Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 20

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 20
FRÉTTIR OG SMÁEFNI Félag grunnskólakennara færir Barnaspítala Hringsins gjöf Nýr og glæsilegur Barnaspítali Hringsins var formlega tekinn í notkun við hátíðlega athöfn 26. janúar sl. Spítalinn er til húsa í nýbyggingu á Landspítalalóðinni austan við Kennarahúsið. Starfsemin er nú að fullu hafin í nýju húsakynnunum. Á vegum spítalans er rekinn grunnskóli í tengslum við Austurbæjarskólann og hefur hann fengið nýja starfsaðstöðu í nýbyggingunni. Af því tilefni afhenti Félag grunnskólakennara Barnaspítalanum að gjöf litaprentara og peningaupphæð í maí sl., samtals að verðmæti 250 þúsund krónur. Finnbogi Sigurðsson formaður Félags grunnskóla kennara afhenti gjöfina. Á myndinni eru talið frá vinstri: Helga Þórðardóttir, Dóra Guðrún Kristinsdóttir og Jón Agnar Ármannsson, kennarar við grunnskóla Barnaspítalans og Finnbogi Sigurðsson, Björk Hella Jessen og Sesselja G. Sigurðardóttir frá Félagi grunnskólakennara. Málþing um stærðfræðikennslu Menntamálaráðuneytið stendur fyrir málþingi um kennslu í stærð- fræði dagana 24. og 25. október nk. í samvinnu við Íslenska stærðfræðafélagið, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands stærðfræðiskor, Flöt samtök stærðfræðikennara og Félag raungreinakennara. Aðalfyrirlesari verður Mogens Niss, prófessor í Hróarskeldu. Hann mun m.a. fjalla um mat á námi í stærðfræði en auk þess verður fjallað um nýlegar námskrár í stærðfræði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins. Röddin sem atvinnutæki Félag íslenskra talkennara og talmeinafræðinga efnir til athyglisverðrar ráðstefnu þann 31. október nk. þar sem fjallað verður um röddina sem atvinnutæki. Í fréttatilkynningu um ráðstefnuna segir að fram til þessa hafi lítill gaumur verið gefinn að röddinni sem atvinnutæki þó að hún sé undirstaða atvinnuöryggis margra atvinnustétta, m.a. kennara. Almennt þekkingaleysi á rödd, lélegur hljómburður, hávaði, streita, of mikil fjarlægð til áheyranda og slæmt inniloft á vinnustað eru talin helstu ástæður þess að fólk þjáist af raddveilum og óþægindum sem þeim fylgja. Afleiðingar hafa valdið bæði einstaklingum og þjóðfélagi ómældu fjárhagslegu tjóni í töpuðum vinnudögum. Fyrirlesarar verða Finnarnir prófessor Erkki Vilkman, sérfræðingur í háls- og raddmeinum, sem fjallar um röddina og stöðu hennar sem atvinnutækis og dr. Marketta Shivo sem ræðir um skaðvænleg áhrif umhverfis á rödd. Báðir hafa beitt sér mikið fyrir því að efla umræðu um röddina sem atvinnutæki. Svíinn dr. Anita McAllister fjallar um hæsi barna sem er vandi sem hefur ekki verið nægilega vel sinnt á Íslandi fram til þessa. Algengt er að hæsi barna valdi raddvandamálum þegar þau verða eldri. Einar Thoroddsen háls-, nef- og eyrnalæknir kynnir meðferð sína sem hann hefur beitt til að slaka á vöðvum við tungubein. Valdís Jónsdóttir talmeinafræðingur fjallar um hvernig mögnunarkerfi hefur dregið úr álagi á kennararaddir og aukið hlustunargetu nemenda. Þóra Másdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingar ræða gildi raddþjálfunar. Eftir hádegi verður boðið upp á námskeið hjá bæði innlendum og erlendum raddþjálfurum í raddbeitingu og raddvernd. Allir þeir sem þurfa að nota röddina sem atvinnutæki eru hvattir til að nýta sér þessi námskeið. Fyrirlestrar eru á ensku. 20

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.