Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 19

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 19
tveir uppeldismenntaðir starfsmenn og einn leiðbeinandi. Auk þess er einn garðyrkjumaður í hlutastarfi við leikskólann. Þótt leikskólanum sé skipt upp í vöggustofu og leikskóla er opið á milli deilda og mikill samgangur. Þessi samgangur auðveldar að- lögun barna frá vöggustofu yfir í leikskólann. Vöggustofubörnin fá heitan mat í hádeginu og hluti af leikskólabörnunum eru í fæði, aðrir koma með nestispakka. Uppeldismarkmið leikskólans eru að þroska persónuleika barnanna svo þau verði sjálfstæð, gagnrýnin, umburðarlynd og ábyrgir samborgarar. Lögð er áhersla á að börnin beri virðingu fyrir og hafi skilning á menningu annarra þjóða ásamt danskri menningu og siðum. Áhersla er lögð á að skapa börnunum gott rými til leikja, sýna frumkvæði og láta ljós sitt skína á eigin forsendum. Börnunum er kennt að leysa deilur og rökstyðja skoðanir sínar. Unnið er markvisst með málörvun. Aðferðir sem notaðar eru til að ná þessum markmiðum eru „Félagsleg samskipti“ (vöggustofa) og „Stig fyrir stig“ (leikskóli). Þess má geta að leikskólinn stendur við hlið Vestre fangelsisins í Kaupmannahöfn. Til að gæta fyllsta öryggis eru myndavélar úti við sem fylgjast með allri umferð í kring um fangelsið og tvöföld há vírgirðing á milli. Til gamans má geta þess að hægt er að nálgast ársplan fyrir Den integrerede institution Ryesgade 22 á vefslóðinni www.daginstitutioner.kk. dk og einnig upplýsingar um Enghave Remise Enghavevej 88 og Fredens Sogns Menigheds Bhv. Ryesgade 68. Starfsfólk leikskólans Sólvalla hefur farið í kynnisferðir árlega frá árinu 1994 og skoðað marga leikskóla hérlendis en þetta er í fyrsta skipti sem við förum út fyrir landssteinana. Þessar ferðir hafa víkkað sjóndeildarhringinn hjá okkur og skilið eftir mikinn lærdóm fyrir utan hvað þær hafa góð áhrif á starfsandann í leikskólanum. SAMVINNA MILLI SKÓLASTIGA Á ársfundi skólamálaráðs KÍ sem haldinn var í apríl sl. var fjallað um fljótandi skil skólastiga og tengsl skóla og atvinnulífs. Meðal annars voru haldin erindi um samstarf leikskóla og grunnskóla, sem víða er farið að þróa og formgera meira en áður var. Í fyrra birtist grein í Skólavörðunni um samstarf leikskóla og grunnskóla í Breiðholti í Reykjavík, að þessu sinni kíkjum við til Grundarfjarðar og fáum heimamenn til að segja okkur hvernig þeir brúa bilið. Í vetur eins og síðustu ár hafa leikskóli og grunnskóli unnið markvisst að því að brúa bilið á milli skólastiganna tveggja, til að auðvelda nemendum skólaskiptin. Í byrjun september 2002 hittust skólastjóri leikskólans, kennari elstu barna leikskólans og aðstoðarskólastjóri, sérkennari og kennari 1. bekkjar grunnskólans á fundi og gerðu áætlun fyrir vetrastarfið. 1. Í október fór leikskólakennari í heimsókn í 1. bekk til að fylgjast með starfinu þar. Síðan komu grunnskólakennari og sérkennari til að fylgjast með starfi elstu nemenda leikskólans. 2. Nemendum leikskólans var boðið í skoðunarferð um grunnskólann í janúar þar sem skólastjóri tók á móti þeim og sýndi þeim skólann. 3. 1. bekk var boðið á þorrablót í leikskólanum þar sem nemendur leikskólans skemmtu með leik og söng og boðið var upp á þorramat. 4. Í mars voru „skiptiheimsóknir“, þ.e. helmingur elstu nemenda leikskólans fór í grunnskólann og helmingur nemenda 1. bekkjar fór í leikskólann og voru þessar heimsóknir með viku millibili. 5. Leikskólanemendum var boðið á skemmtun hjá 1. bekk í grunnskólanum þar sem vetrarstarfið var kynnt, farið var í leiki og skemmt sér á útileiksvæðinu og í lokin voru bornar fram veitingar undir berum himni. 6. Hluti af samstarfinu var að börnin mættu í vorskóla dagana 12. – 16. maí frá kl: 13:00 - 15:00 og fór kennslan fram í húsnæði grunnskólans. Þeir sem sáu um kennsluna í vorskólanum voru leikskólakennari, væntanlegur kennari 1. bekkjar og sérkennari grunnskólans. Í vetur var fundað reglulega um samstarfið, það metið og síðan breytt og bætt eftir þörfum. Á lokafundinum var rætt um mikilvægi þessa samstarfs og hvað það auðveldar nemendum skólaskiptin og eykur á öryggi þeirra. Samstarfshópurinn er ánægður með hversu vel hefur gengið að brúa bilið og heldur ótrauður áfram á sömu braut. Útskrift frá leikskólanum Það er stór stund þegar eitt skólastig er kvatt og annað tekur við. Miðvikudaginn 28. maí útskrifuðust elstu nemendurnir (21 barn, f. 1997) frá leikskólanum Sólvöllum. Þar með lauk skólagöngunni á fyrsta skólastiginu. Útskriftin fór fram í Samkomuhúsinu, nemendur fengu hatta sem þeir höfðu málað, möppur sem innihalda ljósmyndir af þeim í leik og starfi, sjálfsmyndir og teikningar af fjölskyldum þeirra fyrir hvert ár sem þeir hafa verið í leikskólanum. Einnig verkefni sem þeir unnu í „elstubarnastundum“ í vetur. Eftir útskriftina var farið í skrúðgöngu út í veitingahúsið Kaffi 59 þar sem boðið var í flatbökuveislu. Daginn áður fóru þessir nemendur ásamt kennurum í útskriftarferð út í Sandvík þar sem þeir voru allan daginn í blíðskaparveðri og undu sér við leiki, sull og gönguferðir. Með kveðju frá Leikskólanum Sólvöllum og Grunnskólanum í Grundarfirði Brúum bilið, samstarf Leikskólans Sólvalla og Grunnskóla Grundarfjarðar DANMERKURHEIMSÓKN 19

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.