Víkurfréttir - 06.03.2024, Blaðsíða 13
öll sem manneskjur haldið áfram
að reyna verða betri manneskja?
Ég vil meina það og því heldur
þessi vegferð okkar bara áfram en
ég er þakklát fyrir allan þann bata
sem hefur orðið,” segir Steinunn.
Bati
Hafliði hefur alltaf verið í góðu
líkamlegu formi. Áður en hann
lenti í slysinu bæði hljóp hann og
lyfti, hann gerði armbeygjur oft
í viku, hann skíðaði á veturna og
spilaði golf á sumrin. Læknarnir
sem önnuðust Hafliða strax eftir
slysið úti í Austurríki, segjast fá
marga slíka sjúklinga, oft á tíðum
fyrrum keppnismenn á skíðum
um sextugt, sem í huganum geta
ennþá skíðað jafnhratt en líkam-
legt atgervi kannski ekki alveg í
þeim takti. Hafliði var að nálgast
sextugt svo hann passar inn í
þessa mynd en það sem Hafliði
hafði eflaust umfram marga, hann
var í mjög góðu ásigkomulagi og
vilja læknarnir helst þakka því
hve vel hann hefur náð sér á strik.
Til marks um þetta góða líkam-
lega atgervi þá var Hafliði settur í
spennitreyju þegar hann var upp á
sitt versta í skapinu og náði að slíta
hana utan af sér, þetta hafði aldrei
gerst á þessu sjúkrahúsi! Hafliði
getur tekið undir að það skipti
miklu máli hversu vel hann var
á sig kominn líkamlega en hann
hefur líka sjálfur lagt mjög mikið
á sig eftir slysið, ekki síst að þjálfa
hugann.
„Ég hef alltaf verið mikill lestrar-
hestur, var snemma byrjaður að
lesa mér til gagns og gamans og
það var gott að eiga það áhugamál
eftir áfallið. Ég hafði alltaf átt
mjög gott með svefn en því miður
breyttist það eftir slysið og þá er
gott að geta gripið í Kindle-inn.
Athyglisvert varðandi minnið, að
mörgu leyti man ég margt eins og
ég hafi aldrei lent í þessu áfalli, að
öðru leyti get ég lesið sömu bókina
aftur og aftur með ekki svo löngu
millibili.
Einkenni þeirra sem lenda í
svona slysi eru eins mörg og þau
okkar sem lenda í svona áfalli.
Það er margt sem kemur til, hvar
er blæðingin, hvernig er líkamlegt
atgervi og á hvaða aldri er viðkom-
andi þegar blæðingin á sér stað?
Heilinn er flóknasta líffærið okkar,
blæðingin í heilanum getur orðið
vinstra megin, hægra megin, í aft-
urheila, framheila, miðheila o.s.frv.
Raðhugsun er vinstra megin, rúm-
hugsun hægra megin. Tungumál
heyra t.d. undir raðhugsun, reikn-
ingur er hægra megin undir rúm-
hugsun. Það blæddi mest vinstra
megin inn á minn heila, þess
vegna er stundum hægt að heyra
að ég tala ekki alveg skýrt. Reikni-
getan er hins vegar alveg sú sama.
Eftir u.þ.b. tvo mánuði á Grensás
fór talið hægt og bítandi að koma,
ég byrjaði að lesa og var settur í
lestrarpróf. Fyrir slysið var ég með
leshraða langt umfram meðaltal
en þarna mældist ég með 50% af
meðalhraða. Ég las og las og þegar
ég yfirgaf Grensás ári síðar var ég
kominn upp í 100%. Ég er sann-
færður um að þetta skipti miklu
máli, maður verður að reyna á sig,
það þarf að þjálfa heilann alveg
eins og líkamann. Ég er mjög dug-
legur að hreyfa mig, bæði stunda ég
mikla útiveru og rækta líkamann
en ég þarf að passa mig á að fara
ekki fram úr mér því það tekur
mig marga daga að ná jafnvægi
ef þreytan tekur yfir, þá er ég ekki
skemmtilegur félagsskapur. Ég vil
taka fram að ég er mjög ánægður
með alla þá þjónustu sem ég hef
fengið síðan ég lenti í slysinu. Ég
held ennþá sambandi við iðju-
þjálfarann minn á Grensás, Sig-
rúnu Garðarsdóttur,“ segir Hafliði.
Æskan og fjallabaksleið
að starfsferlinum
Hafliði var tíu ára þegar hann flutti
til Keflavíkur og skemmtileg stað-
reynd að fyrsta daginn í skólanum
lenti hann við hliðina á eiganda
og ritstjóra Víkurfrétta, Páli Ket-
ilssyni. Tvíburabræðrunum var
vel tekið og þeir kynntust skóla-
félögum sínum fljótt og vel. „Ég er
fæddur í Vesturbænum og byrjaði
ungur að æfa fótbolta með KR.
Mamma mín fæddi okkur tví-
burana, mig og Bjarna þegar hún
var tvítug og þremur árum síðar
missti hún manninn sinn og pabba
okkar úr krabbameini. Ég man því
ekkert eftir blóðföður mínum en
svo kynntist mamma tannlækna-
nemanum Einari Magnússyni frá
Keflavík og við fluttum þangað. Ég
hef alltaf kallað Einar pabba enda
þekki ég ekkert annað. Það var gott
að alast upp í Keflavík, ég æfði fót-
bolta og byrjaði svo að æfa borð-
tennis í Njarðvík. Við Bjarni bróðir
urðum fljótt ansi góðir og hann
náði tvisvar sinnum að verða Ís-
landsmeistari í yngri flokkum, eftir
að hafa unnið mig í úrslitaleik. Ég
kláraði svo Fjölbrautaskóla Suður-
nesja og ætlaði mér að verða tann-
læknir eins og pabbi. Ég hóf tann-
læknanámið og það voru bara átta
sem komust áfram úr bóklega hlut-
anum á fyrsta árinu og ég var fjórði
hæstur ef ég man rétt. Mér gekk
ekki vel í verklega hlutanum og
gaf því tannlækninn upp á bátinn
og dreif mig út til Þýskalands til
að læra þýsku og arkitektúr. Eftir
nokkurn tíma í náminu tók ég
tvö fög, burðarþolsfræði og frí-
hendisteikningu. Ég skilaði súper-
einkunn í burðarþolsfræðinni en
fríhendisteikningin var alls ekki
góð og prófessorinn sannfærði
mig um að ég væri frábær náms-
maður en væri einfaldlega ekki á
réttri braut í arkitektúrnum. Því
sneri ég heim til Íslands árið 1988,
byrjaði að vinna hjá lögreglunni
á Keflavíkurflugvelli, byrjaði svo
námið í lögregluskólanum og eitt
fagið var sálfræði. Ég fékk hæstu
einkunn og kennarinn sagði að það
væri synd að ég myndi ekki frekar
læra sálfræði svo aftur vatt ég mínu
kvæði í kross og skráði mig í sál-
fræði í Háskólanum. Ég kláraði
BA-próf og tók fjölmiðlafræði
sem aukafag. Eftir útskrift vildi ég
upplifa ævintýri og bauðst vinna
hjá Air Atlanta, var stöðvarstjóri
í Kaíró í Egyptalandi og var líka
í Jeddah í Sádí Arabíu um tíma.
Þegar ég kom heim vann ég m.a.
sem kennari í Grindavík um tíma
en svo sótti ég um mastersnám í
Alþjóðaviðskiptum í Columbia í
Suður-Karólínu í Bandaríkjunum
árið 1994. Ég gat valið úr atvinnu-
tilboðum eftir námið og réði mig til
eins stærsta lyfjafyrirtækis heims
á þeim tíma, Merck & Co. Ég var
í New Jersey, var ánægður í þessu
starfi en ég og fyrrverandi kona
mín vorum nýbúin að eignast barn
og hún vildi flytja heim svo við
fluttum heim árið 1997 og ég réði
mig í starf hjá Kaupþingi banka.
Ég var í þessu fram til 2006,
stofnaði þá eigið fjárfestingar-
fyrirtæki ásamt öðrum. Fyrirtækið
hefur vaxið og dafnað allar götur
síðan þá en ég hef ekki getað unnið
síðan ég í lenti í slysinu árið 2020.“
Hugarfar.is
Hafliði hefur reynt að kynna sér
allt um heilablóðfall, bæði hefur
hann lesið og líka horft á heimild-
armyndir um allt frá afleiðingum
til meðferða. Hann fann félag sem
heitir Hugarfar, á heimasíðu fé-
lagsins segir að þetta sé félag fólks
með ákominn heilaskaða, aðstand-
enda og áhugafólks um málefnið.
„Ég hef reynt að hafa samband
við félagið, hef bæði hringt og sent
tölvupósta en hef ekki fengið nein
svör. Það segir mér að það sé ekki
mikil virkni í þessu félagi. Flestar
þær upplýsingar sem liggja fyrir
eru um slys, meðferð og tölfræði
en hvað svo? Mér finnst vanta upp-
lýsingar um hvað taki við eftir slys
eða heilablóðfall og stuðning við að
takast á við nýjan veruleika. Það er
búið að skjóta að mér að ég eigi að
beita mér í þessum málefnum og
ég myndi vel íhuga að koma að
starfi þessa félags. Ég finn að ég
vil láta gott af mér leiða, ég tel mig
geta farið út á vinnumarkaðinn
aftur en hvort það yrði sem 100%
starf veit ég ekki, ég þarf að passa
mig á að ganga ekki fram af mér
eins og ég kom inn á. Ég væri til
í að íhuga þetta sem næsta skref í
mínu lífi. Það eru fjögur ár síðan
ég lenti í áfallinu, mér hefur verið
sagt að fimm árum eftir heila-
blæðingu verði ekki frekari fram-
farir, skv. því get ég bætt mig í
eitt ár í viðbót en ég held að ég sé
nánast kominn þangað og þá liggur
kannski beinast við að búa sér til
nýja áskorun. Það væri ofboðslega
gefandi að láta gott af sér leiða og
rífa þetta félag upp, þeir sem lenda
í heilablóðfalli þurfa alls kyns að-
stoð og Hugarfar gæti verið frábær
vettvangur fyrir slíka aðstoð. Ég sé
alveg fyrir mér að Heilbrigðiseftir-
litið styðji við slíkt verkefni, þetta
er sannkallað lýðheilsumál. Ég æfði
nú fótbolta með heilbrigðisráðherr-
anum, Willum Þór Þórssyni, hver
veit nema ég kíki til hans í kaffi,
rifji upp gamla tíma í KR og kynni
honum hugmyndir mínar,“ sagði
Hafliði að lokum.
... Það eru fjögur ár síðan ég lenti í áfallinu, mér hefur verið sagt að fimm
árum eftir heilablæðingu verði ekki frekari framfarir, skv. því get ég bætt
mig í eitt ár í viðbót en ég held að ég sé nánast kominn þangað og þá
liggur kannski beinast við að búa sér til nýja áskorun...
Hafliði fór í aðra skíðaferð
eftir slysið, á skíðastaðinn
þar sem hann slasaðist.
Fagnað á hinum fræga
stað, Ischgl, en þar
lenti Hafliði í slysinu.
Hafliði og
Steinunn
eru duglegir
kylfingar.
... Hafliði man ekkert eftir þessum tíma sem reyndi mjög á. Hann var
algjörlega allt annar maður á þessum tíma, var í raun sjálfum sér og öðrum
hættulegur því hann ráfaði um og var snældubrjálaður við alla nema mig og
Bjarna bróður sinn. Hann var með vöktun allar sólarhringinn...
Tjarnargata 2 - 230 Reykjanesbæ - 421-3377 - bustod.is
10 ÁRA
ÁBYRGÐ
vorum að fá nýja sendingu af hinum vinsælu DreamWorld
rúmunum í nýju og endurbættu útliti.
rúmin eru fáanleg með bæði Comfort og Luxury dýnu.
fermingarafsláttur
meðan birgðir endast20%
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
sigurbjorn@vf.is
vÍkurFrÉttir á suðurNEsJuM // 13