Börn og menning - 01.04.2014, Blaðsíða 23

Börn og menning - 01.04.2014, Blaðsíða 23
Vó, pabbi! HALASTJÖR Halastjömur eru eiginlega bara SKÍTUGIR SNJÓBOLTAR. Kjartan Örn Haraldsson ANTOl Visindabók Villa, eftir Vilhelm Anton Jónsson, vakti verðskuldaða athygli i jólabókaflóðinu síðustu jól. Bókin er í hópi mestseldu bóka síðasta árs og vartilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna í hinum nýja flokki barnabóka. Mikið var fjallað um bókina á samskiptavefjum, til dæmis á Facebook, og mjög margir foreldrar sögðu þar frá samverustundum með börnum sínum vi'ð lestur bókarinnar og framkvæmd tilrauna upp úr henni. Þegar bókin er lesin skín I gegn að höfundur er einlægur áhugamaður um vísindi og jafneinlægur áhugamaður um að auka áhuga barna á vísindum. Bókin byggir á spurningunni „af hverju?" og Vilhelm hvetur lesandann til að nota þessa spurningu sem oftast og bendir á mikilvægi þess að vera forvitinn. Hann hvetur börn til að spyrja spurninga og leita sér þekkingar og þessi nálgun höfundar, að höfða til forvitni lesenda, gengur vel upp. Öll okkar vitneskja um alheiminn, sólkerfið okkar, vetrarbrautina og fleira hefur fengist vegna forvitni einstaklinga. Þessi forvitni gerði okkur jafnvel kleift að senda mannað geimfar til tunglsins. Bókin skiptist í tvo hluta, annars vegar er fjallað um hinar ýmsu staðreyndir alheimsins og hins vegar um einfaldar tilraunir sem auðvelt er að framkvæma með samvinnu foreldra og barna. Einnig er fjallað um líffræðileg fyrirbæri eins og heilann, DNA, beinin og blóðið. Stjarnfræðileg fyrirbæri eins og svarthol, halastjörnur og geimferðir. Eðlisfræðileg fyrirbæri eins og þyngdarkraft, rafmagn, Ijós og hljóð. Jafnvel um heimspeki. Umfjöllunin er stutt og hnitmiðuð og samspil texta og mynda er Ijómandi gott. Tilraunirnar, sem eru tuttugu talsins, eru einfaldar og af þeim toga að það þarf ekki mikinn undirbúning til að framkvæma þær. Hlutir sem notaðir eru í tilraunirnar eru til á flestum heimilum svo ekki þarf að fara í innkaupaferðir eða hafa af þessu mikinn kostnað. Hönnun og uppsetning bókarinnar er að mínu mati mjög vel heppnuð, aðlaðandi og nútímaleg uppsetning, og blanda af skemmtilega teiknuðum myndum og texta með smá húmor gerir hana aðgengilega. Forsíðumyndin er einnig mjög flott og kveikir forvitni. Texti bókarinnar er auðlesinn; höfundur hefur einkennandi stíl og góða þekkingu á vísindum. Efnisatriði bókarinnar eru í samræmi við það efni sem kennt er í grunnskólum landsins. Ef til vill er það vegna þess að ég starfa sem náttúrufræðikennari að notkun nokkurra hugtaka í textanum er mér hugleikin. ( textanum um svarthol er til dæmis notað orðið aðdráttarafl þegar réttara er að nota hugtakið þyngdarkraftur. Það virðist almennt að þýðingin á „force of gravity" eða „gravity" sé allt of oft aðdráttarafl eða þyngdarafl. Afl er nefnilega hugtak í eðlisfræði sem tengist orku og tíma, oft notað í tengslum við umfjöllun um samsettar vélar eins og bílvél. Annað atriði sem vert er að nefna er að í kaflanum um þyngdarkraftinn, þar sem heildarumfjöllun höfundar um fyrirbærið er annars mjög góð, vakti þessi setning athygli mína: Massi er þyngd hlutar, alveg sama hvar hann er í alheiminum. Þetta er ekki rétt, massi og þyngd eru ólík hugtök í eðlisfræði. Massi er hugtak þar sem einingin kílógramm (kg) er notuð til að sýna stærðir hans, á meðan þyngd er kraftur, mældur í njútonum (N). Það sem ég vil benda á er að þegar verið er að læra vísindagreinar eins og efnafræði og eðlisfræði er það eins og að læra nýtt tungumál, tungumál þar sem hugtök eru skilgreind og merking þekkt. Mjög margar rannsóknir benda til þess að forhugmyndir nemenda í vísindum geti flækt fyrir þeim skilning á efninu, til dæmis forhugmyndir um merkingu hugtaka. Ég hvet þess vegna höfund til að láta lesa texta næstu bókar vandlega til að fyrirbyggja rugling á hugtökum. Vísindabók Villa er mjög vel heppnuð bók. Ég las hana með fimm ára dóttur minni sem skemmti sér konunglega yfir textanum og tilraununum. í einni tilrauninni þar sem við vorum að vinna með mjög einfaldan hlut, glas á hvolfi, var einkunn hennar eftirfarandi: „Vó, pabbi!" Þetta segir allt sem segja þarf. Tilraunirnar eru vel valdar, einfaldar og góður grundvöllur fyrir samverustund barna og foreldra. Ég hefði sleppt umfjöllun um flekakenninguna og einfaldað textann um rafmagn og Ijós en bókin var mjög góð viðbót við barnabókaflóðið síðustu jól og sýndi fram á að það er pláss fyrir slíkar bókmenntir fyrir börn. Ég tel öruggt að bókin auki áhuga barna á vísindum og geri það á jákvæðan hátt. Þá finnst mér til fyrirmyndar þegar skrifaðar eru bækur sem höfða bæði til barna og foreldra eins og Visindabók Villa svo sannarlega gerir. Ég hvet því Vilhelm eindregið til að skrifa aðra bók í svipuðum anda. Höfundur er grunnskólakennari við Háaleitisskóla

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.