Lögberg - 07.01.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 07.01.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 7. JANÚAR 1954 Þegar búið var að skammta, komu þeir loksins inn, Sigurður og Jói og fóru að háma í sig hræringinn. Enginn talaði orð frá vörum. Þá heyrðist riðið í hlaðið. Sigurður flýtti sér fram, eins og hann hefði átt von á gestinum. Rétt á eftir heyrðist hávært samtal utan af hlaðinu. Þóra færði sig fram í göngin og lagði við eyrun. Unglingspiltur frá Nautaflötum sat á hestbaki rétt fram- undan bæjardyrunum. Hún heyrði Sigurð segja reiðilega: ,J>au liggja í túninu á hverri nóttu. Ég. læt ekki ganga svo- leiðis á mér. Þú getur sagt Jóni, að hann geti sótt þau og borgað fyrir þau. Að öðrum kosti geta þau soltið til dauðs inni. Ég opna aldrei fyrir þeim“. „Jón á víst ekkert af þeim“, sagði drengurinn skilningssljór. „Jakob á þau öll“. „Það er alveg sama. Þú getur skilað því til Jóns eða móður hans“, svaraði Sigurður. „Ég get tekið hrossin. Ég átti að sækja þau“, sagði drengurinn með sama skilningsleysinu. „Ég er búinn að segja þér það, asninn þinn, að hrossin eru læst inni í húsi, og þaðan fara þau ekki fyrr en þau eru keypt út, og farðu svo og segðu Jóni þetta, ef hann væri eitthvað skilnings- betri“, þrumaði Sigurður. Drengurinn reið úr hlaði, án þess að kveðja. Þóra færði sig inn í búrið, svo Sigurður skyldi ekki verða þess var, að hún hefði heyrt, hvað fram fór úti á hlaðinu. Hvað skyldi óvildin ætla að ganga langt á milli bæjanna. Hver skyldi trúa öðru eins, að nokkur kæmi svona fram við Nautaflatahjónin, sem allir elskuðu og virtu að verðleikum. Og þetta var heimilið, sem hún var hús- móðir á, hugsaði hún ráðalaus yfir heiftrækni bónda síns. Mér hefði verið nær að þegja yfir erindi Lísibetar; það hefur kveikt í honum. Hvað á ég eiginlega að gera? Ef Jón kemur eftir hrossun- um, þá gengur víst eitthvað á. Sigurður beið úti þó nokkra stund. Svo fór hann að hátta, þegar hann sá þess engin merki, að komið yrði eftir hrossunum. Þóra sá hann láta nýjan láslykil á hilluna fyrir ofan rúmið sitt. Hún háttaði líka, en ekki nema að nokkru leyti. Henni var of órótt til þess að geta sofnað. En þreytan svæfði fljótlega alla aðra í baðstofunni. Þegar hún hafði sannfært sjálfa sig um, að Sigurður væri sofnaður, læddist hún ofan úr rúminu, smeygði á sig skónum og laumaðist yfir að rúmstokknum á rúmi hans og greip lykilinn og smaug út í hálfdimma síðsumarsnóttina með lykilinn í saman- kreistum lófanum. Hrossin hlutu að vera í ærhúsinu. Þangað hljóp hún. Það stóð heima. Aðrar dyrnar voru læstar með nýjum hengilás; hinar hlutu að vera lokaðar að innan verðu. Hún opnaði lásinn með óstyrkum höndum og hafði talsverðan hjartslátt, ems og hún ætlaði að fara að aðhafast eitthvað óheiðarlegt. Síðan smaug hún undir hálsinn á þeim hestinum, sem stóð næst dyrun- um, fikraði sig yfir garðann og ofan í hina króna, og þokaði lokunni frá. á var nú þessi þraut unnin. Hvað skyldi maður hennar segja, ef hann kæmi að henni? hugsaði hún, meðan hún opnaði báðar dyrnar og stóð fyrir utan meðan hrossin ruddust hvert á fætur öðru, sárfegin að sleppa út úr hitasvækjunni í húsinu. Hún ætlaði að reka þau fram á merkin; þau kæmu varla til baka aftur. Þá kvað allt í einu við nístingskaldur hæðnis- hlátur rétt fyrir aftan hana. „Ha, ha! Hægri höndin vinnur þá svona móti þeirri vinstri“. Það var enginn annar en Jón Jakobsson, sem þar var kominn, án þess að hún hefði heyrt til hans. Hún hentist til hliðar og rak sig á eldiviðarhlaðann. Um leið datt lykillinn úr hendi hennar. „Jesús minn!“ hrökk upp úr henni. Hann hló ennþá meira. „Ég er nú hræddur um, að það sé syndugri mannvera en Jesús frá Nasaret, sem hér er á ferðinni“, svaraði hann loks. Þóra varð algerlega ráðalaus, en samt var það betra, að það var Jón heldur en Sigurður. Þó hún hefði helzt viljað vera laus við nokkurt vitni að gerðum sínum. „Hvað ertu svo sem að fara um hánótt?“ spurði hún kuldalega. „Nú, því ert þú á fótum um hánótt?“ spurði hann háðslega. Hún svaraði ekki; þá hélt hann áfram: „Ég kom til að sækja hrossin eftir skipan bónda þíns“. Hún reyndi að finna lykilinn á hlaðinu. Hann tók eftir því og kverkti á eldspýtum, hverri eftir aðra, þangað til hún fann lykilinn. „Því varstu að hleypa út hrossunum?“ spurði hann, og það var ekki vottur af háði í röddinni. „Taktu hrossin, og hugsaðu ekkert um það meira“, svaraði hún fálega og bjóst til að fara heim. „Heldurðu að ég viti ekki, að þú ert að reyna að breiða yfir skammirnar, sem þessi mannskepna þín er að vinna. Að láta drenginn sækja hrossin fram undir merki, til að setja þau inn og ljúga því svo, að þau séu í túninu á hverri nóttu“, sagði hann. „Hvernig gaztu látið þér detta í hug að taka að þér annað eins lubbamenni, önnur eins kona og þú ert?“ „Þau hafa sjálfsagt verið í túninu í fyrri nótt, hafi hann sagt það“, var það eina, sem hún gat sagt. „Hafa þau sjálfsagt verið?“ greip hann upp eftir henni. ,Þér er líklega ókunnugt um það? Þú hefur líklega farið á fætur á undan honum, eins og þú ert vön. Heldurðu að okkur sé það ókunnugt, þar sem við höfum látið sækja þau á hverju kvöldi. Það er óþarfi fyrir þig að reyna að Ijúga því, honum til málsbóta". „Nú, jæja“, sagði hún, „það er þýðingarlaust að þrefa um það. Hrossin eru komin út kostnaðarlaust. Farðu með þau, svo þau“. — „Svo þau verði ekki í hlaðvarpanum í fyrramálið og komi upp um þig“, greip hann fram í fyrir henni. „Ég vona, að þú látir engan fá vitneskju um hver opnaði húsið“, sagði hún og sneri til bæjar. Hann gerði sig líklegan til að fylgjast með henni. Hún stanz- aði, alveg hissa. „Hvað?“ spurði hún. „Nú, ég þarf líklega að finna húsbóndann“, svaraði hann. „Hann er steinsofnaður, maður“, sagði hún áköf. „Það er ólíklegt, þar sem hann gerði þau boð, að ég ætti að sækja hrossin. Þú verður þá að taka við lausnargjaldinu", sagði hann háðslega. Hún sá hann tók peningabuddu úr vasa sínum. „Eigðu þína peninga sjálfur“, sagði hún. „Ég hef ekki ætlað mér að auðga bú mitt af Nautaflataríkidæminu“. Hún stikaði áfram. Hann kastaði buddunni á eftir henni. „Hana, fáðu honum þetta, aurasálinni þinni. Hann hefur ekki á móti því“, sagði hann og hló ertnislega. Hún flýtti sér að ná í budduna og kasta henni til baka. „Nú, jæja. Ég verð þá að koma á morgun og borga honum, ef þú vilt ómögulega vera milligöngumaður", sagði hann. ,/Þú kemur ekki á morgun“, sagði hún í skipunarróm. „Nú, ekki má hafa af mönnum það, sem þeir innvinna sér á heiðarlegan hátt. Hann hefur haft þó nokkuð fyrir þessu. En ef þú vilt síður, að hann fái vitneskju um að við höfum hitzt hérna í myrkrinu, getur það beðið þangað til seinna“. Hún stanzaði og hugsaði sig um stundarkorn. Þetta var ekki vel ákjósanlegt. Jón ætlaði svo sem að auðmýkja hana. En honum skyldi nú ekki verða kápan úr því klæðinu. „Dettur þér í hug, að þú hræðir mig til að fara að biðja þig að þegja. Nei, og aftur nei. Gerðu það, sem þér sýnist. Þú ert hvort sem er búinn að brenna allar ærlegar taugar úr sjálfum þér. Komdu bara á morgun. Ég skal reyna að borga þér, þó seinna verði. „Gefðu þér tíma til að rífast við mig,“ kallaði hann á eftir henni, þegar hún þaut heim að bænum. „Þú þarft líklega ekki að flýta þér til hans. Hann er varla svo hlýlegur í sænginni, þessi désk........drumbur“. Hún heyrði ekki meira, en flýtti sér að hafa sig inn í bæinn og lokaði. Fyrir framan baðstofuhurðina stanzaði hún og hlustaði meðan hún blés mæðinni. Það var ekki hægt annað að heyra, en allir væru jafn fast sofandi og þegar hún fór út. Hún laumaðist inn og kom lyklinum á hilluna, án þess nokkuð heyrðist til hennar. Daginn eftir var brakandi þurrkur og nóg hey undir. Nú lá vel á öllum. Þóra sagði Jóa að vera heima með Björn litla, svo Magga gæti hugsað um matinn. Sigurður lét það óumtalað, það þýddi ekki annað. Hún yrði þá sjálf heima, ekki var það betra. En honum varð einkennilega oft litið fram á grundirnar, þó nóg væri að gera. Þóru aftur á móti datt ekki í hug að vænta gesta- komu úr þeirri átt. Nú voru allir í önnum við að þurrka. Og þótt enginn þurrkur hefði verið, vissi hún, að Jón hefði aldrei gert alvöru úr því að koma. „Ekki get ég skilið í, hver þremilinn hefur verið á ferð þarna suður við húsin“, sagði Magga gamla, þegar verið var að borða miðdegismatinn. „Það er hrunið stórt skarð úr hlaðanum og húsahlaðið eintómar eldspýtur". Sigurður rak upp stór augu. „Hver hefur svo sem verið með eldspýtur suður við hús?“ Þóra skrafaði við Björn litla og lét sem hún heyrði ekkert, hvað þau sögðu. Hún sá, að þeir litu hvor til annars, Sigurður og Jói. Þegar Sigurður hafði matazt, tók hann lykilinn ofan af hill- unni og gekk út. Jói hraðaði sér á eftir honum. Þóra var í eld- húsinu, þegar þeir komu heim á hlaðið aftur. „Þeir hafa haft samsorta lykil eða dregið út kenginn“, heyrði hún Sigurð segja. „Þá hafa þeir verið tveir. Annar hefur kveikt", lagði Jói til málanna, dálítið drjúgur yfir sinni uppgötvun. „Líklega Jón og Siggi“. „Fjandinn hirði það allt saman, hyskið það“, sagði Sigurður. Svo bætti hann við: „Heldurðu, að Þóra hafi nokkurt veður haft af því, að þeir voru inni?“ „Nei, hún var að mjólka ærnar“. Sigurður henti hengilásnum ofan í koffort, þungur á brún. Það var aldrei minnzt framar á eldspýturnar á húsahlaðinu, því síður á Nautaflatahrossin. En Magga gamla braut bara heilann um þetta allt í einrúmi og minntist stundum á það við felhelluna, hver hefði getað verið að þvælast með eldspýtur suður við hús. Ekki bjóst hún við því, að hann hefði verið ánægður yfir því, blessaður gamli húsbóndinn hérna í Hvammi. En það koma nú alltaf nýir siðir með nýjum herrum. (ÓHEILLAVÆNLEGIR FYRIRBURÐIR „Ekki vilja bollarnir verða mikið bjartari, þótt þurrkur sé á hverjum degi“, sagði Sigríður gamla á Nautaflötum. Hún hafði lesið í bollana óvenjulega oft þetta sumar, en alltaf verið jafn óánægð. „Það er ekki víst, að sólskinið verði lengi“, sagði Lísibet húsfreyja. „Það er þessi sami skuggi í öllum bollunum. Ég skil bara ekkert í þessu“, sagði sú gamla. Þurrkarnir héldust, en bollarnir breyttust ekki. „Það kemur eitthvað fyrir heimilið. Þarna er líkkista og fjölmenn jarðarför“. „Vertu ekki að þessu raunarausi, Sigga mín“, sagði Borg- hildur. „Ég hef bara látið betra á könnuna en vant er. Sízt af öilu máttu láta önnu heyra til þín. Hún fer þá að ímynda sér, að eitthvað komi fyrir, þegar hún leggst á sæng“. Ekki bætti það til, þegar engjafólkið þóttist hafa heyrt „tú- burðinn“ í Klifskálinni væla ámátlega tvö kvöld í röð, þegar það var að ríða heim af engjunum. Þá hvítnaði Sigríður gamla upp og bað fyrir sér. „Til hans heyrist ekki, nema áður en einhver merkismaður úr sókninni er borinn til grafarinnar“. Fintí'ur gamli áleit það rétt, að hann hefði ekki látið til sín heyra síðan hún Ingibjörg heitin, móðir hans Jakobs, hefði legið banaleguna. En Siggu minnti, að það hefði heyrzt til hans síðan. Þau töluðu varla um annað í tvo daga. Þá voru þeir Jón og Siggi búnir að sannfrétta, að þetta væl hefði verið í kálfinum frá Seli. Hann hefði villzt frá kúnum og verið búinn að öskra sig hásan. Allir tóku feginsamlega á móti þessari úrlausn á þessum óvið- fellda fyrirburði, nema húsbóndinn, hann lét sem hann heyrði ekki það, sem talað var. Seinna um kvöldið, þegar þeir voru tveir einir úti á hlaði, Siggi og hann, lagði hann höndina á öxl honum og spurði í hlýrri alvöru: „Hvaðan kom þessi saga um kálfinn?“ Siggi roðnaði og fór hjá sér. „Við bjuggum hana bara til, svo kvenfólkið ærist ekki af hjá- trúnni“, svaraði hann og reyndi að hlæja. „Ég býst við, að það sé saklaust", bætti hann við. „Kannske er það svo, Siggi minn. En samt ættir þú að iðka það sem minnst að víkja af vegi sannleikans. Það vill verða svo, að þeir sem það gera, verða óprúttnir í fleiru, og hvað sem öllum sögum líður, verður því aldrei afstýrt, sem fram á að koma“. „Þetta er víst ekkert annað en hjátrú“, sagði Siggi, eitthvað svo vandræðalegur yfir því, hvað fóstri hans var alvarlegur yfir þessum smámunum. „Það er alveg sama, hvaða nafn því er gefið, það hefur sína þýðingu fyrir því“, sagði Jakob í sama tón og áður. „Þeir, sem eru orðnir gamlir, hafa tekið eftir svo mörgu, sem æskan gengur fram hjá og skilur ekki eða vill ekki skilja“. Löngu eftir að aðrir voru sofnaðir þetta kvöld, vakti Siggi undrandi yfir því, hvað þetta, sem var svo meinlaust og lítil- fjörlegt, gat gert fóstra hans alvarlegan og óánægðan og haldið fyrir honum sjálfum vöku. Hann hafði þó staðið við orfið eins og hinir piltarnir, allan fyrri hluta dagsins, en verið við samtekn- ingu seinni partnn, og var því jafnþreyttur og þeir, en gat þó ekki sofnað. Hann hafði tekið eftir því, nú í seinni tíð, að gamli maðurinn var orðinn talsvert breyttur. Það leit helzt út fyrir, að glaðværð og gáski sonar hans, sem kom öllum á heimilinu til að hlæja, gerði hann hnugginn og alvarlegan. Það var óskiljanlegt í augum hans, sem hafði frá því fyrsta þótt Jón sá skemmtilegasti maður, sem til var, og reynt að líkjast honum í öllu. SORGIN DREPUR Á DYRNAR Jakob var ekki orðinn tveggja ára, þegar hann eignaðist svolitla systur, með hrafnsvart hár ofan á herðar. Hún fæddist á höfuðdaginn, og drengurinn var hræddur við hana, vegna þess að hún grét svo mikið. „Þetta barn ætlar að sverja sig í föðurættina“, sagði Sigga gamla, ánægjuleg á svip við Hlíf frá Ásólfsstöðum, þegar hún kom til að sjá litlu heimasætuna. „Já, hún verður alveg eins og Jón og Lísibet“, sagði Hlíf. „Ég er hrædd um, að Jakob litli verði lítilfjörlegur við hliðina á henni“, hélt Sigga áfram, „en hann er einstakt gæðabarn, og fallegur er hann. En hann hefur þennan kjarkleysissvip, eins og hún. Það er eitthvað, sem ég get aldrei fellt mig við“. Einn daginn kom þykkt Ameríkubréf til Lísibetar. Hún tók innan úr því stóra mynd af dálitlum dreng-anga. „Nei, það er blessað engilbarn", sagði hún og kyssti myndina. „Sjáðu, góði minn, hvað hún Fanney systir mín er búin að taka indælan fósturson“, sagði hún og fór með myndina til hrepp- stjórans, sem sat við skriftir þar inni. Hann leit snöggvast á myndina. „Jú, ég held það nú. Þeir geta nú líka gert alla svo fallega þarna fyrir vestan hafið“, sagði hann glettinn. Hún bai1 myndina fast að andlitinu á honum. „Kysstu hann, góði minn, hann er svo indæll. Ég er búin að kyssa hann marga kossa“. Hann hló innilega. „Mér finnst þú nú ekki þurfa að vera að kyssa myndir af börnum,“ sagði hann. „Það lítur út fyrir, að sonur þinn ætli að sjá um, að þú hafir nóg af börnum í kringum þig. Líklega vildirðu helzt, að hann væri kominn til viðbótar því, sem þú hefur; þá færi að þrengjast í hjónahúsinu". „Já, það væri gaman, ef hann væri hérna líka. Ekki óprýddi hann barnahópinn minn“, sagði Lísibet ánægjuleg á svip. „Lofaðu mér að sjá myndina, mamma“, bað Anna. Hún var ennþá í rúminu. Lísibet fór með myndina til hennar. „Ó, hvað hann er fallegur. Ég vildi, að ég ætti svona mynd af Jakobi. Það kemur aldrei myndasmiður hingað. En hann hlýtur að vera eitt- hvað skyldur þér, mamma. Þeir eru svo líkir til augnanna", sagði Anna. „Já, pabbi hans er systursonur Fanneyjar", svaraði Lísibet, og fór svo nálægt sannleikanum sem hún gat. „Ég ætla að setja hann í ramma og hengja hann í stofuna". En litla stúlkan grét svo mikið, að fólkið gat tæplega sofið á nóttunni. „Lílega verður hún ekki langlíf, blessuð litla stúlkan“, sagði Finnur gamli. „Það hefur aldrei lifað heimasæta á þessu heimili“. „Kemurðu með fjandans vitleysuna", sagði Sigga afundin. „Hvenær skyldi hafa dáið barn í höndunum á henni Lísibetu?“ „Nú, jæja, ekki verður það fyrir mín óguðlegu orð“, sagði Finnur gamli, „en hún grætur mikið“. Lísibetu fannst sjálfsagt að skíra barnið, þá hlyti henni að skána. Næst þegar messað var, var hún skírð, án þess að hún væri borin í kirkju eða haldin veizla. Þegar hún yrði orðin frísk, átti að halda stóra veizlu, og þá áttu allir að dansa og vera glaðir. Hún var látin heita Lísibet. Næsta dag var sóttur læknir. „Hvað skyldi svo sem eiga að þýða að vera að sækja lækni“, sagði bæði heimilisfólkið og fleiri. „Hún getur varla bætt barninu, ef hún Lísibet getur það ekki, svo mörgum hefur hún hjálpað". Læknirinn stanzaði stutt og talaði fátt. Næstu nótt gátu allir sofið, það var þögul nótt. Samt var fólk á fótum í hjónahúsinu, og alltaf logaði ljós, eins og undanfarnar nætur. Sigga gamla vaknaði afar snemma um morguninn. Það sváfu allir nema Finnur gamli. Hann sat uppi í rúminu og starði út um gluggann með einkennilegu augnaráði. ,,Því sefurðu ekki, karlskepna, eins og aðrir?“ spurði hún fálega. ,JÞað er komin dauðaþögn í bæinn“, hvískraði hann. „Þetta hefur útburðurinn vitað“. Skyldi karlinn vera veikur, með óráði, hugsaði Sigga. Borg- hildur kom innan úr húsinu rétt í því. Hún vakti alltaf yfir barninu með húsmóðurinni. Sigga gaf henni bendingu að finna sig. „Nú hefur hún verið róleg í nótt, blessunin litla. Nú hafa allir getað sofið“, sagði hún. „En ég er hrædd um, að karlinn sé með óráði“. „Hún heldur ekki vöku fyrir neinum lengur. Hún dó um klukkan fjögur“, svaraði Borghildur alvarleg. „Hvað ertu að segja, manneskja?“ sagði gamla konan. Hún gat ekki trúað eyrum sínum. „Það er ég viss um, að nú segir hús- móðurinni fyrir“, bætti hún við skjálfrödduð. Þá var eins og Finnur gamli vaknaði af svefni. „Var það ekki það, sem ég var að segja, að þetta væri dauða- þögn? Það hafa aldrei lifað heimasætur hér á Nautaflötum. Hún var fallegt og efnilegt barn, hún Margrét litla, systir hans Jakobs. Ég man eftir litlu kistunni hennar“. Þennan morgun klæddu sig allir þegjandi og drukku kaffið án þess að tala orð frá vörum. Finnur gamli gekk hljóðlaust um bæinn eins og köttur, því nú var dauðinn kaminn inn á heimilið. Þegar litla líkið var borið fram í stofuna, grúfði Anna sig grátandi ofan á koddann. Svo spurði hún fóstru sína: „Hvernig stendur á því, að hún fékk ekki að lifa hjá okkur eins og Jakob?“

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.