Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 16

Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 16
Brynhildur Stefánsdóttir Fædd 25. mars 1908. Dáin 11. febrúar 1984. Brynhildur Stefánsdóttir Ijósmóðir frá Merki á Jökuldal dó 11. febrúar sl. á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum, hátt á 76. aldursári. Hún hafði búið við heilsubrest t' tæpt ár, en var þó fram undir síðustu áramót svo hress, að hún gat oftast sinnt störfum og hugðarefnum. Síðustu tvo mánuðina dvaldist hún þó að mestu leyti á sjúkrahúsi. Guðrún Brynhildur Stefánsdóttir, eins og hún hét fullu nafni, var fædd í Merki 25. mars 1908. Foreldrar hennar voru Stefán Benediktsson frá Hjarðarhaga og Guðný Björnsdóttir bónda í Merki Jónssonar. Guðný dó á gamlársdag 1917, en Stefán 21. des. 1954. Stefán í Merki varfarsæll bóndi, hygginn maður og friðsantur, sem kunni sér hóf í öllum hlutum; glaðlegur og hlýr í viðmóti, orðvar og góðgjarn. Hann var elstur margra systkina og fjölmenns hóps venslafólks á Jökuldal, er leit til hans sem einskonar ættarhöfðingja, sem kynni ráð við hverjum vanda og alltaf væri hægt að leita tii um forsjá, þegar eitthvað bjátaði á. Sjálfum hefur mér alltaf fundist að Síðu-Hallur hljóti að hafa verið líkur honum, þessum yfirlætislausa, vitra og virta frænda mínum. Pað orðspor, sem fór af Guðnýju fyrri konu Stefáns bendir til þess, að hún hafi verið mann- kostamaður og dugandi húsmóðir, þrátt fyrir vanheilsu síðustu árin. Seinni konu hans, Stefaníu Óladóttur, man ég vel. Hún var ágæt búsýslukona og vel metin í sveitinni. í Merki varalltaf búiðaf natni ogsnyrtimennsku og þar sveif öryggi, fyrirhyggja og jafnaðargeð meira yfir vötnum en á flestum öðrum bæjum. Pað var eins og þar liði öllum ævinlega vel. Enginn auður var þar saman kominn, en farsæl og þokkaleg afkoma. Börnin voru mörg, sjö af fyrra hjónabandi Stefáns en fjögur af því síðara, og komust öll til þroska. Þar var líka oftast eitthvað fleira af fólki, vinnufólk, venslafólk, stundum gamalt fólk, og lausafólki þótti gott að eiga þar athvarf. Á þessu fjölmenna en kyrrláta og siðgóða heimili ólst Brynhildur upp. Nítján ára gömul fór hún í skólann, sem Sigrún og Benedikt Blöndal héldu í Mjóanesi. Líklega hefur það verið þar, sem hún lærði vefnað. Eitt það fyrsta, sem hún lagði áherslu á að eignast, var vefstóll, sem hún sat oft við, þegar hún þurfti ekki að sinna öðru, því auðum höndum gat hún aldrei setið. Nokkru seinna, líklega 1930 eða 1931, hélt hún til Reykjavíkur og vann þar þau störf sem buðust, og algengust voru. Meðal annars var hún í vist hjá Páli fsólfssyni tónskáldi og fjölskyldu hans, og minntist þess oft, hve viðkunnanlegt og skemmti- legt það fólk hefði verið. Þá vann hún á barnaheimilinu á Silungapolli, a.m.k., tvö sumur. En 1934, þegar Stefanía stjúpmóðir hennar andaðist, kom hún aftur heim, til að veita búinu í Merki forstöðu. Árið 1937 hélt hún aftur til höfuðborgarinnar 16 að laera ljósmóðurfræði, sem þá tók eitt ár. Að því loknu gerðist hún ljósmóðir á Jökuldal og gegndi því starfi í seytján ár, ásamt ráðskonustarfinu í Merki. En 1955 breytti hún til. Þá varfaðir hennar látinn og Sigríður kona Óla hálfbróður hennar að taka við húsfreyjustarfinu í Merki. Fluttist Bryn- hildur þá í Egilsstaði og gegndi ljósmóðurstörfum þar og á Jökuldal til 1964. Á þessum tíma var Egilsstaðaþorp í örum vexti. Ein þeirra stofanna sem komst þar á fót um þetta leyti, var sjúkraskýli. Þar starfaði Brynhildur, var ráðskona, hjúkrunarkona eða ljósmóðir, eftir því sem þörf krafði á hverjum tíma. Auk þess hlynnti hún að sjúkraskýlinu talsvert umfram það, sem skyldan bauð. hafði meðal annars forgöngu um að lagfæra og rækta lóð þess og útivistarsvæði og vann sjálf að því ófáar stundir. Þá kom hún upp vísi að bókasafni á sjúkrahúsinu og varði til þess dálítilli fjárfúlgu, sem hún erfði eftir föðursystur sína, Elísabetu Benediktsdóttur, en Brynhildur var stoð hennar og forsjá í langri elli. Enn urðu kaflaskipti í lífi Brynhildar árið 1964. Þá hætti hún störfum á Egilsstöðum og fluttist til Reykjavíkur, keypti gamalt, lítið hús við Berg- staðastræti og bjó þar í þrettán ár. Vann hún þá á fæðingarheimili Reykjavíkur eða í tengslum við það að fæðingarhjálp og eftirlitsstörfum. Ekki veit ég, hve mörgum börnum hún hjálpaði inn í ljós þessarar veraldar, en 1962 var hún búin að taka á móti þrem hundruðum. Eitthvað vann Brynhildur á Hrafnistu á þessu tímabili, og vera má, að hún hafi stundað fleiri störf þar syðra. Einhverntíma á þessum árum gafst henni tækifæri til að fara til Ameríku og dvelja þar um hríð. Hafði hún mjög gaman af þeirri för, sem varð eina utanlandsferð hennar á ævinni. Þessari Reykjavíkurdvöl lauk 1977. Þá flutti Brynhildur austur á ný; seldi hús sitt í Reykjavík og varði andvirðinu til að byggja sér hús á Egilsstöðum. Gekk hún að því með sömu atork- unni og öllu öðru, kom húsinu upp ásamt bílskúr og gróðurhúsi og græddi lóðina með trjám og blómum. Þar bjó hún síðan til æviloka, og var hús hennar einskonar framlenging af heimilinu í Merki, þar sem frændur og vinir voru alltaf velkomnir og fannst þeir vera heima hjá sér. Ekki undi hún sér án starfs, vann á elliheimilinu á Egilsstöðum þangað til í fyrra; mun stundum jafnvel hafa þurft að hlynna að fólki, sem var yngra en hún. Brynhildur var þrekmikil og heilsuhraust alla ævi uns dauðameinið settist að henni. Hennar verður ekki minnst án þess að geta um frábæran dugnað hennar, kjark og athafnagleði. Áræðið og atorkan kom oft vel fram í ljósmóðurstarfinu, þegar hún þurfti ef til vill að fara norður í Möðrudal eða á dalsenda, tugi kílómetra í vetrarófærð og illviðrum. Samgöngutækin gátu eftir atvikum verið bíll, hestar, snjósleði, skíði eða farskjótar postulanna, en það skipti ekki máli, ef þörf og skylda kölluðu hana til farar, og alltaf komst hún heilu og höldnu á leiðarenda. - Þess skal getið, að hún kunni sjálf ágætlega á öll þessi farartæki. átti til dæmis snjósleða og fór síðustu ferð sína á honum norður að Hnúksvatni í Jökuldalsheiði í desember í vetur, en þar átti hún dálitinn kofa. Er vafasamt að margar konur sjötíu og fimm ára fari slíkar vetrarferðir án þess að brýn nauðsyn reki þær til þess. Brynhildur var mikið gefin fyrir útilíf, stundaði garðrækt af miklum áhuga hvar sem hún dvaldist, iðkaði fjallaferðir og veiðar í ám og vötnum og stuðlaði að byggingu og viðhaldi sæluhúsa og ferðamannaskýla í óbyggðum. Dugnaðurinn, ásamt jafnlyndi og glaðsinni, var sterkasta einkenni Brynhildar og aflaði henni vina hvar sem hún fór. Hún giftist ekki né eignaðist börn, en samt voru öll hennar störf unnin í þágu lífs og vaxtar, af óeigingirni og skyldurækni. Þess vegna verður minning hennar vinum hennar alltaf kær. Hvíli hún í friði. Benedikt Sigurðsson. t Mig langar að minnast Brynhildar vinkonu minnar og frænku nokkrum orðum. Brynhildur var fædd að Merki á Jökuldal, dóttir hjónanna, Stefáns Benediktssonar bónda og skálds í Merki og Guðnýjar Björnsdóttur. Brynhildur lærði Ijósmóðurfræði ung að árum og var lengi ljósmóð- ir á Jökuldal, oft við erfiðar aðstæður. Til Egilsstaða flyst hún svo og tekur að sér forstöðu sjúkrahússins þar og vinnur hún hin ólíkustu störf, jafnt inni sem utan dyra í mörg ár. Síðan flytur hún til Reykjavikur og erjar á ýmsum stöðum, oftast við hjúkrun. Á Reykjavíkurárum sínum eignast Brynhildur litla íbúð, en selur hana Framhald á bls. 13 íslendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.