Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 05.04.2023, Qupperneq 4

Fréttir - Eyjafréttir - 05.04.2023, Qupperneq 4
4 | | 5. apríl 2023 Hlustaði eiginlega bara á sjálfan mig E Y J A M A Ð U R I N N S É R A G U Ð M U N D U R Ö R N J Ó N S S O N Séra Guðmundur Örn Jónsson hefur starfað sem prestur hér í Vestmannaeyjum síðan 2006 og hefur því fermt ansi mörg börn hér í Eyjum. Fyrstu fermingar þessa árs fara fram 15. apríl næstkomandi. Fermingin er stór viðburður í lífi hvers barns og fjölskyldu og þar skipar presturinn stórt hlutverk, bæði í fræðslu og fermingunni sjálfri. Guð- mundur Örn er því Eyjamaður vikunnar. Fullt nafn: Guðmundur Örn Jónsson. Fjölskylda: Kvæntur Gíslínu Dögg Bjarkadóttur listakonu, og börnin eru Mía Rán, Íva Brá og Kormákur Nóel, og tengdasynirnir eru tveir Guðni Geir Agnarsson og Dagur Einarsson. Svo er auðvitað fjölgunar von hjá Míu og Guðna í sumar. Hefur þú búið annars staðar en í Eyjum: Já, ég er alinn upp í Fnjóskadal og Öxnadal fyrir norðan, flutti svo til Akureyrar þegar ég byrjaði í framhaldsskóla og bjó þar í 8 ár, en þá fluttum við Gíslína til Reykjavíkur, þar sem við bjuggum í 9 ár. Mottó: Það er ekki málið hvað maður getur, heldur hvað maður gerir. Síðasta hámhorfið: Við Gíslína stútuðum Game of thrones um daginn. Uppáhalds hlaðvarp? Alltaf gaman af einhverri sagnfræði eins og Söguskoðun, Í ljósi sögunnar, Dictators, Heimskviður og margt frá BBC og svo auðvitað léttmeti eins og Steve Dagskrá og Hættu nú alveg. Aðaláhugamál: Sagnfræði, tónlist, fótbolti, handbolti, myndlist og eiginlega allt sem börnin eru að bardúsa hverju sinni. Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án: Ég ætti líklega erfitt með að sleppa góðu nýmöluðu kaffi. Hvað óttast þú mest: Líklega það sem allt fjölskyldufólk óttast: að eitthvað komi fyrir fjölskylduna. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Það er nú svo ótal margt, en gamalt pönk kemur mér eiginlega alltaf í gott skap, fæ svona “good feeling” þegar ég hækka vel í græjunum og Do they owe us a living með Crass hljómar um allar gáttir (það gerist reyndar sorglega sjaldan, kannski helst ef ég er einn á skrifstofunni á kvöldin). En svo finnst mér líka alltaf gaman að þefa uppi eitthvað nýtt stöff. Hvaða ráð myndir þú gefa 18 ára þér sem veganesti inn í lífið: Það er ekki víst að “18 ára ég” myndi hlusta á nærri 50 ára mig, ég hlustaði eiginlega bara á sjálfan mig þá. En ætli ég myndi ekki reyna troða því inní hausinn á 18 mér að hlusta á fólk sem veit hvað það er að tala um og býr yfir lífsvisku þess sem lifað hefur tímana tvenna. Hvað er velgengni fyrir þér: Ég held að velgengni tengist sátt við sjálfan sig og lífið. Eiginlega höfum við ekki upplifað vel- gengni fyrr en við erum orðin vel fullorðin og erum þá loksins orðin að þeim einstaklingum sem við vildum líklega alltaf hafa verið. Hvað hefur þú starfað lengi sem prestur? Ég var vígður 1.október 2006 og hef verið prestur hér í Eyjum síðan þá. Getur þú rifjað upp fyrir lesend- um þinn fermingardag? Ferm- ingardagurinn minn var 14. júní 1987, það þótti heppilegur tími til ferminga í sveitinni, sauðburður búinn og heyskapur ekki byrj- aður. Dagurinn byrjaði á því að ég og amma máluðum girðingu í kringum leiði í kirkjugarðinum sem Illugastaðakirkja stendur í. Ég man að í fermingunni var ég með hvíta málningu á höndunum. Annað stendur líka uppúr, en það var prédikun séra Bolla í Laufási, ekki innihaldið, heldur að hann gleymdi prédikuninni heima og eftir að hafa flett í handbókinni og þeim blöðum sem hann var með, þá lét hann duga að segja örfá orð áður en athöfnin hélt áfram. Veislan var heima og það komu eiginlega allir úr sveitinni, enda var það venjan að fólk mætti heim til fermingarbarna, hvort sem þeim var boðið eða ekki. Veðrið var algjörlega stórkostlegt og fermingarfötin voru kjólföt sem bróðir mömmu átti. Annars bara góður dagur með fólkinu mínu. Áttu einhverja skemmtilega sögu tengda fermingum/fræðsluni? Ég man eftir því í einni af fyrstu fermingum mínum hér í Eyjum, þá biðu krakkarnir í röð í forkirkj- unni og voru að gera sig klár að ganga inn kirkjugólfið, þegar eldri kona, sem var eitthvað sein fyrir, gerði miklar athugasemdir við skótauið hjá einum peyjan- um. Skórnir voru víst ekki alveg glænýir og burstaðir. Og peyinn fékk heldur betur yfirhalninguna hjá frúnni og hún lét fylgja með að hann ætti að skammast sín fyrir að mæta í svona druslum í ferm- inguna. Ég náði loks að stoppa þessar svívirðingar hjá frúnni og rak hana svo inn í kirkju. Peyinn leit á skóna, klæddi sig úr þeim og henti þeim í ruslið og gekk inn á sokkaleistunum, sem skartaði þessu fína gati svo stóratáin var nánast öll til sýnis. Þegar við gengum inn í kirkjuna þá bentum við báðir þessari ágætu frú á skótauið, sem ekkert var, og hann náði að spyrja hana að því hvort þetta væri réttara skótau í kirkju. Ætli megi ekki segja að peyinn hafi „sokkað“ þessa ágætu konu. Hver er mikilvægi fermingar og fermingarfræðslu? Ég held að fermingin og fræðslan sé mikil- væg til að tengja krakkana inní veruleika trúarinnar og reyna að ná tengingu við þau sem prestur. Lífið byggir á tengingum og tengslum, og ef maður nær að skapa þessi tengsl við unglinga held ég að það muni alltaf skila sér í því að þau viti af trúnni, Jesú Kristi og kirkjunni, sem getur veitt stuðning og styrk þegar fram í sækir. Það er ekkert endilega víst að þau geri sér grein fyrir þessum tengingum einmitt á fermingar- aldrinum, en þetta býr í þeim, það veit ég fyrir víst af reynslu minni af samskiptum við „gömul“ fermingarbörn. Hvernig var hópurinn í ár? Hópur- inn í ár var mjög fínn, umræðurn- ar oft á tíðum skemmtilegar og líflegar og gaman að sjá hvað þau eru ófeimin við mann. Það hefur líka verið gaman að sjá einstak- linga vaxa og styrkjast í vetur. Þau eru auðvitað á þeim aldri að vera að leita að sjálfu sér, ef svo má segja, og eru svolítið að máta sig í lífinu. Mér sýnist hópurinn lofa góðu fyrir framtíðina. Eitthvað að lokum? Munum bara að vera við sjálf, það fer okkur nefnilega alltaf best. Guðmundur Örn Jónsson

x

Fréttir - Eyjafréttir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.