Morgunblaðið - 05.09.1996, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 05.09.1996, Blaðsíða 6
6 B FIMMTUDAGUR 5. SEPTEMBER 1996 MORGUNBLAÐIÐ VIÐSKIPTI Nýtt fískeldiskerfi þróað með tilraunum á eldi hlýsjávarfisksins barra á Sauðárkróki NATTURAN AFTENGD Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir BARRI er nú loksins kominn í nýju Mari-tech kerin hjá Máka á Sauðárkróki. Guðmundur Örn Ingólfsson framkvæmdastjóri var að undirbúa það þegar ljósmyndarinn fékk hann til að silja fyrir. Á Sauðárkróki er lítið fyrirtæki í gömlu hrör- legu húsi. Það stjórnar 120 milljóna króna evrópsku tækni- og fiskeldisverkefni. Evr- ópusambandið borgar helming kostnaðarins. Helgi Bjarnason ræddi við hugsjóna- manninn Guðmund Örn Ing'ólfsson fram- kvæmdastjóra Máka hf. um tilraunir til að rækta Miðjarðarhafs- fiskinn barra hér norð- ur í Atlantshafi með nýrri tækni sem hann hefur fundið upp. MÁKI hf. er að hefja framleiðslu Miðjarðar- hafsfisksins barra í fiskeldisstöð sinni á Sauðárkróki. Fyrstu fiskunum verður væntanlega slátrað í iok mánaðarins. Við framleiðsluna er notaður nýr búnaður sem gerir það kleift að endurnýta sjóinn aftur og aftur og nota jarðvarma til upphitunar. Hugmyndina að þessu kerfi á Guðmundur Örn Ingólfsson fiskalífeðlisfræðingur og fram- kvæmdastjóri Máka hf. Hann stjórnar þróun hennar í samvinnu við erlendar vísindastofnanir, eldisfyrirtæki og tækjaframleið- endur og nýtur til þess styrkja upp á tugi milljóna kr. frá Evrópusam- bandinu. Er Máki eina íslenska fyrirtækið sem hefur verið þess umkomið að stjórna slíku verkefni og leiðir reyndar einnig Evreka- verkefni um eldi barra. Námið miðaðist við verkefnið Guðmundur Örn er Króksari í húð og hár. Að loknu stúdents- prófi og með námi vann hann ýmis störf, meðal annars sem sjó- maður. Hann fór síðan til náms í líffræði við Kaupmannahafnarhá- skóla og lauk þaðan prófi sem fiskalífeðlisfræðingur árið 1987, orðinn sérfræðingur í fjölgun sjáv- arfiska. „Eg var með tvennt í huga þeg- ar ég hóf námið; ætlaði að glíma við eldi sjávarfiska og nýta til þess jarðhita. Ég miðaði námið við þetta,“ segir Guðmundur Öm. Þar varð til sú aðferð sem hann hefur síðan verið að þróa og laga að ís- lenskum aðstæðum en hún byggir á notkun jarðhita við eldi sjávar- fiska og endurnýtingu vatnsins með hreinsun. Út á andlitið Guðmundur gerðist starfsmaður Hafrannsóknastofnunar í Grinda- vík árið 1990. Undirbúningur að barraeldinu hófst 1992 og flutti Guðmundur Örn til Sauðárkróks í lok þess árs enda hafði hann heimabyggðina í huga frá byijun. í upphafi var það með samvinnu Guðmundar, sem þá var enn starfsmaður Hafrannsóknastofn- unar, Sjávarútvegsstofnunar Há- skóla Islands og frönsku hafrann- sóknastofnunarinnar sem er leið- andi í rannsóknum á eldi sjávar- fiska. Stofnaði hann Máka hf. á því ári og gerðist Sauðárkróksbær hluthafi ásamt fjölda einstaklinga og fyrirtækja á Króknum og víð- ar. Norskir tækjaframleiðendur bættust í hópinn og Evreka-verk- efni um eldi barra var hafið. Sauðárkróksbær og Hitaveita Sauðárkróks hafa stutt vel við til- raunastarf Máka. Hitaveitan lætur í té heita vatnið og bærinn lánar gamlar byggingar í gamla bænum, hús sem raunar átti að rífa að því er Guðmundur Örn upplýsir. En þau nýtast honum ágætlega þó byggja þurfi við eftir því sem fisk- urinn stækkar. Hann segir að Sauðárkrókur sé einstaklega vel fallinn til sjávar- eldis. Þægilegt sé að ná góðum sjó og hitaveitan ein sú ódýrasta á landinu. „Ég hefði ekki getað komið þessu verkefni af stað ann- ars staðar. Frá upphafi hef ég mætt andstöðu hinnar opinberu nýsköpunarstefnu í landinu og menn hér á Króknum vissu lítið hvað ég var að gera. Þann stuðn- ing sem ég hef fengið hef ég feng- ið út á andlitið og lít á hann sem persónulegt traust á mér,“ segir Guðmundur Örn. En af hveiju varð barri fyrir valinu? Ekki liggur í augum uppi að hentugt sé að rækta þennan Miðjarðarhafsfisk hér norður í höf- um. Hlýsjávarfiskurinn „seabass" sem hlotið hefur nafnið barri hér á landi er vel þekktur eldisfískur er- lendis, þar sem hann er aðallega ræktaður í kvíum í Miðjarðarhafinu. Hann er einnig þekkt markaðsvara, viðurkenndur sem bragðbesti sjáv- arfískur Evrópu að sögn Guðmund- ar Amar, og selst á 800-900 kr. kflóið á uppboðsmörkuðum. Valið á barranum á sér efnahagslegar for- sendur. Þegar menn stóðu frammi fyrir því að velja físk til tilraunaeld- is gerði hópur íslenskra og franskra vísindamanna hagkvæmniathugun á fjölda tegunda og barrinn kom einfaldlega lang best út. Viðurkenning ESB Á síðasta ári var sótt um styrk úr 4. rammaáætlun Evrópusam- bandsins til áframhaldandi þróun- ar endurnýtingarkerfisins. Starfs- menn Máka hf. unnu að grunnskil- greiningu verkefnisins og umsókn- inni í samvinnu við Kynningarmið- stöð Evrópurannsókna. Þátttak- endur í verkefninu, sem gengur undir heitinu Mari-tech, eru auk Máka hf. frönsk fiskeldisstöð, franska hafrannsóknastofnunin, fjórir tækjaframleiðendur og Kynningarmiðstöð Evrópurann- sókna. Verkefnið fékk ágætisein- kunn hjá ESB og berast fyrstu greiðslur í október. Máki hf. leiðir verkefnið, eins og raunar einnig Evreka-verkefnið, og er það eina íslenska fyrirtækið sem treyst hef- ur verið fyrir slíku hlutverki, því miður segir Guðmundur Örn því hann vill sjá fleiri fyrirtæki ná þessum árangri. Kostnaður við Mari-tech-verk- efnið í heild er liðlega 120 milljón- ir kr. og nemur styrkur ESB 60 milljónum kr. Þar af getur Máki átt von á því að fá 24 milljónir kr. til síns hluta, gegn jafnháu mótframlagi fyrirtækisins sjálfs. Guðmundur Örn segist ekki geta neitað því að hann líti á við- tökur Evrópusambandsins sem mikla viðurkenningu á því sem hann hafi fram að færa. Hann bendir líka á að samsetning fyrir- tækjahópsins segi sitt. Ekki sé hægt fá svona aðila til samstarfs nema hafa eitthvað mikilvægt fram að færa. Hann bendir á að fyrirtækin í verkefnishópnum hafi tekið forystuna í Evrópu á þessu sviði og hægt sé að velja úr sam- starfsaðilum. „Hann hefur gríðar- lega þekkingu og styrk á bak við sig. Til samans nemur velta fyrir- tækjanna tvöföldum fjárlögum ís- lenska ríkisins,“ segir Guðmundur Örn. En hvað er það sem ESB og þau fyrirtæki og stofnanir sem að verkefninu vinna falla svona flöt fyrir? „Endurnýtingarkerfi hafa lengi verið til en þau hafa verið dýr og því hafa menn verið að leita ódýrra lausna sem ekki hafa reynst öruggar. Þær hugmyndir sem við leggjum fram snúast um ódýrt en öruggt kerfi. Með því er hægt að lækka framleiðslukostn- að, bæta orkunýtingu og minnka mengun. ESB trúir því að við get- um náð öllum framleiðslumarkm- iðum með viðunandi kostnaði," segir Guðmundur Örn. Útflutningsvara í framtíðinni Samhliða hafa fyrirtækin í Mari-tech-hópnum gert með sér sjö ára viðskiptasamning sem fel- ur það í sér að ef markmið verk- efnisins nást muni hópurinn hafa samstarf um markaðssetningu og sölu tækni og þekkingar í 40-50 löndum. Guðmundur Örn bendir á að franska fiskeldisstöðin er við Miðjarðarhaf og ef það gangi að setja þessi kerfi upp þar og á Sauðárkróki ætti það að ganga alls staðar í Evrópu. Ekki einung- is fyrir barra heldur einnig aðrar fisktegundir sem aldar eru í sjó. „Þannig er gert ráð fyrir að ís- lensk tækni og þekking verði út- flutningsvara að verkefninu loknu en árangur mun vitaskuld ráðast af gæðum vörunnar," segir Guð- mundur Örn. Máki hf. þarf að leggja fram fé til jafns við þá styrki sem ESB veitir til Mari-tech. Hefur það ekki verið einfalt mál. Fiskeldi er skammaryrði og opinberir aðilar þora ekki að koma nálægt því. Þá er orðspor þessarar atvinnugreinar slíkt að bankar treysta sér ekki til að taka veð í lifandi fiski leng- ur. „Við verðum að fjármagna þetta að öllu leyti með hlutafé,“ segir Guðmundur Örn. Hann hefur fengið til liðs við sig stóra og smáa hluthafa, alls 90 talsins. Þar á meðal eru þrír lífeyrissjóðir og hluti eigenda Stöðvar 2 undir forystu Haraldar Haraldssonar í Andra. Nú er verið að auka hlutaféð um 15 milljónir, úr 32 í 47 milljónir kr. Máki hefur ávallt verið skilgreint sem áhættu- fyrirtæki en Guðmundur er bjart- sýnn og hefur sett sér það mark- mið að þeir sem tekið hafa áhætt- una með því að leggja fram pen- inga fái í framtíðinni umtalsvert betri arðsemi en gengur og gerist á almennum hlutafjármarkaði. Reynir á taugarnar Guðmundur Örn lýsir hefð- bundu fískeldi sem iandbúnaði, það líkist mest skepnuhaldi. Með þeim eldisaðferðum sem hann er að þróa er hann að gera fiskeldið að verksmiðjurekstri. Hann reynir að skera sem mest á tengslin við náttúruna og vill stjórna eldisferl- inu frá upphafi til enda. „Öll vandamál sem við eigum við að etja eru tæknilegs eðlis og hér innanhúss og hér vinnum við að því að leysa þau eins og í hveiju öðru iðnfyrirtæki,“ segir hann. Máki hefur orðið fyrir ýmsum skakkaföllum í starfsemi sinni og segir Guðmundur Örn að það til- heyri, þetta sé tilraunaverkefni sem menn þurfi að læra af. Hann segir að þó hann nálgist þetta á þennan hátt, sem fræðimaður, hafi margt reynt á taugarnar. I mars 1994 drápust allir fískarnir í stöðinni vegna þess að ekki tókst að fjármagna nógu öflugan hreinsibúnað nógu tímanlega og viðvörunarkerfí brást. í sumar kom fram galli í nýjum kerum sem þá var verið að taka í notkun og hefur orðið að hægja á eldi barr- ans þess vegna. Tekist hefur að leysa þessi vandamál og í síðustu viku var fyrsti fiskurinn settur í nýju Mari-tech-kerin. Þrátt fyrir ýmsa örðugleika seg- ist Guðmundur Örn vera búinn að sjá fyrir endann á þessu verkefni. Eldið gangi upp tæknilega og líf- fræðilega. Hins vegar segir hann að eftir sé að gera það endanlega upp hvernig reksturinn gangi en hann er bjartsýnn á jákvæðar nið- urstöður í því efni líka. 70 tonnáári í stöðinni eru nú þijár kynslóðir barra. 6.000 fiskar eru lengst komnir og er áætlað að slátrun þeirra hefjist í lok þessa mánaðar. 100.000 barrar eiga að verða að markaðsvöru í árslok og loks eru 70.000 smáseiði. Barrinn er alinn af hrognum sem flutt eru frá Frakklandi en síðar er ætlunin að koma hér upp hrygningarstofni. Þetta er hraðvaxta fiskur, nær sláturstærð (500 g) eftir 12-14 mánuði. Markmiðið er að fram- leiða 70 tonn á ári og telur fram- kvæmdastjórinn að það náist á næsta ári. Sex starfsmenn vinna nú hjá Máka. Framleiðslan verður seld á markaði í Evrópu og segir Guð- mundur Örn að miðað við núver- andi verðlag á mörkuðunum sé hægt að gera ráð fyrir 700 kr. skilaverði á hvert kíló til stöðvar- innar þegar búið sé að draga frá kostnað við slátrun, pökkun og flutning á markað. Þó framleiðslan sé hugsuð til útflutnings heldur Guðmundur því fram að íslenska þjóðin hafi þörf fyrir að smakka barra. Ætlunin er að bjóða íslensk- um veitingahúsum að prófa. Guð- mundur Örn tekur að fyrra bragði fram að ekki þýði að spyija sig að því hvaða fiski barrinn líkist, hann svari ekki svo heimskulegum spurningum. Óendanlegir möguleikar Hugsjónamaðurinn á Sauðár- króki hefur helgað sig þessu verk- efni meirihluta fullorðinsára sinna. „Fiskeldi er bara hagnýt fiskalíf- eðlisfræði," segir hann um verk- efni sín í framtíðinni. „Nei, ég reikna ekki með því að standa hér og fóðra barra til æviloka. Þessi tækni opnar nánast óendanlega möguleika sem gaman væri að láta reyna á. Hægt er að taka nánast hvaða lífveru sem er og ala með þessari aðferð. Hún opnar líka mikla möguleika á nýtingu jarðvar- mans hér á landi. Ekki má gleyma því að þetta verkefni hleypir nýjum straumum inn í þetta samfélag og opnar Skagafjörð til Evrópu,“ seg- ir Guðmundur Örn Ingólfsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.