Helgarpósturinn - 23.08.1984, Blaðsíða 16

Helgarpósturinn - 23.08.1984, Blaðsíða 16
POPP Vertu sœl grimma veröld Elvis Costello — Goodbye Cruel World Á hverju ári undanfarin sjö ár hefur Elvis Costello sent frá sér að minnsta kosti eina stóra plötu og fyrir mér hefur það verið einn af hápunktum hvers árs, þegar hann hefur sent frá sér þessar plötur og enn sem komið er hefur honum ekki brugðist bogalistin. Síð- ustu tvær Costelloplötur, Imperial Bedroom og Punch The Clock, hafa verið meðal þess allra besta, sem hann hefur sent frá sér og það var því með allmikilli tilhlökkun, sem ég beið útgáfu nýrrar plötu frá honum nú. Ekki eyðilagði heldur fyrir, að skömmu fyrir út- gáfu þessarar nýju plötu, sem heitir Good- bye Cruel World, sendi hann frá sér litla plötu, sem hafði að geyma lögin I Wanna Be Loved og Peace In Our Time. Með hliðsjón af þessari litlu plötu og hinum tveimur stóru fyrrnefndu er ekki laust við að ég hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með nýju breiðskífuna. Að vísu tekur alltaf töluverðan tíma að meta hverja nýja Costello plötu til fullnustu, en mér virðist Goodbye Cruel World heldur átakalítil til þess að geta flokk- ast með hans allra bestu plötum. Heildaryfirbragð plötunnar er fremur ró- legt og afslappað og vissulega eru á henni mörg góð lög, eins og t.d. I Wanna Be Loved, The Only Flame In Town, Home Truth, Room With No Number og Peace ln Our Time, en enn sem komið er á ég bágt með að hrífast af lögum eins og Love Field, The Great Unknown og Deportees Club. Hjóðfæraleikurinn hjá Costello og hljóm- sveit hans, The Attractions, er mjög góður og ætti það ekki að koma neinum á óvart, því hljómsveit þessi hefur um árabil verið meðal þeirra betri sem starfandi eru. Pete Thomas trommuleikari og Bruce Thomas bassaleikari eru með betri ryþmapörum sem fyrirfinnast og hljómborðsleikarinn Steve Nieve er einfaldlega einn sá besti sem völ er á í heimi popptónlistarinnar. Hann þarf ekki mikið pláss en það sem hann hefur nýtir hann til fullnustu. Um sönghæfileika Costell- os þarf ekki að hafa mörg orð. Hann er löngu kunnur sem einn sá besti og þá einkum vegna þess hversu auðvelt honum reynist að gæða lögin lífi með röddinni einni saman, ef ekki vill betur. Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess af manni, sem afkastað hefur jafn miklu og Elvis Costello hefur gert á undanförnum ár- um, að allt sem hann gerir sé óaðfinnanlegt, og það eru ekki margir í dag sem gera jafn góðar plötur og Goodbye Cruel World er, en ég veit að Costello getur betur og hann á eft- ir að senda frá sér fleiri plötur í sama gæða- flokki og Get Happy, Imperial Bedroom og Punch The Clock, en þangað til er ég ósköp sáttur við það sem hann er að ge;ra þessa stundina. Siouxie & the Banshees — Hyœna Það hefur gengið á ýmsu í herbúðum Sio- uxie & the Banshees frá því að þau sendu frá sér sína síðustu stúdíóplötu, A Kiss In A Dreamhouse, árið 1982. Fyrst var gítarleikarinn John McGeoch rekinn, en hann átti við einhver veikindi að stríða um tíma, þannig að hann gat ekki leik- ið með hljómsveitinni á meðan og hin töldu sig ekki geta beðið eftir því að hann jafnaði sig. í hans stað fengu þau Robert Smith, gít- arieikara The Cure, til liðs við sig, en hann starfaði eftir sem áður einnig með The Cure. Á síðasta ári kom engin stúdíóplata frá Banshees en Siouxie Sioux og trommuleik- arinn Budgie sendu frá sér plötu og kölluðu þau sig The Creatures og Steve Severin bassaleikari og Robert Smith sendu einnig frá sér plötu og kölluðu þeir sig The Glove. Ekki voru þessar plötur nema rétt miðlungi góðar en þó fyrir margra hluta sakir athygl- isverðar. Rétt fyrir síðustu jól sendu svo Siouxie & the Banshees frá sér tvöfalt albúm, sem tek- ið var upp á tónleikum í Royal Albert Hall, og sendu þau þá jafnframt frá sér vídeó- mynd, sem tekin var við sama tækifæri, en um hana var lítillega fjallað í síðasta Helgarpósti. Fyrr á þessi ári sendu Robert Smith og hljómsveit hans The Cure frá sér plötuna The Top, sem hlaut sérlega góðar viðtökur plötukaupenda í Bretlandi og varð þá ljóst að The Cure var ekki síður vinsæl hljómsveit Siouxie: Enn á toppnum, enn á fullu. en Banshees. Það þótti því líklegt að Smith þyrfti að velja á milli hljómsveita og það hefði ekki átt að koma á óvart að hann hætti í Banshees, sem hann gerði nú fyrr í sumar, eða um sama leyti og nýja Banshees platan Hyæna kom út. Smith segir þó að það hafi orðið til að flýta ákvörðun hans, að hann var mjög óánægður með hljóðblöndun nýju plötunnar. Hann hefur líka sagt að hann sé í sjálfu sér ekki mjög óhress með plötuna, að öðru leyti en því að hún hefði getað orðið miklu betri. Persónulega er ég ekki ýkja óhress með plötu þessa en ég get þó ekki sagt að ég sé yfir mig hrifin. Það er einmitt eitthvað við hljóminn á henni sem erfitt er að sætta sig við. Það er einkum sá hljómur sem gefur að heyra í lögum eins og t.d. Dazzle og Bring Me The Head Of The Preacher, en þar er sem hljóðfæraleikurinn drukkni á stundum í bergmáli. Lögin hjá þeim og söngurinn hjá Siouxie hefur heldur ekki breyst mikið, en það er samt sem áður ekki til svo mikils vansa. Höfuðkostur plötunnar eru útsetn- ingar laganna, en þar verður víða vart ferskra og skemmtilegra hugmynda. Þá er hljóðfæraleikurinn góður, þótt ég sé nú hrifnari af John McGeoch en Smith, sem gít- arleikara, en sá síðarnefndi stendur þó svo sannarlega fyrir sínu. En skemmtilegastur hljóðfæraleikara Banshees finnst mér Budgie og það er leitun að jafn fjölbreytileg- um trommara og hann er. Siouxie & the Banshees hafa nú á tiltölu- lega stuttum tíma misst frá sér tvo úrvals gít- arleikara, en það kemur þó yfirleitt maður í manns stað og þegar hefur verið reynt að fylla þetta skarð. Hvort það er fyllt sem skyldi verður framtíðin að leiða í ljós en ég hef þó trú á því að Banshees verði enn um sinn í fremstu röð. KVIKMYNDIR Gluggagœgirinn snýr aftur Laugarásbíó: Glugginn á bakhlidinni — Re- ar Window.Bandarísk. Árgerö 1954. Hand- rit: John Michael Hayes, eftir smásögu Cornell Woolrich. Leikstjóri: Alfred Hitchcock. Aöalhlutoerk: James Stewart, Grace Kelly, Thelma Ritter, Wendell Corey, Raymond Burr. Ur stólnum sínum horfir hann á mannlífið umhverfis út um gluggann og gegnum sjón- aukann. Hann fer að yrkja i eyðurnar, geta sér til um hvatir og tilfinningar fólksins, taka þátt í lífi þess, taka afstöðu með sumum, gegn öðrum. Sjálfur lifir hann ekki, —nema gegnum þessar manneskjur. Þær eru per- sónur. Hann er leikstjórinn. Þetta var hlutskipti Alfred Hitchcocks, eins mesta leikstjóra kvikmyndasögunnar. í Meistari Hitchcock. Rear Window er skólabókar- daemi um afbragðs skemmtun og úrvals kvik- myndalist. einkalífinu var hann sem lamaður, bældur og tortrygginn. I kvikmyndunum fékk hann útrás. í gegnum þær náði hann sambandi við fólk. Og naut þess að hafa áhrif á það, spila á manneskjur eins og hljóðfæri, kalla fram viðbrögð með galdri kvikmyndarinnar. Glugginn á bakhliðinni er ein persónuleg- asta mynd Hitchcocks að þessu leyti. James Stewart í hlutverki hins farlama Ijósmynd- ara L.B. Jeffries er staðgengill meistarans sjálfs, þar sem hann virðir fyrir sér lifandi myndverk í sambýlishúsinu á móti og byrjar að yrkja í það óhugnanlega morðgátu sem fyrr en varir verður að bláköldum raunveru- leika. Lýsingin hér í upphafi á þannig beint við persónu Stewarts í Glugganum á bak- hliðinni. Þessi mynd er skólabókardæmi um af- bragðs skemmtun og úrvals kvikmyndalist. Áhorfandinn er hugfanginn af þessari spennandi sögu, sem varla er saga heldur frekar dýnamískar kringumstæður. Og hann er um leið hugfanginn af því hvernig þessi saga er sögð, hvernig Hitchcock með yfirburða valdi á filmískri frásagnartækni gerir úr kyrrstæðu efni sprelllifandi síkvika myndsögu. Um einstakar setningar og máls- greinar í þessu hnitmiðaða myndmáli mætti hafa mörg orð. Það ætla ég ekki að gera. Þetta eiga menn að sjá, ekki lesa. Hinu má ekki gleyma, sem glöggt má sjá þegar litið er yfir hið ójafna höfundarverk Hitchcocks, að hann nýtur hér fyrsta flokks samstarfsmanna. Glugginn á bakhliðinni er gerð á frjóasta sköpunarskeiði hans og hann nýtur hér m.a. síns trausta tökumanns Rob- ert Burke og ekki síst handritshöfundarins John Michael Hayes sem átti eftir að skrifa þrjár myndir til viðbótar uns meistarinn hrakti hann frá sér eins og reyndar fleiri hæfileikamenn sem honum stóð stuggur af. Handritið að Glugganum á bakhliðinni á ekki lítinn þátt í heildarmyndinni; húmor þess og manneskjuleg vídd einkenndu öll f jögur handrit Hayes og ljáði verkunum dýpt sem margar af myndum Hitchcocks skorti bæði fyrr og síðar. Glugginn á bakhliðinni, sem er fyrsta myndin af fjórum á Hitchcockhátíð Laugar- ásbíós, er varalítið eitt heilsteyptasta verk meistarans. Sú Hitchcockbylgja sem nú gengur yfir Vesturlönd í kjölfar þess að „týndu" myndirnar fimm, þ.á m. Glugginn á bakhliðinni, voru settar í dreifingu á nýjan leik, hefur staðfest að tök mannsins á áhrof- ■anda eru varanleg. Verk hans, þau bestu a.m.k., eru sígild, bæði sem afþreying og list. Og reykvískum kvikmyndahúsgestum er ekki í kot vísað þessa dagana þegar í boði er dægradvöl á borð við veisluna Fanny og Alexander í Regnboganum og rafmagnaða spennu Gluggans á bakhliðinni í Laugarás- bíói. -ÁÞ. Gœti verid íslensk Háskólabíó: Hetja staðarins — Local Hero. Bresk. Árgerd 1983. Handrit og leikstjórn: Bill Forsyth. Aðalhlutverk: Peter Riegert, Burt Lancaster, Denis Lawson, Peter Capaldi. Local Hero er hugguleg lítil mannlífs- mynd, svolítið af svipuðum toga og svipuð- um gæðaflokki og það sem Ágúst Guðmundsson hefur verið að gera. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Bill Forsyth byrjar á að sýna okkur inn í heim Maclntyres, sem er ungur maður á uppleið í hinum streitufulla heimi alþjóðaolíuvið- skipta. Hann vinnur hjá risafyrirtæki í Texas sem ætlar að reisa mikla olíuhreinsunarstöð í lítilli vík í Skotlandi.í þessari litlu vík er ennþá minna þorp — og Mr. Mac er sendur á vettvang til að semja um kaup á öllu saman. í byrjun finnst Mr. Mac og áhrofandanum hið afskekkta þorp og sérkennilegir íbúarnir kómískir og hallærislegir. En þegar hann kynnist lífinu þarna betur finnur hann, eins og áhrofandinn, að það er hann sem lifir óeðlilegu og asnalegu lífi, en fólkið í víkinni er með áherslurnar á réttum stöðum. í haganlega upp dregnum smámyndum er sýnt hvernig Mac áttar sig á þessu — hann fer að spjalla við þorpsbúana, hættir að ganga í jakkafötum með bindi og hættir loks að raka sig. Allt fremur viðkunnanlegt og gaman. En persónu Maclntyres skortir þá dýpt sem nauðsynleg er til þess að valda verulegum tilfinningalegum eða vitsmuna- legum hræringum hjá áhrofandanum. Með öðrum orðum: Manni stendur svolítið á sama um þetta allt saman: Þetta er ekki mjög spennandi mynd. Þar fyrir utan lætur Forsyth aukaatriðin þvælast full mikið inní söguna. Hliðarsög- urnar — af aðstoðarmanninum og kafaran- um og stjarnfræðidellu (og sálfræðingi) yfirmannsins — skilur hann eftir í lausu lofti, finnst mér. En þarna er heilt safn af skoskum orginöl- um í litlum aukahlutverkum, tónlistin er skemmtileg og húmorinn þægilegur. Sem- sagt: Gripur í góðu lagi. -GA. 16 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.