Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. SEPTEMBER 2001 Þ ETTA eru myndir af stöðum sem gætu verið til og eru til í hugskoti mínu; landslag sem ég hef upplifað á ferðum mínum um landið og rifja það upp eftir minni,“ segir Gísli Sigurðsson myndlistarmaður sem opnar sýningu á 36 myndverkum í Listasafni Kópavogs í dag. „Ég hef að undanförnu verið að þróa bland- aða tækni og afraksturinn er hér; myndirnar eru ýmist unnar á léreft, plexigler, mörg sam- límd pappírslög eða krossvið. Samanvið skeyti ég oft brotum úr svarthvítum ljós- myndum sem ég hef tekið, beiti stundum út- skurði og auk þess koma víða fyrir skrifaðir textar. Það geta verið dagbókarbrot, minn- ispunktar eða tilvitnanir í forna texta, til að mynda Jónsbók, Eldrit séra Jóns Steingríms- sonar eða Crymogaeu Arngríms lærða. Yf- irskrift sýningarinnar, Rætur í landi og list, vísar til þess að ég er að huga að mínum rót- um, sem eru umfram allt í landinu; einkan- lega hálendinu, svo og bókmenntum og þeirri myndlist sem hefur hrifið mig. Fyrirmyndin er ekki sízt forn handrit þar sem myndir og skrifaður texti falla fagurlega saman.“ Frjálsar hendur um landslagið Gísli er fæddur og uppalinn í Úthlíð í Bisk- upstungum, og gjörþekkir hálendið þar upp af, norður að Langjökli, norður og austur um Kjalhraun. „Þar hef ég þvælst um ótal sinn- um bæði gangandi og ríðandi í öllum veðrum og á öllum árstímum.“ Hann bendir á ýmsar myndir á sýningunni sem bera því vitni að þetta svæði er honum hugleikið. „ Ég tek nokkur af mínum kæru fjöllum, til að mynda Hlöðufell og Jarlhetturnar, vegna þess að þau eru eins og persónur sem ég vil að þekkist. Ég set þau á svið, ef svo mætti segja; það er minn myndræni skáldskapur. Kjarni málsins er sá að ég fer á hugarflugi yfir ýmsa staði á hálendinu sem eru mér annaðhvort kærir eða minnisstæðir, nema hvort tveggja sé. Það gefur manni frelsi til að taka efnið skáldleg- um tökum og skrifaðir textar þjóna bæði myndrænum tilgangi og vekja til umhugsun- ar.“ Bækur um landið Yfir mörgum myndunum er draumkennd slikja, líklega land sem hvergi er til en allir kannast þó við. „Þetta virðist kannski óraun- verulegt landslag en er þó víða á hálendinu. Ég hef eins og fleiri heillast af hinum ósnortnu víðernum og leitast við að túlka þau hér. Einnig þá fegurð sem birtist í auðnum, í grjóti og moldarflögum, skriðum og farveg- um, úfnum hraunum og jökulám sem dreifa sér um sanda. Ég fór nýlega um Lónsöræfi og ein mynd er byggð á hugarflugi um það myndræna landslag; ég reyni að draga fram kjarnann án þess að lýsa neinu sérstöku, en þessi mynd er litsterkari en hinar; ég leitast við að túlka eldsmiðjuna miklu sem bjó þetta land til.“ Í forgrunni þessarar myndar og reyndar fleiri er engu líkara en landið hafi á sér svip gamalla bóka eða skræðna. „Það er rétt. Þetta eru gamlar skræður sem tekið hafa á sig svip landsins. Í sumum þeirra hefur grjótið búið um sig og í öðrum gras og mosi.“ Þetta býður upp á vangaveltur um uppruna íslenskrar náttúru og hvernig náttúra og bækur hafa í sameiningu mótað okkur. „Við erum afsprengi eldsins, grjótsins og mosans, en arfurinn er varðveittur í bók- um.“ Á tveimur myndum gefur að líta jökulár flæmast um svarta sanda og dreifa sér einnig yfir texta Jónsbókar og Njálu. „Ætli það snerti ekki eitthvað rætur okkar. Að minnsta kosti mínar rætur. Menningararfurinn er samofinn landinu; árnar flæða yfir forna texta en þeir eyðast ekki. Njála hefur líklega aldrei verið handgengin jafn mörgum og nú.“ Á einni myndinni sem heitir Hugleiðing um Síðueld er texti úr Eldriti séra Jóns Stein- grímssonar, skráður með fornlegu letri sem hverfur ofan í glóandi hraun. Gísli kveðst ekki hafa haft neina fyrirmynd að leturgerðinni; einungis er letrið tilbrigði við fornlegt prent- letur. Andóf gegn listarstoli Gísli kveðst með þessum myndum sínum vera kominn í hring í myndlist sinni. „Ég byrjaði, ungur drengur í Úthlíð, að mála vatnslitamyndir af landslagi og það var áður en ég hafði nokkru sinni séð alvöru málverk. Síðar þróaðist þetta yfir í fantasíur og skáld- skap. En síðustu árin hefur náttúra landsins kallað á mig í vaxandi mæli. Þessi sýning er tilraun til þess að hrista upp í landslags- myndagerð; taka efnið nýjum tökum. Lands- lagsmálverkið staðnaði óneitanlega og mynd- listarmönnum hefur ekki gengið vel að finna á því nútímalegan flöt, öðruvísi en að nota það sem efnivið í abstrakt myndir. Það varð til ákveðin fælni gagnvart lands- lagslist og stafaði kannski af því að brautryðj- endurnir í íslenskri myndlist voru svo frá- bærir. Menn treystu sér varla til að koma nálægt því enda erfitt að gera betur. Það kom einnig af sjálfu sér að menn sneru sér frá landslaginu því annað komst í tísku í mynd- listinni. Alltaf hafa þó einhverjir verið að fást við landslagsmyndir og sumir með góðum ár- angri. Mér datt í hug að reyna nýja leið með blandaðri tækni eins og ég hef áður lýst. Það felst einnig í þessu andóf gegn þeirri ríkjandi tísku sem birtist í naumhyggjunni, eða eins og einhver sagði, „listarstoli naum- hyggjunnar“. Það listarstol hefur að mínu mati átt sinn þátt í minnkandi áhuga almenn- ings og dvínandi aðsókn að sýningum. Hitt er svo annað mál að ég brýt hiklaust flestar kennisetningar módernismans,“ segir Gísli. Hann nefnir dæmi um kreddur sem nálg- uðust að vera trúaratriði. Uppsetning sýn- inga laut til að mynda ströngum reglum. „Það máttu engin skilrúm vera í sýning- arsalnum; hann átti að vera einn geimur, og myndirnar áttu allar að vera með jöfnu milli- bili og ná kvæmlega jafnhátt frá gólfi. Á þess- ari sýningu raða ég myndunum óreglulega upp, tveimur eða þremur saman, ef mér finnst það henta. Menn hafa þetta núna hver með sínu móti.“ Gísli lýkur miklu lofsorði á sýningarsalinn í Gerðarsafni „Þetta hús er frábært og virkilega gaman að sýna hérna og ég tel að það sé hæfilega stór sýning sem fyll- ir annan salinn. Ég sýndi fyrir tveimur árum í Listasafni Árnessýslu á Selfossi. Sú sýning fór algjörlega fyrir ofan garð og neðan hjá flestum og áhugi þar eystra virtist enginn og aðsókn eftir því. Einungis eru örfáar myndir frá þeirri sýningu með í farteskinu núna; hin- ar eru allar nýjar eða breyttar, flestar frá síð- ustu tveimur árunum. Oft er það nefnilega þannig að maður tekur myndir fram eftir langan tíma og breytir þeim, þó svo ætti að heita að endapunkturinn hefði verið settur.“ Gísli brosir og bætir svo við: „Þetta geri ég þó reyndar bara við myndir sem ég á sjálfur.“ LANDSLAG ÚR HUGSKOTI Hugarflug frá Lónsöræfum. Morgunblaðið/Jim Smart Gísli Sigurðsson við myndir sínar. Gísli Sigurðsson opnar í dag sýningu á myndverkum í Gerðarsafni í Kópavogi. HÁVAR SIGURJÓNSSON hitti Gísla og skoðaði myndirnar með honum. havar@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.