Mímir - 01.12.2016, Page 136
Um aðferðafræði rannsóknarinnar er það að
segja að hún styðst bæði við aðferðir hefð-
bundinnar textafræði (Maas 1957, West 1973) og
tökuorðafræði (Halldór Halldórsson 1964, Betz
1974, Gusmani 1981 og 1983). Einnig er stuðst
við vitnisburð málræktarfræði (Ari Páll Kristinsson
2006, Vikor 2007), einkanlega til þess að tengja
sögu þessa fyrirbæris við það sem síðar varð. í
því sambandi má sérstaklega benda á rannsóknir
Kjartans G. Ottóssonar. Hann lagði á sínum
tlma stund á sögu íslenskrar málræktar og ritaði
bók (Kjartan G. Ottósson 1990) um efnið sem
markaði tímamót og er ómissandi öllum þeim sem
taka sér svipaðar rannsóknir fyrir hendur.
Dæmanna var leitað með því að nota flest mikil-
vægustu hjálpargögn sem til eru. Mjög gagnleg
reyndust vera t.d. orðasöfn yfir ýmis verk, t.d.
íslenska hómilíubók (de Leeuw van Weenen
2004) og Konungsbók Grágásar (Beck 1993).
Þar að auki ber að nefna Ordbog over det
norrone prosasprog, netorðabók um norræna
lausamálstexta, Lexicon poeticum (Sveinbjörn
Egilsson 1931), orðabók um fornt skáldamál, og
Ordbog til rímur (Finnur Jónsson 1926-1928),
orðabók um mál rímnaskálda. Við textarann-
sóknir eru einkum díplómatískar útgáfur notaðar,
en einnig facsimile-útgáfur eða handritin sjálf
ef þurfa þykir. Sem dæmi má nefna að þar sem
A- og C-gerð Egils sögu eru til í stafréttri útgáfu
(Bjarni Einarsson 2001, Chesnutt 2006) hefur
B-gerðin enn ekki verið gefin út. Þar af leiðandi
þurfti m.a. að nota Ijósprent af aðalhandriti hennar,
Wolfenbuttel-bók (Jón Helgason 1956), við
athugun á breytileika í notkun einstakra orðapara.