Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 33

Litli Bergþór - 01.06.2013, Blaðsíða 33
Litli-Bergþór 33 Persónulegir kostir hennar voru svo miklir og góðir, að það stafaði hlýja frá henni. Hún var í orðsins fyllstu merkingu góð kona og svo mikil hæfileikakona, að áhrif hennar bárust víða, ekki síst með bókum hennar, smásögum og ritum, sem áttu vinsældum að fagna um land allt. Skáldsögur hennar, „Á heimleið“, „Þess bera menn sár“, „Brúðargjöfin“ og fleira lýstu göfugri sál og töluðu ljúfu og heillandi máli til þeirra, sem meta manngöfgi og þrá, birtu og frið í stað skugga og baráttu. En jafnframt kom frú Guðrún mikið við opinber mál og var það einkum áhugi hennar fyrir hjálp við þá einstaklinga mannfélagsins, sem bágt eiga, sem mun hafa knúð hana inn á þær brautir. Má nokkuð marka það af því, að mestu áhugamál hennar á þingi voru að bæta aðhlynningu vanmetabarna og koma upp fyrir þau hælum, þar sem því yrði bjargað sem hægt væri að bjarga hjá veslingunum, bæði líkamlega og andlega. Dætur Guðrúnar og Sigurbjörns sem létust með móður sinni í Tungufljóti, Guðrún Valgerður, gift Einari Kristjánssyni auglýsingastjóra og Sigrún Kirstín, sem hafði nýlokið fullnaðarprófi gagnfræðadeildar. Einar varð ekki bara fyrir sárum missi við andlát konu sinnar og ófædds barns heldur missti hann unga systur sína, Ingibjörgu Kristjánsdóttur, á Landspítalanum nokkrum klukkustundum áður en slysið vildi til. Missir Kirstínar Katrínar, 88 ára gamallar móður Guðrúnar, var sömuleiðis mikill því Guðrún var sjöunda barn hennar af átta sem hún sá á eftir yfir móðuna miklu en að auki var Lárus, maður hennar, fallinn frá. Eina eftirlifandi barnanna var Pétur Lárusson fulltrúi á skrifstofu Alþingis. Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason eiginmaður hennar var sömuleiðis landsþekktur. Hann var prestur í Reykjavík og vann fyrir líknarfélög og gegn fátækt og var stofnandi Elliheimilisins að Grund. Í Danmörku var einnig fjallað þó nokkuð um andlát og feril Guðrúnar Lárusdóttur. Birti National Tidende mynd af Guðrúnu og flutti langa og ítarlega minningargrein um hana. Segir blaðið meðal annars, að hið hörmuglega bílslys hafi vakið sterka sorg og samúð ekki einungis á Íslandi, heldur harmaði fjöldi manna í Danmörku sáran fráfall Guðrúnar og dætra hennar. Sagði blaðið ennfremur, að Guðrún hafi verið áhrifarík kona í íslenskum stjórnmálum. Þjóðkunn fyrir ýmsa menningarstarfsemi og fjöllesinn rithöfundur. Þá rakti blaðið rithöfundarstarf hennar og fjallaði um trúaráhuga hennar til mannúðar- og félagsmála. Politiken ritaði einnig ítarlega um Guðrúnu, rithöfundarstörf hennar og stjórnmálastarfsemi og í miðdegisfréttum danska útvarpsins var greint frá slysinu og skýrt ítarlega frá stjórnmála-, félagsmála- og rithöfundarstörfum Guðrúnar. Orsök slyssins Arnold Pedersen viðurkenndi í samtali við blaðamann Morgunblaðsins degi eftir slysið að bremsur bílsins hefðu verið í ólagi. Ég varð var við það á föstudag, að bremsur bílsins voru í ólagi. En áður en við fórum frá Geysi í gærmorgun herti ég svo á bremsunum, að þær virtust verka nokkurn veginn. Ég prófaði bremsurnar nokkru eftir að við lögðum af stað frá Geysi og verkuðu þær þá vel öðru megin. Þegar ég kom á hæðina ofan við vegamótin við Tungufljót setti ég bílinn í fyrsta gír. En þegar ég ætlaði að taka beygjuna austur á aðalveginn verkuðu bremsurnar alls ekki. Þarna á vegamótunum er nokkur halli og rann því bíllinn beint fram af vegarbrúninni og niður snarbratta brekkuna, ofan í fljótið. Yfirvöld létu fara fram ítarlega rannsókn á orsök slyssins. Arnold Pedersen var látinn gefa skýrslu daginn eftir. Kom þá fram að Sigurbjörn og Guðrún voru nýbúin að kaupa bílinn R 884 af Helga Eyjólfssyni flugmanni að lokinni umfangsmikilli viðgerð um vorið sem kostaði hann 800 krónur. Var viðgerðin aðallega fólgin í því, að gangvélin var yfirfarin og lagfærð svo og stýrisútbúnaðurinn og ný stykki sett í þar. Ennfremur var sett í bílinn nýtt drifskaft og tilheyrandi legur. Bíllinn var klæddur nýju taui innan og ný dekk sett á öll hjól. Guðrún Lárusdóttir (8. janúar 1880 - 20. ágúst 1938). Mynd af vef Alþingis

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.