Fréttablaðið - 24.05.2011, Blaðsíða 31

Fréttablaðið - 24.05.2011, Blaðsíða 31
ÞRIÐJUDAGUR 24. maí 2011 23 Dans ★★★ Við sáum skrímsli Sýning Shalala, unnin í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík og Þjóð- leikhúsið. Listrænn stjórnandi: Erna Ómarsdóttir. Kassinn, Þjóðleikhúsinu Það þarf ákveðinn andlegan undirbúning áður en farið er á sýningar Ernu Ómarsdóttir vegna þess hvað ljótleikinn spil- ar þar stórt hlutverk bæði í efni og formi. Sýningin Við sáum skrímsli er hér engin undantekn- ing. Verkið fjallar um hvernig manneskjan getur umbreyst í eins konar skrímsli (monster) og misst sjónar á siðferðislegum gildum mannlegs samfélags. Efnið er kynnt í frásögnum (á íslensku til tilbreytingar) sem Erna flytur á sviðinu. Hreyfingarnar og fram- vinda verksins kallast á og lýsa þessum hrottalegu sögum. Ólíkt því sem ætla mætti var form verksins miklu fegurra en efni þess. Sjónrænt var verkið sterkt og öll umgjörð til fyrir- myndar. Lýsingin var hrein og tær og reykurinn sem oft er við- kvæmur í notkun læddist inn á sviðið aðeins þegar hans var þörf. Búningarnir voru vel hugs- aðir og leikmyndin í lokin sniðug. Leikmunirnir gáfu verkinu aukna vídd og voru vel nýttir. Dansinn sem slíkur var áhugaverður og út frá lögmálum danssmiðanna voru margar skemmtilegar lausn- ir eins og hvernig sítt hár þátt- takendanna fékk hlutverk í dans- inum og hvernig hendurnar voru nýttar. Frammistaða flytjendanna var fín. Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Sigríður Soffía Níelsdóttir voru ekki áberandi en fylltu samt mjög vel upp í sviðið þegar þær döns- uðu. Ásgeir Helgi Magnússon fékk bæði að láta ljós sitt skína í dansi og atriðum sem kröfðust meiri leikrænnar tjáningar. Dúettinn hans við ljáinn var áhrifamik- ill sem og atriðið með höndun- um. Valdimar Jóhannsson sem þreytti frumraun sína sem dans- ari í dansverki skilaði sínu með prýði enda var hlutverkið hans vel sniðið að getu hans. Hann notaði röddina skemmtilega og tónlistin sem var hans hugarfóstur passaði vel við stemmingu dansverksins hverju sinni. Erna Ómarsdóttir var aðallega í hlutverki sögumanns í þetta sinn. Hún söng og sagði frá auk þess að taka stutta dansspretti. Hún hefur náð góðu valdi yfir röddinni bæði þegar hún syng- ur, talar og öskrar og komst vel frá sínu. Eina hlutverkið sem ekki virtist útpælt var hlutverk Sigtryggs Bergs Sigmarssonar. Hann var með í flestum senunum og stóð sig ágætlega en hlutverkið var lítilvægt og ekki vel hannað fyrir óþjálfaðan dansara. Hryllingsþema hefur verið mikilvægur þáttur í listsköpun alla tíð. Hryllingurinn ögrar og ógnar hversdagslegu lífi áhorf- andans og skapar honum mögu- leika á að upplifa spennu og finna fyrir tilfinningum sem fyrirfinn- ast ekki í daglegu lífi í flestum tilfellum, sem betur fer. Sýningin Við sáum skrímsli var hryllings- stúdía en hana vantaði spennu til að geta talist hryllingssýning. Útfærsla og úrvinnsla frásagn- anna var of yfirborðskennd og ósamræmi á milli hrottalegs efn- isins og ljóðrænnar framsetning- arinnar. Þetta ósamræmi hefði getað verið mjög sterkt og þver- sagnarkennt en náði því ekki. Form sýningarinnar var aftur á móti vel heppnað og hægt að njóta hreyfinganna og sviðsetningar- innar. Sesselja G. Magnúsdóttir Niðurstaða: Vel formuð sýning en hnökrar í útfærslu og úrvinnslu draga hana niður. Ljóðrænn óhugnaðurTónlist ★★★★★ Jonas Kaufmann með Sinfóníuhljómsveit Íslands Listahátíð í Reykjavík Flutt í Hörpu Brjálaðir tónleikagestir Það er ekki nóg að hafa flotta rödd og geta sungið sterkt. Menn verða líka að vera músíkalskir. Hafa næma tilfinningu fyrir skáldskapnum og öllum blæbrigðum hans. Og kunna að miðla honum til áheyrenda. Þriðju tónleikarnir sem ég fór á í Hörpu voru haldnir á laugardaginn, á Listahátíð í Reykjavík. Sinfónían spilaði þar við söng þýska tenórsins Jonas Kaufmann, sem er einhver sá magnaðasti um þessar mundir. Hvað er svona magnað við hann? Jú, strax á fyrstu tónum aríu úr Toscu eftir Puccini var ljóst að Kaufmann er með einstaklega fallega rödd. Hún var hlý og breið, tær og sterk; það var einhver fylling í tóninum sem unaðslegt var að upplifa. Og tilfinningin í túlkuninni var ekta, rómantíkin alger, full af ástríðum. Blæbrigðin í söngnum voru fallega mótuð, veikir tónar þéttir og nákvæmir, sterkir tónar óheftir og glæsilegir. Valdið yfir styrkleikabrigðum var algert. Kaufmann lét tónana, þegar við átti, deyja út í lok hendinga, sem er vandasamt. Það var frábærlega vel gert, raunar alveg fullkomið. Sinfónían var líka flott. Hún hljómaði fallega á hinum tónleikunum sem ég hef farið á í Hörpu, en ekki eins og nú. Fiðlurnar voru unaðslega mun- úðarfullar, ef hægt er að nota það orð. Og slagverkið var öflugt og ómandi, en ekki um of. Sellóin voru skemmtilega safarík og blásararnir voru hreinir og í hæfilegu jafnvægi við allt annað. Heildarhljómurinn var í senn tær, en líka voldugur. Stjórnandi að þessu sinni var Peter Schrottner. Hann hefur mikla reynslu úr óperuheiminum, hefur m.a. stjórnað á Wagner-hátíðinni í Bayreuth. Það var auðheyrt á tónleikunum. Nokkrir óperuforleikir voru á dagskránni, fyrst úr óperunni I vespri siciliani eftir Verdi. Forleikurinn var óvanalega flott byggður upp. Stígandin var markviss og spennuþrungin, og hápunktarnir svo yfirgengilegir að mann langaði til að standa upp og æpa. Sömu sögu er að segja um hina forleikina, sem spönnuðu vítt svið, allt frá djúpum, en háleitum Wagner yfir í léttmeti eftir Zandonai og Ponchielli. Að standa upp og æpa, já. Það var einmitt það sem flestir áheyrendur gerðu í lok tónleikanna. Satt best að segja man ég ekki eftir annarri eins stemningu á klassískum tónleikum á Íslandi. Áheyrendur gengu gersamlega af göflunum! Kaufmann var klappaður upp hvað eftir annað, og söng hvorki meira né minna en fjögur aukalög. Þetta voru ótrúlegir tónleikar. Ljóst er að tónlistarlífið í Hörpu byrjar vel. Jónas Sen Niðurstaða: Algerlega frábær skemmtun með stórkostlegum listamanni. MYND/HÖRÐUR SVEINSSON

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.