Bókasafnið


Bókasafnið - 01.04.1997, Side 5

Bókasafnið - 01.04.1997, Side 5
Jón Kalman Stefánsson Um þann ómerkilega stað, Paradís - brot úr endurminningum bókavarðar Það er vetrardagur í Kaupmannahöfn, turnar skaga upp í him- ininn og þeir hæstu rispa lágsigld skýin svo þokunni blæðir yfir borgina. Ég flý undan rökum kuldanum, inní fornbókabúð þar sem tíminn situr á trékolli og les í bók... Þannig var það. Ég steig inní fornbókabúð og fann svar við spurningu sem hafði fylgt mér í hartnær þrjá áratugi. Kannski fullmikið sagt að hún hafi þjakað mig alla tíð, þessi spurning, en þrálát var hún, stöðugt að skjóta upp kollinum við ólíklegustu tækifæri, í svefni sem vöku, gangandi eða í bíl, í einveru eða hópi, hún skaut upp kollinum í þögulli spurn og það hvarflaði aldrei að mér að spyrja aðra, enda er sumum hlutum þannig farið að þeir knýja mann til að finna svar uppá eigin spýtur, reka mann af stað í leit að svari og þannig hef ég vaxið úr grasi með ótal þöglar spurningar, fundið svar við sumum, öðrum ekki, en þennan vetrardag í Kaupmannahöfn þegar skýin voru að breytast í þoku, fór ég inní fornbókabúð og fann svar við einni af minni elstu spurningum: hvað var Paradís? eða öllu heldur: hvað er Paradís, því í þessu máli, sem og mörgum öðrum, á ég erfitt með að gera upp á milli tíða og skal engan undra, þvf það sem var, verður alltaf og það er einungis sökum vanmáttar okkar gagnvart alltumlykjandi tíma, að við gerum skýran greinarmun á fortíð og nútíð, en í sannleika er sá munur hvergi til nema í orðum. Leyfið mér því að hafa minn hátt á og spyrja: Hvað er Paradís? Þannig hef ég kannski spurt fyrir þrjátíu árum tæpum; hvað er Paradís? Og verið svarað, eftir dágott hik: þar sem öllum líður vel. En af hverju líður öllum vel? Þögn. Af hverju líður öllum vel? Hm. Vegna þess... að þar er allt. Semsagt, sælgætisland, hugsaði ég; og leikfangaland. Og sá fyrir mér, hvernig maður reikar þar um í sælli vímu, með vasa úttroðna af síríuslengjum, með kerru fulla af mfrandaflöskum, tindátum, indfánafjöðrum og þeir eru þarna með sínar kerrur, sínar síríuslengjur, þeir Nonni og Manni. Kári litli og Lappi líka. Paradís. Þar sem allt er. Svo leið tíminn. Mikið af tíma, heil ósköp af tíma. Heilu árþúsundin jafnvel og maður var orðinn átta ára. Þessi ógnar- langi tími hafði kennt mér margt, en hann hafði líka svipt mig mörgu; ég reikaði ekki lengur um í sælli vímu með vasa úttroðna síríuslengjum, ýtandi skröltandi mírandakerru á undan mér með ævintýraheim bóka í höfðinu, aldeilis ekki, því það var haustið sem ég fór í sunnudagsskólann... nei, hér verð ég víst að beisla frásögnina, verð að snúa til baka, skrefa stuttfættur og staðnæm- ast norður í Bjarnarfirði, því áður en haust sunnudagsskólans hremmdi mig, dvaldi ég mitt fyrsta sumar norður á Ströndum. Þar stóð ég oft daglangt og hreinsaði grásleppunet móti göml- um manni. Svo gömlum að hann var byrjaður að síga saman undir derhúfunni, átti forláta brúnan vasahníf og var stundum að skera af einhverju og stinga uppí sig, veit ekki hvað það var, kannski þurrkað selkjöt, því selurinn var sífellt að skjóta dánum barnsaugum sínum uppúr haffletinum, svo rauf riffilskotið kyrrðina og nokkrum mánuðum síðar dró gantli maðurinn þurrkað kjötið uppúr vasa sínum: sker sér væna flís með vasa- hnífnum brúna, stingur uppí sig með snöggri hreyfingu, næstum ákafri, tyggur, sker aftur en nú minni flís og réttir mér, hlær þegar barnið fitjar uppá trýnið. Hann er hjólbeinóttur, eða kannski bara farinn að kikna í hnjáliðum undan ofurþunga tímans. Það er sólþungur dagur, hundur sefur í grasi, drengur af nágrannabænum stendur uppi á hæðinni og veifar til mín með fótbolta undir hendi. Má ég fara í fótbolta? Spyr ég gamla mann- inn, sem leggur hnífinn saman, þurrkar sér um munninn með handarbakinu, grípur um öxl mína, ég finn sterka en stutta fingurna borast inn, rekur andlit sitt þétt upp að mínu, lykt af tóbaki og kjöti fylla vit mín. Og gamli maðurinn segir, hásri, jafnvel ögn slitinni röddu: Maður þarf að vinna fyrst, síðan má huga að leikjum. Réttir úr sér, án þess að sleppa takinu, pírir augun, bandar höstulega með vinstri hendi, eins og hann vilji sópa hinum drengnum af þessu sviði minninga, kemur svo aftur með andlitið upp að mínu, nema núna er eins og hann oti vinstra auganu að mér, horfðu í það, hvíslar hann og ég horfi, nei, ég sogast að þessu dauða auga, þessu starandi gerviauga, get ekki annað en starað í það og hann segir, hann hvæsir: veistu hvemig ég fékk þetta, ha? ekki líta undan, horfðu drengur, veistu hvernig ég fékk það? Nei? Veistu það ekki? Þú veist það ekki, ha? Ég ætla að svara einhverju en þá bregður hann lófanum yfir augað sitt, lætur svo höndina síga og sólin, þá dettur hún af himni og öll birtan deyr og orðin eru ísmolar í hálsi mínum, því ég horfi ekki lengur í dautt auga, heldur hola augntóft svo dimma og þessi augntóft, hún þenst út, þenst út og er gapandi heldimmur himinn yfir mér: Veistu það ekki? Það var vegna þess að einu sinni tók ég leikinn framyftr vinnuna. Svo réttir gamli maðurinn úr sér, bregður lófanum yfir augna- tóftina, heldimmt myrkrið hverfur bakvið starandi auga úr gleri og sólmettað sumarið snýr aftur. Við höldum áfram að greiða úr grásleppunetum. Ég og sá gamli. En næstu kvöld sofna ég útfrá orðum hans, þau elta mig hás og dimm langt inn f svefninn. A eftir þeim vaggar sá gamli með augað. Um haustið fór ég í sunnudagsskóla. Okkur var lofað leikjum, sögum, biblíumyndum og síðan suntarbúðum. Fyrsta sagan var um Paradís og vonbrigðin ætluðu hreint að gera útaf við mig. Maður bjóst við að hlusta á lýsingar af mikilfenglegu sælgætis- áti, heyra ískrið í sneisafullri mírandakerru, maður bjóst við mikilli sögu og síðan myndi sögumaður senda einhvern út í sjoppu eftir ódáinsfæðunni, því ég sá í hendi mér að jafnvel bara hálf síríuslengja og glas af míranda, myndi hjálpa okkur vem- lega við að skynja inntak ævintýrsins. En þannig var það ekki, onei, aldeilis nei. Við sátum í hálfhring á gólfinu, fyrir framan okkur var maðurinn sem sagði frá Paradís. Hann sat á stól, sat brosandi yftr rústunum af nn'randakerrunni og sagði frá því hvernig heimurinn var þegar allir voru góðir, brosandi dró hann upp rnynd af „unaðsheimi" Adams og Evu þegar veröldin var einn samhljómur, en því breiðara sem brosið varð, því fleiri sem orðin urðu, því dýpri varð fyrirlitning mín á þessum heimi sem hann staðhæfði, og aðrir fullorðnir staðfestu í eyru mín komandi BÓKASAFNIÐ 21. ÁRG. 1997 5

x

Bókasafnið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.