Fréttablaðið - 05.10.2008, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 05.10.2008, Blaðsíða 12
12 5. október 2008 SUNNUDAGUR F yrst heyrðist í hljómsveitinni Motion Boys snemma á síðasta ári þegar fyrsta lagið, Waiting to Happen, fór í spilun. Síðan þá hafa fjögur lög í viðbót bæst við og nú hillir undir fyrstu plötuna, Hang On. „Ég hef alltaf verið smáskífu-maður og mikið pælt í því konsepti,“ segir Birgir. „Mér finnst mjög eðlilegt að hljómsveit sem er að reyna að vekja á sér athygli hendi út nokkrum lögum í spilun áður en hún kemur með fyrstu plötuna sína. Ég held að það hafi hjálpað okkur að þessi lög hafi heyrst og búið til hlust- endahóp í kringum þetta. Fólk veit að minnsta kosti að einhverju leyti hvernig tónlist við stöndum fyrir.“ En fyrir þá sem hafa aldrei heyrt í ykkur – til hvaða lýsingarorða myndirðu grípa til að lýsa tónlistinni ykkar? „Þetta er töff, þetta er frumlegt, þetta er nýtt, þetta virkar!“ segir Birgir og hlær. „Nei, ég veit það ekki! Þetta er fáguð tónlist, örvæntingarfull og elegant.“ Elegant í stórborginni Mér finnst Birgir hitta naglann á höfuðið. Motion Boys spilar fágað popp, elegant, en það er líka töff. Andi Bryans Ferrys og hljóm- sveitarinnar Roxy Music svífur yfir vötnum og Birgir fer ekkert í launkofa með að vera aðdáandi. „Hann er ótrúlega skemmtilegur karakter og líka frábær textahöfundur. Ég held að hann sé sá fyrsti sem bjó til popplag um ástar- samband sitt við uppblásna dúkku. Það væri gaman að fá að hitta hann við tækifæri og snæða með honum morgunverð. Ég reyni samt að búa ekki til of mikil goð úr hetjunum mínum og býst ekkert við að hvert einasta orð frá honum sé töfrabragð.“ Hvað er það við elegansinn sem þú fílar? „Ég veit það ekki,“ segir Birgir og fer að hlæja. „Ég hef bara fílað elegansinn frá því í æsku!“ Gerir þú kröfur til liðsmanna hljómsveitar- innar að þeir séu elegant? Er bannað að mæta með skítugt hár í snjóþvegnum gallabuxum á æfingu? „Það er engin þörf á reglum, við erum allir með góðan smekk. Tobbi gengur til dæmis með greiðu úr silfri í vasanum.“ Og smekkmenn syngja auðvitað um ást- ina? „Ég las það einhvers staðar að 95 prósent af dægurlagatextum fjalli um ástina og textarn- ir okkar gera það líka, en þeir fjalla líka um ótta, girnd, losta og ranghugmyndir, þetta eru sögur af samskiptum kynjanna og þar er oft dökkur undirtónn. Það var lagt upp með að gera poppplötu, er það ekki? „Jú, en samt. Ég vona að við getum komið fólki á óvart með henni. Það er borgarfílingur á henni. Okkur langaði til að gera plötu um örvæntingarfullt fólk í stórborg. Ef fólk hlust- ar á plötuna í heild sinni heyrir það að þetta er ekkert venjulegt poppband. Draumurinn er að vinna eftir allt öðru konsepti á næstu plötu. Við viljum fara lengra í öfgunum. Að fólk geti ekki rúllað plötunni í gegn áreynslulaust.“ Sækja í bresk seventís-áhrif Birgir á erfitt með að staðsetja Motion Boys á íslenska tónlistarlandakortinu. Dálítið eins og Geiri Sæm og Hunangstunglið, segi ég til að hjálpa honum, en hann hlær nú bara að svo- leiðis samlíkingum. „Hugurinn leitar sjálfkrafa til ákveðins áratugar af því við notum „syntha“ en sú sam- tenging er smám saman að hverfa,“ segir hann. „Að mínu mati eru miklu meiri seventís- áhrif heldur en eitís-áhrif hjá okkur. Við til- einkuðum okkur vinnubrögð sem voru við líði á þeim áratug. Auk Roxy Music eru T-Rex og Bowie miklir áhrifavaldar.“ Eina íslenska bandið sem er eitthvað líkt ykkur er Trabant, en ég segi það líklega bara vegna þess að Gísli Galdur og Þorvaldur Grön- dal, nýráðinn bassaleikari Motion Boys, eru fyrrum Trabant meðlimir. „Tja, platan þeirra Emotional er náttúrlega með því allra besta sem hefur komið hér út. Ég hef hlustað mikið á íslenska tónlist og er til dæmis mikill Spilverks-maður. En við erum aðallega að leita eitthvað annað en í íslensku poppsöguna, aðallega í eitthvert breskt dót. Við erum allir með svipuð viðmið. Við forunn- um þetta rosalega í stúdíóinu okkar en þegar við fórum í Gróðurhúsið að klára plötuna var aldrei rifist, enda hlustum við á sömu músík- ina og vorum samstilltir. Ég man bara eftir einu atviki þegar Tobbi, Bjössi og Gísli sögðu þvert nei við mig. Þá var ég búinn að drekka ógeðslega mikið kaffi og dúndra í mig alltof miklu spírúlína og var orðinn alltof hæper. Þá fékk ég að ég hélt svaka fína hugmynd að bak- radda-slaufu og söng hana fyrir þá og lýsti henni með höndunum. Auðvitað fattaði ég svo að þetta var bara eitthvert R&B-drasl.“ Nú er platan að koma út, en hvað gerist svo? „Að spila eins og við getum á Íslandi út þetta ár og leita að dreifingu úti. Svo langar okkur að byrja bara á næstu plötu og draum- urinn er að gera hana í Frakklandi. Það eru góð rauðvín þar og ostar. Við þekkjum gaur sem gæti komið okkur að í kastala í Lyon. Það er spennandi að komast í nýtt umhverfi og jafnvel að setja okkur einhverjar grunnregl- ur. Það er spennandi að halda í einhver sér- kenni en samt á næsta plata að sánda ekkert eins og Motion Boys.“ Sefur bara aðeins minna Birgir er búinn að vera í hljómsveitum frá 16 ára aldri. Hljómsveitin Byltan var efnileg og sendi frá sér lög en Motion Boys er fyrsta alvaran. Hann á tvo unga drengi með konunni sem hann segist „lifa í synd“ með. Er hann að standa sig á heimilinu standandi í hljóm- sveitar harkinu? „Þetta er náttúrulega púsluspil,“ segir hann. „Maður þarf bara að sofa aðeins minna. Sem betur fer hef ég alltaf þurft að sofa mjög lítið, alveg síðan ég var strákur.“ Hvað erum við að tala um, þrjá tíma á sólarhring? „Maður hefur alveg náð því, já. Og ég veit um fólk sem hefur náð að þjálfa sig niður í hálftíma svefn á sólarhring. Konan hefur alveg skilning á þessu og styður mig mikið. Maður þarf að skvísa inn auka klukkutímum til að þetta gangi upp. Tónlistarstarfið fer oft mikið fram á nóttunni. Það væri upplagt ef maður gæti sinnt tónlistinni 9-5. Kannski verður það einhvern tíma þannig.“ Birgir vinnur meðal annars fyrir sér sem ljósmyndari og hefur ákveðnar hugmyndir um ljósmyndun almennings. „Maður á ekki að ofnota ljósmyndavélina,“ segir hann. „Mér finnst að góðir og fallegir hlutir eigi að lifa í minningunni. Fólk er alltaf að taka myndir af einhverju og smám saman ferðu bara að muna eftir því sem þú tókst mynd af. Barnið gerir eitthvað sniðugt og þú hugsar: ég verð að taka mynd af þessu. Svo ferðu að leita að vélinni og biður síðan barnið um að gera þetta aftur. Þú hefur tekið mynd af eftir öpun af augnablikinu. Í raun ættu fjölskyldur bara að taka eina svart-hvíta mynd af sér einu sinni á ári.“ Gerir þú það? „Nei, ég er nú ekki alveg saklaus. Aðal- atriðið er að fólk noti myndavélina í hófi. Svo er til fólk sem tekur myndir og jafnvel vídeó í jarðarförum. Til hvers er það? Er það til að horfa á upptökuna og segja: „Vá, hvað hún Gunna átti nú erfitt og grét mikið?“ Stundum áttu bara að einbeita þér að atburðinum án þess að vera að taka alltof margar myndir af honum. Það er kannski skrýtið af mér að tala svona, en ég er bara svona í mörgu.“ Við erum allir með góðan smekk Birgir Ísleifur Gunnarsson fer fyrir hljómsveitinni Motion Boys, syngur og semur lög og texta. Hang On, fyrsta plata sveitar- innar kemur út fimmtudaginn 9. október og sama dag heldur sveitin útgáfutónleika á Nasa. Dr. Gunni hitti Birgi yfir 650 króna cappuccino-bollum á Hótel Holti. HANG ON Fyrsta plata Motion Boys kemur út 9, október. BIRGIR ÍSLEIFUR MEÐ MOTION BOYS Í RAMMA „Við rífumst aldrei enda allir með góðan smekk.“ FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON ➜ BIRGIR ÍSLEIFUR: BEST Í HEIMI Besta platan? „Ég gæti sagt For Your Pleasure með Roxy Music, Exile On Mainstreet með Stones, Velvet Underground með samnefndri hljómsveit og Remain In the Light með Talking Heads. Þessu er samt ekki hægt að svara!“ Besta lagið? „Ég ætla að nefna eitthvað sem ég er sérstaklega að hlusta á þessa dagana. „Mandolin Wind“ með Rod Stewart. Hann nær mér alltaf með falsettunni í lokin.“ Bestu tónleikarnir? „Mér dettur í hug að nefna Stereolab-tónleikana á Grandrokk.“ Besta bókin? „Meistarinn og Margaríta.“ Besta tímaritið? „Mér finnst tímarit aldrei alveg nógu og góð.“ Besta bíómyndin? „Johnny Suede.“ Besti veitingarstaðurinn? „Cazanove í Lyon.“ Besta tækið? „Rafrænn rauðvínsflösku- opnari.“ Best í heimi? „Ég er með allt of mikinn valkvíða fyrir svona spurningar. Í alvörunni! Ég eyddi einu sinni þremur klukkutímum fyrir framan sælgætisstandana í Hagkaup. Síðan þegar ég kom á kassann var ég ekki einu sinni með veskið með mér.“

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.