Lögberg - 12.03.1953, Blaðsíða 7

Lögberg - 12.03.1953, Blaðsíða 7
LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 12. MARZ, 1953 7 J- - ' ?. GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF Hannes réri á rúmi sínu með prjónana. „Hún var ekki alveg lánlaus stelpuhróið, að komast þangað til þess arna, að sitja uppi með allar reyturnar,“ sagði hann þurrlega. „Aldrei hefur maður nú heyrt annað eins,“ sagði Valgerður. „Að taka að sér glæpamannsdóttur, þessi maður, sem gat valið úr allri sveitinni og mikið meir en það. Taka að sér þessa vesalings einfeldningsstelpu, hálfgeðveika náttúrlega eins og foreldrana, þótt aldrei nema að hún sé lagleg. Það má nú segja, að ekki er öll vitleysan lærð á sömu bókina.“ „Hann hefði nú verið vitlaus að marki, ef hann hefði ekki tekið hana,“ gegndi Hallgrímur fram í. „Hún er fallegasta stúlkan í sveítinni, og eftir því er hún góð.“ „Það er nú grannt vit, að gangast fyrir lit. Þú ættir helzt að þegja, Hallgrímur, og fara að láta í meisana, eins og þér var sag^ áðan. Þú ert álíka heimskur og aðrir karlmenn,“ sagði María önug. „Það sér víst enginn þessi gæði hennar nema þú. Það er það vissa, hvað sem öðru líður, að hún er nautheimsk og áreiðan-1 lega ekkert í hana varið, nema að hún getur kannske heitið lagleg og hefur mikið hár. Það er allt og sumt, en það er nú það, sem karlmennirnir gera sig ánægða með,“ bætti hún við og hló háðslega. „Ég segi nú ekki annað en það, að slíkt hefði líklega þótt fyrirsögn, að annað eins óbermi settist í sætið hennar Lísibetar minnar, þessarar merkismanneskju. Það er þá ekki í fyrsta sinn, sem köttur hreiðrar sig í bjarnarbóli. Að taka að sér glæpamanns- dóttur. Drottinn minn sæll og góður,“ sagði húsfreyjan og reri með tóbaksdósirnar milli handanna. „Hvað segirðu, kona?“ sagði maður hennár alvarlegur. „Hvað ég segi? Ég sný ekki aftur með það. Eru ekki morð- ingjar glæpamenn? Og er nokkuð betra að drepa sjálfan sig en einhvern annan? Nei, ég sný ekki aftur með það, og segi það bara. Og sannið þið til, að þetta hjónaband fer aldrei vel. Það bera áreiðanlega margar stúlkur heitt brjóst til þessa manns, og það hefur verið svo hingað til, að þau hjónabönd fara aldrei vel.“ Hún hafði loksins tíma til að sjúga tóbakið upp í nefið. „Ætli það geti ekki skeð, að þau giftist aldrei. Annað eins hefur nú komið fyrir,“ sagði Jóhanna. „Hvorug þeirra hafði verið við kirkju, Þóra eða Lilja í Seli,“ bætti hún við íbyggin. „Nú, líklega hefur þó ekki Lilju dottið í hug, að hún yrði húsfreyja á Nautaflötum, bláfátæk stelpudruslan framan úr afrétt," hreytti Valgerður út úr sér. „Heldur hefur mér nú skilizt það á önnu stundum, að hann léti þesslega við hana.“ „Ekki er nú vitleysan lítilþæg,” sagði Valgerður. „Já, hvað á þessi manneskja nema ekki neitt? En það er bara þetta heldur meira í munninum, að vera kaupmannsdóttir, heldur en dóttir hans Hjálmars gamla í Seli,“ sagði Jóhanna spekingslega. „O, svei því öllu saman,“ sagði Valgerður. Hún stóð upp til að hugsa um kaffið. Ekki dugði að láta allt vitið í þessa endemis trúlofun. Og fregnin barst um sveitina fram og aftur. Allir töluðu um lánið, sem Anna hefði lent í. Flestar stúlkurnar voru sannfærðar um, að hún væri einfeldningur, sem Jóni gæti aldrei þótt vænt um, nema rétt fyrsta árið. En Anna sat og söng eins og fugl í sólskini, sem lætur sig ekki dreyma um regn eða forsælu. Þó að einhver hefði sagt henni, hvað sveitungarnir töluðu helzt um, hefði hún ekki trúað því. BALLIÐ Á HJALLA Sigríður var jafnmikið veik um nýjárið. Jón fékk því lánaða stofu á Hjalla. Sá bær var næstur fyrir utan Hvamm. Þar átti að dansa. Engir fóru frá Nautaflötum nema Jón og Anna. Unga fólkið þyrptist kringum þau, og hamingjuóskunum rigndi yfir þau, þegar þau komu á ballstaðinn. Anna var í ljósleitum músselinskjól, tvær þykkar og bjartar •hárfléttur, prýddar með bleikum silkiborðum, náðu ofan fyrir mitti. Hún var dáð og öfunduð. Þóra var í peysufötum með hvítt slifsi og ljósleita svuntu. Hún hafði þykkt jarpt hár. Flestar hinar stúlkurnar voru á peysufötum. Jón settist við harmonikuna, og fólkið tíndist út á gólfið, þangað til bekkirnir voru hér um bil auðir. Anna var svimandi af sælu og tók ekkert eftir lágu pískri og hornaugum, sem stúlkurnar gáfu henni, þegar hún flýtti sér til unnusta síns í hvert skipti, sem hún var leidd til sætis. Hún gat ekki setið annars staðar. Anna hafði langar bleikan silkiborða um mittið, hnýttan í stóra slaufu á annarri hliðinni. Einhver óliðlegur herra fálmaði á slaufunni, svo að hún losnaði og endarnir drógust við gólfið. María á Hrafnsstöðum flissaði og hnippti í þær, sem næstar henni sátu og sagði svo hátt, að flestir í stofunni heyrðu: „Nei, sko þá lukku- legu. Hún er farin að draga á eftir sér garnirnar.“ Aldrei hafði nokkurri manneskju dottið í hug að hæðast að Önnu fyrr en nú. Þóra flýtti sér að hnýta borðann aftur. Nokkru seinna settist María við hlið Þóru. Hún bjóst við, að það myndi gleðja hana eins og aðrar stúlkur, ef hún segði eitthyað hæðilegt um Önnu. „Anna lætur mann sjá það, að hún er búin að ná tangarhaldi á Dalaprinsinsum,“ hvíslaði hún. „Þarna hangir hún alltaf utan í honum.“ „Væri það betur viðeigandi, að hún sæti hjá einhverjum hinna piltanna?“ spurði Þóra hryssingslega. „Hún gæti sjálfsagt setið hjá hinum stúlkunum. En það verður nú einhvers staðar að sjást, að hún er einfeldningur,“ svaraði María fyrirlitlega. „Þetta er andstyggileg lygi,“ sagði Þóra. „Anna er prýðilega gefin.“ „Hann þykir heldur hafa tekið niður fyrir sig, heyrist mér,“ hélt María áfram. „Þeir verða eitthvað að blaðra, sem aldrei geta haldið sér saman,“ hreytti Þóra út úr sér. \ María þagnaði. Þóra var ekki hlýleg núna. Þeim hafði heldur aldrei geðjazt vel hvorri að annarri. „Þú verður að taka harmonikuna, Elli, svo að ég geti dansað ofurlítið við kærustuna, þó að ekki sé meira,“ sagði Jón, þegar hann var búinn að spila nokkuð lengi. Elli gerði það, en hann þótti spila svo fjörlaust. Stúlkurnar sögðu, að sig færi að syfja undir slíkri músík. Anna bauðst til að spila. Það líkaði vel. Hún fylgdi manns- efninu með augunum. Hann var vanur að skrafa mikið við dömuna, og gerði það eins nú. Um hvað skyldi hann geta verið að tala við þær? Hún fann til ónotastings í brjóstinu, sem hún þekkti ekki áður. María sá vel hvað henni leið. Hún beið þess með óþreyju, að Jón dansaði við hana. Loksins kom röðin að henni , „nafnakalli“. Það var alltaf siður, að Jón héti tilkomumesta nafninu. Það var nefnt eftir fornaldarhetjum. María átti að nefna. Hún nefndi sjálfa sig Jökul. Það myndi honum líka verða gefið. Og það varð. Þau fóru út á gólfið. María var ágæt dama. Hún hló og masaði við hann. Anna mátti gjarnan sjá, að fleiri gætu brosað framan í hann en hún. „Er ekki ákaflega gaman að vera með hring?“ spurði hún. „Jú, ákaflega gaman,“ svaraði hann. „Mikið er nú skrafað um trúlofunina, og mikið eru allir hissa.“ „Á því, að ég varð ekki piparsveinn?“ „Nei, á því, hvernig þú valdir konuefnið. Það hefur víst búizt við, að hún yrði tilkomumeiri og af betra bergi brotin. Það þykir öllum svo mikið til þín og foreldra þinna koma, en hún komin út af þessu vandræðafólki." Jón var hættur að brosa. „Það þekkir enginn hennar fólk, nema foreldra hennar. Þú manst, að það voru myndar- og gæða- manneskjur." María grúfði sig hlægjandi inn í öxl hans. „Annað heyrist mér nú fólkið segja. Sjálf man ég ekkert eftir þeim.“ „En sú fjarstæða. Þú manst eins vel eftir þeim og ég. Þú varst ekki svo sjaldan niður á Ósnum. Enginn unglingur gleymir jafn fallegum og prúðum manni og Friðrik kaupmaður var.“ Hann var orðinn dökkur í andliti og leiddi hana til sætis án þess að hneigja sig vitund og tók Önnu frá Brekku. Nokkru seinna dansaði hann við Þóru. „Þú ert eitthvað svo svipþungur, síðan þú dansaðir við Maríu,“ sagði Þóra. „Það er hreint ekki furða. Hún segir, að öll sveitin lítilsvirði önnu.“ „Öll sveitin? Það er líklega hún og Ásta frá Brekku, sem gera það, eftir framferði þeirra hér í kvöld. Þú ferð þó líklega ekki að láta þessa kjaftakind spilla þér við kærustuna?“ „Það dettur mér ekki í hug. En hitt finnst mér óþolandi, að nokkur skuggi falli á hana, blessaða stúlkuna mína.“ „Vertu ekki að setja þaðíyrir þig. Það hefði verið sama hvaða stúlku þú hefðir valið þér. Þetta er alvanalegt, þegar einhver setur upp hringinn, þá á alltaf annaðhvort að taka niður fyrir sig. Enginn getur annað sagt um önnu, en að hún sé indæl stúlka.“ „Fyrir þetta áttu skilið koss, Þóra mín,“ sagði Jón hlægjandi og kyssti hana á kinnina, þegar þau dönsuðu fram hjá dyrum, þar sem skugga bar á þau. Það kom falskur tónn úr harmonikunni; svo þagnaði hún alveg. öll fólksþvagan stöðvaðist og horfði á önnu. Hún hallaðist upp að stúlkunni, sem næst henni sat, náföl með lokuð augun, en harmonikan valt ofan á <gólfið og gaf frá sér ámátlegan skræk. „En sú óaðgæzla,“ sagði Þóra. „Hún hefur spilað alltof lengi.“ Jón setti hana á kné sér. „Því hættirðu ekki fyrr eða kallaðir til mín? Ég gleymdi mér alveg í dansinum.“ Þóra kom með vatn í glasi. Hún dreypti á því og hresstist dálítið. „Ég vil fara heim til mömmu. Þú verður að koma með mér,“ sagði hún, og varirnar titruðu. „Þetta hlýtur að líða frá, elskan mín. Ég skal útvega þér rúm inni, svo þú getir lagt þig,“ sagði Jón blíður. „Nei, ég vil fara heim. Þú kemur líka.“ „En þú getur ekki gengið heim svona lasin. Ég yðrast eftir, að ég fór ekki ríðandi. Það er náttúrlega sjálfsagt að fara með þér, blessuð stúlkan mín. En hvað þetta var leiðinlegt, einmitt núna.“ Þóra hjálpaði þeim í yfirhafnirnar og lánaði Önnu yfirsjalið sitt. Anna kastaði kveðju á alla nema Önnu frá Brekku, hana kvaddi hún með kossi. „Þið skemmtið ykkur áfram eins vel og þið getið,“ sagði Jón, þegar hann fór út úr dyrunum og kvaddi hópinn með því að veifa hendinni. „Ég treysti þér til að stjórna ballinu, Þórður minn.“ Svo fóru þau. „Fallega byrjar það,“ sagði María og hló dátt. Ásta á Brekku tók undir við hana. Þá sagði Anna Pétursdóttir svo hátt að hvert mannsbarn heyrði: „Það er satt, sem máltækið segir, að löngum hlær lítið vit.“ „Móltækin segja alltaf satt,“ sagði Þórður í Seli og bauð önnu út á gólfið. María sótroðnaði og hláturinn minnkaði. „Því er ekki Lilja systir þín hér, Þórður? Liggur eitthvað illa á henni?“ spurði hún og beindi tali sínu til Þórðar. Hún ætlaði að ná sér niðri. „Hún bjóst við, að þú myndir skemmta þér eins vel, þótt hún væri ekki hér,“ svaraði Þórður stuttaralega. „Hún er komin í vist vestur í sýslu,“ svaraði feit stúlka úr hópnum, sem Helga hét. Hún var trúlofuð Erlendi á Hóli. Það var byrjað að dansa aftur, en það leit út fyrir, að allt fjörið hefði farið með Jóni, eins og vant var. Músíkin var hæg og líflaus og marsinn mistókst hvað eftir annað. En ungu kærustupörin gengu fram mýrarnar í glaðatungls- ljósinu. Jón var alltaf að afsaka óaðgæzluna, að láta hana spila svona lengi, en hún þagði; hugsaði um allt annað. Loksins, þegar þau voru komin fram hjá Hleðslu, stundi hún því upp, sem henni lá þyngst á hjartanu: „Þykir þér eins vænt um nokkra stúlku og mig?“ „Nei, nei, góða; láttu þér ekki detta annað eins í hug. Auðvitað þykir mér langvænst um þig, sjálfa kærustuna; þó það nú væri. Mér þykir bara leiðinlegt, hvað langt verður þangað til við getum gift okkur.“ Hann talaði svo margt um sælu framtíðarinnar, að hann gat látið hana fara að brosa svolítið. „Er orðið svona framorðið?“ spurði Lísibet, þegar þau komu inn í húsið. „Nei; það er ekkert framorðið; en Önnu varð/llt,“ svaraði Jón. Lísibet kveikti og bað fyrir sér, þegar hún sá, hvað fóstur- dóttir hennar var föl. „Blessað barnið! Þú verður að hátta hjá mér. Þitt rúm er svo kalt. En þú Jón minn, skalt fá þér eitthvað að borða frammi í búri^ áður en þú ferð að hátta.“ Hann svaf frammi í stofu. Hann bauð þeim góða nótt og bað Önnu að reyna að láta sér batna. Reyndar vissi hann, að henni batnaði, strax þegar hún væri komin heim til mömmu. Svo fór hann fram, samt ekki til þess að fá sér mat eða til að sofa, heldur hraðaði hann sér út úr bænum og alla leið ofan að Hjalla. „Kominn aftur!“ kvað við margraddað, þegar hann kom inn úr dyrunum. „Hvað gerðirðu við kærustuna?" „Hún var háttuð ofan í rúm og er orðin vel hress. En ég skal taka harmonikuna, svo að þið sofnið ekki alveg.“ Hann spilaði fjörugan mars, og svo var dansað fram undir fótaferðatíma. „Nú verðum við að hætta snemma," sagði Jón. Hann var þó vanur að'halda út, þangað til bjart var orðið af degi. „Þú heldur á harmonikunni heim með þér, Elli, og kemur með hana til kirkj- unnar á sunnudaginn.“ Þau urðu samferða, Þóra og hann, og vinnumaður frá Hvammi, sem Fúsi litli var kallaður. Hann hafði í mörg ár vonazt eftir að fá Þóru í kaupbæti hjá Birni gamla. Þóra bar troðna tösku af skóm og fleira, sem þau höfðu meðferðis. Fúsi bauð henni að bera töskuna og leiða hana sjálfa. „Þú hefur nóg með töskuna; ég get séð um mig ein. Það er ekki svo langt, að ég komist það ekki óstudd.“ „En það er þó óneitanlega betra, að styðja sig við það, sem lítið er, en ekki neitt,“ sagði Jón lágt, um leið og hann bauð henni handlegginn. „Ég er svolítið stærri. Þú getur kannske þegið, að ég leiði þig.“ Hún hafði ekki á móti því. Fúsi gaut gremjulegu hornauga til þeirra og pjakkaði á undan þeim. „Hvað ætlarðu að láta strákgreyið ganga lengi á biðilsbuxun- um?“ spurði Jón í hálfum hljóðum. „Hann má víst ganga svo lengi á þeim sem hann vill fyrir mér. Ég skal ekki klæða hann úr þeim,“ svaraði hún hálfönug. „Hvað þykir þér að honum?“ „Hver heldurðu að líti við svona tyrðlum?“ Þau gengu lengi þegjandi. Hún óskaði, að bæjarleiðin væri orðin helmingi lengri. Það var ekkert ósæmilegt við að láta hann leiða sig, þegar þriðja persóna var nálæg. „Þú varst laglegasta stúlkan á ballinu, Þóra mín,“ sagði hann, þegar þau voru komin heim undir túnið í Hvammi. „Nei. Anna var lang laglegust; enda er hún öfunduð mikið.“ Svo bætti hún við næstum óafvitandi: „Hún er líka sannarlega öfundsverð.“ „Já, er það kannske ekki gaman fyrir hana, að eiga mig og Nautaflatirnar og allar reyturnar?“ „Jú, víst er það það.“ „En við höfum líka verið trúlofuð, síðan við vorum böm. Þeirri trúlofun hefur aldrei verið slitið,“ sagði hann og leit brosandi framan í hana. „Ætli hún hafi ekki slitnað, þegar þú Settir upp hringinn? Eða kannske þú haldir, að þú megir kjá framan í hverja stúlku og kyssa hana, þó að þú sért opinberlega trúlofaður. Þú sást nú hvernig Önnu varð við í nótt, þegar þú tókst upp á því að kyssa mig á miðju gólfinu. Ég hef nú aldrei vitað verra.“ „Heldurðu, að henni hafi orðið illt af því? Hún var bara orðin svona þreytt að spila.“ „Ónei; það var ekki af því. Þú þarft ekki að hugsa, að hún þoli svona lagað; hún er of veiklynd til þess. Að minnsta kosti skaltu ekki kvelja hana með því að kyssa mig. Ég tala við hana á sunnudaginn.“ „Hvað ætlarðu eiginlega að tala við hana?“ spurði hann í breyttum málrómi. „Láttu mig um það,“ svaraði hún stuttlega. „Mig langar til að vita það.“ Hún glotti hálf ertnislega. 1 fyrsta sinn á ævinni fann hún, að hún hafði tromp á hendinni, sem honum var ekki sama um. „Ég segi þér það ekki,“ sagði hún. „Þú þarft þess heldur ekki. Þú hefur aðeins töglin, en ég skal sjá um halgdirnar,“ sagði hann rólega. • Þau voru komin heim á hliðið í Hvammi. Hann bað Fúsa að skjótast inn.og útvega sér vatn að drekka. Fúsi fór inn. „Ég má þó líklega kyssa þig núna, Þóra mín. Nú sér ekki kærastan til okkar,“ sagði Jón. Þá lét Þóra tilfinningarnar ráða. Hún vafði handleggjunum um háls honum. „Þetta er kveðjukossinn. Nú skiljum við fyrir fullt og allt. Þakka þér fyrir allt gott og elskulegt.“ Þau kysstust fast og innilega. „Mundu það,“ hvíslaði hún milli kossanna. „Aldrei framaj:.“ Svo hvarf hún úr faðmi hans inn í myrkrið í bæjardyrunum, en Fúsi kom út með fulla vatnskönnu og rétti Jóni hana. Hann dreypti í vatnið, hellti því svo öllu ofan á frosið hlaðið, kvaddi Fúsa og fór. Norðan við bæjardyrnar var stofukytra. Þangað fálmaði Þóra sig í myrkrinu. Hún hafði tekið vonbrigðunum og söknuðinum með kaldlyndi hingað til, en nú höfðu brennheit faðmlög hans og hugsunin um, að hún væri að kveðja hann í síðasta sinni bugað hana algerlega. Hún settist á kistu, sem stóð rétt hjá borðinu, og grét táraríkum gráti. Hann var horfinn, þessi fallegi og elskulegi piltur, sem hafði verið henni meira en dagur og ljós í hálft annað ár, eða kannske lengur, miklu lengur. Hún vissi það ekki fyrir víst, hvenær hún hafði farið að lifa fyrir hann. Kannske hafði hún gert það alla ævina á milli sundurlyndiskviðanna. Svo komu þessar kröfuhörðu spurningar, sem hana langaði svo ósegjanlega mikið að fá svar við. Hafði hann elskað hana eins mikið eða meira en Önnu? Hafði hann aðeins af brjóstgæðum sagt fóstursystur sinni, að hún ætti að verða konan hans, þegar hann sá hana gráta? Eða var það móðir hans, sem réð? Hann hafði einu sinni sagt henni, að mamma sín ætti að velja tengdadótturina. Það var vormorgun- inn fagra, þegar vorblóm hennar lifnuðu, blómin, sem nú voru frosin og dauð. Hún rifjaði upp hvert orð, sem hann hafði sagt: Kaldlynd og tilfinningalaus stúlka mundi sóma sér illa við hlið móður hans. Var það kannske það, að honum þætti hún stórlynd? Hana hafði langað svo ósegjanlega mikið til að spyrja hann að þessu á leiðinni sunnan frá Hjalla, en ekki búizt við að heyra sannleikann. Hún hafði svo oft tekið eftir því, að hann tók ekkert nærri sér að sneiða hjá honum, ef hónum lá á, og henni fannst það langt frá að vera leiðinlegt. Elli á Hóli og fléiri ungir piltar þar í dalnum sögðu það oft, að það væri aðdáunarvert, hvað hann gæti logið skemmtilega. Hvað er það, sem ekki er hrósvert í fari þess, sem heilt sveitarfélag lítur upp til og dýrkar? Hann hefði sjálfsagt talið henni trú um, að sér hefði þótt jafnvænt um þær báðar og þætti það alltaf.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.