Morgunblaðið - 25.11.1997, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 25.11.1997, Blaðsíða 5
MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR ÞRIÐJUDAGUR 25. NÓVEMBER 1997 B 5 Einar Hjörleifsson Kvaran - maðurinn og skáldið Kvaran og bók- menntaverð- laun Nóbels Gils Guðmundsson hefur skráð bókina í nærveru sálar sem fjallar um Einar Hjörleifsson Kvaran, manninn og skáldið. Hér á eftir birtist styttur kafli sem snýst um Nóbelsverðlaunin, en Kvaran var á sínum tíma talinn líklegur til að hljóta þau fyrstur íslendinga. Útgefandi bókarinnar er Setberg. ARIÐ 1900 komu fyrstu sögur Ein- ars út á erlendu tungumáli. Það voru To fortællingar fra Island, sem Holger Wiehe þýddi á dönsku. Það var um þá bók sem Georg Brandes skrif- aði lofsamlegan ritdóm og sagði að sagan Vonir væri hrein perla. Árið 1909 kom Ofur- efli út hjá Gyldendal. Sú saga kom og út á tékknesku 1911 og þýsku 1912. Árið 1918 var tekið að gefa skáldsögur Einars út á sænsku. Þá kom út Sálin vaknar undir heitinu Hámnaren. Næstu ár fylgdu fjórar bækur í kjölfarið, og var þýðandi þeirra allra Nanna Nordal. Það voru sögurnar Sam- býli, Sögur Rannveigar, bæði bindin, og loks smásagnaúrval: Smáfólk. Gunnar Gunnarsson þýddi Gull á dönsku, og kom bókin út hjá Gyldendal 1919. Valtýr Guðmundsson þýddi á dönsku Sögur Rann- veigar, bæði bindin, og gaf Aschehoug verk- ið út árin 1923 og 1924. Sögur Rannveigar voru einnig þýddar á hoilensku og komu þar út 1930. Að svo miklu leyti sem tekist hefur að afla heimilda um móttökur þær sem sögur Einars fengu erlendis, er svo að sjá að þær hafi yfirleitt verið góðar. í nokkrum tilvikum voru ritdómar mjög lofsamlegir. Sumarið 1923 birtist grein í sænsku blaði, þar sem því var haldið fram, að tímabært væri orðið að íslenskt skáld hlyti bók- menntaverðlaun Nóbels. Var þar stungið upp á því, að fremsti skáldsagnahöfundur íslendinga, Einar H. Kvaran, yrði fyrir val- inu. Vitað er, að einn þeirra manna, sem höfðu tillögurétt um verðlaunahafa, dr. Valtýr Guð- mundsson prófessor við Kaup- mannahafnar-háskóla, hafði sent inn uppástungu um Einar, ásamt rökstuðningi. Útgefandi Einars hér á landi, Þorsteinn Gíslason, skýrði frá því síðar, að hann hefði sannfrétt að Einar hefði verið í hópi þeirra skálda, sem um var rætt innan sænsku akademíunnar. Fullyrti Þor- steinn, að hann hefði átt þar eindregna talsmenn. Vafalítið hafa margir „hinna átján“ talið sig vanbúna til að leggja mat á höfundarverk Ein- ars H. Kvarans. Það voru í raun- inni aðeins þrjár skáldsögur hans, sem þeim hafa verið til- tækar í þýðingum: Ofurefli á dönsku og þýsku, Gull á dönsku og Sálin vaknar á sænsku. Vitað er, að akademían fékk sænskan bókmenntafræðing, sem ekki mun þó hafa getað lesið íslensku sér að gagni, til að gefa umsögn um skáldverk Einars. Var dómur hans á þá leið, að hann taldi verðleika Ein- ars sem skálds alls ekki vera næga til þess að hann teldist verðugur Nóbelsverðlauna. Upplýsingar um umræður um einstök skáld innan sænsku akademíunnar fást engar upp- gefnar. Er því engin leið að mynda sér um það rökstudda skoðun, hversu mikil alvara var á bak við umræðuna um það, að Einar kæmi til greina sem verðlaunahafi. En hitt er víst, að kvitturinn um að hann væri einn líklegra kandídata komst á flot og nægði til þess að sænskt blað gerði blaðakonu út af örkinni og sendi hana hingað til þess að afla sér upplýsinga um Einar og viðbrögð á ís- landi við því að hann hlyti bókmenntaverð- laun Nóbels. Verður brátt að því vikið. í byijun desembermánaðar fréttist svo hingað til lands að írska Ijóðskáldið W.B. Yeats hefði fengið bókmenntaverðlaunin árið 1923. Hinn 13. desember skrifaði Þorsteinn Gíslason í blað sitt Lögréttu grein sem hann kallaði Nóbelsverðlaun. Þar segir: „I símfregnum var nýlega sagt frá því, að bókmenntaverðlaun Nóbelsjóðsins fyrir þetta ár hefðu verið veitt írlendingnum Ye- ats. Úthlutun þessara verðlauna nú hafði verið fylgt hér með allmikilli athygli af þeim sem vissu það að sá maðurinn sem talinn var standa þeim einna næst í þetta sinn og úthlutunarnefndin eða einhver hluti hennar hafði sérstakan augastað á, var einmitt ís- lendingur. - Það var Einar H. Kvaran.“ Sænska blaðakonan, sem lagði hingað leið sína sumarið 1923 hét Tora Garm, og starfaði við Stockholms Dag- blad. Þrátt fyrir nokkra leit í því blaði hefur ekki fundist þar neitt, sem blaðakonan hafði fram að færa úr þessari íslandsför sinni. En næsta vor, í aprílmánuði 1924, birtist í vikublaðinu Vecko-Jouma- len viðtal, sem hún hafði átt sum- arið áður við Sigurð Nordal, pró- fessor í bókmenntum við Háskóla íslands. Spurði hún hann um ís- lenskar samtímabókmenntir, með sérstakri hliðsjón af þvi að stung- ið hafði verið upp á Einari H. Kvaran til Nóbelsverðlauna. í inngangi að viðtalinu minnist blaðakonan á hinar miklu forn- bókmenntir íslendinga og þá merkilegu staðreynd að þeir hafi einir þjóða varðveitt tungu sína nær óbreytta í þúsund ár. Þetta sé ýmsum kunnugt, en hins veg- ar viti umheimurinn sáralítið um íslenskar samtímabókmenntir. Hún spyr Nordal um þær og þá ekki síst Einar H. Kvaran. Nordal segir henni að íslend- ingar eigi nú nokkur mikilhæf skáld, en þau séu öll nær óþekkt utan landsteina. Síðan berst talið að Einari H. Kvaran. Samkvæmt frásögn blaðakonunnar er Nordal ekki margorður um hann, en segir fá orð í fullri meiningu: Prófessor- inn segir það sína skoðun, að óeðlilegt sé að veita Nóþelsverðlaun rithöfundi, sem ekki geti talist fulltrúi hins besta í skáldskap þjóð- ar sinnar. „Kvaran er tvímælalaust góður smásagnahöfundur, en verk hans eru ekki í þeim gæðaflokki að þau megi með gildum rökum nefna til Nóbelsverðlauna." Sumarið 1924 kom út íslensk lestrarbók, sem Sigurður Nordal hafði sett saman. Er þar í örstuttu máli gerð grein fyrir höfundum og helstu einkennum þeirra. Hinn 23. septem- Einar H. Kvaran Sigurður Nordal HAMNAREN <7> Kxrmutt. a*- WLmM'íymmmwfrwmm HLÍFÐARKÁPUR af erlendum útgáfum skáldsagna Einars: Sálin vaknar (Hamnar- en) á sænsku, Ofurefli á þýsku, og Sögur Rannveigar I og II á dönsku. ber 1924 kom ritdómur um Lestrarbókina í Lögréttu, eftir Þorstein Gíslason ritstjóra hennar. Er vali Nordals fundið þar sitthvað til foráttu. Síðan segir: „En þó er eitt ótalið sem er versti ókostur bókarinnar, og það er að hún er hlutdræg, þ.e. sýnilega sett saman með það fyrir augum að kasta rýrð á einstaka rithöfunda, en hefja aðra, og kemur þetta ljósast fram í slettum þeim sem höf. lætur bókina flytja til Einars H. Kvarans. Það mun flestra mál að baktjald- amakkið við hina sænsku ritfrú í fyrra, til þess að spilla fyrir Einari H. Kvaran erlend- is, sé Sigurði Nordal til engrar sæmdar, svo að ekki sé fastara að orði kveðið. Og lesbókar- slettan hans er ósmekkleg og illa viðeigandi á þeim stað. Hann finnur E.H.K. þar til for- áttu vöntun á karlmennsku og þrótti - dálag- lega viðeigandi orð, eða hitt þó heldur, frá annarri eins vipruvör og tilgerðarrófu og S.N. er, einhveijum þeim karlmennsku- snauðasta rithöfundi sem til er á okkar landi, að kvenrithöfundunum meðtöldum.“ Þessari ádrepu svaraði Sigurður Nordal í alllangri grein í Tímanum 9. október, sem hann nefndi „Dálítil saga“. Þar gerir hann grein fyrir því sem Þorsteinn hafi kallað „bak- tjaldamakkið við hina sænsku ritfrú". Ekki hefði það fólgist í öðru en því að blaðakona þessi sótti hann heim og vildi fræðast um nútímabókmenntir íslendinga. Sigurður kemst svo að orði: „Vitanlega tók ég frúnni vel, leysti úr spurn- ingum hennar um ýmsa hluti og taldi upp fyr- ir henni nokkra merkustu höfunda vora og lýsti þeim eftir bestu vitund. Meðal þeirra var Einar H. Kvaran. Að lokum sagði frú Garm mér að einhver blaðamaður í Svíþjóð hefði stungið upp á E.H.K. til bókmenntaverðlauna Nóbels og spurði um álit mitt. Var það í fyrsta sinn sem ég heyrði þessu fleygt. Ég mun hafa látið í ljós að ég væri ekki ánægður með E.H.K. sem fulltrúa íslenskra bókmennta, enda gat hún vel ráðið það af þeim ummælum sem ég hafði þegar haft. En ég man vel að ég sagði við hana og lagði áherslu á: „Það eina sem þér megið hafa eftir mér um þetta mál er það: að ég tel óhæfilegt að sænska akademíið, sem skortir alla þekkingu á íslenskum bók- menntum, veiti íslendingi Nóbelsverðlaun, nema það spyiji áður um álit Háskólans í Reykjavík um það mál.“ Þorsteinn Gíslason svaraði Sigurði Nordal í Lögréttu 7. október. Þar segir: „Lögrétta lítur svo á, að ef svo færi að sænska akademíið vildi veita Nóbelsverðlaun hingað til lands, þá eigum við ekki að slá hendi á móti því, heldur taka því með þökkum. Og hún er þeirrar skoðunar, að ef verðlaunin ættu hingað að fara nú, þá sé það E.H.K. sem eigi að hljóta þau. Og hún er í engum efa um það, að mikill meirihluti íslendinga mundi fallast á þá skoðun. S.N. hefur ekkert meira vit á þessu heldur en margir aðrir og engan rétt til þess að heimta sinn dóm þar um meira metinn en dóma fjölda annarra manna. Slíkt er fávíslegur hroki og annað ekki.“ Nokkrar frekari blaðadeilur urðu út af um- mælum Nordals um skáldskap Einars H. Kvar- ans í viðtalinu við blaðakonuna sænsku. Jónas Þorbergsson, ritstjóri Dags á Akureyri, vgr einlægur aðdáandi Einars H. Kvarans og skáld- verka hans. Hann skrifar tvær greinar í blað sitt af þessu tilefni og leitast við að færa rök fyrir því, að Kvaran sé hinnar stærstu viður- kenningar verður, enda fremstur íslenskra samtíðarskálda. í lok seinni greinar sinnar kemst Jónas Þorbergsson svo að orði: „Vegna gáfna Sigurðar Nordals og stöðu hans og vegna afskipta hans af íslenskum bókmenntum er hann einn þeirra manna sem þjóðin lítur upp til í von um að einna næst fari réttu lagi, er hann fellir dóma sína. Þjóð- in hefur að þessu veitt honum fulla og verð- skuldaða viðurkenningu. En um leið hefur hún lagt honum skyldur á herðar. Hann mætti allra manna síst láta sig henda það að hann villi þjóðinni sýn um andleg verð- mæti. Álit hans og dómar verða að byggja#t á trúleik eins og skír mynt. En í sumum þeim atriðum, er að framan getur, mun þjóð- inni torvelt að skilja hann. Dómur hans (um E.H.K.) mun þykja, ef eigi tortryggilegur, þá að minnsta kosti ógætilegur." Sigurður Nordal sendi ritstjóra Dags stutt andsvar, sem birtist í blaðinu 10. desember. Hann er auðheyrilega orðinn dálítið þreyttur á öllum blaðaskrifunum um viðtalið við „sænsku ritfrúna,“ þar sem menn láti jafn- vel að því liggja, að hann hafi með orðum sínum þar haft af Kvaran sjálf Nóbelsverð- launin, sem ella hefðu verið innan seilingar! Og Nordal segir síðan: „En í einu atriði er ég yður algerlega sam- mála. Það er skylda mín að sýna að ég hefi ekki fellt dóm minn um Einar H. Kvaran að óhugsuðu máli, að gera grein fyrir veilum þeim, sem ég finn í list hans og lífsskoðun. Þessa skuld mun ég gjalda undir eins og mér vinnst tími til. Þá fá formælendur hans mín eigin orð að vegast við og þurfa ekki að beijast við skuggann minn.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.