningin að vera orðnar
bikarmeistarar var alveg
ólýsanleg. Ætli þetta sé ekki
skemmtilegasti handboltaleikur
sem ég hef spilað. Þetta var
ótrúlega gaman og það er ekki
hægt annað en að minnast á
stuðningsmennina. Þeir eru
frábærir. Maður fann þvílíkan
kraft frá áhorfendapöllunum sem
gaf okkur ótrúlega mikið.“ Þeir
sýndu líka á eftir að þeir kunnu
að meta okkar framlag. „Heldur
betur.“
Hrafnhildur Hanna sá þarna
drauminn rætast. „Það er búið
láta mann vita að það sé eitt
það skemmtilegasta sem maður
gerir, að sigla með bikar
hingað heim. Það stóð svo
sannarlega undir væntingum.
Móttökurnar í Herjólfi, á
bryggjunni og um kvöldið.
Þetta var allt til fyrirmyndar
og frábær stuðningur sem við
höfum fengið. Eitthvað sem við
kunnum virkilega vel að meta,“
sagði Hrafnhildur Hanna en
nóg er framundan þó bikarinn
sé í höfn. Tveir aðrir titlar í
boði, deildarmeistaratitillinn og
sjálfur Íslandsmeistaratitillinn.
„Það er nóg eftir og við erum
alls ekki saddar. Við skemmtum
okkur vel í gær og nutum en við
hittumst á æfingu í dag til að
núllstilla okkur því það er leikur
strax á miðvikudaginn. Það eru
enn þrír leikir eftir í deildinni
og það er í okkar höndum að
tryggja okkur titilinn. Sem er
klárlega næsta markmið.“
Hverju svarar þú fullyrðingu
um að ÍBV sé besta liðið í
kvennahandboltanum í dag?
„Eigum við ekki að vera
sammála því. Samkvæmt töflu
og bikarkeppninni erum við á
toppnum. Það þýðir þó ekki að
slaka á heldur vinna vel til að
halda þeirri nafnbót,“ svaraði
Hrafnhildur Hanna sem að lokum
vildi koma á framfæri þakklæti
til stuðningsmanna og allra
Eyjamanna.
„Þetta er svo skemmtilegt og
það er þeim og öllum í kringum
þetta að þakka. Hjálpar liðinu svo
gríðarlega mikið og gerir þetta
svo miklu skemmtilegra.“
Sigurður Bragason var rétt að
koma niður á jörðina þegar við
ræddum við hann á mánudag.
Hann var að vonum ánægður
með sínar konur eftir frábæran
leik og sagði nokkra þætti hafa
ráðið því að sigur vannst á
laugardag. „Við breyttum aðeins
hjá okkur og komum þeim á
óvart með að plúsa út hjá þeim.
Leikurinn byrjaði vel og allt var
vel útfært eins og við vildum.
Síðan kemur mjög erfiður kafli
eftir 15 mínútur og við erum í
miklum vandræðum alveg fram að
hálfleik. Á þessum tíma missum
við mikilvægasta leikmann liðsins
út sem var mikið sjokk fyrir alla.
Þó svo að vissulega séu Hanna og
Sunna mjög mikilvægar þá hefur
Karolina verið að bakka þær upp.
Marta er bara einn besti
leikmaður deildarinnar og það
hefur enginn verið að koma inn á í
vetur sem hefur getað fyllt hennar
skarð.“ Sigurður segir innkomu
Ólafar á þessum tímapunkti
hafa verið frábæra og átt stóran
þátt í því hvernig fór. „Þetta er
náttúrulega mögnuð frammistaða
hjá henni. Hún hefur lítið sem
ekkert spilað í marga mánuði
og er bara að koma til baka eftir
barnsburð og þó svo að hún hafi
verið fínn markmaður þá hafði
hún enga reynslu af svona leikjum
í þokkabót.“ Sigurður segir svo
seinni hálfleikinn hafa spilast eins
og hann hefði getað óskað sér.
„Þær voru náttúrulega frábærar
þarna skytturnar þrjár fyrir utan
og það sást langar leiðir hvað
þeim langaði þetta. Þessi leikur
var frábær og hafði upp á allt að
bjóða, drama, læti, spennu. Það
var gaman að upplifa þetta með
þeim og fólkinu okkar.“
Það er skammt stórra högga
á milli hjá stelpunum því þær
geta með góðri frammistöðu
í næstu leikjum tryggt sér
deildarmeistaratitil komandi
helgi en liðið mætir KA/Þór og
Selfoss í vikunni og getur með
tveimur sigrum tryggt sér titilinn
á heimavelli. „Nú er bara að koma
sér af stað aftur. Við tókum stutta
æfingu í gær og hópurinn er að
koma vel undan helginni þrátt
fyrir að lykilmenn hafi spilað
mikið á laugardag. Ég hef engar
áhyggjur af því að stilla hópinn
á næsta markmið. Þær gera sér
grein fyrir því hvað er undir. Þetta
eru bara sigurvegarar og þær vilja
meira.“
Deildarkeppninni lýkur svo
aðra helgi og þá tekur við
landsliðspása og svo forkeppni
að úrslitakeppninni þar sem ÍBV
kemur til með að sitja hjá. „Það er
þá bara lítið undirbúningstímabil
framundan hjá okkur áður en
slagurinn hefst um þann stóra.“
Sigurður segir það ekki nokkra
spurningu að hópurinn ætlar sér
að vinna alla titla sem í boði eru.
„Það er ekkert leyndarmál. Við
erum búin að vinna 18 leiki í röð.
Það eru fá fordæmi fyrir svona
sigurgöngu eftir því sem ég kemst
næst. Hópurinn er samstíga í
þessu en við áttum okkur á því að
þetta gerist ekki að sjálfu sér. Nú
erum við liðið sem allir ætla að
stoppa og það er bara verkefnið
framundan að koma í veg fyrir að
það gerist.“
Hrafnhildur Hanna Tilfinningin ólýsanleg:
Skemmtilegasti handboltaleikurinn
Ætlum að vinna alla titla