Helgarpósturinn - 12.06.1986, Qupperneq 34
Dúkkulísurnar í banastuði:
Hetjan vippar sér á toppinn!
íkvöld opinberast ný upprööun á
vinsœldalista rásar 2 og er þaö spá
Listapóstsins aö í efsta sœti veröi
lagiö „Svarthvíta hetjan" meö
Dúkkulísunum. I síðustu viku rauk'
lagið úr 23. sæti í 2. sæti og nokkuð
víst má heita að Level 42, með ástar-
leiðbeiningar sínar, víki fyrir stúlk-
unum frá Egilsstöðum.
„Við bjuggumst alls ekki við þessu
svona snögglega. Platan / léttum
leik fór fyrstu vikuna á vinsældalist-
ann og svo er þetta lag nánast kom-
ið á toppinn. Við héldum kannski að
lagið myndi myndi hækka eitthvað,
en ekki svona snögglega og hátt,“
sagði Harpa Þóröardóttir dúkkulísa
í samtali við Listapóstinn. Harpa er
hljómborðsleikari hljómsveitarinn-
ar, Erla Ingadóttir er á bassa, Erla
Ragnarsdóttir raddbönd, Guöbjörg
Pálsdóttir trommar og Gréta Sigur-
jónsdóttir er á gítarnum. Gréta er
enn fremur helsti textasmiður
hljómsveitarinnar, en lögin eru yfir-
leitt samin af þeim sameiginlega.
í léttum leik er önnur plata
Dúkkulísanna. Harpa segir þessa
plötu vera nokkuð þyngri en þá
fyrri — þó alls ekki þunga. Tónlistar-
unnendur geta síðan farið að hlakka
strax til næstu plötu, því þessi er
önnur í þriggja platna samningi
Dúkkulísanna við Skífuna. En hvað
segir Harpa, ætla þær að rífa sig úr
„dreifbýlinu" og fara að slá rækilega
í gegn?
„Pað er eiginlega ekki hægt að
segja að það sé mikil alvara í þessu
hjá okkur. Nú t.d., þegar best geng-
ur, eru þrjár okkar erlendis í sumar-
fríi. Við höfum verið lengi í gangi,
en við höfum ekki viljað fara of
hratt. Við höfum reyndar spilað um
hverja helgi á sumrin, en aðra til
þriðju hverja helgi með skólanum."
Harpa vinnur í bakaríi Kaupfé-
iagsins á Egilsstöðum og hún er
spurð hvort ekki væri freistandi að
hella sér út í tónlistina á fullu —
hvort ekki sé góðan pening að hafa
á skemmtunum og af plötusölunni.
„Við getum fengið sæmilegan
pening fyrir að spila á böllum, en
það er á hinn bóginn dýrt fyrir okk-
ur að ferðast. Og það verður að segj-
ast eins og er að fyrir fyrri plötuna
okkar höfum við ekkert fengið, eða
varla nokkuð til að taia um, og ég
reikna með að það sama gildi um
þessa plötu," sagði Harpa að lokum.
JAZZ
Kraftbirtingur á öldurhúsi
Þá hafa Dave Brubeck og félagar, svo og
Herbie Hancock, yfirgefið þetta eyland og
eftir sitjum við og ornum okkur við minning-
ar um mikla tónaveislu. Þökk sé Listahátíð-
arliðinu fyrir komu þeirra — en hvers vegna
í helvítinu þarf þessi böggull alltaf að fylgja
skammrifinu? Hversvegna er aldrei hægt að
sýna djassinum sömu virðingu og þeirri tón-
list er hinir æðri unnendur kenna sig við?
Hefði einhverjum dottið í hug að láta Claudio
Arrau leika fyrir matargesti á Broadway?
Herbie Hancock datt ekki í hug að gera slíkt,
þessvegna mætti hann ekki á staðinn fyrren
hann hafði fulla vissu fyrir því að snæðingi
væri lokið. Þessvegna lét hann loka börun-
um meðan hann lék. Tónlist hans var nefni-
lega jafn viðkvæm og sú er Arrau lék á
mánudagskvöldið. Hún þoldi hvorki glasa-
glaum né diskaglamur. Það var vegna virð-
ingar við tónlist sína og áheyrendur að hann
hóf ekki aö leika á auglýstum tíma.
Þvílíkur konsert! Ég þarf svo sem ekki að
vera að útlista það því sérhver sem áhuga
hefur veit allt um tónleikana því þeim hefur
bæði verið sjónvarpað og útvarpað. Að vísu
má alltaf að öllu finna og Herbie er ekki van-
ur að leika einn. Hann kann betur við sig í
hópi félaga einsog heyra mátti í flestum óp-
usum hans; aftur á móti var hann öðrum
yndislegri er hann spann tilbrigði við ljóð-
rænar ballöður, ss. meistarasöng Richard
Rodgers: My funny Valentine — ég man varla
eftir jafn fallegri túlkun á því lagi, nema ef
vera skyldi blástur Miles Davis í Fílharm-
óníuhöllinni í New York 12. febrúar 1964, en
Herbie var þá píanisti meistarans. Annað stef
hljómar mér enn fyrir eyrum: Round Mid-
night, er Herbie samdi í félagi við Stewie
Wonder — það skreytti hann stundum með
nafnskyldri ballöðu Theloniusar Monks. Eft-
ir tónleika djammaði Herbie í Klúbbi Lista-
hátíðar ásamt Ofétunum og þar mátti skella
glösum og brosa breitt. Þar var nefnilega
verið að spila klúbbdjass og gott eitt um það
að segja því djass er djass — og þó einsog
svart og hvítt. Gaman var að heyra Árna
Scheving, Friðrik Karlsson, Tómas R. Einars-
son og Gunnlaug Briem í félagsskap Hanc-
ocks og fjörið víst síst minna kvöldið áður
þegar Pétur Grétarsson þandi húðirnar.
Herbie Hancock hafði greinilega gaman af
Islandsdvölinni. Hann æsti sig ekkert upp
yfir Broadway eða ljósmyndurunum er
smelltu oftast af þegar tónagaldurinn var
sem viðkvæmastur. Hann tók því meirað
segja með jafnaðargeði að gleymst hafði að
stilla flygilinn í hléi. Hann hafði gaman af að
kynnast Frónurum og þeir honum og ræddi
við þá um landsins gagn og nauðsynjar. Ung-
ur í anda og útliti enda ekki nema 46 ára
gamall!
Herbie Hancock hlaut þroska sinn í tónlist-
arhöllum en Dave Brubeck mátti berjast ára-
tugum saman áðuren hann losnaði úr reyk-
mekki næturklúbbanna og komst á svið tón-
leikahúsanna. Síðan hefur hann ekki leikið í
klúbbum og í öllum samningum hans stend-
ur skýrum stöfum að tónleika skuli halda í
tónleikasölum. Tónleikar hans áttu líka að
vera í Háskólabíói en af einhverjum ástæð-
um voru þeir færðir í Broadway. Dave
Brubeck er einstakt ljúfmenni og rauk ekki
af landi brott í fússi einsog ónefndir djass-
menn hefðu gert. Hann fór aðeins framá það
að ekki yrði reykt meðan á tónleikum stæði
og tónleikagestir virtu þá ósk hans, enda
komnir á staðinn til að hlusta á tónlist og
einskis annars vegna. Þetta varð iíka hörku
konsert. í rúma þrjá tíma fóru þeir félagar
hamförum. Léku á tónleikagesti og hljóðfær-
in og flest var það harla gott. Að vísu hefði
mexíkanska samban mátt missa sig, en trú-
lega á efnisskránni af innsæi Brubecks.
Henni lauk nefnilega rétt áður en Danir tóku
að bursta Uruguaya í Mexíkóborg.
Fyrri hluta tónleikanna var sjónvarpað
beint, einsog leik frænda okkar, og áðuren
um þá verður fjallað er skylt að rifja upp
sögu Brubecks, er við sátum yfir kaffibolla
og rifjuðum upp skemmtisögur af djass-
meisturum. Þetta er saga frá Árósum en þó
ekki Árósasaga. Þar var haldið eitt mikið
djassfestíval og á veitingastað sátu þeir við
borð að snæðingi: Brubeck, Charles Mingus
og Ben Webster. Mingus og Webster voru
jötnar að burðum, en orðnir gangstirðir er
hér var komið sögu. Þarsem þeir sitja þarna
vindur sér að þeim danskur dóni með áka-
vítisstaup og skorar þá á hólm. „Getiði leikið
þetta eftir mér?“ segir hann og rennir úr
staupinu niður vélindað án þess að kyngja.
„Lítill vegur væri það,“ svara þeir félagar, „ef
þú settir fyrir okkur flösku, en slíkir vesaling-
ar erum við ekki að við látum okkur nægja
að hella í okkur úr einu staupi.“ Daninn gapti
lengi en hvarf svo á braut sigraður. Dave
bætti svo við: „Dani, sem þarna var, dró ekki
í efa að Ben hefði farið létt með þetta." Og
undirritaður var Dananum sammála. Hvað
er einn ákavítiskjúklingur milli vina?
En áfram með konsertinn. Það er ekkert
ónýtt að hefja tónleika á St. Louis Blues og
Yesterdays og frá fyrsta tóni var ljóst að Dave
Brubeck veit hvað hann er að gera. Hann
kann á áheyrendur einsog kvartett sinn og
þarna var valinn maður á hverju rúmi.
Robert Militello blés í upphafi í altósaxafón a
la Paul Desmond, en í einleiksköflunum skol-
aðist Desmond af tóninum og hann hallaðist
ýmist að Bostic eða Parker, allt eftir því hvað
við átti. Svo greip hann tenórinn og blés eins-
og Coltrane hefði blásið hefði hann verið
sólistinn í Bostic-bandinu í stað þess að blása
aðeins undirrödd. Flautuleikari er Militello
góður og kunni að ýlfra og rymja einsog
Kirk, en bestur var hann samt er ljóðið var
sem viðkvæmast, einsog í söngnum er
Brubeck samdi uppá japönsku: Koto Song.
Brubeck lék eitt einleikslag, sem var með
klassísku yfirbragði, enda samið fyrir Pól-
verja með Chopin í huga: Thanke you eða
Dziekuje, nefnist það. Síðasta lag fyrir hlé
var að sjálfsögðu Blue Rondo a la Turk og þá
var ljóst að Take Five yrði aukalag. Dampn-
um var haldið uppi eftir hlé og hitnaði í kol-
unum eftir því sem á leið. Þegar fyrstu tónar
Ellingtonóðs Brubecks, The Duke, bárust að
eyrum var mikil veisla en því miður fylgdi
syrpa af Ellington-söngvum í kjölfarið —
ekki það að þeir standi ekki fyrir sínu, það
hefði bara verið svo gaman að heyra Bru-
beck túlka The Duke til enda. Svo var Basie
hylltur og Chris Brubeck bassaleikari og
Randy Jones trommari fóru á kostum í til-
brigðum Brubecks við Pange Lingua. Stefið
mun vera yfir tvöþúsund ára gamalt og upp-
haflega ættað frá gyðingum. Rómverjar
sungu það á hergöngum og því marsa-
tromman. Upphaflega notaði Brubeck það í
kantötu er hann samdi við latneskan texta
Tómasar Aqurias en á Broadway var það
heitt til enda og þá tók A-lest Strayhorns við
og Take Five sem aukalag og skemmtileg til-
viljun: Brubeck endaði tónleikana á sama
hátt og Herbie Hancock: Someday My
Prince Will Come úr Mjallhvíti, en Brubeck
hljóðritaði þann ópus fyrstur djassmanna.
Auðvitað voru fleiri verk á dagskrá;
Brubeck-ópusar einsog We Three Are Ready
og In Your Own Sweet Way, en ekkert af nýju
efni. Brubeck fetar í fótspor Armstrong,
Ellingtons og þeirra pilta: leyfum fólkinu að
heyra það sem það kannast við. Nýju verkin
eru hljóðrituð og þau má finna á Concord-
skífum hans. Sú nýja nefnist Reflection og
þar eru átta nýir Brubeck-ópusar. Chris
sonur hans blæs í básúnu á einum þeirra, en
hann er snjall básúnuleikari. Því miður gat
hann ekki blásið á Broadway, þarsem eyrna-
kvilli hrjáði hann eftir flugið til íslands. Þeg-
ar Chris blæs á tónleikum spilar Robert sax-
isti á bassann.
Píanóleikarinn Dave Brubeck er heimur
útaf fyrir sig. Það kann sumum að þykja
merkilegt að meðal helstu aðdáenda hans
voru Thelonius Monk og Cecil Taylor. Þó er
það eðlilegt. Einsog þeir fer hann ekki troðn-
ar slóðir. Hann leikur einsog hann hugsar og
lætur allt annað lönd og leið. Flóðbylgjur
hljóma hellast yfir hlustendur, andrúmsloftið
er hlaðið spennu, einhver óútskýranleg
töfraveröld ríkir. Alltí einu leysist allt upp.
Kannski vegna þess að hann tekur að leika
þessar barnslegu einföldu línur sínar eða
kvartettinn hjálpar honum niðrá jörðina aft-
ur.
Lengi var undirritaður haldinn hinum
klassísku djassfordómum gagnvart Brubeck,
en sem betur fer er langt um liðið síðan.
Brubeck, Erroll Garner, Oscar Petersson o.fl.
o.fl. hafa orðið vinsælli en góðu hófi gegnir
í hugarheimi hinna ofstækisfullu. Þeir eiga
vinsældir sínar því sama að þakka og Arm-
strong, Ellington, Basie, Hampton og Miles
Davis: Að skapa nýja veröld í hvert sinn er
þeir stíga framá sviðið. Veröld sem er þeirra
og áheyrendanna. Það geta engir jólasveinar
haldið keyrslu á fjórða tíma einsog Brubeck
og Hampton hafa gert í Reykjavík.
34 HELGARPÓSTURINN