Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 15

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 15
MENNTUN GEGN FÁTÆKT Mikil umræða hefur verið að undanförnu um fátækt. Hvað er að vera fátækur og hvernig kemst fólk út úr vítahring fátæktar? Eru heilu fjölskyldurnar dæmdar til að vera fátækar ættlið eftir ættlið? Það hefur komið mér á óvart þegar ég hef hlustað á umræðu um fátækt eða lesið greinar um efnið, sem vissulega hefur verið nóg af að undanförnu, að umræðan snýst um að vandi er til staðar og talað og talað um að þetta þurfi að laga. Það er málið, þetta þarf að laga, það er ljóst. Gott væri að kraftar þeirra sem tjá sig um fátækt færu í það að móta aðgerðir (ekki tillögur), já hreina og klára aðgerðaráætlun fyrir fjöldann í stað plástra vegna einstakra mála. Velferðarkerfið í heild sinni þarfnast lagfrætingar við. Ég ásamt fimm öðrum MBA nemendum við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands unnum að skýrslu um fátækt nýverið. Mikill tími fór í að „finna“ fátæktina, skilgreina það hvað væri að vera fátækur og ástæður fátæktar sem auðvitað eru margvíslegar. Þegar skoðað var hvað einkennir þá sem búa við fátækt, ef eitthvað, kemur í ljós að eitt að því sem þeir eiga sameiginlegt er að þeir eru lítt eða ekkert menntaðir. Hinkrum nú við, hvort er orsök og hvort afleiðing? Þegar rætt var við reynda skólamenn kom í ljós að nemar sem koma frá efnaminni heimilum eru líklegri til að standa sig verr í námi og einnig líklegri til að flosna upp frá námi. Þetta kemur einnig fram í bók sem nýlega er komin út, „Ungt fólk og framhaldsskólinn“. Ekki er það ætlun mín að endursegja þá bók. Bókina prýða fjölmargar töflur sem allar benda í eina átt: Efnahagur hefur afgerandi áhrif á námsárangur og þar með einnig námslöngun sem leiðir til þess að efnaminni nemendur eru líklegri til að hætta námi eða fara ekki í framhaldsskóla en aðrir nemendur. Ekki er hægt að hjálpa þeim sem ekki vilja fá hjálp eða hvað? Tillögur mínar til að draga úr fátækt er að auka menntun efnaminni ein-staklinga. Þá skoðun er ég ekki einn um. Árið 1996 var Clintonstjórnin búin að komast að sömu niðurstöðu. Frú Hillary Clinton ferðaðist vítt og breitt um Bandaríkin og hélt fyrirlestra í menntaskóla eftir menntaskóla með það að markmiði að berja æskunni í brjóst að mennta sig, það væri eini raunhæfi möguleikinn til að komast út úr fátækt. Með hærra menntunarstigi meðal efnaminna fólks taldi Clintonstjórnin að draga mætti úr fjármagni til velferðarmála til lengri tíma litið. Vonandi dregur enginn það í efa hvað menntun er mikilvæg. Menntað fólk virðist hafa ríkari sjálfbjargarviðleitni, menntað fólk er einnig líklegra til að eiga varasjóð ef áföll verða, m.a. með eign í fasteign. Það er því mikilvægt að huga að menntun og þá á ég ekki bara við háskólamenntun heldur hverslags verkmenntun. Gríðarlega mikilvægt er að til sé kerfi sem aðstoðar fólk við afla sér menntunar, þó ekki væri með öðru en láni til að geta farið aftur í skóla að afla sér þeirrar menntunar sem viðkomandi hefur áhuga á. Mikilvægt er styðja við atvinnulausa einstaklinga sem vilja mennta sig, þá er líklegra að þeir fái vinnu. Öryrki gæti mögulega unnið létt starf, því ekki að aðstoða hann við að mennta sig svo hann geti tekið þátt í þjóðfélaginu á ný? Nokkur tilraunaverkefni í þessa átt eru í gangi með, að mér sýnist, mjög góðum árangri. Þeim fjármunum er vel varið, það þori ég að fullyrða. Eitt það mikilvægasta við námið er að þar er skýrt viðfangsefni sem fólk tekst á við og tilfinningin að hafa getað lokið því styrkir fólk mjög ein og sér. Foreldrar, þeim stundum sem þið verjið með börnum ykkar til að aðstoða þau við nám eða til námshvatningar er vel varið. Hvort sem þau eru fullorðin eða ung. Menntun er máttur! Ekki bara orðin tóm heldur raunverulegur lykill út úr fátækt. Vilji er allt sem þarf , hækkum menntunarstig þjóðarinnar. Gunnar Jón Yngvason Höfundur er MBA nemandi við Háskóla Íslands. Menntun er máttur! Ekki bara orðin tóm heldur raunverulegur lykill út úr fátækt. Vilji er allt sem þarf. Menntun er lykill út úr fátækt 15

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.