Lögberg - 01.10.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 01.10.1953, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 1. OKTÓBER, 1953 * „Já, ég býst við, að það sé dálítið ólíkt. En ég get sagt þér það, af því ég heyri að þú skilur mig vel, að það er erfitt ennþá. Þau vilja öll vera heima, heimta að fá kaup, sem við getum ekki borgað í öðru en skepnufóðrum. Alltaf fækkar hjá okkur. Hvernig skyldum við svo geta fætt allan þennan hóp, ef sjórinn væri ekki. Ekki getum við sagt þeim, að við kærum okkur ekki um þau heima, þegar þau eru búin að vinna hjá okkur. öll þau þjónustu- brögð, sem lenda á okkur Maríu. Og svo alltaf ósamlyndið. Þau eldri vilja sitja fyrir öllu, finnst að yngri skinnin þurfi ekkert að bera úr býtum. Mér þótti vænt um, þegar ég heyrði, að Sigurður væri búinn að ná í framtíðarheimili. Það munar um skepnurnar hans. Og ekkert þeirra hefur verið eins kröfuhart við okkur eins og hann, enda vann hann lengi hjá okkur; Bjarni minn er heldur örlátari, hann leggur til kaffi og fleira og gefur mér utan á mig og litlu krakkana. Ég tala nú ekki um Maríu, hún vill allt fyrir okkur gera. Halldóra er búin að vera á Kárastöðum síðan í sláttar- byrjun, hún er vitlaus í óyndi, er þó heimilið ágætt. Stína komst að hálfan mánuð á Hlíðarenda. Svona gengur það í þessu lífi, það hefur hver sitt að kæra.“ Hún fór með trogið inn í búrkompuna. Litlu drengirnir komu inn og eltu hana ánægjulegir, þegar þeir sáu hvað hún bar í troginu. Þóra gekk út. Hér var mikið heldur fallegt. Sjórinn var sléttur eins og spegill, skammt fyrir neðan túnið. Sjófuglarnir gáfu frá sér einkennileg hljóð, sem hún hafði ekki heyrt fyrri. Það hlaut að vera óskemmtilegt að búa svona nferri sjónum, þegar hvasst var. Það var víst margt óskemmtilegt, sem þessi vesalings kona þurfti við að búa. Þvílík kjör. Aldrei hafði hún heyrt getið um annað eins stríð. Hún gekk suður fyrir bæinn og varð án þess að ætla sér áheyrandi að samtali, sem fór fram á milli bónda og Sveins sonar hans, sem var seytján ára unglingur. „Hann á alltaf hjá mér, ég veit það. Ég skal reyna að láta þig hafa kindur í staðinn,“ heyrði hún bónda segja. „Geturðu ekki alveg eins látið hann hafa kindurnar. Ég get ekki látið Rauð, mér þykir svo vænt um hann,“ svaraði drengur- mn. Flenni heyrðist kjökurhljóð í rómnum. — „Hann vill endilega hafa hann. Þú hefur nú alltaf verið svo góður drengur við pabba.“ Þóra flýtti sér heim að bæjardyrunum, hana langaði ekki til að heyra meira. Þung voru kjör þessa fátæka fjölskylduföðurs, sem varð að neyða barnið sitt til að láta eftirlætisskepnuna sína til samvizkulausra skuldheimtuvarga. Hver skyldi það vera. Ekki gat það verið kaupmaðurinn. Engir markaðir voru á þessum tíma ars. Líklegast fanst henni, að það væri þessi Vagn í Múla, honum var trúandi til þess, eftir því að dæma, hvernig hann tók á móti aumingja konunni, þegar hún leitaði til hans. Það var ólíkt fólkið í dalnum eða hérna. Enginn dalbúi hefði hagað sér svona. Hún svipaðist um eftir Sigurði. Hann varð að hjálpa. Eitt hestverð var ekki mikið. Hún gæti hreint ekki yfirgefið þetta heimili, fyrr en hesturinn væri frelsaður úr klóm óþokkans og Sveinn litli glaður aftur. Hann sem var svo góðlegur og stilltur með alls engan kergjusvip. Hún beið á hlaðinu eftir Sigurði, hann kom neðan frá sjónum. „Leiðist þér, góða mín?“ spurði hann blíður. „Nei, alls ekki. Hér er bara fallegt,“ svaraði hún. „En fátæktin er allt of mikil.“ „Og læt óg það nú vera, hún kann nú að „berja lóminn“ sú aldraða,“ sagði hann. „Mér sýnist það ekki þurfa að væla yfir bjargarleysinu, um annað hirðir það lítið. Þvílíkur fiskur. Ég vildi ég hefði heldur róið héðan en af ósnum. Það er munur að taka allt af bátnum, eða einn skitinn hlut úr skiptunum." „Það hefði verið heldur óþægilegra að senda þér matinn hingað út eftir.“ „Ég hefði sjálfsagt ekki séð eftir þeim að fæða mig,“ svaraði hann stuttaralega. „Þér finnst ekki nógu margt á þessum tveimur kýrnytjum,“ sagði hún í sama tón. „Það eru ekki orðin mörg pelabörnin. Sjórinn er þeim á við eina belju.“ María kom út og bauð þeim að koma inn og borða. Þóra tók orlofs böggulinn úr töskunni og fór til baðstofu. Allt heimilisfólkið var setzt að snæðingi, hver á sínu rúmi, en á borðinu var matur handa þeim Sigurði og Þóru, tómir diskar og hnífapör. Ný ýsa og kútmagar, flatbrauð og smér allt hreinlega fram borið. „Þarna er glaðning handa þér frá mér,“ sagði Þóra og rétti tengdamóður sinni böggulinn. Hún skellti á lærið. „Nú gengur aldeilis fram af mér. Kemur hún ekki nema með gjafir. Það var „aldrei,“ að ég eignaðist tengdadóttur. Yfirsjal og þetta dónalega svuntuefni. Ég hef nú ekki venð fituð af gjöfunum um ævina, líklega af því, að ég hafði ekkert að gefa í staðinn.“ Hún breiddi úr sjalinu. „Hvernig bara lízt þér á, María. En sá feldur.“ „Það verður varla langt þangað til stelpurnar fara að „darka“ með það,“ sagði Sigurður. „Ég gæti hugsað að þú létir það aldrei a.sjálfa þig.“ „Þegar hún kemur fram að Hvammi,“ skaut Þóra inn í. „Þangað kem ég nú ekki, fyrr en þið eruð búin að gera mig að ömmu,“ sagði húsfreyja brosleit. _ „Þá verður klúturinn orðinn ónýtur,“ sagði Sigurður og settist við borðið og tók hressilega til matarins. „Hvergi fæ ég eins góða kútmaga eins og hjá mömmu,“ sagði hann. Svo hvíslaði hann í hálfum hljóðum að Þóru: „Þér er óhætt að borða þá, þeir eru vel verkaðir." „Ég veit það,“ svaraði hún enda sýndist henni langt um minni óþrifnaður á þessu heimili, en hún hafði búizt við. Hún var bara að hugsa um samtalið, sem hún heyrði til feðganna. Svein og Ingigerði vantaði í baðstofuna. Aumingja drengurinn, hann var eyðilagður út af hestinum sínum og hefur ekki matarlyst, hugsaði Þóra. María kom með kaffi á eftir matnum. Svo var farið að hugsa til heimferðar. Öll fjölskyldan fylgdi út á hlaðið. Óngstu dreng- írnir komu með rauðan hest á milli sín neðan túnið og töluðu við’ hann á leiðinni. „Aumingja litli Rauður! Líklega kemur þú bráðum aftur til okkar, það er líka gott. Ekki kanntu við þig hjá ókunnugu hross- unum, sem bíta þig og berja.“ „Ykkur þykir vænt um Litla-Rauð,“ sagði Þóra við bræðurna, um leið og hún kvaddi þá. „Hann er sama sem heima-gangur og étur allt, sem þeir bjóða honum,“ sagð^ móðir þeirra. „Ég get ýmyndað mér, að hann verði kvaddur með tárum.“ „Hann fær góðan stað,“ lagði Friðrik bóndi til málanna. Þóra gekk milli tengdafólksins og kvaddi alla nema Svein og Ingigerði. Þau sáust hvergi. Sigurður beið eftir henni. Hann var búinn að leggja taumana upp á makkann á hestunum, þegar Ingi- gerður sást í sundi, sem var milli bæjarins og skemmu, sem stóð fyrir norðan hann. „Vertu sæl, Inga mín!“ kallaði hann til hennar. Hún hentist í áttina til hans kafrjóð með ógreiddan hár- lubbann úfinn út í loftið.“ „Skammastu þín bara,“ hrópaði hún ofsalega. „Þú þurftir ekki að koma til þess að stela Litla-Rauð frá Sveini.“ „Hvaða fjandans frekja er í þér stelpuvargur,“ sagði hann byrstur. Þóra leit undrandi í kringum sig, en það leit út fyrir, að enginn hefði heyrt, hvað Ingigerður litla sagði nema hún. Það var þó ómögulegt, að það væri Sigurður, sem var að pína hestinn út úr fátæka föðurnum; svo andstyggilegur gat hann þó ekki verið. „Jæja, góða mín, ertu aldrei búin að kveðja mágkonurnar?“ spurði Sigurður. „Ég ætlaði að hjálpa þér á bak.“ „Ég hef sagt þér það áður, að ég hætti að fara á hestbak, þegar ég kemst ekki hjálparlaust í söðulinn og úr honum,“ svaraði hún og gekk til hestsins, sem hún reið á, og beið þess að málið skýrðist. Sigurður streittist við að komast í hnakkinn. Mósi var ókyrr og vildi fara að komast heimleiðis. Þóra horfði á hann með lítils- virðingu. Loksins í þriðju atrennunni tókst það. Þá teymdi faðir hans Litla-Rauð til hans og rétti honum tauminn. En litlu bræð- urnir hvísluðust á um það sín á milli, að líklega yrði Rauður kominn til þeirra á morgun aftur. Þóra kippti taumnum úr hendi manns síns samstundis og honum var réttur hann og teymdi hestinn til Ingigerðar og sagði: „Fáðu Sveini hann, Inga mín. Það eru nógir hestar í Hvammi. Rauður skal aldrei koma þangað, fyrr en Sveinn kemur með hann sjálfur í heimsókn til okkar.“ „Hvað er þetta manneskja?" spurði Sigurður svimandi af undrun. „Ég er búinn að kaupa folann.“ „Hvar eru peningarnir, sem þú borgaðir hann með?“ spurði hún óþarflega hávær. Friðrik gamli skákaði sjálfum sér fram milli nýgiftu hjón- anna, eins og hann byggist við handalögmáli. „Hann átti hjá mér,“ sagði hann hægt. „Hvað skyldi hann eiga hjá þér? Og þó svo væri, á ekki Sveinn að borga þá skuld,“ sagði Þóra fasrtíikil. „Við tölum betur um þetta á heimleiðinni," sagði Sigurður þurrlega. Hann kunni ekki við að fara að jagast við konu sína í áheyrn foreldra sinna. Hún var líka sæmilega reið og færi strax í ofsa. „Ég kem út eftir á veturnóttum og sæki kindurnar mínar,“ sagði hann við föður sinn. Svo hleypti hann Mósa á sprett og leit ekki til baka fremur en hann væri einn á ferð. Þóra kvaddi Ingi- gerði hlýlega og veifaði til Sveins, sem stóð á gægjum að húsabaki. Hann hafði ekki getað stillt sig um að horfa á eftirlætið sitt, þegar það yrði teymt úr hlaði.-Síðan reið hún úr hlaði í hægðum sínum. Það var gott, að Sigurður gat einu sinni komið áfram hesti, hugsaði hún og lofaði honuin að hafa undanreiðina. Loks náði hún honum. Þau riðu þegjandi dágóða stund, hún ætlaði honum að byrja, og hann gerði það líka, ekki neitt sérlega blíðmáll: „Hvaða svo sem vitleysisflan var þetta í þér, manneskja, með folann. Þú lætur stelpuna gera þig vitlausa, þegar þú sérð hana, þennan asna.“ Henni var raunnin reiðin að miklu leyti, og gat því svarað honum rólega. ^ „Ég heyrði á tal þeirra pabba þíns og Sveins, þar sem hann var að neyða hann til að láta sig hafa folann handa einhverjum, sem hann sagði að ætti hjá sér. Og ég var að hugsa um, hver hann gæti verið, þessi samvizkulausi svíðingur, sem gengi svona hart að fátæklingunum, og það varst þá þú. Hvernig geturðu fengið af þér að koma svona fram við foreldrana þína. Það hefði víst verið nær, að þú hefðir gefið þeim skepnu.“ „Þú veizt lítið um allt það, sem ég hef látið þau hafa. Allt, sem ég innvann mér, rann til þeirrg." „Mér sýnist þú ekki eiga minna en margur annar á þínum aldri, sem alltaf hefur tekið kaup.Það er skammarlegt, að þið skuluð öll kássast heima og heimta kaup af þeim og láta þau fæða ykkur í stað þess að vinna annars staðar. Það ætti þó að vera til ánægju fyrir ykkur að hjálpa þeim, þessum dugnaðarmann- eskjum,“ sagði hún. „Ég vann mikið annars staðar seinni árin. Þau þurfa ekkert að rausa um það, var ekki heima ne3.ia mánuð af slættinum.“ „Og lézt þau svo fóðra allar skepnurnar þínar fyrir þá vinnu.“ „Varð ég ekki eitthvað að hafa fyrir það, sem ég átti hjá þeim?“ „Þú skalt ekki láta mig heyra svona lagað, það er of skammar- legt til þess,“ sagði hún og sló í Rauð. Mósi kunni ekki við að verða á eftir. Þau riðu hratt lengi og töiuðu ekki orð. Þegar þau hægðu ferðina byrjaði hann að rausa: „Mér þykir þú ætla að verða nokkuð ráðrík, ef þú ætlar að láta svona oft.“ „Mér þykir ólíklegt, að þú hafir búizt við öðru,“ svaraði hún, „ef þú hefur ætlazt til að ég segði já og amen við öllu, sem þér dytti í hug, þá er óhætt fyrir þig að setja upp nýtt reikningsdæmi.“ „Það skal ekki verða bráðlega, sem ég ríð með þér út að Hvoli,“ sagði hann reiður. „Það þýðir heldur ekkert fyrir þig að bjóða mér samfylgd. Þetta skal verða fyrsti og síðasti túrinn, sem ég fer með þér. En samt þykir mér vænt um, að ég gat komið í veg fyrir, að þú reyttir þessar fáu fjaðrir, sem eftir eru á foreldrum þínum,“ sagði hún í sama tón. „Og reyndu svo að komast eitthvað áfram, svo að við lendum ekki í þreifandi myrkri,“ bætti hún við. „Svona líta þau þá út, þegar þau koma úr fyrsta útreiðartúrn- um — bálreið og úfin eins og grimmir kettir,“ rausaði Magga gamla við felhelluna um kvöldið. „Það fer sjálfsagt eins og' mig hefur grunað, hann hefur varla lag á henni Þóru þessi staur-busi, enda þykir henni ekki frekar vænt um hann en skóna sína. Slíkt og þvílíkt bölvað flan, að láta pússa sig saman við hann, áður en hún þekkti hann nokkurn skapaðan hlut. En svona fer það, þegar æskan vill ráða.“ Þóra kom fram og spurði Möggu, við hvern hún hefði verið að tala. „Bara við mig sjálfa,“ svaraði hún lágt. Svo bætti hún við í hærri tón: „Þú hefur víst ekki haft mjög mikið gaman af þessu ferðalagi, Þóra mín.“ „Jú, ég hafði gaman af túrnum." „Er hún ekki heldur lítilfjörleg, þessi tengdamóðir þín?“ spurði Magga. „Nei, það er hún ekki. f sporin hennar kæmust fáar konur sveitarinnar, þó þær hafi hana ekki í hávegum. Þvílíkt heimili að stjórna því í annari eins fátækt, það gerir engin manneskja. sem er lítilfjörleg. Það getur enginn ímyndað sér það nema sá, sem sér það,“ svaraðgi Þóra og stundi þunglega, um leið og hún gekk fram úr eldhúsinu, en Magga horfði forviða á eftir henni. Hvað skyldi það svo hafa verið, sem slettist upp á fyrir þeim. Það væri fróðlegt að frétta, hugsaði hún. Daginn eftir var Sigurður kominn í sitt vanaskap og reyndi að vera hlýlegur og fyndinn við konu sína, en hún var köld og fátöluð. Hann vissi, að hún var fram í stofu og fór þangað til hennar. Hún stóð við opna grænmáluðu kistuna, sem hann langaði svo mikið til að sjá, hvað hefði að geyma. Hann gekk til hennar og leit ofan í kistuna. Þar voru jakkaföt úr svörtu klæði, sem hann vissi að hefðu verið spariföt föður hennar, sokkar og bryddir skór með fallegum rósaleppum. En sú bölvuð sérvizka að vera að geyma þetta eins og einhverja dýrgripi niðri í kistu, hugsaði hann. Eitthvað var þar af fötum, sem hún átti sjálf. En fyrir handraðann hafði verið settur lítill hengilás. „Hvað geymirðu í þessari kistu, góða mín?“ spurði hann blíður. „Þú hefur aldrei sýnt mér í hana. Er það kannske fjöreggið þitt, sem þú hefur í handraðanum eins og „Loðinbarði gamli?“ Það er vel um hann búið, læstur með lás.“ „Það er nú ekki víst, að ég verði eins eftirlát og hann karl- greyið,“ svaraði hún og brosti dálítið. „Hver veit nema þú hagnýttir þér traustið eins og Helga,“ bætti hún við. „Onei, mig langar ekkert til að losna við þig, góða, mér þykir of vænt um þig til þess,“ svaraði hann brosandi. „Hún taldi honum víst líka trú um, að sér þætti vænt um hann, þegar hana langaði til að sjá ofan í handraðann." Sigurður varð hálf kindarlegur á svipinn. „Það er nú eins og hver önnur della, sem fólk hefur samið til að segja krökkunum í myrkrinu,“ sagði hann. „Ætlarðu að geyma sparifötin hans pabba þíns þarna alltaf,“ bætti hann við. „Það fer hvergi betur um þau en í kistunni hans.“ „Þér hefur þótt vænt um hann pabba þinn.“ „Ég býst við, að það þyki flestum manneskjum vænt um foreldrana sína, sem einhverjar almennilegar taugar eru í,“ svaraði hún kuldalega. „Það er nú heldur ekki nema missiri síðan hann dó, svo ég er ekki búin að geyma fötin hans lengi.“ Hún skellti kistunni í lás sárgröm yfir þeim skyssum og glöpum, sem hún var búin að gera á þeim stutta tíma, sem hún átti að stjórna heimilinu. Hann ranglaði um gólfið vonsvikinn. „Við skulum nú jafna þetta með okkur. En það var nú þess vegna, að ég fór að ágirnast folann, að mér fannst ég eiga helzt til fáar skepnur á móts við það, sem þú leggur til þúsins.“ „Ég vildi heldur, að þú ættir opga skepnu, en þær væru illa fengnar. Þær eru ekki margar skepnurnar mínar, en þær eru ekki teknar af fátæklingum neitt af þeim,“ svaraði hún. „Ég held, að strákurinn hafi lítið með hest að gera, hann er ekki svo gamall.“ „Áttir þú ekki hross á hans aldrei?“ „Jú, ójú.“ „Jæja, hvernig hefði þér þótt að láta taka það af þér handa einhverjum ágirndarvarginum?" spurði hún. „Ég hefði varla sleppt því,“ flýtti hann sér að segja. „En þér þykir ekki mikið að bjóða bróður þínum það,“ sagði hún og nú var auðséð, að hún var að tapa stillingunni. Hann varð að slá undan, ef allt ætti ekki að fara í blossa aftur. „Við skulum nú ekki fara að rífast. Ég býst ekki við að eiga þetta meira og þykir mér það þó slæmt, því folinn er gott hestefni.“ „Það vantar ekki hesta hér,“ svaraði hún í mildari tón og stikaði inn. Nokkru seinna sendi hún Jóa út að Hvoli með klyfjaðan hest af garðamat. „Þér er óhætt að stækka garðinn, ef þú ætlar að bæta Hvols- heimilinu á hann,“ sagði Sigurður þurrlega, þegar hann var að láta pokana til klakks. „Það er nú ekki svo mannmargt heimilið okkar, að við getum ekki séð af svona litlu,“ svaraði Þóra. „Eða kannske þú sjáir eftir því handa henni móður þinni?“ bætti hún við. „Ætli þér finnist ekki, að ég eigi lítið í garðinum þeim arna,“ sagði hann gremjulega. „Jú, ég á hann sjálf,“ svaraði hún stutt. Hann gekk í burtu þungur á brún. Þetta ætlaði að ganga erfiðar en hann hafði hugsað sér. Hún var ráðrík kona, en hart var nú samt að láta hana stinga sér svona í pilsvasann svona undir eins, þó hann legði minna til búsins.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.