Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 4

Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 4
Ragnheiður Jónasdóttir Fædd 4. mars 1891 Dáin 31. janúar 1984 Þann 10. febrúar síöastliðinn var jarðsungin frá Akranesskirkju elskuleg tengdamóðir mín, Ragn- heiður Jónasdóttir, fyrrum húsfreyja að Vestra Miðfelli, Hvalfjarðarströnd. Hún lést að Dvalar- heimilinu Höfða, Akranesi, þann 31. janúar, tæplega 93 ára að aldri. Ragnheiður fæddist að Bekansstöðum í Skil- mannahreppi 4. mars 1891, einkadóttir foreldra sinna, hjónanna Guðrúnar Jónsdótturog Jónasar Sveinssonar. Þau fluttu seinna að Ölvaldsstöðum í Borgarhreppi og enn síðar að Vestra Miðfelli. Þrjá bræður átti Ragnheiður, en þeir létust allir ungir. Þeim fer nú óðum fækkandi sem fæddust á öldinni sem leið og með þessu fólki hverfa jafnframt hefðir og lífstíll, sem er öldungis framandi þeim, sem nú eru á miðjum aldri eða þaðan af yngri. Ragnheiður Jónasdóttir ólst upp við þau kjör, sem venjuleg voru til sveita í hennar tíð. Hún fékk þá skólamenntun, sem skylduð var og vandist ung við að hjálpa til við þau verk, sem til féllu utanbæjar og innan. Þó kom að því að Ragnheiður flutti til Reykjavíkur og vann þar um nokkurt skeið við fatasaum. í Reykjavík kynntist Ragnheiður síðar eiginmanni sínum, Arnfinni Scheving Björnssyni f. 16. desember 1893, frá Eyri í Gufudalssveit, en hann lagði þá stund á skipasmíðanám. Var brúðkaup þeirra haldið þann 11. maí 1918. Vafalaust hefðu þau hjón stofnað heimili sitt í höfuðstaðnum, eða annars staðar í þéttbýli ef örlögin hefðu ekki ætlað þeim annað. í þeirra hlut féll að taka við búi foreldra Ragnheiðar og fluttu þau að Vestra Miðfelli árið 1918. Jörðin var hvorki stór né sérlega arðsöm og jafnframt búskapnum stundaði Arnfinnur iðn sína í skipasmíðastöð á Akranesi. Þar starfaði hann alla daga vikunnar utan helgar, en þá gekk hann oftast heim að Miðfelli, um 30 kílómetra leið, og síðan til baka til vinnu í helgarlok. Búinu vann Arnfinnur eftir megni þó ekki hefði hann ætlað sér hlutverk bóndans, byggði upp jörðina og ræktaði eftir því sem kostur var, með seinvirkum tækjum og áhöldum þeirra tíma. Dagleg störf og ábyrgð á stóru heimili hvíldu samt á herðum húsfreyjunnar, þegar flest til fæðis og skæðis var unnið heima. Marga og góða vini og hjálparhellur áttu þau hjón, bæði í næsta nágrenni og á Akranesi, og þeirra minntust þau ávallt með þakklæti og hlýju. Ragnheiður deildi á sinn hátt kjörum með flestum samtíma húsfreyjum til sveita. Hún gekk að þeim störfum, sem sinna þurfti, breytti mjólk í mat og ull í fat, jafnframt því að annast sinn stóra barnahóp. Börn þeirra Ragnheiðar og Arnfinns urðu tíu og eru öll á lífi utan einn sonur, sem dó í æsku. Eitt sinn spurði ég Ragnheiði hvort hún hefði ekki stundum verið kvíðin þegar von var á barni, fjarri læknishjálp og oft udir hælinn lagt hvort tækist að ná í Ijósmóður. Ragnheiður brosti við spurningu minni ogsvaraði svo: „Jú, kannske, en ég reyndi oftast að vera búin að mjólka." Þetta svar finnst mér lýsa Ragnheiði svo vel, hugsandi fyrst um aðra, menn eða málleysingja, síðast um sjálfa sig. Ragnheiður var hugrökk og bjartsýn kona og naut mest alla tíð góðrar heilsu. Þó var það eitt sinn að hún þurfti nauðsynlega að komast á sjúkrahús, sem þá var ekkert nær en Landspítalinn í Reykjavík. Ekki var um landveg þangað að fara heldur til Akraness og þaðan réri Arnfinnur við annan mann á opnumn báti til Reykjavíkur með konu stna, fársjúka, í aftakaveðri. Nærri má geta hvílík þrekraun það ferðalag hefur verið, en allt fór vel og Ragnheiður fékk þá aðgerð og umönnun sem þurfti. Árið 1944 brugðu þau hjón búi og fluttu á Akranes ásamt þeim börnum sínum, sem enn voru í garði. Með þeim flutti einnig móðir Ragnheiðar, þá orðin alblind. Lést hún mörgum árum síðar í hárri elli. Kynni mín við þessi góðu hjón og þeirra fjölskyldu hófust við tengdir árið 1953. Margar voru ferðirnar á „Skagann" og alltaf var jafn gott að koma til Ragnheiðar og Arnfinns í húsið við Vesturgötuna. íslensk gestrisni var þar í fyrirrúmi og gaman að ræða við þau um menn og málefni, liðna tíð og samtíð og voru þau margfróð um ættartölur og eldri búskaparhætti. Því miður var Arnfinnur á efri árum hrjáður af langvinnum sjúkdómi, sem háði honum mjög og varð til þess að hann þurfti að leggja niður vinnu, langt um aldur fram. Arnfinnur lést í október 1970. Eitt af ævintýrunum í lffi Ragnheiðar á efri árum var ferðalag til Norðurlanda. Henni þótti alltaf gaman að ferðast og var víðförul um ísland, en þetta var hennar fyrsta og eina utanlandsferð. f skoðunarferþum um Osló og Kaupmannahöfn var hún óþreytandi og sívökul, sannur heimsborg- ari að njóta þess, sem fyrir augu og eyru bar. Eitt sinn, eftir heitan og annasaman dag, var Ragn- heiður spurð hvort hún vildi ekki halla sér. Hafnaði hún því með öllu, sagðist ekki hafa lagt sig þegar hún hafi verið með börnin öll á höndum, og færi varla að gera það núna, í skemmtiferð. Sumardagarnir í Noregi og Danmörku með þess- ari sterku, glaðsinna konu gleymast ekki. Þó Ragnheiður héldi heimili sitt óbreytt um tíu ára skeið eftir lát Arnfinns hlaut þó að koma að því að hún vildi flytjast í hægara sæti. Húsið við Vesturgötuna var selt og hún fluttist í íbúð að Dvalarheimilinu Höfða, utan Akraness. Þar átti hún gott ævikvöld og þó kraftar færu þverrandi með árunum hélt hún sinni góðu heilsu og andlega styrk til hinstu stundar. Á síðari árum urðu fjarlægðir milli okkar meiri og við sáumst sjaldnar, en við hvern fund var þó eins og við hefðum hittst í gær. Nærri má geta, að eftir því sem árin liðu urðu endurfundir óvissari. Ég kvaddi Ragnheiði í síðasta sinn í ágúst 1983, hafandi notið hennar venjulegu gestrisni, þarsem hún sat við kaffiborð- ið í sínu húsfreyjusæti. Að sofna héðan við lok ferðar, þegar nóg er lifað, hlýtur að vera Ijúfur viðskilnaður. Blessuð sé minning Ragnheiðar Jónasdóttur. Börnum hennar og fjölskyldum þeirra sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. New York, í febrúar 1984 Charlotta M. Hjaltadóttir Þeir sem skrifa minningar- eða afmælisgreinar í Islendingaþætti eru vinsamlegast beðnir að skila vélrituðum handritum 4 íslendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.