Lögberg - 25.02.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 25.02.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 25. FEBRÚAR 1954 Valgerður á Hrafnsstöðum hafði látið drifhvíta, blúndaða svuntu ofan í tösku hjá sér, í því skyni, að María yrði við frammi- stöðuna. Hún gat ekki hugsað sér, að neinar aðrar væru færar um það. Hún gat náð í Jón og færði það í tal við hann. Hann þakkaði kurteislega og lofaði að bera það í mál við konuna. En hvort sem hann gleymdi því eða ekki, var aldrei kallað á Maríu, og vonuðust þær þó eftir því.. Svo var farið að vísa fólkinu til sætis og bera kaffi og súkkulaði. Valgerður hörfði með lítilsvirðingu á Önnu Pétursdóttur og Laugu í Seli, sem báru hverja könnuna eftir aðra fram í stofuna og skálann, þessa gopa, sem tæplega vissu, hVort ætti að snúa túðunni eða handarhaldinu að gestunum. Svo kom Þóra í Hvammi. Það kembdi aftur af henni stórlaxaskapurinn, eins og vant var. Einu sinni stanzaði hún Önnu Pétursdóttur og sagði stuttlega við hana: „Blessuð fáðu henni Maríu könnuna. Hún kann sjálfsagt heldur betur að halda á henni en þú“. Anna sneri upp á sig og hló ertnislega rétt upp í opið geðið á Valgerði og svaraði: „María hefur ekki fram að þessu tekið að sér það, sem mér hefur verið ætlað að vinna. Ög býst við að geta þetta án hennar, hvort sem ég kann það eða ekki“, og svo hélt hún áfram gegnum mann þröngina inn í kokkhúsið og kom aftur með aðra könnu, kvik og hnarreist að vanda. SKRAFSKJ ÓÐURNAR Dauðinn hefur á öllum tímum verið sáttasemjari, bezti sátta- semjari, sem heimurinn á. I návist hans hugsa allir hlýlega hver til annars. Hér sem annars staðar voru menn í kyrrþey. Óvild og afbrýði var algerlega stungið í vasann. Sigurður í Hvammi horfði á það, án þess að finna til nokkurra óþæginda, að ungi hrepp- stjórinn kyssti konu hans tvo kossa og þakkaði henni fyrir alla hjálpina, enda var hún búin að bera marga könnuna milli stof- unnar og kokkhússins og átti það sannarlega skilið. María á Hrafnsstöðum lítillækkaði sjálfa sig svo mjög, að hún kveður þær báðar með kossi, önnu Friðriksdóttur og Þóru í Hvammi, og finnur til þess, að hún er göfuglynd kona. Þær höfðu þó báðar sett fyrir hana fótinn á þrepskildi gæfunnar, eftir hennar eigin áliti. Sigga gamla og Jóhanna Andrésdóttir talast lengi við úti á hlaði, faðmast svo að skilnaði og þakka hvor annarri fyrir allt gamalt og gott. Síðan er stigið á bak og lagt af stað í niða myrkri. Það er riðið hægt, meðan hestarnir eru að venjast myrkrinu. Bráðum kemur tunglið upp. Þá verður hægt að láta stíga liðugar. Jóhanna Andrésdóttir og Valgerður á Hrafnsstöðum ríða samsíða í miðjum hópnum. Þær eru af flestum álitnar mestu skrifskjóður sveitar- innar. Rétt á undan þeim ríður Sigþrúður á Hjalla, tággrönn og beygjuleg. Hún rýfur þögnina með skrækri, raunalegri röddu: „Það má nú segja, eins og stendur í vísunni: Hér er sæti harmi smurt“. „Já, það hefur gengið dómur yfir þetta heimili — mér liggur við að segja réttlátur dómur“, gegndi Valgerður fram í og gaf nú gremjunni útrás, af því hvíta svuntan hafði aldrei verið hreyfð úr töskunni. „Mér datt það strax í hug í haust, þegar blessað barnið var burt kallað, að nú væri Jóni að hefnast fyrir að hrekja Hildi til Ameríku, eins og hún var á sig komin“. „Það er nú eitt af því, sem enginn veit, hvort nokkur hæfa hefur verið fyrir“, gegndi Sigþrúður. „Hvað svo sem hefði átt að koma þeirri manneskju til að fara að drífa sig til Ameríku, annað en það? Enda þarf ég engra sögusagna með. Henni var áreiðanlega þungt um, og ekki kvaddi hún einn einasta mann. Slíkt og þvílíkt! Það ber ekki allt upp á sama daginn“. Og ennþá gegndi Sigþrúður: „Það eru nú víst ekki öll hjúin ánægð á Ásólfsstöðum, síðan Bárður tók við þar. Eins hefur nú Hildi getað fundizt eitthvað óviðfelldið við heimilið“. , „Það þýðir lítið að reyna að berja í þessa bresti“, sagði Val- gerður. „Það var einhver ólukku hulda yfir því öllu, sem sást þó í gegnum. Hún hefði þó sómt sér heldur betur við hliðina á honum Jóni en þessi vesalings veimiltíta, sem er eins og hún sé að líða út af og geti í hvorugan fótinn stigið“. „Það eru nú líka fáar manneskjur á hennar aldri búnar að reyna annað eins. Hún getur nú tæplega talizt annað en unglingur ennþá“, svaraði Sigþrúður. „Ójá, hún er mæðubjálfi, tetrið það tarna“, sagði Hannes á Hrafnsstöðum, „en ekki er viðmótið fruntalegt“. „Og ekki get ég nú látið mér svo, að hún sé neinn sérstakur mæðugarmur“, svaraði kona hans, „að komast í aðra eins stöðu, bláfátækur unglingur, umkomulaus, þó aldrei nema hún væri kaupmannsdóttir. Nei, slíkt kallar víst enginn mæðu“. Ja, hver er nú kominn til þess að segja, hvað fátæk hún hefur verið?“ gegndi Vagn á Múla fram í. „Það sagði hann mér hann Finnbogi, sem var við verzlunina hjá honum föður hennar seinustu mánuðina, sem hann tórði, að hann væri hissa á því, ef hann hefði ekki látið Jakob hreppstjóra hafa peninga. Hann áleit, sem sagt, að hann hefði ekki verið eins allslaus og kom í ljós, þegar hann var dáinn. Því það veit maður, að svona menn hljóta að hafa peningaráð, og þau ekki lítil. Og víst er um það, að mikið talaði Friðrik heitinn við Jakob seinasta daginn, sem hann lifði. Það sáu bæði ég og aðrir“. „Það hefði nú verið rétt eftir Finnboga að hirða þá peninga sjálfur, þeim ólukku ref sem hann var“, sagði Hannes. „Ég átti hjá honum þrjár krónur þrjátíu og fimm aura fyrir hestlán, og hann fór svo af Ósnum að hann sýndi ekki lit á að borga það“. „Það var nú ekki há upphæð“, sagði Vagn kíminn. „Já, hann gat borgað það, þótt það væri ekki meira en þetta. Því léttara var það fyrir hann. Svo held ég, að Jakob heitinn hafi verið vel að því kominn að fá einhverja meðgjöf með krakkanum. Hún var ekki svo gömul“. „Það hef?þ nú ekkert veitt af að gefa með þeirri manneskju ! alla ævina“, gall við í Jóhönnu Andrésdóttur, „því aldrei hefur hún unnið ærlegt handarvik“. „Því segi ég það“, greip Valgerður fram í. „Hvernig skyldi svo sem önnur eins manneskja geta stjórnað stóru heimili? Ég held ég verði nú að spauga að því við Jón minn, næst þegar ég sé hann, að það sé bezt fyrir hann að fá Maríu dóttur mína, eða einhverja duglega stúlku, sem vön er húsverkum á myndar- heimili, til að taka að sér bústjórnina hjá honum. Hann hefir nú alltaf haft mikið álit á Maríu, fyrr og síðar“. María setti hnykk á höfuðið. Hún vissi ekki vel, hvernig hún átti að taka þessari framhleypni móður sinnar, hvort hún ætti hreint og beint að reiðast eða slá því upp í grín. En Sigþrúður varð fyrri til svars: „Hún hefur nú varla skilið svo við börnin sín, hún Lísibet heitin, að hún hugsaði ekki eitthvað fram í tímann. Borghildur hefur víst lofað henni því að yfirgefa ekki heimilið lifandi, og hún er nú öllu svo vön, alveg ens og húsmóðirin nú í seinni tíð“. „Nú, ekki öðruvísi“, hnussaði í Valgerði. Það var auðheyrt, að þetta kom óþægilega flatt upp á allar hennar ráðagerðir. Svo varð löng þögn. Tunglið var farið að lýsa, og hestarnir stigu hraðar út með ánni. Valgerður kunni því illa, að riðið væri svona steinþegjandi til lengdar, og fann því upp á nýju umtalsefni: „Það hefur líklega hvorki mér né neinum öðrum dottið í hug, að maður sæi Hallgrím stúdent á þessum degi“. Jóhanna gaf henni illkvitnislegt hornauga. „Þú hefur líklega heilsað upp á hann, sem hvern annan gamlan og góðan kunningja. Þekkti hann þig ekki?“ „Ójú, það gerði hann“, svaraði Valgerður. „Honum fannst mér hafa farið talsvert aftur. Ég sagði honum nú eins og satt var, að mér hefði nú ekki alltaf liðið sem ákjósanlegast, síðan leiðirnar skildil“. „Það var leiðinlegt, að nafni hans var ekki þarna, svo að þú gætir sýnt honum hann“, sagði Jóhanna, jafn meinfýsin og áður. „Ójá, það þurfti nú einhver að vera heima og gæta bæjarins“, sagði Valgerður fálega. „Ég bjóst nú reyndar við því, að hann segði eitthvað yfir gröf Lísibetar heitinnar, en hann lét það vera eftir allt saman —“, sagði Jóhanna. „Það hefur nú verið á krossinum. Hann hefur ekki kært sig um að láta það sjást“, sagði Valgerður. „Mikið hefði ég viljað gefa til þess að fá að lesa það. Sjálfsagt einhver skáldskapur“. „Var hann nú skáld?" spurði Jóhanna háðslega. „Hann Hallgrímur. Ég veit nú ekki, hvað það var, sem sá maður gat ekki. Þvílíkar gáfur“. „Ekki held ég, að það sé nú efi á því, að hann er faðir Jóns“, sagði Jóhanna og hló ósvífnislega. „Guð fyrirgefi þér, manneskja“, sagði Sigþrúður stórmóðguð. „Þeir eru náskyldir. Hann er líkur henni móður sinni og engum öðrum, hann Jón, bæði í sjón og reynd“. „Og hann er hans sonur. Það er engum blöðum um það að fletta“, sagði Jóhanna svo hátt, að það heyrðist um allan hópinn. Þá sveiflaði Erlendur á Hóli svipunni og keyrði Dreyra áfram að hlið Jóhönnu. „Komstu hingað í dag til þess að ausa svívirðingu á moldir Lísibetar heitinnar?“ spurði hann hranalega og þreif í gráa sjalið, sem var vafið utan um þann part líkamans, er stóð upp úr söðlin- um og nælt að framan með skrautlegum prjón. Hesturinn tók viðbragð, en prjónninn gaf eftir og sjalið féll ofan í kjöltu eigand- andans, en Erlendur hélt á sjalinu dálitla stund og henti því svo aftan á Jóhönnu. „Þú ert þó líklega ekki að hugsa um að rífa utan af mér fötin“, öskraði hún bálvond, því hún var nærri hrotin úr söðlinum. „Ég læt nú varla annan eins ódám og þig baktala Lísibetu á sjálfan jarðarfarardaginn hennar. Þú áttir erindið, flegðan þín“, hreytti hann til hennar. Hestarnir höfðu orðið hálf skreppings- legir við sjalið, svo það kom skrið á hópinn, og margir hlógu upphátt að þessu skoplega atviki. En Jóhanna steinþagði lengi á eftir. „Þetta var rétt hjá þér, Erlendur“, sagði Sigurður gamli, faðir hans. „Svona drósum á ekki að líðast að fara óvirðulegum orðum um aðra eins heiðursmanneskju og hér er að kveðja dalinn. Ég er hræddur um að það setji niður á þeim stóru Nautaflötum“. Hann hafði heyrt orðasennuna svona hér um bil. „Það er eðlilegt, því sú kona er ekki til í sveitinni, sem gæti fyllt sætið hennar Lísibetar“, sagði Sigþrúður, „hvað þá þetta barn, sem Anna er“. „O, ekki segi ég það nú“, sagði Valgerður og leit til Maríu dóttur sinnar. „Ég held, að Þóra hefði verið líklegust til þess“, sagði Erlendur. Hann var hreifur af víni, og þá var alltaf ánægjulegt að minnast á Þóru. „Hún var gerðaleg við frammistöðuna í dag“, bætti hann við. „Já, Þóra er myndarkona. Það er aldrei nema satt“, gegndi Sigþrúður, „en ég held hana hefði vantað geðprýðina hennar Lísibetar heitinnar. Svo hefur hennar leið átt að liggja í aðra átt, eins og gengur“. „Það var svo sem sama hvor var, Lísibet eða Kata gamla á Hvoli“, sagði María og hló háðslega. „Sjaldan hefur maður nú orðið meira hissa en þá“. „Hundarnir fá nú líka oft það, sem þeim er ekki ætlað“, skaut Erlendur inn í. „Mér þótti nú ekki svo vera valið til þessarar frammistöðu- kvenna", sagði Valgerður. „Líklega hefði einhver verið eins fær um að bera kaffið inn og Anna frá Brekku og stelpan í Seli“. „Eins of það væri ekki nógu gott að láta Önnu þyrlast innan um bæinn með kaffið“, sagði María. „Ekki vantaði glansandi silkið á svuntunni og slifsinu. En þótt hún hafi nú kannske ekki kunnað það sem allra bezt, hafa sjálfsagt fáir haft vit á því“. „Það var víst ekkert út á það að setja. Henni fórst það vel úr hendi“, sagði Sigþrúður, hálf ergileg yfir þessu sífellda andófi, sem hún mátti hafa á móti þeim Hrafsstaðamæðgum. Þá tók Jóhanna til máls aftur: „Hún þarf víst ekki að kvíða klæðleysinu, svopa fyrstu misserin, eftir því sem Sigga sagði mér. Lísibet lagði svo fyrir, að hún og Borghildur fengju öll fötin hennar. Það voru engar aðrar verðugar þess að slíta þeim. Hún var einkennileg að mörgu leyti, sú kona“. „Það er nú líklega heldur meira en það, sem hún gaf henni Önnu litlu“, sagði Sigþrúður. „Borghildur sagði mér, að hún hefði gefið henni Neðri-Hól. Ég veit, að mér er óhætt að hafa það eftir“. Nú gekk örlæti þessarar stórgjöfulu konu svo fram af fólkinu, að það gat lítið sagt nokkrar sekúndur. Loks var það Hannes karlinn á Hrafnstöðum, sem tók til máls: „Ég er ansi hræddur um, að ég hefði þakkað fyrir það í Jóns sporum, að jarðirnar væru gefnar svona út úr höndunum á mér. Var ekki stráknum honum Sigga gefinn Efri-Hóll, þegar hann var fermdur?“ „Jú, ég held það nú,“ gall í Jóhönnu. „Það vantaði bara, að Lísibet hefði getað komið þeim í hjónabandið, svo þau hefðu getað búið á báðum jörðunum. Skyldi Pétur gamli verða nokkuð drjúgur, þegar hann heyrir þetta? Ó, það vantaði svo sem ekki rausnina við þá, sem náðu því hjá henni. Hún byrjaði snemma að ausa út Nautaflata-auðnum, blessuð manneskjan, en það var eins og sæist aldrei frekar en högg á vatn, hvernig sem hún gaf og eyddi“. „Nei, það var algerlega sama, hvernig hún gerði gott, sú kona. Það uxu alltaf eignirnar ár frá ári. í fyrra keypti hann jörð vestur í sýslu, sem séra Helgi hafði einhverju sinni átt, og ég býst við að hún sé eins stór og báðir Hólarnir til samans“. Það var Erlendur, sem gaf þessar upplýsingar. En Valgerður gat ekki annað en töngl- ast á því, að Anna væri ekki lengi að innvinna sér krónu virði, bara heila jörð. Fyrir neðan Hjalla skildust leiðir. Þar var farið af baki og kvaðzt, og hver fór í áttina að sínu heimili, en stærsti hópurinn reið áfram út á Ströndina. SÉRA HALLGRÍMUR Loksins voru allir gestirnir farnir nema frændfólkið vestan yfir fjallið. Það ætlaði allt að gista um nóttina. Sigga gamla hafði yngzt um heilan aldarfjórðung og algerlega gleymt einstæðingsskap sínum við að sjá Hallgrím stúdent, því það var hann almennt nefndur, þegar hún kynntist honum. Hún gekk við hlið hans um allan bæinn með ljós í hendi, brosleit og masandi. Hann þurfti að sjá í hvern krók og kima. Seinast tók hann sér aðsetur í kokkhúsinu, innan um allt leirtauið og kven- fólkið; skeggræddi við þær og þúaði þær allar, eins og hann hefði þekkt þær allar lengi. „Mér fyndist nú heppilegra, Sigga mín“, sagði Borgheildur, „að þú færir með prestinn inn. Það er hreint ekki skemmtilegt fyrir hann að vera hér innan um allt þetta drasl, sem hér er“. „Þér finnst ég vera fyrir góða“, sagði hann, um leið og hann skellti snjóhvítri hendinni aftan á herðar henni. Það fóru ónota kippir um hana, líkt og kalt vatn hefði lekið ofan á hálsinn á henni. Hún var því heldur óvön, að karlmennirnir væru að kjassa sig. Hún var sem sagt gripin af sömu óþæginda kenndinni og Jakob hreppstjóri hafði verið, meðan þessi maður var á heimili hans. Þessi maður var svo hávær og fyrirferðarmikill, að honum veitti ekki af öllum húsakynnunum. Henni fannst hún tæplega geta snúið sér við í nærveru hans. „Mér finnst það ekki eiga við þig allt þetta leirtau og vatns- ílát“, anzaði hún og reyndi að vera viðfelldin. „Ó, þetta er ágætt, vertu blessuð“, sagði presturinn, en færði sig þó inn í baðstofuna og settist við hliðina á Siggu gömlu, á rúmið hennar. „Ojá, einu sinni var ég nú ekki ókunnugur hérna á heimilinu og í sveitinni. Þá var ég ungur og kátur og blóðið heitt, og þá var gaman að lifa“, byrjaði hann samtalið. „Þú ert ungur ennþá, séra Hallgrímur11, sagði Anna Friðriks- dóttir og horfði með aðdáun á þennan glæsilega, lífsglaða mann. „Nei, því er nú ver, góða mín. Sérðu ekki þessi andstyggilegu grýlukerti hérna í vöngunum? Þau tilheyra ekki vori og sumri, heldur vetri, ísköldum vetri. Svo vildi ég helzt, að þú segðir ekki „séra“. Það er svo seigt og leiðinlegt“. Svo hélt hann áfram þar, sem hann hvarf frá áður: „Þá fékk ég lánaðan liðlegan fola og reið í réttirnar, og það var skemmtilegur túr. Það verð ég að segja. Ekki var maður þá alveg, kannske, þurrbrjósta í túrnum. Ég man alltaf hvað mér ofbauð fjárhópurinn í Nautaflatadilknum. Þá fann ég átakanlega til fátæktar minnar. Manstu eftir því, að ég kæmi hérna þá, Sigga mín?“ „Já, ég man vel eftir því. Það lá vel á ykkur þá, félögunum. Jakob átti hestinn, sem þú reiðst“, svaraði hún brosandi. „Já einmitt. Hánn átti hann. Það er rétt hjá þér. Hann var hálftaminn. Og ferðalagið endaði með því, að hann setti mig af sér þarna niðri í hvömmum, og dró mig í ístaðinu dálitla stund — lengi var það nú ekki, en ég var stirður í fætinum næstu daga.“ „Þykir þér gott vín?“ spurði Anna. Hann hló. „Það er auðheyrt, að þú hefur ekki heyrt mín getið, góða mín. Þykja þér ekki skemmtilegir vínhneigðir menn?“ „Nei, þeir eru hreint og beint voðalegir. Ég er hrædd við þá“. „Hrædd við þá. Hvað er að heyra þetta. Það eldist af þér, góða. Þeir eru alltaf langskemmtilegastir allra manna, drykkjumenn- irnir“. Hann klappaði henni og strauk um allt bakið og herðarnar og brosti alúðlega. „En hárið, ósköp er það indælt“. Hún færði sig fram í kokkhúsið. Þetta var óviðkunnanlegt af bráðókunnugum manni. Hann horfði á eftir henni með aðdáun. „Drottinn minn! Ef maður ætti aðra eins dóttur. Hún er feimin eins og ósnortin mey og fögur eins og engill. Alveg eins verður drengurinn“. Hann greip Jakob litla upp af gólfinu og lyfti honum jafnhátt höfði sér. „Nú er Jakob litli orðinn stór. Geturðu sagt mér, hvað ég heiti,*Jakob litli?“ sagði hann. „Ógunne majur“, sagði barnið. „Hvað segir hann?“ spurði presturinn Siggu gömlu. „Hann segir, að þú heitir ókunnugur maður“. „Ókunnugur maður“, tók hann upp eftir henni. „Það er leiðin- legt nafn. Kallaðu mig afa. Segðu afi“. „Afi dáinn í gistunni“, sagði Jakob. Þá viknaði presturinn og þrýsti barninu svo fast að brjósti sér, að hann varð hræddur og kallaði grátandi: „Babbi jálba Jakob! Taga Jakob!“ Borghildur kom inn æði svipmikil og greip drenginn og gekk snúðugt fram, um leið og hún reyndi að afsaka framkomu sína, sem hún fann, að var heldur köld: „Hann var orðinn alveg út úr í svefni, barnið“, en við sjálfa sagði hún: „Þetta er nú meiri frekjan og óstjórnin“. Presturinn horfði á eftir henni, dró saman augun og hrukkaði ennið, ekki ólíkt því, að hann heyrði, hvað hún hugsaði um hann. „Hann verður líklega veiklyndur og lítilsigldur, eins og móðir- in“, sagði Sigga gamla. Hana langaði til að vekja athygli hans á einhverju öðru en svipnum á Borghildi, sem henni fannst óþol- andi stór; þar sem annar eins maður og Hallgrímur stúdent var annars vegar. „Og líklega verður hér skarð fyrir skildi, þegar hún sezt í sætið frænku þinnar“, hélt Sigga áfram. „Varla trúi ég því, að frændkona mín hafi ekki kennt henni eitthvað af því, sem kona þarf að kunna“, svaraði hann. „Ég meinti ekki svoleiðis“, flýtti Sigga sér að svara. „Hún er prýðilega verki farin, en hún verður, held ég, aldrei nein húsmóðir, enda hálfgerður pappírsbúkur“. „Verður hún ekki áfram, þessi kalda þarna, hvað hún heitir, dóttir hans séra Helga?“ spurði hann lágt.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.