Litli Bergþór - 01.07.2016, Qupperneq 32

Litli Bergþór - 01.07.2016, Qupperneq 32
32 Litli-Bergþór Það hefur verið góður gangur í starfi Lionsklúbbsins Geysis í Biskupstungum að undanförnu. Við leggjum mikla áherslu á að njóta góðra samverustunda við leik og störf. Ef afrakstur þeirra stunda og verkefna er samfélaginu nær og fjær til gagns, þá er tilgangi starfsins okkar náð. Aðalverkefni okkar eru að afla fjár sem síðan er útdeilt til góðra mála, þar sem stuðnings er þörf. Reglulegir fundir okkar eru haldnir tvisvar í mánuði frá september fram í maí. Á fundina koma gjarnan fyrirlesarar sem færa okkur fróðleik. Oft bregða klúbbfélagar undir sig betri fætinum og fara af bæ, oftast innan uppsveitamarkanna. Þá hefur atvinnurekstri á ýmsum sviðum verið gerð góð skil, þau fyrirtæki sem við höfum heimsótt eru orðin býsna mörg. Klúbbfélagar eru því orðnir nokkuð fróðir um atvinnulífið á svæðinu. Dæmi um það eru heimsóknir í mars síðastliðnum í Límtrésverksmiðjuna á Flúðum og í tæknivætt fjós á Reykjum á Skeiðum. Það er dýrmætt fyrir okkur hve viðtökurnar eru ávallt góðar þar sem við leitum eftir að tekið verði á móti okkur. Atburðir og fjáröflun Árviss atburður í starfi klúbbsins er að koma saman kvöldið fyrir þorraþrælinn í Aratungu til að borða hrossaket og njóta söngs og skemmtunar. Það kvöld ber heitið Villimannakvöld. Nafngiftin er til komin vegna þess að menn taka þar svo hraustlega til matar síns að það flokkast undir villimennsku. Þarna hafa komið saman á annað hundrað karlar. Auk okkar sjálfra mæta þar vinir og félagar úr öðrum Lionsklúbbum. Þessi samkoma er stærsta fjáröflunarverkefnið okkar. Færum við öllum þeim sem hafa gefið okkur happdrættisvinninga og stutt okkur með öðrum hætti, bestu þakkir. Á hverju hausti förum við með mökum í dagsferð og fórum síðastliðið haust um Flóann. Innansveitarsímaskrá kemur út um þessar mundir rétt eins og tíðkast hefur á tveggja ára fresti í rúm tuttugu ár. Við höfum selt í hana auglýsingar með góðum árangri. Í mörg ár hafa klúbbfélagar og fjölskyldumeðlimir þeirra farið í Rótarmannatorfur undir Bláfelli á Tungnamannaafrétti. Þessi ferð hefur verið farin í byrjun júní og gróðursettar trjáplöntur, oftast birki sem Landgræðslufélag Biskupstungna hefur látið okkur í té. Árangur af því starfi er nokkuð sem við erum drjúgir yfir og er hann meiri en við bjuggumst við í upphafi. Annað hefðbundið vorverk hjá okkur er að hreinsa rusl meðfram vegum eftir endilöngu sveitarfélaginu, auk þess höfum við gripið í að vinna tilfallandi verkefni fyrir sveitarfélagið og aðra. Á árum áður var aðalfjáröflunin sú að gengið var í hús og boðnar ljósaperur og klósettpappír, sá siður hefur verið aflagður. Lionsstarf í Tungunum Frá Villimannakvöldi í Aratungu.

x

Litli Bergþór

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.