Morgunblaðið - 20.02.1983, Blaðsíða 41
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 20. FEBRÚAR 1983
41
slóðum. Einn þekktasti hópfarar-
stjóri á íslandi í dag. Traustur,
fróður og allra manna skemmti-
legastur og náttúruskoðari af
guðsnáð.
Félagsmál hverskonar lét Jón
sig miklu skipta. Allt frá barns-
aldri, má segja, lenti hann í hring-
iðu þeirra og jafnan í forystusveit
og sómdi sér þar vel, enda fæddur
félagsmálamaður og drakk þau í
sig með móðurmjólkinni heima á
Álfadal. Bjarni fvarsson var hug-
sjónamaður, maður félagsmála og
samstarfs, sem frelsishreyfing
aldamótanna skilaði inn í íslenzkt
þjóðlíf, ásamt fleiri góðum
mönnum.
Hann var góður fundarmaður,
orðsnjall í bezta lagi er hann steig
í ræðustól á mannþingum. Ágætur
upplesari og orðgnótt íslenzks
máls lék honum á tungu. Þau hjón
voru samstiga um að skapa menn-
ingarheimili í orðsins fyllstu
merkingu.
Þar var ekki auður í garði,
fremur en hjá ungu fólki, sem
stofnaði til heimilishalds í skugga
nýafstaðinnar heimsstyrjaldar.
En þau hjón létu aldrei
brauðstritið og baslið smækka sig,
eða birgja sólarsýn. Úr slíkum
jarðvegi var Jón sprottinn.
Snertispölur var milli heimila
okkar. Lítil bergvatnsá skipti
löndum, sem aldrei óx svo, að hún
hindraði vinafundi.
Hann átti heima vestan en ég
austan megin dalsins. Rótgróin
vinátta var milli heimilanna, sem
hefir gengið í erfðir.
Feður okkar voru aldavinir, sem
aldrei bar skugga á. Þeim var oft
skrafdrjúgt um mál líðandi stund-
ar, hvort sem þau voru fjær eða
nær. Hvar sem var voru þau rædd,
yfir kaffibolla eða hitzt úti í tún-
fæti. Ég minnist margra slíkra
samfunda og samvinnu. Ég minn-
ist vornáttanna sem þeir plægðu
kálgarðana. Veðrið var gott og það
lá ef til vill ekki mjög mikið á. Það
voru teknar góðar hvíldir eftir
nokkra plógstrengi, setzt undir
garðvegginn, tekin upp tóbaks-
pontan, henni slegið í girðingar-
staur, fast eða laust eftir því
hvaða mál var á dagskrá. Hvort
það voru sveitarmál, einhver um-
svif Jónasar frá Hriflu í stjórn-
málunum, eða þá fall einhvers
keisaradæmisins úti í heimi. Eða
öðrum hafi dottið í hug snjöll vísa,
sem þurfti að bera undir hinn. Við
Jón vorum nærri og hlustuðum á.
Sátum á kálgarðsveggnum,
snoðklipptir, í stuttbuxum, ef til
vill á nýbryddum kúskinnsskóm
og horfðum á hitamóðuna af hon-
um Lýsing og honum Glóa líða út í
milda vornóttina.
Tíminn leið fljótt. Tími bernsku
og leikja — tími horna og skelja
— tími hjásetu og smalamennsku.
Ég held að alltaf hafi verið sól-
skin á daginn og á eftir komu
tunglskinsþjartar nætur. Áður en
varði, voru þernskuárin að baki.
Tími æsku og ungdómsára rið-
inn í garð. Tími starfs og leikja.
Kappræður stóðu fram á nótt á
ungmennafélagsfundum og skrif-
aðar voru heimspekilegar ritgerð-
ir í félagsblaðið „Ingjald".
Við vorum farnir að eiga vingott
við ljóðadísina á laun og hún
hlustaði stundum á okkur. Smá-
kvæði urðu til um sólina og vorið
um fífil í túni og fjólu í lautu —
um lind í grænum hvammi og
dögg vornæturinnar að ógleymdri,
ástinni.
Angurvær ljóð urðu til á síð-
kvöldum þegar heiðlóan var komin
af heiðum og hópaði sig í tún-
fætinum. Hálfur máni kókti lágt á
suðurhimni, og senn leið að þeim
tíma er kaupakonur sveitarinnar
hyrfu á braut brúnar á vanga og
með blik í augum eftir sólsterkju
sumarsins.
Það slógu lítil hjörtu í ungum
brjóstum í algleymis unaði.
Hljómþýður strengur ómaði í
hljómkviðu lífsins.
Við urðum samferða í Héraðs-
skólann á Núpi og áttum þar sam-
an tvo vetur með elskulegu ungu
fólki og ógleymanlegum kennur-
um.
Tími náms, starfs, þroska og
nýrra viðhorfa til lífsins. Oft urðu
sunnudagskvöldin of stutt við
kappræður á Gróandafundum hjá
þessu unga fólki og við urðum að
fá hluta af nóttinni líka. Eftirlæt-
isnámsgrein okkar Jóns var ís-
lenzka og íslenzkur stíll.
Ótrúlega oft gerðist það hjá
okkur félögum að undir stílnum
stóð skrifað með rauðu bleki með
hendi séra Eiríks: Góður stíll.
Eftir veruna á Núpi fóru breytt-
ir tímar í hönd. Ár og dagar liðu
milli samfunda. Alvara lífsins og
skyldur stóðu okkur í fang. Við
urðum heimilisfeður, eignuðumst
konur og börn. Ég var kyrr í sveit-
inni heima, en Jón átti sitt heimili
og sinna í Reykjavík.
Kona hans er Lilja Maríusdóttir
ættuð austan úr Fljótshlíð.
Kona mikillar gerðar. Falleg
kona, með augu sem eru speglar
göfugrar sálar. Þau eiga sex börn,
Eyjólf, Bjarna, Vigdísi, Þuríði,
Guðmund og Björn. Ég og fjöl-
skylda mín höfum barið þar að
dyrum á Langholtsvegi 131 hvort
sem verið hefir á nóttu eða degi
þegar við höfum verið á ferð hér
syðra, enda þau skilyrði sett af
þeim hjónum.
Þangað hefir verið gott að
koma. Andi menningar og mann-
dóms, sem við þekktum frá Álfa-
dal, var þar í öndvegi. Nú hafði
Lilja bætt lítríku ívafi í mynstrið.
Hann Bjarni og hún Jóna voru þar
í heimili og áttu friðsælt ævikvöld.
Enn var gott að ræða við þau og
rifja upp gömul kynni.
Fyrir nokkrum árum sat ég hjá
Jónu eina kvöldstund. Ég fór rík-
ari af þeim fundi. I sjóð minn-
inganna hafði bætzt fögur perla.
Og þó seinna varð mér það enn
betur ljóst, því að þrem dögum
liðnum var hún öll. Margskonar
samskipti áttum við Jón eftir að
hann flutti suður. Hann var góður
sonur sinna átthaga og þar stóðu
rætur hans djúpt, og slitnuðu
aldrei.
Á einum stað segir hann í kvæði
sem hann minnist átthaganna:
Knn eitt ég geymi ennþá
og aldrei týna skal,
minninganna myndin —
myndin af Álfadal.
Margar ferðir fórum við Jón nú
á seinni árum um fjöll og hálendi
íslands. Margar ógleymanlegar
minningar eru frá þessum ferðum.
Ég minnist lítils hóps frá „Úti-
vist“ sem átti náttstað á Fjalla-
skaga. Ferð á Barða og undir
hrikabjörgum Hrafnaskálarnúps
með sama hópi. Nokkurra daga
ferð um miðhálendi íslands sem
við Jón fórum saman ásamt konu
minni.
Ylríkar minningar eigum við frá
þeirri ferð sem seint mun gleym-
ast. Um sólris á Snjóöldufjall-
garði, — um kvöld í Jökuldal í
Tungnafellsjökli — um tjaldstað í
Vonarskarði — um nótt í Herðu-
breiðarlindum.
Við ókum í Öskju um kvöldið.
Við höfðum tjaldað við Lindaána.
Við gengum um umhverfið meðan
gagnsætt kvöldhúmið lagðist yfir.
Um miðnætti sátum við í ásnum
við hraunjaðarinn. Strengir gít-
arsins voru hættir að hljóma.
Mildur kvöldsöngur okkar var að
deyja út í Álfaborgum hraunsins.
Menúett dagsins var þagnaður.
Huldumeyjar fóru á stjá. Lítil
heiðlóa kvakaði í melnum fyrir
neðan. Þröstur á grein söng fyrir
ofan. Það syntu óðinshanahjón á
lindinni við hraunið og spegluðust
í skyggðum vatnsfletinuro. r r,
í ásnum þarna rétt fyrir ofan er
gamall útilegumannabústaður.
Við lága veggi hans bar tvo
skugga. Voru það Eyvindur og
Halla sem héldust þarna í hend-
ur? Rísl kvöldsvalans var þagnað.
Það heyrðist ekki lengur í lind-
inni, sem kom undan hrauninu.
Við hlustuðum á þögn þagnarinn-
ar meðan hún beið nýs dags. Ef til
vill hafði fæðzt lítið ljóð þessa
höfugu síðsumarsnótt. Við höfðum
gleymt að ganga til hvílu.
Úm hvíta óttu höfðum við rís-
andi sól í fang. Við tókumst í
hendur eins og lítil börn og geng-
um í átt að tjaldinu okkar.
Döggbað liðinnar nætur féll
okkur um fætur. Það var angan í
lofti af maríustakki og votri eyr-
arrós.
Við fundum hjartað titra af
fögnuði yfir þeirri hamingju að
vera fædd í þessu landi. Jón var
maður draumlyndis og rómantík-
ur — maður fegurðar og heitra
tilfinninga.
í kvöld er ár síðan fundum
okkar bar síðast saman.
Hvorugum okkar hefir þá boðið
í grun, að þetta yrði okkar síðasti
fundur. Á margt var minnst. Far-
ið til baka yfir árin og gengið á vit
gamalla minninga. Jafnvel rýnt í
gulnuð blöð og glingrað við stöku.
Skammt lifði nætur er gengið
var af þeim fundi.
Jón var skáld þótt hann hafi
aldrei trúað prentsvertunni fyrir
ljóðum sínum. Nú hefir hann verið
kvaddur í hinztu för og hefir þeg-
ar lagt frá landi.
Hlýir hugir og hjartans kveðjur
fylgja honum á leið.
Eg veit að honum gefst óskabyr
alla leið, að sólroðnum morgun-
ströndum landsins ókunna. Þar
bíða vinir og munu ráða fari hans
til hlunns.
Hvar er vængur þinn, vor?
Viltu lægja öldur harms og
trega sem rísa í brjóstum þeirra
sem um sárast eiga að binda og
strjúka vanga hennar Lilju vin-
konu minnar og barnanna hennar.
Ég og fjölskylda mín þökkum
áratuga samfylgd og vináttu, sem
aldrei bar skugga á.
Kristján Guðmundsson,
Brekku.
Þann 10. febrúar sl. andaðist í
Landspítalanum Jón I. Bjarnason
ritstjóri og verður útför hans gerð
frá Fossvogskapellunni mánudag-
inn 21. febrúar nk.
Hann var fæddur í Álfadal á
Ingjaldssandi 8. júní 1921 og var
því á 62. aldursári þegar hann lést.
Jón var sonur Bjarna ívarsson-
ar bónda og konu hans, Jónu Guð-
mundsdóttur, sem í fyrstu bjuggu
í Álfadal en fluttust árið 1938 frá
Ingjaldssandi að Elliðakoti og síð-
ar að Lögbergi hér í nágrenni
Reykjavíkur.
Jón ólst upp í föðurhúsum og
fluttist með foreldrum sínum suð-
ur þegar hann var 17 ára gamall.
Hann stundaði nám við hér-
aðskólann að Núpi við Dýrafjörð
árin 1937-1939. Árin 1941-1942
nam hann við bændaskólann á
Hvanneyri.
Árið 1947—1948 lagði hann
stund á búfræði við landbúnað-
arskóla í Svíþjóð. Stundaði nám
við Samvinnuskólann, en fluttist
síðan til Danmerkur 1949 og nam
búfræði við undirbúningsdeild
landbúnaðarháskóla þar, til ársins
1951.
Jón stundaði verslunarstörf á
árunum 1956 til 1963 við eigin at-
vinnurekstur og tók þá virkan þátt
í samstökum kaupmanna. Sat í
fulltrúaráði Kaupmannasamtaka
íslands og í ritnefnd Verzlunartíð-
inda, málgagni Kaupmannasam-
taka íslands, um árabil. Árið 1963
var Jón ráðinr. starfsmaður KÍ
sem ritstjóri Verzlunartíðinda og
gegndi því starfi í 20 ár.
Jón sat í fulltrúaráði Sjálfstæð-
isflokksins í áratugi, og lengi í
stjórn Óháða safnaðarins. Hann
var stofnandi ferðafélagsins Úti-
vistar, sat í ritnefnd ársrits fé-
lagsins og ritstýrði síðasta tölu-
blaði þess rits. Var stofnandi Átt-
hagafélags Ingjaldssands og sat
lengi í stjórn þess félags.
Jón kvæntist eftirlifandi eigin-
Jíonu sinni, Lilju G. Maríusdóttur,
í Kaupmannahöfn árið 1951.
Þau eignuðust 6 börn sem eru:
Jón Eyjólfur fæddur árið 1951,
stundar framhaldsnám í læknis-
fræði í Svíþjóð. Kvæntur Hjördísi
Claessen lyfjafræðingi.
Bjarni Máríus fæddur árið 1953,
rafeindavirki. Kvæntur Þóru Ingi-
marsdóttur hjúkrunarfræðingi.
Vigdís fædd árið 1955, yfir-
skjalavörður Alþingis. Gift dr.
Benedikt Jóhannessyni stærð-
fræðingi.
Þuríður Elva fædd árið 1957,
þroskaþjálfi. Sambýlismaður Árni
Þórðarson tannlæknir.
Guðmundur Franklín fæddur
árið 1963, verslunarmaður.
Ókvæntur og býr í heimahúsum.
Björn Ingiberg fæddur árið
1966, stundar nám við Mennta-
skólann í Reykjavík og býr í
heimahúsum.
Áhugasvið Jóns var íslensk
tunga og náttúra landsins. Hann
hafði aflað sér góðrar undirstöðu-
menntunar í þeim greinum og
þroskaði þessi fræði með sér alla
tíð. Hann hóf snemma að ferðast
um landið, fyrst með Farfuglum
síðar Ferðafélagi tslands og Úti-
vist, en hundruð manna hafa notið
fararstjórnar hans um árabil.
Jón I. Bjarnason var mikill
hæfileikamaður og bar þar hæst
meðferð málsins annarsvegar og
þekking á íslenskri náttúru hins-
vegar. Hann hafði jafnan á tak-
teinum einfalt og eðlilegt orðalag
yfir hina flóknustu hluti en gat
einnig beitt fyrir sig kjarmiklum
líkingum og orðavali þegar það
átti við. Um þetta bera merki ótal
ljóð, sögur og greinar hans um
margvísleg málefni. Sum af þess-
um verkum hans birtust í blöðum
og tímaritum, önnur lifa á vörum
ferðafólks í Þórsmörk eða á
Ströndum og enn önnur hljóma í
Ríkisútvarpinu, sem textar við létt
lög. Nokkuð af verkum Jóns eru til
í handriti, óbirt.
í öllum þessum verkum fer sam-
an næmur skilningur á íslenskri
tungu, sögu þjóðarinnar og virðing
fyrir landinu. Einkennandi fyrir
skrif hans var hversu smekklega
hann dró fram í upphafi frásagnar
myndræna lýsingu, sem hæfði efni
frásagnarinnar hverju sinni.
Með þessum lýsingum var hann
að miðla af þeim áhrifum sem
hann varð fyrir af öræfum lands-
ins.
Mér hiotnaðist sú gæfa að fá að
verða samferða Jóni í rúman ára-
tug bæði sem samstarfsmaður og í
nokkrum tilvikum sem ferðafélagi
undir leiðsögn hans.
í báðum þessum hlutverkum
miðlaði hann mér efni sem ég met
mikils og bý að alla tíð. Hvort
heldur við sátum við að semja al-
varlegar greinargerðir eða dvöld-
um á brún Hornbjargs eða Gjá-
tinds, þá vakti listamaðurinn í
honum athygli mína á einhverju
sérstöku í texta eða landslagi, sem
hafði áhrif og var þ/oskandi.
Ég á margar skemmtilegar
minningar frá starfi okkar hjá
Kaupmannasamtökum íslands og
ekki síst frá ferðum okkar um
landið á vegum samtakanna. Þar
kom að góðum notum þekking
hans á landinu og hversu auðvelt
hann átti með það að umgangast
fólk og fá það til liðs við sig.
Jón ritaði flestar fundargerðir
hjá félögum innan KÍ og miðlaði
síðan félagsmönnum af þeim í
greinum í Verzlunartíðindum. í
Verzlunartíðindum, sem í rit-
stjórnartíð hans var eitt vandað-
asta blað sem gefið hefur verið út
á landinu, er skráður merkur hluti
verslunarsögu landsins. Það starf
verður seint metið til fulls.
Að lokum vil ég fyrir hönd fjöl-
skyldu minnar og samstarfs-
manna færa kærum vini þakkir,
fyrir skemmtilega samveru og
votta eftirlifandi eiginkonu hans
og börnum, okkar dýpstu samúð.
Magnús E. Finnsson
Nú, þegar Jón I. Bjarnason hef-
ur lagt upp í sína hinstu ferð,
langar mig með fáeinum orðum að
minnast hans og þakka honum
samfylgdina á liðnum árum.
Ættir hans kann ég ekki að
rekja, en það hljóta að hafa staðið
að honum góðir stofnar og sterkir,
því þannig var hann sjálfur. Þétt-
ur á velli og léttur í lund, með sitt
mikla úlfgráa hár og dökku,
breiðu brúnir, var ómögulegt ann-
að en að taka eftir honum þar sem
hann fór.
í fyrstu, stóru sumarleyfisferð
minni inn á hálendið, sem ég fór
árið 1974, í Kverkfjöll og Hvanna-
lindir, var Jón fararstjóri, og voru
það mín fyrstu kynni af honum.
Síðan átti ég eftir að fara ótal
ferðir undir hans stjórn, og eftir
stofnun Ferðafélagsins Útivistar,
þar sem ég einnig var einn af
stofnfélögunum, átti ég eftir að
kynnast honum enn nánar í sam-
bandi við það mikla félagsstarf
sem þar fór fram, og gerði okkur
öll nánast að einni stórri fjöl-
skyldu. Það mikla og ósérhlífna
starf sem hann vann fyrir Útivist,
bæði í stjórn félagsins, við útgáfu
félagsritsins, en þó fyrst og fremst
sem fararstjóri, verður seint
þakkað, og vandfyllt verður það
skarð sem hann þar lætur eftir
sig.
Sem fararstjóri var hann í ess-
inu sínu. Hann hafði sérstakt yndi
af því að ganga um fjöll og firn-
indi, og fræða okkur sem með hon-
um voru um örnefni, jarðfræði,
dýra- og jurtalíf, en í öllu þessu
var hann vel heima. Að hafa Jón
við hljóðnemann í löngum akstri,
var alltaf til ánægju. Það dottaði
áreiðanlega enginn í bílnum með-
an hann sagði frá. Hann var vel
máli farinn, kunni ógrynni af sög-
um, kvæðum og sönglögum, og gat
sett saman vísur ef svo bar undir.
Hann hafði yndi af söng, sem
hann bæði stjórnaði og tók þátt í
af miklum þrótti.
Jón var með fádæmum góður og
eftir því vinsæll fararstjóri.
Ákveðinn, vökull, traustur og
þrekmikill, og hann var farsæll
fararstjóri. í öll þau mörgu ár sem
hann var við þetta starf, kom
aldrei fyrir slys hjá honum, þótt
oft væru hóparnir stórir og því
erfitt að fylgjast með hverjum
einum. Leiddi hann okkur í veru-
SJÁ NÆSTU SÍÐU