Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 09.02.2002, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. FEBRÚAR 2002 F ARANDSÝNINGIN Carnegie Art Award er sýnd í fjórða sinn í öllum höfuðborgum Norður- landa og í Lundúnum. Verðlaun- unum var komið á fót árið 1998 á vegum norræna fjárfestinga- bankans Carnegie, til að styðja framúrskarandi listamenn á Norðurlöndum, kynna og efla norræna sam- tímamálaralist. Viðburðurinn er árlegur og felur í sér farandsýningu valinna listaverka, skráningu sýningarinnar í bókarformi og af- hendingu Carnegie Art-verðlaunanna sem veitt eru þremur listamönnum er eiga verk á sýningunni ásamt styrk til yngri listamanns. Sú spegilmynd sem leitast er við að gefa af norrænni samtímalist með Carnegie Art Aw- ard er fengin með tilnefningu þrjátíu sérfræð- inga á sviði norrænnar samtímalistar á allt að því fimm listamönnum sem að þeirra áliti skara fram úr í norrænu listalífi. Sérfræðing- arnir eru fulltrúar listasafna og listaskóla, en einnig listgagnrýnendur og aðrir kunnáttu- menn um list á Norðurlöndum. Tilnefndum listamönnum er í kjölfarið boðið að taka þátt í úrvali fyrir Carnegie Art Award-sýninguna með allt að fimm verkum, sem unnin hafa verið á síðustu tveimur árum. Í kjölfarið velur dómnefnd þann hóp listamanna sem taka þátt í hinni árlegu sýningu og við opnun hennar eru Carnegie Art-verðlaunin afhent. Endurspeglun á norrænni samtímamálaralist Á Carnegie Art Award-sýningunni árið 2001, sem sett hefur verið upp í Listasafni Kópavogs – Gerðarsafni, er sýnt 51 verk eftir 22 norræna listamenn. Þeirra á meðal eru handhafar Carnegie Art-verðlaunanna, Svíinn Jan Håfström sem hlaut fyrstu verðlaun, Finninn Carolus Enckell sem hlaut önnur verðlaun og Johan Scott frá Álandseyjum er hlaut þriðju verðlaun. Ungur sænskur lista- maður, Jens Fänge, hlaut Carnegie-styrkinn til upprennandi listamanns. Verðlaunin voru afhent hinn 4. nóvember síðastliðinn í ARK- EN-nútímalistasafninu í nágrenni Kaup- mannahafnar, en þar var Carnegie Art-sýn- ingin árið 2001 upphaflega opnuð. Síðan hefur hún verið sýnd í Kunsternes Hus í Osló og Victoria Miro Gallery í Lundúnum og að lok- inni sýningunni í Listasafni Kópavogs liggur leiðin til Konstakademien í Stokkhólmi og Konsthallen í Helsinki. Ulrika Levén, sem annast hefur sýning- arstjórn Carnegie-sýninganna frá upphafi, er meðal þeirra sem komu hingað til lands til að setja upp sýninguna í Gerðarsafni. Hún segir Carnegie-sýninguna forvitnilega að því leyti að þar sé ekki um að ræða úrval tiltekins sýn- ingarstjóra, heldur nokkurs konar samsafn sem ætlað er að endurspegla það besta og áhugaverðasta sem eigi sér stað í norrænni samtímamálaralist. „Undanfarin ár hefur staða málverksins verið í deiglunni, enda hef- ur listsköpun 20. aldar gengið í gegnum mikl- ar hræringar sem sprengt hafa listina út í fjölmarga ólíka miðla. Það hefur venjulega einhver dauðadómur gagnvart málverkinu legið yfir þeirri umræðu, en á sýningunni sem við stöndum frammi fyrir hér kemur hið gagnstæða í ljós. Málverkið sem hér birtist okkur er sterkt og býr yfir óþrjótandi end- urnýjunarmætti sem nýtur góðs af allri þeirri endurskoðun sem átt hefur sér stað á lista- hugatakinu,“ segir Ulrika. „Þannig er sá skilningur sem lagður er í hugtakið málverk á þessari sýningu mjög breiður, og ber vitni um þá gagngeru athugun á hvers kyns mörkum sem listin hefur látið sig varða undanfarna áratugi. Kristján Guðmundsson, fulltrúi ís- lenskrar samtímalistar á sýningunni, er t.d. með verk sem ekki allir myndu skilgreina sem málverk við fyrstu sýn, enda hefur Krist- ján á sínum listferli unnið mjög með hug- myndalist. Verkin „Red Painting with Clear View“ og „Black Painting with Clear View“, eru engu að síður „máluð“, þótt bakgrunn- urinn sé þrefalt gler í umgjörð. Sama á við listakonuna Hedevig Anker sem sýnir ljós- myndir frá innviðum íbúðar. Hún var upp- haflega málari, en notar nú ljósmyndavélina til að kalla fram viðfangsefni mynda sinna, sem hverfast um átök forgrunns og bak- grunns og afstrakt úrvinnslu forma. Hún vann áður með málverk í sams konar sam- hengi og þótt hún hafi skipt um miðil er hún enn að takast á við „málverksleg“ eða „mal- erísk“ úrlausnarefni. Flestir listamannanna sem eiga verk á þessari sýningu vinna jöfnum höndum í ólíkum miðlum. Það sem einkennir hins vegar ekki síst hina ungu kynslóð lista- manna, sem margir hverjir eru að fást við málverk, er mikil meðvitund um hefðina og metnaðarfull tilraun til að bæta einhverju þar við,“ segir Ulrike. Endurtekin stef í margleitri flóru Hún bendir á að á sýningunni sé bæði að finna verk eftir þekkta listamenn á Norð- urlöndum og minna þekkta listamenn sem eru að hasla sér völl. Jan Håfström, handhafi fyrstu verðlaunanna, er vel þekktur norrænn listamaður og er hann í myndþrennu sinni um myndasöguhetjuna Skugga að vinna með þætti er endurspegla og gera á vissan hátt upp viðfangsefni síns listferils. „Håfström er einn þeirra listamanna á sýningunni sem unn- ið hafa með viðfangsefni popplistarinnar, með allri þeirri upplausn hefðbundins listskilnings sem henni fylgir. Þessi þemu er einnig að finna í verkum listamanna á borð við Lars Arrhenius og Katrine Giæver. Ef litið er á sýninguna í heild mætti líklegast segja að þar sé um margleitan heim að ræða, þar sem listamennirnir vinna með málverkið á mjög ólíkum forsendum um leið og sjá má úr- vinnslu á ýmsum spurningum, t.d. er varða sköpunarferli verksins, þátt handverksins, minni hefðarinnar og malerísk form, í ólíkum verkum og samsetningum,“ segir Ulrike að lokum. Aðrir listamenn sem valdir hafa verið til þátttöku í Carnegie Art Award-sýningunni árið 2001 og ekki hafa verið nefndir eru Håkan Bengtsson, Juhana Blomstedt, Kaspar Bonnén, Peter Carlsen, Dag Erik Elgin, Har- ald Fenn, Linn Fernström, Matti Kujasalo, Sami Lukkarinen, Rita Lundqvist, Kehnet Nielsen, Janne Räisänen, Christian Schmidt- Rasmussen og Kjell Torriset. Sýningunni fylgir u.þ.b. 200 síðna bók þar sem listamenn Carnegie Art Award-sýningarinnar eru kynntir ásamt litprentunum af öllum verkum sýningarinnar. ÓLÍK ÚR- LAUSNAREFNI MÁLVERKSINS Jan Håfström hlaut Carnegie-verðlaunin árið 2001 fyrir myndröð sína um „Skugga“. Dómnefnd- in telur verkið fela í sér bergmál ótal frásagna sem spretta ekki síst úr áratuga listsköpun Håf- ströms sjálfs. Hér má sjá fyrsta hluta myndþrennunnar, „The Informer“. Kaspar Bonnén. Olía á striga, 190 x 240 cm, 2001. Sýningin Carnegie Art Award var opnuð af Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í Lista- safni Kópavogs í gær. Um er að ræða árlegan við- burð sem ætlað er að kynna nýjustu og áhugaverð- ustu hræringar í samtímamálaralist á Norðurlöndum. HEIÐA JÓHANNSDÓTTIR kynnti sér sýninguna sem verður opnuð almenningi í dag. „Án titils, 5/2001“. Hedevig Anker tekst á við malerísk úrlausnarefni í ljósmyndaröð sinni. heida@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.