Morgunblaðið - 24.10.1980, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 24.10.1980, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 24. OKTÓBER 1980 Minning: Jón Gestur Vigfús son Hafnarfirði Afi minn Jón Gestur Vigfússon lést þann 15. október eftir langa og erfiða legu. Afi og amma, Sesselja Magnús- dóttir frá Skuld dáin 29. maí 1975 eignuðust 13 börn, en 12 eru á lífi, barnabörnin eru 36 og barna- barnabörnin eru 37. Þau stóðu sem bjarg á erfiðum tímum með stóra barnahópinn sinn en enginn þurfti að líða skort, slík var eljan í þeim, að sjá sér og sínum farborða. Þau voru hjón sem allsstaðar sópaði af og var afi hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom. Þrátt fyrir daglegt amstur hafði afi tíma í margskonar félagsstarf. Hann hafði mjög góða söngrödd og söng í áraraðir bæði í karla- kórnum Þröstum og í kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju. Einnig lék hann í Leikfélagi Hafnarfjarðar. Hagyrðingur var hann góður og ekki ósjaldan kom hann með afmælisvísu sem ávallt yljaði hjartarótunum. Seinustu 15 árin á meðan starfs- kraftar leyfðu starfaði hann sem gjaldkeri í Sparisjóði Hafnar- fjarðar. " Árið 1925 hófust þau handa við plöntun trjáa í Sléttuhlíð og var það gert af framsýni og dugnaði, en þar er nú skógivaxin hlíð, einn unaðsreitur, sem mun ávallt minna okkur, niðja þeirra, á þau og allar þær unaðsstundir sem við áttum með þeim þar. Að leiðarlokum vil ég þakka þeim fyrir allar góðu stundirnar. Martfs er aó minnaNt. Margs er aA þakka. Gudi sé lof fyrir HAna tid. Marics er aö minnast. Mar»(s er aö sakna. Guð þerri trejcatárin stríð. (Vald. Briem.) Hvíli_þau í friði. Astríður Gunnarsdóttir. Hann Jón afi er dáinn. Hann dó á elli- og hjúkrunarheimilinu Sól- vangi í Hafnarfirði 14. október síðastliðinn. Okkur langar til að minnast hans og ömmu okkar Sesselju Magnúsdottur, sem dó 29. maí 1975. Á tímamótum sem þessum leit- ar hugurinn ósjálfrátt til liðinna ára, margra liðinna ára. Fyrst koma í hugann margar ljúfar minningar úr Sléttuhlíð frá því við vorum börn. Þar áttum við mörg sumur saman innan um allar plönturnar hans afa, sem hann kenndi okkur að virða og taka tillit til, eins og alls annars sem lífsanda dregur. Það er gam- an að minnast þess þegar hann hlúði að eða gróðursetti plönturn- ar sínar, það var engu líkara en að hann væri með lítil börn í höndun- um sínum, alltaf hlýr, alltaf mild- ur. Engu máli skipti hvenær dags okkur datt í hug að skreppa inn í Hlíð til ,afa og ömmu, alltaf var hann úti í lóð eitthvað að dunda. Þar undum við langtímum saman, með afa í lóðinni eða inni í bústað hjá ömmu, sem alltaf átti gott kex í geymslunni sinni og eitthvað gott að súpa á handa litlum munnum. Amma átti sér blómabeð, þar sem hún ræktaði mikið af alls konar blómum, sem hún hlúði að á meðan afi hlúði að trjánum sínum. Þarna ræktaði hún margar teg- undir og meðal annars stóra breiðu af Morgunfrúm sem hún færði einu okkar alltaf stóran vönd af í afmælisgjöf snemma hausts á hverju ári, þær voru eiginlega ómissandi Morgunfrúrn- ar hennar Sessu ömmu. Okkur er minnisstætt hversu samheldin og hlý afi og amma voru alltaf hvort við annað. Afi átti afmæli á annan dag jóla og á þeim degi komu öll börnin þeirra með sín börn og seinna barnabörn í heimsókn á Suðurgöt- una. Þessar heimsóknir gerðu jól- in að meiri hátíð en ella. I stofunni hjá afa og ömmu stóð orgel, sem alltaf var notað til undirleiks þegar sungnir voru jólasálmar í stofunni á Suðurgötunni. Þarna var mikil hátíðarstemmning sem er ógleymanleg þeim sem við- staddur var. Það var reyndar alveg sama hvenær við komum í heimsókn til ömmu og afa á Suðurgötunni. Þau höfðu alltaf góðan tíma fyrir okkur, hún alltaf svo hlý og blíð, hann söng oftast fyrir okkur og sagði okkur sögur. Afi kunni mörg lög og margar sögur, og oft þegar við sátum á hnénu hans og horfðum út á höfnina, þá varð til lítil vísa um afastrák eða afastelpu. Nú erum við orðin fullorðið fólk, en við söknum afa og ömmu. Við vitum að nú una þau saman á ný, sæl yfir endurfundunum. Það mildar söknuð okkar núna og við kveðjum afa með þökk í hjarta fyrir það sem var og geymist í minningunni um ókomin ár. Ella, Inga, Sessa og Svenni. Þann 15. okt. sl. lést einn af elstu borgurum Hafnarfjarðar, Jón Gestur Vigfússon, fyrrv. sparisjóðsgjaldkeri, eftir langvinn og á stundum þungbær veikindi, nær 88 ára að aldri. Jón Gestur var fæddur 26. des. 1892, sonur hjónanna Steinunnar Jónsdóttur frá Akrakoti á Álfta- nesi og Vigfúsar Gestssonar frá Forsæti í Flóa. Bjó hann alla sína tíð í Hafnarfirði. Tiltölulega ungur fór Jón Gest- ur að vinna við verslunar- og skrifstofustörf og má segja að á því sviði hafi hans aðalstarf verið á lífsleiðinni. Var hann frábær- lega vel látinn, hvort heldur við búðar- eða skrifstofustörfin. Hon- um gátu báðir treyst, sá sem hann vann fyrir og viðskiptavinurinn. Bókhaldsbækur færðar af Jóni Gesti þóttu til fyrirmyndar vegna afburða vandaðrar rithandar og snyrtilegs frágangs og báru Jóni fagurt vitni. Árið 1947 réðist Jón Gestur til Sparisjóðs Hafnarfjarðar sem gjaldkeri. Þar starfaði hann um 18 ára skeið eða til ársins 1965 er hann varð að láta af störfum sökum vaxandi sjóndepru og ald- urs. Vann hann störf sín þar með mikilli prýði. Er þáttur hans í vexti og viðgangi Sparisjóðsins þakkaður og metinn. En Jón Gestur kom víðar við í sögu Hafnarfjarðar en í þeim þáttum er lutu að brauðstritinu. Hann var mjög félagslyndur og tók um margra ára skeið virkan þátt í leiklistar- og söngmálalífi bæjarins. Hann var einnig kirkj- unnar maður og naut Hafnar- fjarðarkirkja um margra ára skeið starfs hans og ekki síst kirkjukórinn. En sennilega hefur skógræktin og uppgræðsla lands- ins verið hans mesta áhugamál. Er hinn yndislegi skógar- og gróðurlundur hans í Sléttuhlíð, ræktaður upp úr moldarbörðum og gróðurlausum melum, veglegur minnisvarði um starf hans á því sviði. En það var með Jón Gest og skapferli hans að hann vildi ekki vera einn á'ferð. Árið 1916 kvænt- ist hann hinni ágætustu konu, Sesselju Magnúsdóttur frá Skuld en hún lést árið 1975. Börn þeirra eru 12 á lífi en 1 barn misstu þau á 1. ári. í fjölskyldu þeirra Jóns Gests og Sesselju myndaðist óvenju sterkt fjölskyldulíf þar sem samheldnin og samstillingin sat í fyrirrúmi. Með Jóni Gesti er mætur maður genginn, sem með starfi sínu í hinum ýmsu þáttum atvinnulífs- ins og félagsmála var í hópi þeirra manna er um áratuga skeið settu svip sinn á bæjarlífið í Hafnar- firði. Þó að senn séu 15 ár liðin frá því að Jón Gestur hætti störfum hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar ber nafn hans og störf þar oft á góma og er hans þar minnst með virðingu og þakklæti. Á kveðjustundu sendum við börnum þeirra hjóna, Jóns og Sesselju, svo og öðrum ættingjum þeirra, innilegar samúðarkveðjur. Guðmundur Guðmundsson. í dag verður til moldar borinn frá Hafnarfjarðarkirkju Jón Gest- ur Vigfússon, fyrrv. sparisjóðs- gjaldkeri, en hann lézt að Sólvangi 14. þ.m. 88 ára að aldri. Með Jóni Gesti Vigfússyni er genginn Hafnfirðingur, sem um áratugaskeið setti mjög svip sinn á bæjarfélagið. Um langan tíma var hann mikilvirkur þátttakandi í félags- og menningarlífi bæjar- ins og skilur þar eftir sig spor, sem seint verða afmáð. Bera þar hæst störf hans á sviði skógrækt- armála, en segja má að hann hafi þar verið í fararbroddi á meðan heilsan entist. Naut hann þar mikils stuðnings fjölskyldu sinn- ar, ekki sízt konu sinnar Sesselju Magnúsdóttur frá Skuld, en hún lézt fyrir fimm árum. Þjóðmálin lét Jón einnig til sín taka. Var hann þar eindreginn fylgismaður Sjálfstæðisstefnunn- ar og lét ekki sitt eftir liggja til þess að efla hana og forystumenn hennar til áhrifa. Verzlunar- og viðskiptastörf hafði Jón að ævistarfi. Síðustu 18 ár starfsævi sinnar var hann gjaldkeri Sparisjóðs Hafnarfjarð- ar. Þar kom sér vel vandvirkni Jóns og samvizkusemi og það hvílíkur listaskrifari hann var. Margar stundirnar var unnið þar án þess að þiggja fyrir það aukagreiðslu og eru Jóni Gesti nú að leiðarlokum þökkuð ómetanleg og óeigingjörn störf hans hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Hafnfirðingar kveðja merkan borgara, biðja honum guðs bless- unar og senda fjölskyldu hans samúðarkveðjur. Matthías Á. Mathiesen Jón Gestur Vigfússon, einn fremsti forgöngumaður skógrækt- ar í Hafnarfirði er látinn í hárri elli. Jón Gestur var traustur maður og röskur, enda mikils metinn af öllum sem með honum störfuðu. Þegar Skógræktarfélag Hafnar- fjarðar var stofnað haustið 1946 vann Jón vel og dyggilega að undirbúningi þess og kom það í hans hlut á stofnfundinum að rita fundargerðina og þá þegar var hann kosinn í stjórn félagsins. Síðar er stjórnin skipti með sér verkum var þess farið á leit við hann að taka að sér ritarastarfið sem hann gerði. Þessu starfi gegndi hann samfellt 10 fyrstu árin með mikilli nákvæmni og sinni fögru rithönd uns hann tók að sér störf formanns og gegndi því í tvö ár, í stjórn félagsins sat hann eftir það og allt þar til hann baðst undan endurkosningu sök- um heilsubrests. Einn þeirra mörgu kosta sem Jón var búinn var hinn hressilegi og glaði andi sem fylgdi honum. í starfi hvatti hann til fram- kvæmda og bjartsýni og á fundum okkar var hann ætíð hrókur alls fagnaðar og aflvaki hins góða og glaða félagsanda. Ég minnist þess að eftir að Jón hætti að geta sótt fundi okkar hve marga og innilega kveðjuna ég var beðinn fyrir til hans frá vinum hans víðsvegar af landinu. Öll þau miklu og fórnfúsu störf í þágu Skógræktarfélags Hafnar- fjarðar þökkum við Hafnfirð- ingar, af heilum hug. Hér að framan hefur nú verið rakinn í stórum dráttum hinn félagslegi þáttur Jóns Gests að skógræktarmálum og er nú komið að öðrum ekki veigaminni þætti og á ég þar við landnám hans og trjárækt í Sléttuhlíð sem sýna og sanna hve skógræktarhugsjónin var hans mikið hjartans mál. Það mun hafa verið árið 1925 sem Jón nam land þarna. Var þá öll hlíðin að mestu uppblásin og sundur skorin rofabörðum en á stöku stað lítilsháttar birkikjarr. Á þessum fyrstu árum Jóns í Sléttuhlíð var mjög erfitt að fá trjáplöntur nema þá helst reyni og björk en árið 1937 mun Jón hafa fengið fyrstu sitkagreniplönturn- ar sem setja nú mestan svip á þennan fagra lund þó aðrar trjá- tegundir skarti þar einnig vel. Hver sá bær sem ætlar sér að ala upp heilbrigða og hrausta borgara kemst ekki af með götur einar og steinlögð torg, hann þarfnast ekki síður þess hreina lífslofts sem gróðurlundir veita. Takmark Hafnfirðinga hlýtur því að vera að breyta hæfilega mikl- um hluta bæjarlandsins í iðgræna trjálundi til skjóls, hollustu og fegurðar fyrir þá er í framtíðinni byggja þennan bæ, þar hefur Jón Gestur vísað veginn, okkar hinna er að fylgja fordæmi hans. ólafur Vilhjálmsson + Eiginkona mín, ELÍN M. EINARSDÓTTIR, Breiöabólstaö, veröur jarösungin frá Prestbakkakirkju á Síöu, laugardaginn 25. október kl. 14. Fyrir hönd barna, tengdabarna og barnabarna, Matthías Ölafsson. t Móöir okkar, tengdamóöir, amma og langamma, GUDRÚN SIGRÍÐUR JÓNSDÓTTIR frá Fagurhóli, til heimilis aö Hólagötu 41, Njarövík, sem andaöist á sjúkrahúsi Keflavíkur 17. október, veröur jarösungin frá Hvalsneskirkju, laugardaginn 25. október kl. 2. Dœtur, tengdasynir, barnabörn og barnabarnabörn. f Þökkum auösýnda samúö og vinarhug viö andlát og jaröarför fööur okkar, tengdafööur, afa og langafa, HANNESAR HJARTARSONAR, Herjólfsstööum, Alftaveri. Hjörtur Hannesson, Vigdía Magnúsdóttir, Sigurrós Hannesdóttir, Báróur Sigurósson, barnabörn og barnabarnabörn. + Alúöarþakkir fyrir sýnda vináttu viö andlát og útför fööur okkar, tengdafööur, afa og langafa, OLE CHR. ANDREASSEN, vélstjóra. Sofie Andreassen Markan, Rolf Markan, Hugo Andreassen, Guórún Karlsdóttir, Erling Andreassen, Kristín Egilsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. + Faöir okkar, ÞORSTEINN JÓHANNSSON frá Götu, Árskógsströnd, til heimilis aö Kárhóli, Reykjadal, veröur jarösunginn frá Stærri-Árskógi, Árskógsströnd, laugardag- inn 25. október kl. 2. Börn og tengdabörn. Afmælis- og minningargreinar ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minningargreinar verða að berast blaðinu með góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í miðvikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. Greinar mega ekki vera í sendibréfsformi. Þess skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frumort ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíðum Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð og með góðu línubili.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.