Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar - 01.06.2015, Blaðsíða 13

Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar - 01.06.2015, Blaðsíða 13
13 Í apríl síðastliðnum tók ég þátt í aðgerðaráætlun Changemaker í Finnlandi fyrir komandi starfsár hreyfingarinnar þar. Við komuna til Helsinki gafst mér fyrst stuttur tími til að ganga um bæinn og sjá sögulegar byggingar nærri næturstað en mín beið svo 6 klukkustunda lestarferð til Sukeva, um 1000 manna sveitarfélags, þar sem við vorum saman yfir helgina. Dagskráin samanstóð af fyrirlestrum, vinnulotum og menningartengdum verkefnum auk þess sem góður tími gafst í langar og góðar samræður milli heimamanna og erlendra gesta. Stærsta málefnið á dagskránni var um hvernig bregðast mætti við því hvernig tilteknir hópar hvetja ungt fólk til að beita ofbeldi. Á fundinum kom fram að ungt fólk er líklegast til að beita ofbeldi þegar það finnur ekki aðrar leiðir til að hafa áhrif á núverandi ástand. Mismunun, fátækt og þörf á viðeigandi menntun getur gert það að verkum að ungmenni upplifa sig félagslega útilokuð. Þau eru hins vegar samþykkt hjá ofstækishópum sem þau ganga til liðs við og gangast inn á ofbeldisfulla hugmyndafræði þeirra. Breytendur í Finnlandi vilja bregðast við vandanum með verkefni sem kallast „Róttækir friðarsinnar“. Í hringferð sem farin verður um landið vilja þau hafa áhrif á ungmenni með því að ræða um áhrif ofbeldisfullra aðgerða og um hvernig hægt er að hafa áhrif með því að beita jákvæðum aðgerðum, án ofbeldis. Í ferðinni fékk ég bæði tækifæri til að deila því sem við gerum hjá Breytendum á Íslandi og heyra um það sem Breytendur gera í Finnlandi og Noregi. Ég snéri heim reynslunni ríkari og bíð spenntur eftir að fá að taka þátt í nánara samstarfi innan samtakanna. Hafþór Freyr Líndal, alþjóðafulltrúi Breytenda – Changemaker Iceland Nánar um starf Breytenda – Changemaker Iceland má lesa á heimasíðu hreyfingarinnar www.changemaker.is Breytendur - Changemaker á Íslandi - er ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar sem hefur það að markmiði að gera heiminn að sanngjarnari og réttlátari stað með jákvæðum og raunhæfum aðferðum. Hreyfingin er opin ungu fólki á aldrinum 13 – 30 ára og er hluti af alþjóðlegu Changemakerneti. Hreyfingin var upprunalega stofnuð í Noregi árið 1992 en nú starfar hún einnig í Finnlandi, Ungverjalandi, Hollandi, Kenýa og Pakistan. Að hafa áhrif án þess að beita ofbeldi Breytendur í Finnlandi leggja á ráðin um hvernig ungt fólk getur haft áhrif án ofbeldis.

x

Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar
https://timarit.is/publication/1939

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.