Bæjarblaðið Jökull - 04.04.2013, Síða 5
Til foreldra barna í
Tónlistarskóla Snæfellsbæjar
1) Tónlistarskólinn er fyrir alla. Hins vegar hafa ekki allir sömu væntingar til skólans. Fyrir
suma er nóg að læra nóturnar og geta spilað sér til ánægju. Fyrir aðra eru væntingarnar þær að
taka stigpróf og verða jafnvel menntaðir tónlistarmenn. Foreldrar verða að gera sér grein fyrir
því að metnaður foreldris og metnaður barns til tónlistarnáms er ekki alltaf sá sami. Í mörgum
tilvikum eru börn, sem ekki er kennt skv. námsskrá, ágætis tónlistarmenn og geta orðið mjög
góð, þrátt fyrir það hafa ekki tekið nein stigpróf.
2) Tónlistarskólinn starfar skv. aðalnámskrá, hins vegar er ekki víst að það nám henti öllum
börnum. Þar af leiðandi þurfa foreldrar að taka ákvörðun um það hvort þeir vilja að börnum
þeirra sé kennt skv. aðalnámsskrá tónlistarskóla, þ.e. að barnið taki grunnstig, miðstig,
framhaldsstig, o.s.frv., eða hvort þeir vilja að börnum þeirra sé kennt skv. sérstöku námsplani
sem tónlistarkennarar útbúa fyrir börnin.
3) Ef foreldrar óska eftir því að barninu sé kennt skv. aðalnámskrá tónlistarskóla, þá þurfa þeir
jafnframt að taka á sig ákveðna ábyrgð á tónlistarnáminu. Foreldrar þurfa að sjá um að barnið
æfi sig heima og vinni þau verkefni, t.d. tónfræði, sem sett eru fyrir í „bláu bókinni“. Þegar
stigpróf eru tekin, þá eru þau ekki eingöngu verkleg, heldur eru líka tekin stigpróf í tónfræði.
Ekki er hægt að taka t.d. miðstig nema búið sé að taka bæði verklegt grunnstig og grunnstig í
tónfræði.
4) Ef þú vilt ekki að barninu verði kennt skv. aðalnámskrá, þá getur kennari útbúið sérstakt
námsplan fyrir þitt barn. Foreldri þarf að gera sér grein fyrir því að ef ekki er óskað eftir að
barninu verði kennt skv. aðalnámskrá, þá eru eingöngu tekin vorpróf og barnið tekur þátt í
tónleikum og tónfundum á vegum tónlistarskólans, en það eru EKKI tekin stigpróf.
5) Foreldrum er velkomið, og þeir hvattir til, að koma til viðtals við tónlistarskólastjóra og
tónlistarkennara til að ræða þær væntingar sem þeir hafa til tónlistarnáms barns síns. Oft er
gott að hafa barnið með, svo það sé alltaf á hreinu á milli allra aðila hvers sé vænst.
Skólastjóri