Spássían


Spássían - 2012, Qupperneq 43

Spássían - 2012, Qupperneq 43
43 MÁLARINN, nýjasta skáldsaga Ólafs Gunnarssonar, hefst á opnunarkvöldi fimmtándu myndlistarsýningar aðalsöguhetjunnar, landslagsmálarans Davíðs Þorvalds- sonar. Salurinn er fullur af fólki, skvaldri, hlátri, snittum og víni og málverkin seljast líkt og heitar lummur – eins og alltaf. Verkum hans hefur verið líkt við falleg konfektkassalok og þau falla að smekk alþýðunnar en um leið hefur Davíð aldrei hlotið náð fyrir augum menningarelítunnar. Um þetta snýst Málarinn; ófullnægða þrá manns sem tekur málin í sínar hendur, allt fer í handaskolum og fyrr en varir hefur hann misst tökin á öllu og öllum.  Davíð hefur aldrei, að eigin mati, verið metinn að verðleikum sem listamaður og um leið er hann bitur yfir að hafa „neyðst“ til að fórna listrænum metnaði sínum fyrir fjölskylduna, konuna, tengdaföðurinn og húsið. Þegar honum er svo hafnað enn einu sinni af menningarelítu borgarinnar er honum nóg boðið. Hann tekur til sinna ráða, falsar málverk eftir Kjarval og selur fyrir fúlgur fjár og þar með hefst sagan fyrir alvöru. Sögusviðið er níundi áratugur síðustu aldar og inn í fölsunarmálið flækjast fjárglæframenn þess tíma, einkum þeir sem komu að Hafskipsmálinu svokallaða og það rímar vel við góðæris- og hrunumræðu dagsins í dag. Fjallað er um þá sem svíkja og pretta og fórnarlömb þeirra en einhvern veginn er enginn í sögunni alsaklaus, nema kannski dóttir málarans.  Málarinn er feikna dramatísk og óhefðbundin glæpasaga og lesandinn fylgir sögumanni spenntur eftir öllum þeim krákustígum og slóðum sem hann fetar. Aðalatriðið er þó aldrei lausn glæpsins (eða glæpanna) heldur sú leið sem málarinn velur og þær lausnir sem hann telur að muni bjarga sér. Þetta er stór skáldsaga og það eru persónurnar líka; lýsingarnar á þeim, gjörðir þeirra og tilfinningar. Persónusköpunin er þó það sem leggja hefði mátt meiri natni við, huga meira að hinu smáa svo sagan yrði trúverðugri og persónurnar stæðu lesandanum nær. Þetta á einkum við um sögu málarans og konu hans, Kolbrúnar. Mörgum árum áður en sagan gerist drukknaði ungur sonur þeirra í drullupolli fyrir utan húsið á meðan Davíð sat að sumbli með vinum sínum. Kolbrún hefur fyrirgefið honum, eða það segir hún, og Davíð reynir að sannfæra sig um að það sé rétt. Tengdafaðirinn hefur hins vegar ekki gert það, auk þess sem hann hefur aldrei haft mikið álit á Davíð. Þennan þráð hefði mátt elta betur sem og samband hjónanna, einkum Davíðs, við dótturina Söndru. Flétta bókarinnar er þó snjöll og heldur vissulega athygli lesandans – en það sem kemur eflaust mest á óvart er dramatískur og harmrænn endirinn.  Draumur landslagsmálarans um að vera allt í senn elskaður, virtur og dáður leiðir hann inn í heim hinna spilltu og ríku en leiðin sem hann velur er hvorki saklaus né göfug. Málarinn er saga um glæpi, spillingu og morð en kannski er þetta fyrst og fremst persónulegur harmleikur eins manns og dæmisaga um hversu langt maðurinn getur seilst til að öðlast það sem hann telur sér trú um að hann eigi rétt á. Harmur á striga Eftir Helgu Birgisdóttur Ólafur Gunnarsson. Málarinn. PV. 2012. Ómar Guðjónsson er einn af færari gítarleikurum Íslands, hefur starfað í hljómsveitum og spilað með hinum ýmsu listamönnum eða fyrir þá. Löngu var orðið tímabært að hann gæfi út eigin efni, undir eigin nafni.  Platan Útí geim vex við hlustun. Fyrsta lagið „Bankað“, sem er eitt af bestu lögum þessa árs, opnar plötuna á krafti. Krafturinn helst aðeins áfram, en stemmir sig svo niður í eitthvað rólegt og hugljúft. Ég er misánægð með diskinn. Fyrstu vikuna hlustaði ég eingöngu á hann í bílnum og fannst þá aðeins hluti laganna góður (og nokkur þeirra frekar leiðinleg) en eftir að ég tók diskinn úr bílnum og hlustaði á hann í rólegheitum og við betri aðstæður er hann bara skrambi góður. Ljúfari tónar eins og í „Það marrar“ njóta sín greinilega ekki á rúntinum. Allt er vel gert, spilamennskan frábær og textar góðir og áhugaverðir. Diskurinn líður að einhverju leyti fyrir uppröðun lagana, en það er örugglega bara minn smekkur. Það er gaman að fylgjast með Ómari spila á tónleikum en ekki er hægt að ætlast til að sá eiginleiki skili sér á hljóði eingöngu. Það tekst næstum ef hlustað er á diskinn við góðar aðstæður. Ef þú hefur gaman af Ómari prufaðu þá: ADHD, Morphine og Tom Waits Ómar Guðjónsson Útí geim

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.