Mímir - 01.12.2016, Page 15
Klækir og karnival
13
Inngangur
„[...] þat er ætlan mín at þar siti hinn versti
maðr einn hverr á Norðrlpndum er hann er.“
(Ólafur Halldórsson, 2006, bls. 75). Svofelld
voru orð Ólafs Noregskonungs Tryggvasonar
um hinn baldna höfðingja Þránd í Götu, eina af
söguhetjum Færeyinga sögu. Þrándur í Götu er
einkar margbrotin og áhugaverð persóna. Þeir
sem lesið hafa Færeyinga sögu geta eflaust
ímyndað sér umdeildan mann; einhvern sem
hefur iðulega verið milli tanna landa sinna og
annarra, þá ekki síst konungs! Víst er það svo að
Þrándi nægir ekki eitt stakt lýsingarorð; hann er
allt í senn lævís og undirförull, slóttugur og fjöl-
kunnugur, spakur og vitur. Aukinheldur er hann
ákaflega skemmtilegur.
Um Þránd hefur margt verið ritað (sjá t.d. Foote,
1984a og Guldager, 1975) en segja má að
skemmtanagildi hans sem persónu hafi hingað
til ekki verið I forgrunni. Það er að nokkru leyti
skiljanlegt, þar eð af nægu öðru er að taka hvað
Þránd varðar. Þrándur orkar hins vegar á köflum
sem strákslegur hrekkjalómur og hin skoplegu
einkenni í fari hans eiga drjúgan þátt I að dýpka
persónulýsinguna, eins og nánar verður vikið að
í meginmáli.
Áður en hafist er handa við að lýsa Þrándi er þó
rétt að tæpa fyrst á efni og varðveislu Færeyinga
sögu. Því næst verður rýnt í það hvernig Þrándi
er lýst beinum orðum í textanum og greint frá
umfjöllunum fræðimanna um persónu hans. Að
lokum verða útlistaðir nokkrir áhugaverðir at-
burðir tengdir Þrándi, þar sem leitast verður við
að draga fram það skoplega í fari þeirra og enn
fremur það skoplega í fari Þrándar. Verður þar
frekast tekið mið af skrifum Mikhails Bakhtins um
karnival og hlátur (sjá Bakhtin, 1984). Jafnframt
verður litið á hvort Þrándur í Götu eigi nokkuð