Lögberg - 11.06.1953, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 11. JÚNÍ, 1953
y=——.
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DA LALÍF
\
„Ég hélt það af því, að hnjúkarnir eru svo hvítir,“ sagði hann
og benti hlæjandi fram í fjöllin. „Það er munur eða hérna hjá
okkur; þar sést ekki snjódíll í fjöllunum.“
Hún leit hornauga upp til fjallanna. „Ég get nú helzt trúað,
að það festi aldrei fönn á þessum grjótstrýtum,“ sagði hún
þurrlega.
Hann hló. „Hefurðu aldrei komið út á Ströndina fyrr?“
„Nei, ekki svona langt.“
„Þér lízt víst ekkert vel á þig?“
„Mér sýnist hún ósköp mögur og sultarleg,“ sagði hún og
hló dálítið. '
„Finnst þér björgulegra í dalnum?“
„Það er ólíku saman að jafna.“
„En það var líka alauð jörð hjá okkur um páska. Þá var sagt,
að allar skepnur væru í húsi hjá ykkur.“
„Það er líka gras, en ekki grjót, undir snjónum hjá okkur,
þegar hann leysir,“ sagði hún og hló glaðlega.
Hann hló líka. „Kannske verðum vð alltaf að jagast út af
dalnum og Ströndinni,“ sagði hann.
„Dalurinn er langtum betri,“ sagði hún.
„Þeir eru líka háreistir og drjúgir, dalapiltarnir,“ sagði hann,
„þó að hann sé nú allra montnastur, þessi „dalaprins“, sem svo
er kallaður.“
Þóra hækkaði í söðlinum og setti hnykk á höfuðið. „Honum
er líka óhætt að hreykja hattinum. Hann á hann sjálfur,“ sagði
hún í breyttum rómi. Svo sló hún í Mósa og þeyttist á undan
Sigurði.
Hann gat ekki haft tal af henni lengi. Þetta var ósköp laust
við að vera skemmtilegt ferðalag.
„Fer nú ekki bráðum að sjást bærinn þinn, Þóra?“ var það
næsta, sem hann sagði.
„Ó-nei. Það er nú nokkuð langt eftir ennþá,“ kallaði hún aftur
fyrir sig.
Loksins var þó riðið í hlaðið á framtíðarheimili Sigurðar.
Magga gamla og drengur stóðu úti á hlaðinu og athuguðu gestinn
nákvæmlega með forvitnum augum.
„Þetta hefur þú haft upp úr krafsinu, Þóra litla,“ vældi Magga
gamla.
„Er þetta allt heimilisfólkið?“ spurði Sigurður kíminn.
„Ójá,“ sagði Þóra. „Það er ekki svo stórt búið í Hvammi, að
það þurfi marga til að vinna fyrir því. Það er óvíða annars eins
fólksfjöldi og þarna á Hvoli. Mér þykir ólíklegt, að það hafi annað
að gera en að tefja hvað fyrir öðru.“ Hún var búin að spretta
söðlinum af Mósa, áður en hann vissi af.
„Ég hefði nú eiginlega átt að gera þetta,“ sagði hann vand-
ræðalega.
„Ég er vönust við að gera það sjálf,“ sagði hún.
Magga sagði henni, að Jón á Nautaflötum hefði komið og spurt
eftir henni rétt eftir að hún hefði verið riðin af stað. „Hann vildi
ekkert stanza,“ sagði hún.
Þóra horfði með ánægju á, hvað Sigurður tók skarplega á
skóflunni daginn eftir, þegar farið var að stinga út úr húsunum.
Það var þó mikill munur eða að sjá til hans Fúsa. Henni fannst
hún þurfa að láta hann skilja það á sér um kvöldið, þegar lokið
var við taðið að öllu leyti, stinga það, aka frá og kljúfa. Og hún
sagði glaðlega við hann, þegar þau gengu heim að bænum: „Svona
fljótt hefur aldrei gengið að stinga út, það ég man eftir.“
Eins var með túnvinnsluna. Hún gekk eins og í sögu, fannst
henni. Það var engin hætta á, að hún yrði á eftir nágrönnum
sínum núna.
Hún fór á fætur klukkan sex á hverjum morgni og fór til
kindanna eins og hún var vön, meðan sauðburðurinn stóð yfir.
Sigurður hafði ekki vanizt því, að farið væri að hreyfa sig
fyrr en klukkan sjö. Það var líka nægilega langur vinnutími til
klukkan tíu á kvöldin. Hann mókti því þangað til hann heyrði
klukkuna slá.
„Mér þyký: húsmóðirin geta vaknað á morgnana,“ sagði hann
við Möggu gömlu einn morguninn.
„Ójá; hún á ekki langt að sækja það. Hann tók ekki nærri sér
að vakna, hann faðir hennar, meðan hann gat það heilsunnar
vegna.“
„Hefur hún þessa fótaferð allan árshringinn?“
„Nei, ónei; ekki nema núna um sauðburðinn, blessaður vertu.“
Hann var ævinlega búinn að vinna dágóða stund, þegar hún
kom heim. Hún bauð honum ætíð góðan dagínn og sagði vanalega
eitthvert spaugsyrði við hann, eins og hvort honum fyndist ekki
dalurinn ólíkt fallegri núna en Ströndin, eða hvort hann sæi eftir
steinunum, að hafa þá ekki í kring um sig.
Hann svaraði vanalega í sama tón. Honum fannst hún ólíkt
skemmtilegri en þegar þau riðu inn eftir Ströndinni á kross-
messudaginn.
Hann fór að spyrja drenginn, hvað ærnar væru margar, hvort
hann vissi það. Jú, hann vissi það vel. Þær voru fimmtíu og tvær
með ánum hennar Möggu og einni, sem hann átti sjálfur.
„Nú, hvað á hún margar?“
„Átta.“
„Nú; þá á Þóra 43.“
Hann setti þessar níu til hliðar. Og seytján ær voru úti í
Hvolsfjalii sem hann átti sjálfur. Þær yrðu á fóðrum í Hvammi
næsta vetur. Það urðu samtals 60 ær.
„Er ekki eitthvað af gemlingum?“ spurði hann drenginn.
„Jú, átta.“
„Nú, já. Á ekki Magga neitt af þeim?“
„Nei.“
Og hann átti einhvers staðar líka átta. Sextán. Sjötíu og sex
á næsta vori. Hann setti ærnar Möggu enn til hliðar.
„Hvað eru hrossin mörg?“ spurði hann drenginn.
„Það eru fjórir klárarnír og Mósi og eitt trippi.“
Hann bætti við þremur höfðum, sem hann átti sjálfur. Níu
hross. Tvær kýr og kvíga í fjósinu. Það var einhvers staðar byrjað
með minna, gat hann hugsað sér.
Drengurinn hélt áfram: „Svo eru þrjár kýr, kvígan og
kálfurinn.“
„Þær eru ekki nema tvær, drengur,“ sagði Sigurður.
„Jú; ein er í byggingu á Hóli. Kannske kaupir Elli hana. En
Björn svæfði alltaf kálfinn á haustin, þegar honum fundust heyin
lítil, en þegar vel heyjaðist, lét hann hann lifa.“
„Nú, einmitt það,“ sagði Sigurður. Hann var anzi skynsamur,
þessi strákur, ekki eldri en hann var.
Þegar búið var að vinna á túninu og verið var að hressa sig á
lummukaffi, sagði Sigurður: „Hann hefur ekki haft fyrir því að
slétta í túninu, gamli maðurinn.“
„Nei; því var nú ver,“ sagði Þóra. „Ég held helzt, að honum
hafi þótt svo vænt um þúfurnar, að hann hafi ekki getað hugsað
til þess að þær hyrfu.“
„En hvað finnst þér?“ spurði hann.
„Ég vildi helzt, að þær væru allar farnar.“
Um kvöldið, þegar smalinn fór fram fyrir féð, sagði Sigurður
við hann:
„Þú skalt skreppa heim að Nautaflötum og fá lánaðan ofanaf-
ristuspaða. En skilaðu því frá Þóru, en ekki mér. Ég þekki það
ekkert, þetta fólk.“
Hann lofaði að gera það.
Hreppstjórinn var ekki heima, þegar drengurinn 'kom fram
eftir. Svo hann gerði boð fyrir húsfreyju og bar upp erindið við
hana.
„Jú, auðvitað er það velkomið, en þú þarft að koma inn,
góði minn.“
Og það voru bornar fyrir hann sætar kökur og nýmjólk. Og
fólkið þyrptist í kringum hann, næstum því eins og það langaði í
þessar kökur, og hann var spurður næstum því úr spjörunum.
Enginn var þó eins áfjáð og Lísibet og Jón. Hún var þó oft búin
að segja, að það væri ósiður, að spyrja unglingana, sem kæmu á
heimilið. En nú gerði hún sig seka í þessari óhæfu.
„Ætlar hann að fara að rista ofan af? Er hann ekki mikið dug-
legri en Fúsi?“
Það var Lísibet sem spurði, og drengurinn játaði tyggjandi.
„Er það hann, sem gengur innan um féð í fjallinu á morgnana?“
spurði Jón.
„Nei, það er Þóra. Hún fer ofan klukkan sex. Hann klæðir sig
ekki fyrr en hún er farin að ganga átta.“
„Skyldi Tóti minn hafa reynt að fara ofan jafn snemma hús-
móður sinni. Kannske farið til kindanna fyrir hana,“ sagði Jón.
„Það er vel líklegt,“ sagði móðir hans.
„Og Þóra að fara á fætur klukkan sex,“ tautaði Anna.
„Alltaf segir þú þetta. Talar um dugnaðinn í Þóru,“ sagði
konan hans og káklaði á kinninni á honum, eins og hún væri að
gefa honum pústur. „Gott ef þú hleypur ekki út í fjallið til hennar
einhvern morguninn til að hæla henni fyrir dugnaðinn.“
„Vertu ekki öfundsjúk, góða mín. Engan meiðir annars hól.
Auðvitað ert þú fjarska dugleg líka, þó að þú farir ekki á fætur
fyrr en um tíuleytið,“ sagði hann glettinn.
Hún setti upp fýlusvip, en varaðist þó að láta fóstru sína sjá
framan í sig. „Þú ert slæmur — vondur,“ tautaði hún fast við
andlitið á honum.
Hann kyssti hana hlægjandi. „Þakka þér fyrir hólið, elskan
mín. En hvers konar leiðindasvipur er þetta, sem þú setur upp?
Viltu að ég segi, að Þóra sé ónytjungur og slæm stúlka?“
Hún tók fyrir munn honum: „Nei, Þóra hefur alltaf verið mér
eins og systir.“ Svo hvíslaði hún einhverju að honum, sem enginn
heyrði.
Lísibet fylgdi drengnum til dyranna og afhenti honum spað-
ann. „Fellur þér vel við nýja vinnumanninn?“ spurði hún.
„Já, já,“ svaraði strákurinn hreykinn.
„Er hann laglegur?“ spurði hún.
„O, svona í meðallagi. Hann er rauðkollóttur,“ fleipraði hann
út úr sér, um leið og hann hljóp úr hlaðinu.
Þetta sama kvöld, þegar allir voru sofnaðir, gekk Þóra hugs-
andi suður túnið. Hún ætlaði að gá að nýborinni á, sem Fúsi átti.
Það var víst hálfgerður klaufi að komast á spenann, litla greyið.
Það var rétt að gæta að því. Hún gat hvort sem er ekki sofnað.
ílugurinn var í uppnámi.
Smalinn hafði sagt henni frá því, að hann hefði komið að
Nautaflötum, og hann hafði tuggið upp hvert einasta orð, sem
sagt var í kokkhúsinu. Og nú sauð gremjan í henni við Önnu.
Hún var að reyna að slíta upp það, sem eftir var af æskuástinni í
hjarta Jóns til hennar. Hún gat ekki þolað að hann léti í ljós að
Þóra væri dugleg, af því hún sjálf tók aldrei ærlegt handarvik;
enda þurfti hún þess ekki. Það var dekrað og stjanað við hana
eins og smáborn. Og henni datt í hug, að hann hlypi kannske út í
fjallið. Mikið hlaut það að vera óskemmtilegt fyrir hann, að vera
giftur þessari tortryggnu manneskju. Skyldi hann hafa sagt að
hún væri ónytjungur, ef hún hefði heimtað það? Skyldi hann, sem
aldrei hafði þekkt annan vilja en sinn eiginn, beygja sig fyrir
duttlungum þessarar konu, að hann segði aðeins það, sem henni
þóknaðist?
Það var aðeins þetta síðasta, sem Anna hafði sagt, sem mýkti
svolítið skapsmuni hennar. Þær höfðu alltaf verið eins og systur;
en nú fannst henni hún geta hatað hana, síðan hún sá hana
standa við stofugluggann.
Þá sagði einhver innri rödd henni, að hún hefði ekki átt betra
skilið af þessari saklausu og hreinskilnu konu.
Þóra svaf, aldrei þessu vant, morguninn eftir, þegar Sigurður
fór ofan.
„Hún hlýtur að hafa yerið í alla nótt að bjástra við féð,“ sagði
Magga gamla. Hún vakti hana með kaffinu.
„Skárri er það nú endemis svefninn!“ sagði Þóra, þegar hún
leit á klukkuna. Það var víst óþarfi að tala um dugnaðinn hennar
núna.
Hún varð hissa, þegar hún sá hvað Sigurður hafði fyrir
stafni og flýtti sér til hans.
, „Ég hélt að þú hefðir ekki á móti því, að ég risti ofan af
stykkinu því arna,“ sagði hann og brosti dálítið drýgindalega.
„Nú, það er einmitt það, sem mig hefur langað til í mörg ár,“
svaraði hún, tyllti sér á þúfu nálægt honum og horfði á, hvað
hann vann laglega.
Hann fumaði ekki eins og sumt fólk, sem vill heita duglegt,
heldur setti hann spaðann undir eitt hornið á þökunni og fló hana
ofan af þúfunni í einni striklotu, henti henni síðan dálítið frá sér.
En smalinn hamaðist við að hlaða úr þeim bunka beggja vegna
við flagið.
„Ertu vanur að gera þetta?“ spurði hún.
„Já; ég var sex vikur í fyrravor hjá nýja prestinum á Kára-
stöðum. Honum þótti heldur þýft túnið. Þeir gera meira að jarðar-
bótum á Suðurlandi en hér.“
„Já, ég sé það, að þú ert vanur,“ sagði hún og hélt áfram að
horfa á hann.
„Verður ekki langt þangað til þetta verður að slægjutúni?“
spurði hún svo.
„Það verður hægt að slá það strax í sumar.“
„Er það mögulegt?“
Hún hafði haldið, að það þyrfti mörg ár til að gróa. Eiginlega
hafði faðir hennar komið því inn í höfuðið á henni.
„Er þetta ekki erfitt?“ spurði hún því næst.
„Það læt ég vera, ef spaðinn bítur almennilega.“
„Þú hefur sléttað mikið hjá prestinum í sex vikur.“
„Já; við vorum líka tveir.“
Þóra gleymdi gremjunni, sem hafði haldið vöku fyrir henni
næstliðna nótt. Nú voru það þúfurnar og Sigurður, sem áttu mest-
allar hugsanir hennar. Hún þreyttist aldrei á því að horfa á flagið.
Gaman yrði, þegar það yrði orðið að grænu, sléttu túni, þessi
.ólukku þúfnaklasi, sem tæplega var hægt að slá eða raka.
Skyldi hann ekki slétta í túninu næsta vor, ef hann yrði þá
hjá henni? Hún gat tæplega hugsað sér að missa-hann, svo vel
féllu henni verkin hans. Hún þurfti að tala um það við hann.
Bjóða honum hærra kaup, ef hann vildi ekki vera við sömu kjör og
þetta ár.
Hún fór á fætur á sama tíma og vant var og gekk í fjallinu,
oft lengur en hún beint þurfti. Það var svo gaman að rifja upp
bernskuleikina og æskuástina og horfa yfir dalinn, sem óðum var
að grænka. Það var gott útsýnið úr fjallinu. Svo var þetta svarta,
stóra moldarflag efst í *úninu hennar. Bráðum var búið að herfa
það og flytja í það nægan áburð. Á morgun yrði það þakið,
hugsaði hún einn morguninn, þar sem hún sat ofarlega í fjallinu
og hvíldi sig. Og þarna var verið að sækja ólukku bikkjurnar frá
Nautaflötum, sem höfðu stolizt út fyrir merkin. Hestasveinninn
rak þá dálítið fram yfir merkin, sneri svo við hestinum og kom
þeysandi. Hvert skyldi hann ætla?
Nú þekkti hún reiðlagið. Það var Jón. Hann stanzaði hestinn á
grundunum rétt fyrir neðan jarðfallið og veifaði til hennar.
„Góðan daginn, Þóra! Ég er með bréf til þín.“
Bréf til mín?? hugsaði hún. Hvaðan gat það verið. Hún fékk
aldrei bréf. Hún stóð upp og gekk í áttina til hans.
„Hvar tókstu það?“
„Það kom með póstinum.“
Nú varð hún enn meira forviða. Aldrei hafði hún fengið
póstbréf, nema bréfin, sem hann hafði skrifað henni af skólanum
og hún geymdi eins og helga dóma niðri í kistuhandraða. Gat það
verið frá Lilju??
„Er það frá Ameríku?" spurði hún.
„Það getur verið.“
„Skrifar ekki Lilja þér?“ spurði hún hálf háðslega. Hún
skýrði það ekki nánar. Það var eins og heimurinn ætti aðeins
eina Lilju.
Hann vissi líka vel, hverja hún meinti og svaraði raunalega:
„Nei; hún skrifar mömmu.“
Hún var nú komin niður á jafnsléttu og stóð skammt frá hest-
inum og horfði undrandi á Jón. Því var hann svona? Það var
hvorki glettni eða ertni í svip hans, heldur alvara, eins og þegar
hann kom með líkbörurnar á sumardaginn fyrsta.
Hún gekk fast að hestinum og studdist upp við makkann.
„Hefur nokkuð — komið fyrir?“ spurði hún, og glettnisbrosið
hvarf af andliti hennar.
„Hefurðu heyrt frá Seli?“
„Nei, hvað? Seli? Hvað er þaðan að frétta?“
„Það eru sorglegar fréttir. Hjálmar hrapaði fram af bröttu
klettunum í Faxagilinu og stórslasaðist.“
„Ósköp eru að heyra þetta,“ sagði Þóra og stundi. „Hefur
læknir verið sóttur?“
„Já; hann var þar í gær. Hann gaf víst litlar vonir. Mamma
er fram frá.“
„Ó, þessi veikindi og dauði. Það er voðalegt!“ andvarpaði hún.
„Já,“ sagði hann. „Þessi alheimsstjórn svo kallaða. Hún á að
vera réttlát og gæzkurík. En hún er óréttlát. Hvað skyldi hann
hafa unnið til slíkra forlaga? Hefur hann ekki strítt við fátæktina
alla ævina, án þess að mögla, og svo á hann þetta eftir, að lifa við
örkuml og langar þjáningar. Það hefði þá verið betra, að hann
hefði dáið strax. Aldrei raknað við aftur.“
„Já,“ sagði hún. „Það hefði verið það bezta. Að hugsa sér að
þjást margar vikur, eins og hann pabbi sálugi. Þó hefur hann
ekki átt eins bágt og þessi maður.“ Svo bætti hún við: „Það var
gott, að Þórður fór ekki frá Seli í vor.“
„Víst var það, fyrst þetta þurfti að koma fyrir.“
Hún brosti dálítið. „Svona var ég skynsöm.“
„Það er víst óþarfi að þakka skynseminni það, heldur þráan-
um og duttlungunum, sem þér eru gefin-í svo ríkum mæli. Hvað
gekk eiginlega að þér þarna um kvöldið, þegar þú varst að fara og
ég var alveg að bráðna af bróðurkærleika og umhyggjusemi, en
þú lézt eins og óhemja og óviðráðanlegur vargur?“
Þóra greiddi faxið á hestinum með fingrunum, hálfvandræða-
leg á svipinn og kafrjóð í.andliti.
„Ég var gröm við Önnu,“ sagði hún lágt.
„Við Önnu? Nú er ég alveg hissa. Ég hélt, að engin manneskja
gæti látið sér þykja við svo saklausa og góða stúlku sem hún er.“
„Hvað þurfti hún að vera að standa á gægjum? Það var and-
styggilegt, og það á þessu kvöldi, þegar ég var nýbúin að fylgja
föður mínum til grafar.“
„Ó, hún hefur ekkert meint með þessu. Hún bara elskar mig
svo mikið, að hún getur tæplega séð af mér nokkra stund. Nei,
Þóra mín; henni dettur ekki í hug að óttast þig. Það eru bara
flestar konur svona. Þær vilja alltaf horfa á mennina sína. Svona
verður þú líka, þegar þú ert gift.“ Hann brosti svo ósköp blíðlega.
„Ég gæti hugsað, að hann mætti vera frjáls að því að tala
jafnt við konur sem karla,“ svaraði hún stuttlega. „En ég hugsaði
mér, að hún skyldi ekki þurfa að elta þig á mitt heimili; en þangað
hefðir þú kannske komið, ef Þórður hefði verið þar; enda sagðir
þú eitthvað í þá átt, ef mig minnir rétt,“ bætti hún við.
„Ég hefði nú varla sagt henni frá því, þó að ég hefði komið við,
þegar ég hefði komið neðan úr kaupstað."
„Þá er nokkuð langt gengið, ef farið er að ljúga að konunni
sinni.“
„Hvað? Þetta eru ekki annað en nauðsynlegar sveiflur. Þú
hlýtur þó að hafa heyrt, að það er oft skrökvað að börnum, svo að
þau verði rólegri.“