Lögberg - 04.02.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 04.02.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 4. FEBRÚAR 1954 I febrúarbyrjun var komið harðfenni og ágætt gangfæri. Þá lagði Magga af stað. Sigurður sagðist vera hissa á því, að kerlingar garmurinn skyldi vera að trilla þetta um hávetur; annað sagði hann ekki. Hún kom ekki heim fyrr en í myrkri. „Ég var nú að hugsa um að fara að leita að" þér, Magga mín“, sagði Þóra. „Ó, það var nú ekki hætta á því, að hún léti mig fara fylgdar- lausa, blessuð húsmóðirin. Hún hefur hugsun á því ennþá, að láta engum líða illa. Vigga og Anna Pétursdóttir fylgdu mér hérna hbim að fjárhúsunum. Þær máttu ekki vera að því að stanza núna. Hún bað nú heldur vel að heilsa þér, hún Lísibet, og sagðist vonast eftir, að þú kæmir fram eftir með hann Björn litla, svo hún gæti séð hvað hann væri orðinn stór og myndarlegur. Ég gat nú um það, að hann væri ekkert afstyrmi, barnið“, sagði Magga hreykin og strauk Birni litla öllum, hátt og lágt, og virti hann fyrir sér, eins og hún hefði ekki séð hann lengi. Þóra spurði um líðan Lísibetar. „Biddu guð almáttugan fyrir þér“, veinaði Magga. „Hún stígur aldrei heilum fæti á jörð framar, eða ekki get ég ímyndað mér það. Hún er ekki orðin nema svipur hjá sjón, blessuð manneskjan. Þó segir hún, að sér líði vel. Það er nú líka hugsað um hana, sem annað hvort væri nú. Aumingja stelpan, hún Anna frá Brekku, víkur aldrei frá rúminu hennar og vill allt fyrir hana gera. Það gengur svona. Fleiri börnum hefur hún verið góð en henni, og sýnir enginn lit á að endurgjalda henni það. Það hafa ekki allir sömu artirnar“. „Það hafa nú heldur ekki allir ástæður til þess“, greip Þóra fram í ræðuna, nokkuð snúðugt. Henni fannst þetta ganga nokkuð nærri sér, sem ekki hafði lagt svo mikið á sig, að ganga eina bæjarleið til að sjá þessa velgerðarkonu sína. „En sjálfsagt hefðu fleiri vilja á því“, bætti hún við. Sigurður sat inni, en lagði ekki orð til, eins og svo oft fyrr. Þóra hugsaði um það allan næsta dag, hvernig hún ætti að snúa sér í þessu. Fram eftir varð hún að fara, helzt með drenginn, fyrst Lísibet óskaði þess. Það þýddi ekkert að bíða eftir því, að Sigurður færi út af heimilinu. Það kom svo sjaldan fyrir, enda var henni ekki vel við að fara krókaleiðir, eins og Jón hafði sagt einu sinni. Átti hún að fara, án þess að minnast á það við hann, og taka afleiðingunum, sem mátti búast við, að yrði rifrildi. Hún hataði þetta vald, sem hann hafði yfir henni, en hikaði þó við að koma af stað nýrri úlfúð. Heimilislífið hafði verið sæmilegt, það sem af var vetrinum. Að morgni þriðja dags frá því Magga kom með skilaboðin, sagði Sigurður við konu sína, þegar hann var að drekka kaffið: „Viltu ekki fara fram eftir með drenginn í dag? Þaþ verður áreiðanlega blíðviðri. Það er hægt að búa um hann í kassa á litla sleðanum. Ég get fylgt þér fram fyrir merki. Fyrst hana langar til þess, aumingja konuna, finnst mér sjálfsagt, að þú gerir henni það til ánægju“. Þóra gat ekki svarað neinu fyrst í stað, svo hissa varð hún. „Ég bara þorði ekki að bera það í mál“, sagði hún svo. „Þorðir ekki? Við hvað varstu eiginlega smeyk?“ spurði hann. „Ég hélt, að þú værir ekki svo kjarklaus“. „Ég hef ekki gleymt viðtökunum, sem ég fékk þegar ég kom heim í haust“. „Geturðu ekki fyrirgefið mér eins og öðrum, sem tala til þín í reiði?“ spurði hann alvarlegur. „Mér hefur verið sagt, að þú værir léttlynd". Þóra komst hjá því að svara. Björn litli vaknaði og kallaði á mömmu. Hún fór til hans og gældi við hann: „Nú á Björn að fara í fallegu fötin sín og koma á sleðann úti. Heldurðu að það verði ekki gaman?“ Drengurinn hló og reyndi að toga í sokkana sína undan lokinu og rétti bera fæturna undan sænginni. Það þýddi, að hann vildi fara að klæða sig. / Um hádegi var svo lagt af stað. Björn litli var látinn sitja í kassa á sleðanum og hlúð að honum með yfirsæng. Sigurður fylgdi þeim fram fyrir merki. Lísibet hafði verið mikið hressari nokkra daga undanfarið. Þess vegna voru allir glaðir á heimilinu, og stúlkurnar skröfuðu og hlógu í kokkhúsinu, þegar Þóra kom inn með Björn litla á hand- leggnum. Siggi hafði boðið henni inn. „Nei, hvað þetta var gaman, að þú skyldir koma með drenginn“, sagði Anna Friðriksdóttir, þegar Þóra hafði heilsað. „Þú sækir líka svo vel að mömmu, að hún er farin að sitja við gluggann, meðan sólin skín inn, á hverjum degi. En hvað henni þykir vænt um að sjá Björn litla. En hvað hann er orðinn stór, og alveg eins og þú; en hvað þér hlýtur að þykja vænt um, að hann líkist ekki í föður- ættina“. Anna gætti ekki að sér stundum, en talaði um leið og hún hugsaði. Hún strauk eftir kollinum á drengnum. Nei, sko, hann verður ekkert rauðhærður. Ég var farin að kenna í brjósti um þig —“. Borghildur aðvaraði hana með augunum. „Hann verður dökk- hærður og móeygður. Reglulegur mömmudrengur“, sagði Borg- hildur brosandi, um leið og hún athugaði drenginn. „Hvað skyldi Jakob segja, þegar hann sér þennan litla gest? Ég ætla að fara með hann inn og vita, hvort Jón þekkir hann“, sagði Anna og tók Björn litla á handlegg sér og bar hann inn í hjónahús og lét hann á gólfið. „Hvaða maður heldurðu að þetta sé, góði minn?“ spurði hún og gerði Lísibetu bendingu um að segja ekkert. Jakob litli sat á litlum skemli á gólfinu og raðaði alla vega litum völum á stól. Hann horfði á Björn litla stórum undrunaraugum. „Babbi, go go gemur“, sagði hann. Lísibet rétti hendurnar til gestsins. „Blessaður, litli vinurinn minn“. Hann staulaði til hennar ófeiminn. „Heldurðu, að ég þekki ekki augun hennar Þóru?“ sagði Jón og brosti. „En hvað hann er laglegur, anginn litli“. Þóra kom inn. á eftir Önnu og bauð góðan daginn. Hún stanzaði fyrir innan dyrnar og horfði á mæðginin. Það gátu verið fjögur ár en ekkí fjórir mánuðir, síðan hún hafði séð þau síðast, svo breytt var útlit þeirra. Jón var orðinn fullorðinn, alvörugefinn maður. Káti æskumaðurinn var algerlega horfinn. Hann hafði verið að lesa í bók, en lagt hana frá sér, þegar kona hans kom inn með litla gestinn. Lísibet sat út við gluggann, vafin yfirsængum. Sólin gyllti hærur hennar og fölt og magurt andlitið. Augun voru orðin döpur og fjörlaus. Þóra heilsaði henni með mörgum kossum. Björn litli stóð hjá henni. Hún hélt höndum hans í lófum sínum. „En hvað þú varst góð, Þóra mín, að koma með drenginn þinn, svo ég gæti séð, hvað hann er orðinn stór og myndarlegur“, sagði Lísibet. Jafnvel málrómur hennar var breyttur. Hann var orðinn lægri og eitthvað svo undarlega biðjandi. „Það er skemmtilegt að sjá, að þú ert að hressast", sagði Þóra, án þess að láta sér detta í hug, að þessi líkami ætti eftir að hreyfa sig í fullu fjöri eða augu hennar að fá aftur fegurð sína, svo auðsæ voru merki dauðans á þessari miklu konu. „Ó, það er ekkert sem heitir, ég er bara að láta Jón minn stjana við mig; bera mig hingað að glugganum, svo að ég geti séð blessaðan dalinn. Hann er svo fallegur núna. Þó að veturinn sitji að völdum alls staðar, þá er alltaf von á vorinu í kjölfar hans“. Björn litli staulaði að stólnum til Jakobs litla og sópaði öllum völunum hans niður á gólfið. Þetta voru völurnar, sem Þóra og Jón höfðu leikið sér að í æsku. Þá hafði hún þekkt þær allar með nöfnum. Nú voru drengirnir þeirra farnir að leika sér með þeim. Jakob reyndi að tína þær upp á stólinn, en Björn henti þeim jafn- óðum aftur á gólfið. „Go, babbi!“ kallaði Jakob kjökrandi og horfði á allan völu- hópinn á gólfinu. Þóra tók Björn og settist með hann á stól rétt hjá Lísibetu. Hann brauzt um í fangi hennar og vildi komast ofan á gólfið. Jakob kepptist við að tína völurnar upp á stólinn. „Ná í, ná í“, kallaði Björn litli. Þóra byrsti sig: „Þú mátt ekki rífa gullin litla drengsins. Sittu kyrr hjá mömmu, eða ég fer með þig heim aftur“. „Hann langar til að sýsla með Jakobi“, sagði Lísibet, í þessum undarlega, biðjandi málrómi. „Leyfðu honum ofan“. Þóra sleppti honum. Hann staulaði í áttina til Jakobs, sem nú var búinn að smala allri völuhjörð sinni saman á stólinn. Nú lagðist hann með efri partinn af sínum litla líkama yfir alla hrúguna, þegar hann sá til Björns litla. Þóra roðnaði af gremju. Þetta var of dýrmætt fyrir Björn að skoða, hugsaði hún og þreif drenginn í annað sinn. Hann barðist um og ætlaði að fara að skæla. „Því lofarðu ekki drengnum að skoða vörurnar?“ spurði Jón. „Hann rífur þær allar ofan á gólfið“, svaraði hún þurrlega. Þá gerði hann sér hægt um hönd og tók drenginn af henni og bar hann að stólnum. „Þú ættir ekki að láta einþykknina í þér koma niður á barn- inu“, sagði hann hálf glettinn og hálf kaldranalega. „Jakob minn, lofaðu litla drengnum að leika sér að völunum með þér.“ „Ann endir á góllið“, kjökraði Jakob. „Pabbi skal tína upp aftur, væni minn. Vertu góður við litla drenginn, sem kom að finna þig“. Jakob var vonur að raða völun- um sínuin einn, kunni illa við aðfarir þessa nýja leikbróður, sem hafði me,'5t gaman að henda þeim sem lengst í burtu. Stundum tók hann nokkrar völur í lófa sína og bar þær til mömmu sinnar. Þá kveinaði Jakob litli: „Jagob á lÖda. Eggi daga edda“. Þóra skrafaði við Lísibetu, en fylgdi þó leikjum barnanna með augunum, allt annað en ánægð. Við þessu hafði hún ekki búizt. Anna Pétursdóttir varð alltaf að vera með í leikjum þeirra, svo Jakob væri ánægður. Einu sinni höfðu þeir báðir augastað á sama leggnum, rauðum, glansandi gæðingi, sem báðir ætluðu að hand- sama, en ráka saman kollana af ákefðinni. Jakob kastaðist aftur á bak og fór að hágráta, en Björn flýtti sér að grípa leggina. Á næsta augnabliki var húsið orðið fullt af kvenfólki, eins og eldur hefði komið upp. „Drottinn mmn, hvað gengur að Jakobi! Hvað er að barninu?“ hrópuðu þær hvor upp í aðra. Þóra greip Björn upp og hristi hann óþyrmilega. „Þú ert óþekkur strákur“, sagði hún í gremjurómi. Anna Pétursdóttir var send út í hesthús eftir Jóni. Hann kom inn og spurði, hvað gengi eiginiega á. Þóra varð til að svara honum: „Það er nú bara þetta vanalega. Það fylgir mér dálítill styr. Strákarnir renndu hvor á annan og Jakob er hágrátandi, eins og þú sérð. Ég fer undir eins með Björn í burtu, hefði aldrei átt að koma með hann“, sagði hún gremjulega. „Hvað er að heyra þetta. Fara strax. Er þetta nokkuð óvana- legt, að krakkar skæli hver undan öðrum? Ég skal fara með Jakob út í hesthús, þá jafnar hann sig“, sagði Jón og tók Jakob af konu sinni. „Ósköp er að heyra þetta, vinur, að þú skulir vera svona mikil „vella“, en hinn strákurinn, sem er mikið yngri, ber sig eins og hetja. Þið gerið hann að kveif með þessu fjasi“. „Þú ferð þó ekki að fara með hann út í kuldann svona flóandi í tárum“, sagði Aanna í bænarróm. „Út í kuldann? Glaða sólskinið,“ anzaði hann og fór með dreng- inn. Hún hljóp á eftir honum. Þóra stillti sig vegna Lísibetar. Hún reyndi að sitja með Björn, ef hann kynni að sofna, en hann vildi ekkert annað en ofan á gólfið. Þessi fallegu leikföng heilluðu hann algerlega. „Ég hélt, að hann yrði stilltur, eins og hann er vanur“, sagði hún, „annars hefði ég aldrei farið með hann“. „Ó, þetta eru svoddan óvitar. Gættu að því“, sagði Lísibet. Eftir þetta gekk allt vel. Þóra varð fegin, þegar fór að skyggja. Þá var sjálfsagt að fara að hugsa til heimferðar. Lísibet hafði verið borin í rúmið, þegar sólin hætti að skína inn um gluggann. Hún rétti Þóru bláa, litla klæðiskápu með gylltum hnöppum og vösum. Þetta átti Björn litli að eiga. „Það verður eina gjöfin, sem hann fær frá mér“, sagði hún. En drengur- inn var með allan hugann við völurnar, meðan verið var að klæða hann í kápuna. „Sjáðu fallegu hnappana og litlu vasana, Björn,“ sagði Þóra, en hann brauzt um. „Náí da dó“, sagði hann ákafur. Anna var búin að tína allar völurnar og leggina upp í kassa og setja hann út í horn, því nú voru komin leikslok. „Gefðu litla drengnum völur í vasann“, sagði Lísibet við Jakob litla. Hann sótti eina, rauða völu, og rétti Birni litla. „Hvaða ósköp ertu smátækur, elskan“, sagði hún, „Gefðu meira“. Sigga gamla stóð í húsdyrunum. Hún hafði þurft að gæta að því, hvað það var, sem Lísibet gæfi drengnum. „Hann pabbi þinn hefði haft það verulegra á þínum aldri“, sagði hún og glotti. Jakob horfði athugull á völuhópinn, en bætti engu við. Anna Pétursdóttir hló að honum: „Nei, sjáið þið litla nirfilinn“. Björn litli var nú kominn ofan á gólfið frí og frjáls og staulaði til kassans. Einhverja hugmynd hafði hann um það, að það væri betra að veita sér sjálfur en láta aðra úthluta sér, og tók því það, sem litlu lúkurnar gátu rúmað af þessari fjöllitu, girnilegu hjörð. „Sko, Björn litla!“ kallaði Anna Pétursdóttir, „sá er duglegur. „Hann ætlar að verða líkur pabba sínum með eigingirnina“, og hún hló dátt. Þóra dökkroðnaði af reiði og hrifsaði völurnar af drengnum og kastaði þeim á gólfið. „Þú vildir kannske tína þetta upp, Anna Pétursdóttir?“ sagði hún snúðugt. „Hann á nógar völur heima og þarf ekki þessara með. Jón rétti drengnum tvo tveggja krónu peninga. „Láttu þetta í vasana á kápunni, vinur“. Þóra tók við peningunum og lagði þá á borðið. „Ég snerti þá ekki“, sagði hún svo lágt, að Lísibet heyrði það ekki. „Ég kom ekki með drenginn til þess að láta gefa honum“. Það var eins og hún kæmi tæplega upp orðunum fyrir brjóstþyngslum. „Þér þykir það líklega heldur lítið. Hefðirðu getað þegið það, ef það hefði gilt meira?“ „Nei, því síður“. Hún tók drenginn og bar hann að rúmi Lísibetar og hafði upp kveðjuorð fyrir hann: „Vertu nú blessuð og sæl, ljósa mín, og þakka þér fyrir kápuna og allt gott“. Svo bar hún hann fram í kokkhúsið og bað Borghildi að gæta hans, meðan hún kveddi Lísibetu. v Jón dundaði við að búa til kramarhús úr dagblaði, fyllti það af völum og fór með það fram. Þóra mætti honum í frambaðstofunni, án þess að taka eftir hvað hann var með. Hún settist á rúmið hjá Lísibetu. Þær voru tvær inni. Lísibet byrjaði samtalið: Manstu, þegar Bleikur minn datt með mig út á grundunum í sumar. Þá þóttist ég vita, að ég myndi ekki eiga langt eftir. Kannske hefur það verið bending um, að heimsókn mín hafi gengið nokkuð nærri þér, Þóra mín“. „I svipinn fannst mér það, en eftir á fann ég, að þú meintir ekki annað en gott, eins og ævinlega“. „Ævinlega“, tók Lísibet upp eftir henni. „Ég hef ekki alltaf komið fram við þig, eins og ég hefði átt að gera. Kannske skilur þú mig betur, þegar þú ert orðin móðir fullorðins sonar. En þú mátt trúa því, að mér leið ekki alltaf vel, og nú iðrar mig þess, að ég aðvaraði þig ekki í tíma. — Geturðu fyrirgefið mér það? Ég get ekki farið inn í eilífðina án þess að heyra þig segja það; þess vegna þráði ég svo að þú kæmir“. Þóra ætlaði algerlega að bugast og blessaði rökkrið, sem huldi tár hennar. Það var svo átakanlegt að heyra þessa stórlátu konu biðja hana fyrirgefningar, hana, sem fannst hún alltaf vera óþrosk- aður unglingur í návist þessarar konu. „Ég kenndi þér aldrei um það“, var það eina, sem Þóra gat sagt. Lísibet leitaði með titrandi hendi eftir hönd hennar, tók þétt um hana og sagði:, „Anna má aldrei fá að vita það. Það mundi særa hjarta hennar ógræðandi sári“. „Ég ætla mér heldur ekki að segja henni það. Einu sinni fannst mér, að það myndi létta á samvizku minni að hún fengi að heyra sannleikann, en sem betur fór gafst ekki tækifæri til þess“. Lísibet hélt áfram: „En það, sem þú ætlaðir mér þarna, þegar hann Jakob litli var skírður, var ég algerlega saklaus af. Ég hefði þá illa haldið það, sem ég lofaði honum pabba þínum í síðasta sinn, ef ég hefði lagt fyrir þig svoleiðis snörur. Ég veit, að maður þinn tortryggði mig líka, vegna þess að ég stóð í dyrunum, en það gerði ég til þess að hann færi ekki inn í stofuna. Ekki gat ég hugsað til þess, að skírnarveizlan endaði með illindum, enda geturðu ímyndað þér, hvað hann Jakob minn hefði orðið eyðilagður yfir því, ef slíkt hefði komið fyrir“. .„Ég hef alltaf verið vandræðavargur, sem þú hlýtur að hafa haft sífelldar raunir af. Þú hefur alltaf borið mig fyrir brjóstinu, eins og góð móðir, en ég hef launað þér með óráðþægni og van- þakklæti“. „Ef þér finnst ég hafa verið einhvers virði, þá láttu önnu mína njóta þess. Vertu henni góð systir; ég hef beðið þig þess fyrr. Komdu oft með drenginn fram eftir, svo þeir geti leikið sér saman, Jakob og hann, eins og þið, þegar þið voruð börn, góð og saklaus börn“. Röddin lækkaði og varð að lágu hvísli í endirinn. Þóra stóð upp og bjóst til að kveðja. „Þá er bara eitt eftir“, sagði Lísibet. „Heldurðu þessi kuldi milli bæjanna geti ekki horfið?“ „Hann er að hverfa“, sagði Þóra ánægð. „Sigurður talaði um það við mig að fyrra bragði, að ég færi fram eftir með drenginn“. „Þá er allt gott. Við höfum lítið haft af nágrannakryt að segja um dagana. Og ég veit, að þér hefur ekki verið vel við hann, þótt þú hafir ekki getað afstýrt honum“. Þóra stóð hikandi við rúmið. Nú var {kð erfiðasta eftir, að kveðja. „Þetta verður síðasta kveðjan okkar, Þóra mín!!“ sagði Lísibet. „Ég finn, hvað mér líður. Ef ég skyldi finna pabba þinn, ber ég honum kveðju frá þér“. „Ég vona, að við eigum eftir að sjást aftur“, reyndi Þóra að segja glaðlega. „Ekki hérna megin. En ég vona, að ég geti tekið á móti þér og öllum kunningjunum, þegar þið komið yfir um“. Það logaði ljós í kokkhúsinu, þegar Þóra kom fram úr húsinu, en í baðstofunni var hálfdimmt. Hurðin fram var opin og Jakob litli stóð í dyrunum, horfði á Björn litla, sem vaggaði um kokkhús- gólfið í nýju kápunni sinni. „Denginn má ekki fja í guldabola“, tautaði hann raunalega. Þóra tók hann á handlegginn og kyssti hann. „Viltu ekki láta litla drenginn fara?“ sagði hún í viðkvæmum málrómi. „Ég skal passa hann, svo kuldaboli taki hann ekki“. „Þú hefðir þá átt að vera svolítið kumpánlegri við hann en þú varst, og ekki sjá eftir gullunum þínum handa honum“, tautaði Sigga gamla einhvers staðar inni í rökkrinu. „Ertu þarna, Sigga mín?“ sagði Þóra. „Ójú, ég er nú hérna í horninu mínu. Það gerir sér nú ekki mikla rellu út af mér, fólkið; enda ætlazt ég ekki til þess. Það er nóg annað að snúast í. En það datt mér nú ekki í hug, að blessuð húsmóðirin yrði á undan mér, svo mikill aldursmunur er með okkur, og héðan af býst ég ekki við að ég eigi marga að í heiminum. Slíkt og þvílíkt. Þau bæði og barnið líka. Ójá. Það veit enginn ævina, fyrr en öll er“, stundi gamla konan. „Denginn má eggi fæja“, endurtók Jakob litli. „En þetta málfæri“, umlaði Sigga gamla. „Aldrei ætlar þetta barn að fá almennilegt n»ál. Það er líka alltaf talað við hann á tæpitungu11. „Hann er heldur ekki gamall,“ sagði Þóra. „Læt ég það nú vera. Hún hefði líklega orðið heldur bráð- þroskaðri hún systir hans, hefði hún fengið að lifa, blessuð litla stúlkan. Hún var öll í föðurættina. En þá mátti hún nú ekki ílengjast í heiminum“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.