Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. FEBRÚAR 2002 7 É G VERÐ með fjórar seríur á sýningunni,“ segir Guðmund- ur þar sem hann er önnum kafinn á vinnustofu sinni, ljós- myndastofunni Ímynd, við að mynda röð af spegilgljándi myntum. „Fyrst má nefna myndir af sjoppum sem ég tók fyrir tólf, þrettán árum og lágu í salti þetta lengi til að tryggja að engar þeirra væru eins í dag. Þær eru í lit, meira en einn metri á kant. Þá er ég með myndir úr röð sem ég kalla Smálönd og byrjaði að taka 1999 þegar ég fékk sex mánaða starfslaun. Ég er ekki búinn að ljúka því verkefni. Svo er partur úr miðbæjardókúmentasjón frá ní- unda áratugnum og loks litlar myndir sem ég kalla bara Reykjavíkurblús; þær eru teknar á handheldar myndavélar en hinar á 20 x 25 cm blaðfilmur.“ Guðmundur Ingólfsson hefur lengi verið einn af þekktustu ljósmyndurum landsins. Sýningar á verkum hans hafa verið settar upp hér heima og erlendis og í þrjá áratugi hefur hann verið mikilvirkur á sviði hvers kyns atvinnuljósmyndunar. Guðmundur er kunnur fyrir yfirgripsmikla þekkingu sína á faginu, hvort sem um tæknileg atriði er að ræða eða söguleg; ófáum spurningum hefur hann getað svarað og veitt kollegum aðstoð við aðkallandi vandamál. En það er ekki til umræðu hér heldur vill hann koma á fram- færi þakklæti til starfsfólks Ljósmyndasafns Reykjavíkur; þar sé hæft fagfólk við störf. „Þau buðu mér að sýna og gáfu mér frjálsar hendur með myndefnið. Ég reyndi að leita í skúffunum að einhverju þokkalega bitastæðu og held mig við Reykjavík og ná- grenni. Ég á heldur ekkert frá öðrum hlut- um landsins nema hefðbundið landslag, skyggnur eins og hinir eru líka að taka. En þetta er einhvers konar yfirlit yfir það sem ég hef verið að gera í Reykjavík, þótt ég taki ekki inn myndir sem ég gerði upp úr 1970. Frumhugsunin á bak við þessar myndir er að reyna að skemmta sjálfum mér. 1983–84 fór ég að ljósmynda reglulega mér til skemmtunar. Svo tengdist ég útgáfustarf- semi hjá Torfusamtökunum og í tvö sumur myndaði ég hvert einasta hús í Kvosinni. Með tímanum hef ég svo fylgst með því svæði gjörbreytast. Ég held að á þessum níu myndum sem ég sýni úr Kvosarseríunni sé ekkert óbreytt. Samt erum við bara að tala um 15, 16 ár. Þetta gerist hratt. Eins er það með sjoppurnar. Einungis ein þeirra er óbreytt, Bláhornið, sem stendur á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Sú mynd er til- vitnun í málverk Manets af stúlkunni við barinn.“ Ein serían sýnir fólk og staði í miðborg- inni, myndir teknar á göngu á handheldar myndavélar. „Þær eru tilraun til að halda við því sem ég lærði og hef aldrei getað not- fært mér,“ segir Guðmundur. „Það hefur enginn viljað kaupa svona myndir og ég er alveg hissa á að einhver vilji sýna þær.“ Hann glottir. En skyldi hann taka myndirnar með það í huga að skrásetja heimildir? „Nei nei, það eina sem ég hef skipulagt á þann hátt er þegar ég myndaði húsin í Kvosinni. Ef þú ætlar að taka heimilda- myndir verðurðu að gera lista, tökuhandrit, og fara eftir því. Ef maður hefur ekki skýra hugmynd áður en farið er af stað verður ekkert vit í því. Hefurðu séð listana hans Roys Strykers? Þeir eru til fyrirmyndar.“ Stryker var umsjónarmaður svokallaðs FSA-verkefnis í Bandaríkjunum á kreppu- árunum en þá voru færir ljósmyndarar sendir út um landsbyggðina til að mynda ástandið hjá bændum og leiguliðum í hreinni heimildaljósmyndun. Margir ljós- myndanna tóku samt sem áður snjallar sjálfstæðar myndir sem tengdust listum Strykers lítið. „En þeir þurftu samt að halda sig við listana,“segir Guðmundur. „Þeir gerðu þetta á persónulegan hátt en samt sem áður skipti listinn þá rosalegu máli. Ég hef reynt að koma svona listum inn á sagnfræðinga hér, þeir koma oft til manns eftir á og segja: Áttu mynd af þessu eða hinu? Enginn sagn- fræðingur hér hefur búið til verulega fínan óskalista eins og þyrfti að mynda svo margt eftir. Maður skapar ekki heimildamyndir án þess að vinna heimavinnuna fyrst.“ En þegar horft er á þessar myndir er um leið horft aftur í tímann, þær eru heimildir. „Já, kosturinn við ljósmyndina framyfir allt annað er að það er ekki til svo ómerki- leg mynd að hún verði ekki stórmerkileg með aldrinum. Hún getur verið illa byggð, ljót og ómerkileg tæknilega, en smám sam- an hverfur það sem á henni er og ljós- myndin er það sem lifir eftir. Svo er það mjög teygjanlegur mælikvarði hversu góð myndin er ljósmyndalega. Ég hef þannig óstjórnlega gaman af því að skoða ljós- myndir Sigfúsar Eymundssonar. Ég kynnt- ist myndum hans vel því ég prentaði mikið eftir glerplötum hans, sem eru varðveittar í Þjóðminjasafninu, það eru engin ósköp til af plötum eftir hann en það sem er til er alveg ótrúlegt. Merkilegar upplýsingar og merki- legar ljósmyndir. Maður getur setið og lesið og lesið í þessar myndir. Á áttunda áratugnum gerðum við Sig- urgeir Sigurjónsson kollegi minn urmul af litlum kópíum í sjálfboðavinnu fyrir Þjóð- minjasafnið. Það var undirstaða fyrir stóra Reykjavíkursýningu árið 1986 og aðrar rannsóknir. Og þessar gömlu myndir eru eins konar tímavél. Ömmur mínar unnu báð- ar eftir 1900 hjá Thomsen kaupmanni við að rúlla vindla sem voru þá framleiddir á Ís- landi. Þær urðu vinkonur upp úr því og voru ákaflega miklar bindindiskonur, bæði á áfengi og tóbak. Thomsen fann upp frídag verslunarmanna og hann lét taka hópmynd af starfsfólkinu á þeim degi ár hvert. Ömm- ur mínar eru á mörgum þessum myndum; ég hef fundið þær við að stækka upp stórt úr glerplötum Sigfúsar.“ Guðmundur, sem er fæddur 1946, segist hafa haft mikinn áhuga á ljósmyndun allt frá tíu, ellefu ára aldri. „Pabbi, Ingólfur Guðmundsson, tók helling af myndum og var mikill vinur Guðmundar Hannessonar ljósmyndara, þeir höfðu verið saman í Þýskalandi fyrir stríð. Ég held ég muni ná- kvæmlega hvenær mig langaði til að taka mynd í fyrsta skipti en þá var ég niðri í Grímsstaðavör með Rúnari Gunnarssyni, sem hefur alla tíð verið ljósmyndaáhuga- maður og hefur gefið út ljósmyndabók; hann var þar með plastmyndavél. Svo fann ég í skrifborði pabba myndavél sem var aldrei notuð, tók á hana eina spólu og Guðmundur Hannesson prentaði hana alla fyrir mig. Því miður er ég búinn að týna myndunum og filmunni. Svo smájókst áhuginn og þekkingin. Ég byrjaði að læra ensku í öðrum bekk í gagn- fræðaskóla og gerðist þá heimagangur á ameríska bókasafninu. Þar var til svolítið af ljósmyndabókum og tímaritin Popular Photography og U.S. Camera. Svo var það rakarastofan á Vesturgötu 48, hjá Trausta Thorberg og Herði Þórarinssyni, en Hörður er enn að klippa menn þar og sér ekki á honum eftir fjörutíu ár. Þar var Leica- klúbbur. Það voru Leica-myndavélar þar á stofunni og meistari Óli K. lét klippa sig þarna og var með silfurgljáandi Leicuna sína um hálsinn meðan hann var klipptur. M-3, silfurgljáandi. Ég man að hann sagði að ég ætti að fá mér Rolleiflex. Ég eignaðist svo Leicu fyrir síðasta sum- arkaupið mitt í sveitinni. Ég hafði tvöþús- undkall í kaup á mánuði og vélin kostaði átta þúsund. Smygluð. Það er talað um hvað þetta séu dýrar vélar í dag en hún hefur sennilega verið miklu dýrari þá. Því miður á ég hana ekki lengur, skipti henni fyrir M-4. Í menntaskóla myndaði ég mikið það sem var að gerast í skólanum, þá voru færri með áhuga á ljósmyndun en núna, færri sem höfðu efni á að kaupa svona tæki. Pabbi var flugvélstjóri og þess vegna gat ég eignast myndavélina. Ég var einu sinni með verkfræðingi í vinnu hjá Vitamálaskrifstofunni; hann tók af mér Leicuna í tvo daga því hann var svo viss um að ég gæti ekki átt hana heldur ætti vitamálastjóri vélina. Hann var sneypulegur þegar hann komst að hinu rétta og skilaði henni tveimur dögum seinna.“ Guðmundur lærði ljósmyndun við Folk- wang-hönnunarskólann í Essen í Þýska- landi, hjá kennaranum og ljósmyndaranum Otto Steinert sem var þá þegar orðinn eins konar goðsögn. „Eftir stúdentspróf var ég reyndar fyrst einn vetur í leiðinlegustu stofnun í veröldinni, Háskóla Íslands,“ segir Guðmundur. „Svo fór ég til Kaupmanna- hafnar, reyndi að komast þar inn á ljós- myndaatelíer en það var skollin á kreppa í Skandinavíu og ekkert hægt að fá að gera. En ég hafði lengi vitað af skóla Ottos Stein- erts í Essen. Ég fylgdist með dönsku tíma- riti, Fotomagazin, sem var prentað í Münch- en og meirihluti efnisins var þýskur; þar voru oft greinar um Steinert og nemendur hans. Svo var það tímaritið Leica-fotografie sem var lesið á rakarastofunni við Vest- urgötu og Gevafoto flutti inn 20, 30 eintök af; áhugamenn komu og sóttu sín blöð. Guð- mundur Hannesson skrifaði Steinert fyrir mig og sendi möppu með myndum mínum, Steinert svaraði sjálfur og ég komst inn.“ Guðmundur var í þrjú ár í Essen og hluta af náminu aðstoðarmaður Steinerts. Otto Steinert varð einna fyrstur manna til að taka upp þráðinn eftir stríð þar sem ljós- myndarar undir áhrifum frá módernisma og Bauhaus höfðu orðið frá að hverfa við valda- töku Hitlers. Steinert ræktaði með nem- endum sínum frumleg viðhorf og fag- mennsku en nemendurnir fengust við ólíkar tegundir ljósmyndunar. Þannig lagði Guð- mundur einkum stund á blaðaljósmyndun í náminu, þótt hann hafi ekki starfað við þá tegund ljósmyndunar. Þegar hann kom heim segist hann fyrst hafa kennt eitthvað við Iðnskólann, verið leiðsögumaður en síð- an hafi þeir Sigurgeir Sigurjónsson ljós- myndari farið að braska saman. „Hann hafði kjark til að kaupa bíla, fasteignir og taka inn síma; mér var djöfullega við allt slíkt vesen. En þetta gekk allt upp, Ímynd varð til og hefur lifað í næstum þrjátíu ár.“ Í vinnustofu Guðmundar er allt merkt ljósmynduninni; myndavélar og ljós á stönd- um, ljósmyndir á veggjum og á borðum myndir sem bera vitni um ólík efnistök og afurðir ljósmyndarans; iðnaðarmyndir eins og þær sem hann hefur verið að taka af myntunum og svo afgangsprent gerð vegna sýningarinnar, af bárujárnsklæddum hús- um, hópi vélhjólamanna og gínu í húsagarði. Skyldi ekki þurfa harðan sjálfsaga til að líta upp frá starfi eins og iðnaðarmyndunum til að fara út að ganga og taka myndir fyrir sjálfan sig með ferskum augum? „Nei alls ekki,“ segir Guðmundur og þyk- ir spurningin greinilega sérkennileg. „Þetta er bara eins og að fara út að synda eða þvo bílinn sinn, getur stundum verið hundleið- inlegt en er bara spurning um það hvernig fólk vill nota tíma sinn.“ SJOPPUR DREGNAR ÚR SALTI Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari. Ljósmynd/Guðmundur Ingólfsson Coca Cola, 1991. efi@mbl.is Litríkar sjoppur, byggingar í Kvosinni og mannvirki í útjaðri borgarinnar. Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari hefur árum saman verið að skrá einkenni Reykjavíkurborgar á stórar blaðfilmur og sýning á úrvali mynd- anna verður opnuð í dag í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Hann sagði EINARI FAL INGÓLFSSYNI frá myndheiminum og rökurum með ljósmyndadellu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.