Morgunblaðið - 31.03.1993, Qupperneq 12
12
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. MARZ 1993
Fjórtán félagar úr Sinfóníuhljómsveit íslands, í Hafnarborg.
Málmblásarar og slag-
verksmenn koma saman
MÁLMBLÁSARAR og slagverks-
menn af suðvesturhorni landsins
koma saman til æfinga og tón-
leikahalds í byijun apríl. Er það
í sjötta sinn sem þessi hópur kem-
ur saman í dymbilviku til að æfa
saman en afrakstur vinnunnar
hefur mátt heyra á tónleikum fé-
laganna á skírdag.
Það var í páskavikunni 1988 sem
hópurinn kom fyrst saman og fékk
þá inni í Fríkirkjunni í Reykjavík.
Skírdagstónleikarnir þóttu takast
það vel að ákveðið var að hittast að
ári, og fékkst þá inni í menningar-
og listastofnun Hafnarfjarðar, Hafn-
arborg. Samstarfið við húsráðendur
þar hefur verið með slíkum ágætum
áð nú verða haldnir þar fimmtu ár-
legu skírdagstónleikar málmblásara
og öll áform um breytt húsakynni
fyrir hveija tónleika því löngu fyrir
bí.
Af þessu tilefni og með stuðningi
sinfóníuhljómsveitar Islands var
ákveðið að leita til Franks L. Battist-
is til að koma og æfa hópinn og
stjóma síðan tónleikunum.
Frank L. Battisti er stjórnandi
blásarasveitar New England tónlist-
arháskólans í Boston í Bandaríkjun-
um. Undir hans stjórn hefur blásara-
sveitin skipað sér sess sem ein helsta
sveit sinnar tegundar þar vestra.
Sveitin hefur komið fram vítt og
breitt um Bandaríkin, hljóðritað fyrir
Golden Crest útgáfufyrirtækið og
má reglulega heyra tónleika sveitar-
innar á bandarísku útvarpsstöðvun-
um.
í yfír 35 ár hefur Frank Battisti
pantað og stjórnað frumflutningi á
fjölda verka eftir mörg af helstu tón-
skáldum þessarar aldar og má þar
m.a. nefnda Leslie Basset, Robert
Ceely, William Thomas McKinley,
Vincent Percichetti, Michael Col-
grass, Daniel Pingham, Gunther
Schuller, Ivan Tcheripnin og Alec
Wilder. Meðal verka sem hann stjórn-
ar frumflutningi á veturinn 1992-
1993 má nefna verk eftir Rogin
Holloway, Sir Michael Tippet og John
Harbison. Þá hefur Battisti nýlega
pantað verk frá'Witold Lutoslawski
til frumflutnings síðar. Gagnrýnend-
ur sem og starfsbræður hans eru á
einu máli um að framlag hans til
samtímatónlistarinnar sé ómetan-
legt. Á starfsferli sínum hefur Batt-
isti stjórnað fjölda háskóla-blásara-
sveita í Bandaríkjunum, á Englandi,
Norðurlöndunum, í Mið-Austurlönd-
um, Ástralíu, Kína, Suður-Kóreu og
Sovétríkjunum. 1992 var hann
sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við
Ithaca College í New York.
Battisti er nú í sex mánaða leyfi
frá störfum og dvelur á Englandi þar
sem hann er gestafyrirlesari við
Clare Hall í Cambridge. Eins og áður
sagði er hann væntanlegur til lands-
ins í aprílbyijun og mun hann þjálfa
málmblásara og slagverksmenn. Af-
rakstur þeirra vinnu má síðan heyra
á tónleikum sveitarinnar í Hafnar-
borg, Hafnarfirði, á skírdag kl.
13.30.
Sjóminjasafnið vinsælt
AÐSÓKN að Sjó-
minjasafni Islands
hefur aukist mjög í
vetur og munar þar
mest um hópa skóla-
fólks sem koma í
safnið og fá þar sér-
staka safnkennslu.
Safnið sendi um 80 skólum á
Suðvesturlandi bréf í vetur með
upplýsingum um starfsemina og
þar voru kynnt verkefni sem Jón
Allansson safnvörður hefur út-
búið fyrir mismunandi aldurs-
hópa í grunnskólunum.
Kennarar og skólar hafa brugðist
vel við, því heimsóknum nemenda
linnir vart. Nú hafa nær 600 nem-
endur frá 22 skólum hemsótt safn-
ið og um 300 nemendur til viðbótar
frá 9 skólum eru væntanlegir á
næstu vikum. Ef heldur fram sem
horfír munu á annað þúsund skóla-
nemar heimsækja Sjóminjasafn Is-
lands í Hafnarfirði á þessum vetri
sem er mikil aukning frá því sem
verið hefur.
Heimsóknin tekur um eina
klukkustund og hefst á því að nem-
endum er sagt frá
safninu og starfsemi
þess, hinu 130 ára
gamla BrydepakkHúsi
sem hýsir safnið og
ýmsu fleiru. Þá fá nem-
endur í hendur verk-
efni við þeirra hæfi og
lausn þess felst meðal annars í því
að börnin fara um allt safnið og
finna tiltekna hluti. Að því loknu
útskýrir safnvörður fyrir þeim notk-
un þessara hluta og að lokum sjá
þau myndband um veiðitúr með
síðutogara um 1950.
Nemendur og kennarar hafa gert
góðan róm að heimsókn í Sjóminja-
safnið og eru sammála um að nauð-
synlegt sé að ungdómurinn fræðist
um lífsbaráttu þjóðarinnar fyrr á
tímum og mikilvægi sjósóknar fyrir
afkomu okkar.
Sjóminjasafn Islands á Vestur-
götu 8 í Hafnarfirði tekur á móti
skóiafólki og hópum alla daga frá
klukkan 10-16, en safnið ’er opið
almenningi um helgar í vetur frá
klukkan 14-18. I sumar verður opið
alla daga klukkan 13-17.
Sjóminjasafn íslands.
Alltaf má fá annað skip
Leikendur frá vinstri: Clive B. Halliwell, Júlíus Þórarinsson, Sig-
ríður Árnadóttir, Steingrímur Guðjónsson, Arnar Sigurðsson. í
koju er Guðleifur Einarsson.
________Leiklist
Hávar Sigurjónsson
Skagaflokkurinn á Akranesi
frumsýnir:
Alltaf má fá annað skip
eftir Kristján Kristjánsson
Tónlist: Orri Harðarson
Lýsing: Hlynur Eggertsson
Leikstjóri: Kristján Kristjáns-
son
í Bíóhöllinni á Akranesi er
hægt að sjá góða leiksýningu
þessa dagana. Verkið er frum-
raun ungs höfundar á sviði leik-
ritagerðar og ástæðulaust að bíða
með hamingjuóskir fram í lokin
á þessum pistli; leikritið er vel
skrifað og persónur þess skýrar
og skemmtilega mótaðar. Líkt og
önnur mannanna verk er það
engan veginn gallalaust en það
ætlast heldur enginn til þess.
Alltaf má fá annað skip gerist
í lúkar dagróðabáts sem rær frá
Reykjavík og um borð eru fimm
menn; skipstjórinn Benedikt,
stýrimaðurinn Þorsteinn, vélstjór-
inn Haukur, kokkurinn Alastair
og nýliðinn Haraldur — strákur
sem hætt hefur í fjölbraut. Fyrir
dyrum stendur að báturinn verði
seldur vegna kvótans og vanga-
veltur þeirra fimmenninganna um
hvað þá taki við eru að nokkru
leyti efni verksins. Það er þó eng-
an veginn aðalefnið þó salan á
bátnum sé sá kraftur sem togi
verkið áfram og leysi á endanum
upp þetta litla samfélag sem orð-
ið hefur til þarna urn borð. Það
er samfélag mannanna fímm sem
er hvað áhugaverðast og satt að
segja hef ég ekki oft séð leikið
af jafn sannfærandi raunsæi og
í þessari sýninguCSamt er ýmis-
legt að, t.d. var textameðferð í
hefðbundnum skilningi býsna
ábótavant á köflum, áherslur
rangar o.s.frv. en það virtist ein-
hvern veginn eiga heima þarna.
Hraðinn í þessari sýningu er
furðulega afstæður og lýtur full-
komlega sínum eigin lögmálum;
hlutir taka bara þann tíma sem
þeir taka og ekki meira um það
að segja. í sem stystu máli þá
hefur leikurum og leikstjóra tek-
ist ótrúlega vel að ná sannfær-
andi tökum á þessum fimm körl-
um sem þarna kúldrast saman
og leikendur gera allir vel og virð-
ast þekkja gjörla hver sinn heima-
mann.
Styrkur þessa verks liggur hik-
laust í sterkri tilfinningu höfund-
ar fyrir séreinkennum hverrar
persónu og smáatriðum í sam-
skiptum þeirra á milli. Það má
með nokkrum sanni segja að þó
efni verksins sé vissulega tengt
daglegri umræðu í þjóðfélaginu,
með tilvísunum til kvótakerfis og
úreldingarreglna, þá sé hinn
mannlegi þáttur þess eldri og
hefðbundnari; ungi pilturinn sem
fær eldskírnina er hann reynir sig
í fyrsta sinn á meðal fullorðinna
karlmanna sem taka misjafnlega
vel á móti honum. Þar liggur hið
raunverulega drama, en ekki í
örlögum bátsins. Höfundi er þetta
vafalaust meira en vel ljóst.
Það má kannski segja að Krist-
ján taki óþarfa áhættu með því
að spreyta sig í fyrsta sinn sem
leikstjóri jafnhliða því að leikritið
er hans fyrsta; í heildina tekst
honum vel til, smáatriðum er
ábótavant en aðalatriðin á sínum
stað. Þó er ég á því að verkinu
hefði verið betur þjónað með van-
ari leikstjóra við stjórnvölinn og
höfundinn sem stýrimann við hlið
hans.
Bílakir kj ugarðurinn
Stúdentaleikhúsið sýnir Bíla-
kirkjugarðinn eftir Fernando
Arrabal.
Leikstjóri: Jón St. Kristjánsson
Leikmynd: Eyrún Bjarnason
Tónlist: Þóroddur Bjarnason
Sýnt á Galdraloftinu við Hafn-
arstræti.
Arrabal er einn hinna þekkt-
ustu af þeim höfundum sem
kenndir eru við absúrdismann í
leikritum (stundum kallað leik-
hús fáránleikans í íslenskum þýð-
ingum þessa fyrirbæris). Af ein-
hverjum ástæðum er eins og yfir
þessari stefnu hvíli eins konar
dulúð þrungin spennu; að leikrit
absúrdismans séu „per se“
fyndnari, dýpri, táknrænni og
merkari en margt annað. Flest
þeirra er þó hægt að afskrifa sem
afsprengi tískubylgju sem reið
yfir og stóð ekki lengi. Þau sem
eftir standa gera það ekki vegna
tengsla sinna við absúrdismann,
heldur vegna þess að þau hafa
ýmislegt til brunns að bera, þrátt
fyrir áðumefnd tengsl. í rauninni
er hér ekki um neitt annað að
ræða en hin gamalkunnu skil á
milli feigs og ófeigs í tímans
þungu rás.
Það sem gert hefur líftíma
absúrdleikrita yfirleitt nokkuð
stuttan er jafnframt eitt sterk-
asta einkennið á þessar stefnu í
leikritun; að persónur verkanna
eru einhliða, þær standa ekki í
báða fætur, heldur birtast gjarn-
an sem fulltrúar hugmynda og
viðhorfa án þess að áhorfandinn
geti fundið einhveija leið til að
mynda tengsl við hana sem per-
sónu af holdi og blóði. Þetta á
vissulega rétt á sér eins og hvað
annað, en gerir slík leikrit erfið-
ari áhorfs en ella, að ekki sé
sagt leiðinlegri, ef svo vill nú til
að hugmyndirnar og viðhrofin sé
áhorfandanum ekki að skapi. Það
er hins vegar smekksatriði. Á
hinn bóginn hefur stimpillinn
absúrd vafalaust orðið tilefni til
alls konar misskilnings og rang-
túlkana á leikritum sem dregist
hafa viljandi eða óviljandi í þenn-
an dilk.
Sumt af því sem að ofan er
sagt á við um Bílakirkjugarð
Arrabals, þó heldur harkalega sé
að vegið á köflum. Arrabal hefur
í leikritum sínum brotið óskrifað-
ar reglur absúrdismans með því
að vera haldinn nokkurri bjart-
sýni á framtíð mannskepnunnar
á þessari jörð. Þessarar bjartsýni
gætir reyndar lítt í Bílakirkju-
garðinum, þar sem sviðið er í
samræmi við titilinn og persón-
urnar eru nokkurs konar þver-
sneið af þjóðfélaginu en miður
fallegt í samfélagi mannanna.
Þessi leikur að andstæðum og
mótsögnum, bæði í persónum og
umhverfi, kallar á nákvæmna
úrvinnslu þar sem mótsagnirnar
rekast sífellt hvor á aðra; við
þekkjum þetta allt, en annars
staðar frá en hér er borið fyrir
okkur. Mikið veltur á tæknilegri
kunnáttu og þjálfun leikendanna
þar sem Arrabal leikur sér mjög
meðvitað að kómískum klisjum
úr gamanleikjahefðinni.
Fáránleikinn felst í mótsagna-
kenndu samhengi hlutanna en
ekki í ýkjum á hveiju smáatriði
fyrir sig. Að þessu leyti gengur
sýning Stúdentaleikhússins ekki
alveg upp þrátt fyrir ágæta við-
leitni leikenda og leikstjóra, góða
leikmynd og ýmsar góðar hug-
myndir aðrar. Þannig verður sýn-
ingin fremur eintóna og endur-
tekningarsöm og sterkustu höf-
undareinkenni Arrabals verða að
göllum í sýningunni sem er tæp-
lega ætlunin. En fyrir óvanan hóp
er líklega vandfundið erfiðara
verk.
Orgeltónleikar
_________Tónlist___________
Jón Ásgeirsson
Listvinafélag Hallgrímskirkju
stóð fyrir orgeltónleikum sl. sunnu-
dag og nú lék Marteinn H. Frið-
riksson dómorganisti á Klais-orgel
kirkjunnar. Á efnisskránni voru
verk eftir Pál ísólfsson, Mend-
elssohn, J.S.Bach, Jón Leifs og
Césdar Franck.
Ostinato et fughetta eftir Pál
ísólfsson er glæsilegt orgelverk og
lék Marteinn það á sannfærandi
máta, þó raddskipan væri á köflum
nokkuð hlaðin. Vera má að hér
eigi höfundur nokkra sök en rit-
háttur verksins, þ.e. samskipan
radda og hljóma, er þéttofin kró-
matík, sem vel hefði mátt gera
skýrari á köflum með færri rödd-
um.
Marteinn H. Friðriksson
Sónata nr. II eftir Mendelssohn
var mjög vel leikin með fallegri
og rismikilli raddskipan. Stórverk
tónleikanna var Prelúdía og fúga
í Es-dúr, eftir meistara Johann
Sebastian Bach. Prelúdían er ein-
hver glæsilegasta tónsmíðin í org-
elsafni Bachs og fúgan eða réttara
sagt fúguframsögurnar þrjár og
þrístefjaða fúgan undir lokin eru
meðal mögnuðustu fúguverka
meistarans.
Þetta stórvirki orgelbókmennt-
anna lék Marteinn mjög vel, með
þungum hryn og féll ekki í þá
freistni að nota möguleika Klais-
orgelsins í marbreytilegri radd-
skipan.
Orgelprelúdíurnar eftir Jón Leifs
voru skemmtilegar andstæður við
önnur verk tónleikanna og var sér-
lega gaman að heyra hina sér-
stæðu útfærslu Jóns á Allt eins
og blómstrið eina. Tónleikunum
Iauk með kóral nr. 1, eftir César
Franck. Þessi rómantíska tónsmíð
var fagurlega leikin og þar gat að
heyra ýmislegt fallegt í raddskipan
orgelsins, sem Marteinn notaði af
smekkvísi og í samræmi við gerð
verksins.