Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2002, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 16.02.2002, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. FEBRÚAR 2002 G UÐRÚN Nordal ís- lenskufræðingur sendi á síðasta ári frá sér bókina Tools of Literacy. The Role of Skaldic Verse in Icelandic Textual Cult- ure of the Twelfth and Thirteenth Centuries. Ritið hefur að geyma niðurstöður af umfangs- miklum rannsóknum hennar á dróttkvæðum tólftu og þrettándu aldar og því menningar- og lærdómsumhverfi sem þau eru sprottin úr. Guðrún hlaut nýverið verðlaun úr sænska Dag Strömbäcks-sjóðnum fyrir ritið sem út kom hjá University of Toronto Press. Að verðlaununum stendur Konunglega Gustavs Adolfs-akadem- ían í Uppsölum en hún veitir fræðimönnum ár- lega viðurkenningar á ólíkum sviðum og voru þær veittar við hátíðlega athöfn í Uppsalahöll hinn 6. nóvember síðastliðinn. Ekki gamlar klisjur Guðrún hóf rannsóknina árið 1993 en þá fékk hún rannsóknarstöðu til þriggja ára hjá Rann- sóknarráði til að skoða myndmál dróttkvæða. Ætlunin var að athuga hvort íþrótt dróttkvæðu skáldanna hefði hnignað þegar kom fram á tólftu og þrettándu öld eins og haldið hefur verið fram, hvort myndmálið hefði staðnað og ekki verið eins frumlegt og hjá gömlu skáld- unum frá níundu, tíundu og elleftu öld. Rann- sóknin varð hins vegar mun víðtækari. „Rannsóknin þróaðist í raun í mjög óvænta átt. Ég fann fljótlega að þekkingu skorti á þeim jarðvegi sem skáldin spruttu úr til þess að hægt væri að leggja mat á þróun dróttkvæð- anna. Einkum áttaði ég mig á að skoða varð dróttkvæðin í samhengi við lærdóm skáldanna og þar með hugmyndafræði miðalda. Gæti það til dæmis verið að dróttkvæði hafi verið hluti af formlegum lærdómi, að menn hafi beinlínis lært að yrkja dróttkvætt í skólum? Var kveð- skapurinn kannski tæki til þess að hugsa um málskrúð og stílbrögð? Var hann notaður í mál- fræði- og bókmenntarannsóknum eins og gert var í klassískri latneskri lærdómshefð í Evr- ópu? Gegndu dróttkvæðin með öðrum orðum sama hlutverki í íslenskum skólum og verk Virgils og Óvíðs og Hórasar í latnesku hefð- inni? Af hverju var verið að halda þessari þekk- ingu á heiðnum kveðskap við í kaþólsku sam- félagi? Af hverju voru heiðnar kenningar, heiðið myndmál notað í kristnum helgikvæð- um? Af hverju fannst mönnum þetta myndmál eiga heima í kaþólskum heimi?“ Guðrúnu varð ljóst að menn höfðu séð sam- svaranir milli kveðskapar Braga og Egils og fleiri íslenskra skálda annars vegar og Virgils og Óvíðs og Hórasar hins vegar. Í báðum til- fellum var um heiðin skáld að ræða sem ortu undir mjög ströngum háttum og notuðu mynd- mál sem byggðist á mikilli sérþekkingu og til- vísunum í goðafræði. Íslenskum lærdóms- mönnum þótti því liggja beinast við að nota þessa innlendu hefð á sama hátt og Evrópu- menn notuðu hina klassísku latnesku hefð. Evrópskir nýplatónistar á tólftu öld notuðu til dæmis goðsögur til að skýra upphaf heimsins og það sama gerðu íslensk skáld á þessum tíma. „Þegar þróun dróttkvæðanna er skoðuð í þessu ljósi er komin skýring á því hvers vegna þessi hefð lognaðist ekki út af fyrr en raun ber vitni. Og einnig hjálpar hún okkur að skilja af hverju vísur voru notaðar jafnt í sagnalist mið- alda og sem búningur um guðfræðilegar pré- dikanir. Og þessi nálgun hvetur okkur einnig til að skoða kvæðin sem nútímakveðskap síns tíma, ekki sem gamlar klisjur. Í bókinni held ég því fram að kvæðin hafi fengið þetta hlut- verk í lærdómi landsmanna þegar á tólftu öld. Þess má sjá merki í Fyrstu málfræðiritgerð- inni og í kvæðinu Háttalykli en heimildir eru þó af skornum skammti þar til dregur fram á þrettándu öld þar sem þessi þróun er augljós.“ Hugsa um hefðina á nýjan hátt Guðrún segir að gera verði skýran grein- armun á dróttkvæðum munnmælahefðarinnar frá 850 til 1100 og þeim kvæðum sem urðu til á tímum bókmenningar frá 1100 til 1400. Lengi hefur verið litið svo á að frumlegustu og bestu dróttkvæðu skáldin séu frá fyrra tímabilinu en að mati Guðrúnar er varasamt að bera þau saman við skáld seinna tímabilsins því þá til- heyra dróttkvæðin bók- og lærdómsmenningu sem endurvinnur eða endurskapar þessa skáldskaparhefð, þar er beinlínis verið að nota þá þekkingu sem fólst í munnmælahefðinni til þess að búa til nýja þekkingu. „Það hefur stundum verið talað um drótt- kvæðin sem dauða hefð upp úr 1100, að skáldin hafi gengið í þennan þekkingarbrunn og í raun aðeins endurtekið það sem þar var sagt án þess að vera að skapa neitt nýtt. Ég held því fram að skáld hafi haldið áfram að vinna á skapandi hátt með þessa hefð, með myndmálið og goðsögurnar sem það er gert úr. Þau setja hinn gamla arf í splunkunýtt samhengi, og það er afrek út af fyrir sig. Ef við hugsum um það að á tólftu öld hafi skáld farið að líta á norrænu goðafræðina á sama hátt og Evrópumenn litu á latneska goðafræði, sem er undirstaða latnesks lær- dóms og stjörnufræði og fleira, þá eru þeir að hugsa um hefðina á nýjan hátt. Tólftu aldar skáld eins og Einar Skúlason vinnur til dæmis greinilega með kenningar á skapandi og frjóan hátt. Hann er prestur, en hann hikar ekki við að vísa á mjög meðvitaðan hátt í heiðnar kenn- ingar. Ekki af því hann trúi á heiðin goð, held- ur vegna þess að goðin eru orðin að bók- menntalegum táknmyndum á þessum tíma. Einar er að mínu áliti einn merkasti höfundur 12. aldar, og um hann ætti að fjalla samhliða Ara og Sæmundi. Hann er brautryðjandi á sínu sviði, og er sá fyrsti sem færir helgisögu Ólafs helga í skáldlegan búning í kvæðinu Geisla.“ Fræðasamfélagið og munnmælin Dróttkvæðin varðveittust einnig í munn- mælum, segir Guðrún. Eigi að síður virðist fræðilegur áhugi á þeim hafa eingangrað dróttkvæðin innan fræðasamfélagsins sem leiddi til stöðnunar þeirra á fjórtándu öld. „Hér verður maður að horfast í augu við tak- markanir heimildanna. Þær heimildir sem maður hefur frá íslenskum miðöldum eru bún- ar í hendur okkar af ákveðnu fólki sem hafði aðgang að bókum og kunni sjálft að skrifa eða lesa bækur. En þetta tvennt fór þó ekki alltaf saman. Þetta bókmenntastarf hefur líklega farið mestan part fram í og kringum klaustur og skóla, og svo hjá ríkum höfðingjum, og svo vill til að þeir eru margir af einni og sömu ætt- inni. Þannig eru heimildirnar um þrettándu öldina að mestu komnar frá Sturlungum, Sturlu Þórðarsyni sem skrifaði Íslendinga- sögu, Snorra sem skrifaði Snorra Eddu, Ólafi Þórðarsyni sem skrifaði Þriðju málfræðirit- gerðina og þannig mætti áfram telja. Við þess- ar heimildir takmarkast sýn okkar á íslenskt samfélag þessa tíma. Þetta er auðvitað slæmt en við getum þó fært okkur þessa skökku mynd í nyt því við kynnumst þessari fjölskyldu og höfundum inn- an hennar mjög vel. Við vitum að minnsta kosti hvaða stöðu þetta fólk hafði innan samfélags- ins þótt heildarmyndin sé okkur sannarlega hulin. Og þegar skoðað er hvaða skáld þessir menn vitna í þá kemur í ljós að þau eru yfirleitt ann- að hvort höfðingjaættar eða tengd valdafólki í samfélaginu. Gott skáld eins og Gissur Þor- valdsson fær sama sem ekkert að hljóma. Hann var við hirð Hákonar konungs og orti um hann en Sturla Þórðarson vitnar aðeins til fjögurra lína eftir hann í Hákonar sögu sinni en í 95 vísur eftir sig sjálfan, en Sturla hitti aldrei Hákon. Þessir menn voru bókmennta- stofnun síns tíma, höfundar og útgefendur í senn. Þetta bendir til þess að fræðasamfélagið hafi verið fremur lokað en það verður einnig að taka með í reikninginn að það var mjög sterk munnleg hefð í landinu. En mín rannsókn tak- markast að þessu sinni við bókmenninguna. Og vissulega hafa þessar hefðir tekist á. Þegar komið er fram á fjórtándu öld er greinilega að flæða undan dróttkvæðunum, og þegar Ey- steinn munkur varpar stóru bombunni í Lilju eiga þau sér varla viðreisnar von. Jafnvel þó að sumir haldi áfram að yrkja dróttkvæði. Þrótt- urinn er horfinn. Þeir sem fylgja nýjustu tísku snúa sér að öðrum formum, yrkja rímur og kvæði undir nýjum innfluttum háttum. Við sjáum þessa þróun einnig í handritum Snorra Eddu. Snorra Edda er ekki bara ein endanleg bók sem kom kannski út á jólavertíðinni 1230, heldur bók sem er sífellt í endurskoðun. Lær- dómshefðin í kringum dróttkvæðin var greini- lega mjög lifandi allt til loka 14. aldar. Þetta sést t.d. best á handritum Snorra Eddu. Greina má að minnsta kosti sex ólíkar eddur í handritum. Þrjú varðveita Snorra Eddu heila, en hin tengja sífellt nýja gerð Skáldskapar- mála við önnur rit, eins og Þriðju málfræðirit- gerðina. Þar með er íslenska verkið sett í nýtt og spennandi samhengi. Ég fjalla ítarlega um þessi handrit í bókinni, vegna þess að þau eru „Dróttkvæðin virðast í fljótu bragði innilokuð í norrænum heimi vegna þess að þau eru svo ólík öllu öðru sem er skapað á mið- öldum. En það er algjör misskilningur. Það var verið að túlka og fást við dróttkvæði af miklum móð á miðöldum. Kvæði sugu í sig áhrif úr öllum áttum, úr guðfræðilegum kenni- setningum, kristinni tákn- fræði og heimspekilegum vangaveltum.“ DRÓTTKVÆÐI – NÚTÍMA- KVEÐSKAPUR SÍNS TÍMA „Snorra-Edda er ekki bara ein endanleg bók sem kom kannski út á jólavertíðinni 1230, heldur bók sem er sífellt í endurskoðun. Lærdómshefðin í kringum dróttkvæðin var greinilega mjög lifandi allt til loka 14. aldar,“ segir Guðrún Nordal í viðtali við ÞRÖST HELGASON en hún hefur nýlega sent frá sér bókina Tools of Literacy þar sem hún heldur því fram að Íslendingar á tólftu og þrettándu öld hafi talið að dróttkvæðaskáldin gætu sómt sér vel við hliðina á höfundum latínuhefðarinnar, þeirra Hórasar, Virgils og Óvíðs. Morgunblaðið/Sverrir Guðrún Nordal dósent.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.