Lögberg - 01.04.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 01.04.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 1. APRÍL 1954 I „En það er víst engin vissa fyrir því, að Ármann missi sjónina“, flýtti Þóra sér að segja. Henni fannst hún ætla að kafna í þessu andófi móti þessari einbeittu konu, sem ætlaði áreiðanlega ekki að láta undan síga, enda ekki gott að hrekja það, sem hún sagði. „Það er nú svona, Þóra mín“, hélt Katrín áfram, „að þeir, sem einu sinni rífa úr sér sjónina í drykkjuskapardrasli, geta það í annað sinn, og hvað þá? Heldurðu, að það verði léttara fyrir Maríu að vinna fyrir honum blindum en taka að sér blessUð börnin hans Þorsteins í Koti? Nei, ónei, þau fara að potast upp til létta; og svo er það skemmtilegra fyrir mig að hafa hana hérna nærri mér, aumingjann. Hver veit, nema hún verði ellistoðin mín? Hún hefur alltaf verið mitt bezta barn“. „En ég hef þá skoðun, að enginn geti orðið ánægður í hjóna- bandinu, nema sá, sem fær að njóta æskuástarinnar“, sagði Þóra og reyndi að vera róleg, þótt þolinn\æði hennar væri fullmikið boðið. Þá skellti Katrín á lærið. „Nú er mér nóg boðið“, sagði hún hissa. „Sízt hefði mér dottið í hug, að önnur eins starfsmanneskja og þú ert væri að brjóta heilann um slíkan hégóma, sem þessa ást. Ég hélt, að það gerðu ekki aðrir en hjartveikir unglingar, sem liggja í bókum. Við erum nú ekki svo skáldleg hérna úti á ströndinni, að við gruflum út í það. Þau fara ekki ver hjónaböndin hjá okkur en annars staðar. Það er áreiðanlegt“. Þóra stóð upp og svipaðist eftir vettlingunum sínum. „Það þýðir ekkert að tala meira um þetta“, sagði hún. „Það kemst ekkert annað að hjá ykkur hér á ströndinni en munnur og magi“. Katrín stóð líka upp. „Ó, þið hafið áreiðanlega munninn á réttum stað ,alveg eins og við“, sagði hún meinfýsin. „Og ekki trúi ég öðru en maginn segi til sín líka. Ef hann er veikur, gæti ég hugsað, að þið gleymduð bæði ástinni og fleiru. Eins ef hann væri tómur, en það kemur nú ekki til, þetta er svoddan búsæld alls staðar hjá ykkur. — Þú ætlar þó ekki að fara að rjúka af stað, áður en ég kem með nokkra hressingu handa þér“, bætti hún við, þegar hún sá Þóru grípa svipuna og vettlingana. „Ég er ekki þurfandi fyrir neitt. Eiginlega ætlaði ég að finna Maríu, ef ég gæti komið fyrir hana vitinu“, svaraði Þóra. „Mér fannst hún alltaf talsvert öðruvísi en þið hin. Það var hægt að tala við hana“. „Nú, já, auðvitað ríðurðu út eftir, fyrst þú ert komin hingað. Þið voruð nú svoddan mátar. En það er þýðingarlaust að minnast á Ameríkuferð við hana, því hún er kasólétt eftir Þorstein, og þótt svo hefði ekki verið, býst ég við, að hún hefði aldrei yfirgefið börnin“. Þóra hopaði ofurlítið frá Katrínu. Hvílík móðir var þetta, sem gat flett þannig ofan af löstum dóttur sinnar án þess svo mikið sem roðna. „Og þú getur sagt frá þessu, svona alveg eins og það sé ekkert athugavert við það“, sagði hún fyrirlitlega. „Ja, til hvers er að vera að fjasa yfir því, sem ekki verður aftur tekið“, sagði Katrín. „Náttúrlega var þetta heldur mikið fljótræði. En það gengur nú svona. Ég býst við, að þú farir ekki að kasta á hana steini. Þú þóttir víst sjálf nokkuð fljótráð í ásta- málunum. — Seztu bara niður og vertu róleg. Það er að soðna nýr fiskur handa þér. Friðrik flotaði í gær og fékk vel í soðið“. „Ég get svarað þér því, að þó ég hafi kannske þótt fljótráð, þá vorum við bæði frjálsar njanneskjur. En þetta er ekki hægt að kalla annað en svívirðilegan hórdóm. Hann nýbúinn að missa konuna, en hún trúlofuð“. — „Hættu nú alveg“, sagði Katrín og glotti einkennilega. „Nú heyri ég þó, að þú hefur munninn á réttum stað, þótt þú hugsir minna um magann. Ég ber ekki á móti því, að þetta sé óviðfelldið, en hórdómur er það ekki. Hann var frjáls maður, þegar konan var komin í gröfina, og María og Ármann voru aldrei trúlofuð, og hún ætlaði sér aldrei á eftir honum til Ameríku“. Áður en Þóra gat svarað, kom Friðrik bóndi og tveir synir hans inn í baðstofuna, og með þeim kom ný ólykt af grút og fiski. Þeir heilsuðu kumpánalega. Sveinn brosti hlýlega til hennar. Hann var áreiðanlega ekki búinn að gleyma, hvernig hún kom fram, þegar Litli-Rauður átti að fara. „Þú ert að ríða út þér til gamans“, sagði bóndi. „Gerið þið mikið að því, konurnar þarna frammi í dalnum?“ „Til þess á maður hestana, að koma þeim á bak öðru hvoru“, svaraði Þóra. „En ég geri lítið að því nú í seinni tíð að ríða út — alltof lítið“. „Ójá, búskapurinn heimtar nú annað en útreiðar“, sagði hann og settist á það rúmið, sem næst var. „Þú ert þó líklega ekki að fara strax“, bætti hann við, þegar hann tók eftir svipunni og vettlingunum. „Nei, nei“, greip kona hans fram í, „hún borðar hér nýjan fisk áður“. „Ég er einskis þurfandi“, sagði Þóra og reyndi að stilla skaps- munina. Hún vildi helzt ekki sýna tengdafólkinu sig í stærri spegli en þegar hún kom síðast í heimsókn. „Nærri má nú geta, hvort þú ert ekki matlystug, komin alla leið frá Hvammi“, sagði bóndi. „Og svo segirðu mér líklega ein- hverja nýjung, fyrst þú ert komin“. Þóra fann, að hún varð að setjast. Annað var ókurteisi. — Katrín hvarf fram úr baðstofunni. „Það er lítið um hlákurnar“, byrjaði hann samtalið. „Er ekki allt í svelli þarna fram frá?“ „Jú, það eru allar skepnur á gjöf nú í seinni tíð“, svaraði hún. „Leiðist ekki Sigurði þessi sífellda innigjöf?" f „Ekki talar hann neitt sérlega mikið um það, enda býst ég ( við að hann sjái, að til þess sé verið að heyja á sumrin að heyin I séu gefin á veturna“, svaraði hún stuttlega, en fann þó, að það 1 var hálfgerður útúrsnúningur. „Já, ójá, það held ég, auðvitað. Það eru víst líka góðar slægjurnar hjá ykkur, eða svo heyrist mér á honum“, sagði bóndi. „Þetta eru indælis jarðir. Það held ég megi nú segja með sanni, annað en hérna. Já, ég held það“. Ekki leið á löngu, þar til nýr fiskur var á borð borinn og kútmagar, og Þóra hafði, þrátt fyrir allt, ágæta lyst á þessu nýnæmi. Mósi stóð á hlaðinu með söðlinum, þegar Þóra kom út. Litlu bræðurnir voru að reyna að tjasla tveim vænum ýsuböndum við sveifina með snærisspotta. „Þú verður að fara með í soðið handa þeim, sem heima eru“, sagði húsfreyja. „Ég vildi nú helzt vera laus við að reiða mat sveitina á enda“, sagði Þóra, en samt kunni hún ekki við að taka fram fyrir hend- urnar á tengdamóður sinni, fyrst hún var búin að þiggja af henni góðgjörðirnar, sem hún hafði þó ekki ætlað sér. Það var heldur ekkert fljótgert að láta hána hætta við það, sem hún ætlaði sér að hafa fram. „Þú ætlar þó ekki að snúa við hér og hætta við að heimsækja Maríu?“ spurði Katrín, þegar Þóra teymdi Mósa suður hlaðið, í staðinn fyrir það gagnstæða. „Ég á víst lítið erindi við hana, eftir því sem þú segir“, svaraði Þóra. „Nú trúi ég ekki“, svaraði konan gremjulega. „Þið voruð þó góðar vinkonur fyrir nokkrum vikum, eða svo hélt ég — og ég held, að mér sé óhætt að segja, að hún hafi komið til þín, einmitt þegar þér lá dálítið á“. „Það er aldrei nema sannleikur, en ég get ekkert gert fyrir hana héðan af. Ég ætlaði að reyna að koma henni til Ameríku, en það þýðir víst ekki að nefna það“. „Þú getur þó séð hana, eins og þú ætlaðir þér í fyrstu. Hénni þykir áreiðanlega vænt um það. Það er fáferðugt hjá henni. Þetta eru ekki nema tvær bæjarleiðir. Þú verður ekki lengi að ríða það“. Þóra stóð upp við hestinn og hikaði. Það var alltaf erfitt að láta undan. Þessi kona var líka móðir Sigurðar og hafði sama stálviljann og hann, sem knúði hana til að láta undan síga. Katrín sá, að hún var að vinna ofurlítið á og fylgdi fast eftir. „Ég álít þig aldrei sömu manneskju og áður, ef þú snýrð við, án þess að heilsa Maríu“. „Við fáum sjálfsagt báðar annað álit á hvor annari eftir þetta hnotabit, sem hér hefur átt sér stað í dag“, sagði Þóra stuttlega. „Ég er nú ekkert annað en kotakerling, sem hef ekkert til míns ágætis, og kem alltaf til dyranna eins og ég er klædd. En það verð ég þó að segja, að ég gleymi þeim aldrei, sem einu sinni hafa rétt mér hjálparhönd. Það er nú kannske af því, að þeir hafa ekki verið svo margir. Þú þekkir víst lítið til þess að vera vinafár. Það eru svo margir mannvinirnir þarna í dalnum. Mikið hefur þú og allir mátt sakna hennar þessarar góðu konu, sem nýlega var borin til grafarinnar“, sagði Katrín. • Þá mundi Þóra eftir því, að hún hafði stungið niður ofurlítilli glaðning handa tengdamóður sinni. Það hafði ekki verið ætlun hennar að þræta og karpa við hana allan tímann, sem hún stóð við, þótt svo færi. Hún tók böggul úr tösku, sem var spennt við söðulinn, og fékk henni. „Hérna er lítilræði handa þér, Katrín mín“, sagði hún, ólíkt hlýlegri en áður. „Það er utan um sængina þína. María verður ekki lengi að sauma það fyrir þig“, bætti hún við. „Þú varst nú jafn velkomin, þótt þú hefðir ekki haft þetta meðferðis", sagði Katrín, án þess að gleðjast yfir gjöfinni og rétti böggulinn til dætra sinna; sem stóðu inni í dyrunum. Þær voru fljótar að rífa bréfið utan af, til að sjá innihaldið. „Nei, mamma, sjáðu nú bara, hvað þetta er fallegt“, hrópuðu þær og breiddu úr stórrósóttu sirsinu. Katrín leit á það hirðu- leysislega og sagði þreytulega: „Ekki vantar það, en það er fleira „hót“ en gjafir“. „Þú átt við, að þú hefðir heldur viljað, að ég hefði heilsað Maríu?“ sagði Þóra og skyldi nú fyrst, hve mjög hún var búin að særa þessa konu. Hún bað ekki um neitt handa sér eða sínu alls- lausa heimili, aðeins um ofurlítinn ljósgeisla inn í ömurlegt líf fallinnar dóttur sinnar. Og um þennan litla greiða ætlaði hún að neita henni. Það var lítil von til, að henni fyndist skræpóttur sirs-bútur geta bætt fyrir slíkt. „Já, það var það, sem ég átti við. Það hafa fáir heimsótt hana nú í seinni tíð, nema þá til þess að reyna að fá efni í nýja slúður- sögu handa náunganum“. Þá hikaði Þóra ekki lengur. Hún lagði taumana upp á makk- ann og vatt sér í söðulinn. „Ég skal fara út eftir, fyrst þig langar til þess“, sagði hún, „en ég held bara ,að það verði Maríu til lítillar ánægju, þegar ég er í þessu skapi“. Þá breyttist svipurinn á húsfreyju fljótlega. Hún lét það ekki nægja að klappa Þóru, heldur fékk Mósi talsvert af þakklæti hennar. En Þóra kippti í snærisspottann, sem ýsurnar voru bundnar með við sveifina, um leið og hún reið úr hlaði. Þær duttu, en Mósi tók snöggan kipp út á hliðina, svo nærri lá, að hún kastaðist úr söðlinum. Hún heyrði fyrirbænir og átölur heiman af hlaðinu. Drengjunum var kennt um, að þeir hefðu bundið ýsurnar svona skammarlega. Aldrei væri hægt að trúa þeim fyrir nokkru verki. „Þú þurftir ekki að taka þennan kipp, vinur, þó ýsumar dyttu“, sagði Þóra við Mósa. „Ég ætlaði mér ekki að reiða þær sveitina á enda“. Hlíðarendakot var næst yztí bærinn á ströndinni. Hann leit út eins og flestir aðrir kotbæir. Tvö þil fram á hlaðið. Annað með opnar bæjardyr, hitt með tvo litla glugga og lokaðar dyr. Það var geymzluskemma. Þóra steig af baki og ætlaði að fara að gefa bæjarþilinu högg með svipunni, þegar karlmaður kom fram undan bænum að norðanverðu með tvo heymeisa sinn í hvorri hendi. Þetta var Víst þessi óskemmtilegi ekkjumaður, hugsaði Þóra og athugaði hann vandlega. Hann var hár maður, ekki ólaglegur, þéttur á velli og líklega þéttur í lund, einkenni flestra stranda- manna. Hann glápti á gestinn, auðsjáanlega alveg hissa. Þóra kastaði á hann kveðju, heldur kuldalegri, og spurði eftir Maríu. „Hver er konan?“ spurði hann. „Þóra frá Hvammi“, svaraði hún. Þá stækkuðu augu hans að miklum mun. „Nú, einmitt. Þú ert víst sjaldséður gestur hér út frá, býst ég við“, sagði hann og hvarf inn í bæjardyrnar með meisana, ekki ólíku • feimnum krakka á svipinn. Eftir otutta stund var María komin fram í dyrnar, hikandi og vandræðaleg, en brosandi. En það var ekki sama brosið og hún var vön að hafa á takteinum í Hvammi. Þóra reyndi að leggja alla sína alúð í heilsunina, en María fann þó einhverja vöntun. „Ekki datt mér í hug, að þú færir að heimsækja mig. Góða komdu nú í bæinn. Þú ferð ekki lengra í kvöld“. „Dettur þér í hug, að ég taki upp á því að fara að gista hérna úti á ströndinni?“ sagði Þóra og brosti. „Eins og það hafi ekki margur maðurinn gist hérna úti á ströndinni, og þótt gott?“ sagði María glettnislega. „Já, jú, jú, en ég sagði Sigurði það, að ég kæmi í kvöld og ætla að reyna að standa við það. Mósi ratar, þótt farið verði að skyggja. En satt að segja datt mér ekki í hug, að það væri svona langt til þín. Svo var ég að hugsa um að fara ekki lengra en að Hvoli, en mamma þín gat ekki hugsað til þess, að ég heilsaði þér ekki um leið“. „Það var fallega gert af henni að koma þér alla leið til mín“, sagði María. Nú var hún að ná sinni vana glaðværð. Þóra hafði tekið eftir því, að húsbóndinn stóð inni í dyrunum. Nú kom hann í ljósmál og ætlaði að fara að spretta af Mósa. „Það er óþarfi að spretta af“, sagði Þóra. „Ég ætla ekki að standa lengi við. Ætlaði bara að sjá hana Maríu“. Hann glotti þessu lymskulega þráaglotti þeirra á ströndinni og sagði: „Það er heldur langt farið til þess eins að sjá hana. Mér finnst það ekki mega minna vera, en þú drekkir hjá henni kaffi og kveðjir hana“. Þóra gaf honum hornauga. Átti þetta svo sem að vera fyndni eða ætlaði þessi persóna að fara að hártoga það, sem hún hafði sagt. María hló að þessu spaugi, en bóndi spretti söðlinum af, þrátt fyrir mótmæli Þóru, og teymdi hestinn suður úr hlaðinu. Þóra fylgdist með Maríu til baðstofu. Hún var þrifaleg, öll sápuð og þvegin, og ekki minnsta hákarlalykt eða fiskþefur. Þrjú rúm voru inni. í einu þeirra svaf ungbarn undir lítilli, skrautlegri sæng. Annað fólk sást þar ekki. María bauð henni sæti á rúminu. Engin kona kemur inn, þar sem barn sefur, svo hún byrji ekki á því að athuga, hvað það sé stórt og fallegt. En Þóra braut algerlega á móti þeirri venju. Hún settist fyrir framan barnið án þess að líta á það. Þau voru varla svo lagleg krakkarnir hans, þessa kauða, að það tæki því. „En hvað þú varst góð að koma“, sagði María innilega glöð. „Ójá, nokkuð svona“, sagði Þóra. Henni fannst það varla þess vert, að hæla sér fyrir það. „Ég heyrði sagt, að Ármann væri búinn að senda þér fargjald“, bætti hún svo við. „Komstu þá til þess að kveðja mig?“ spurði María og hlo vandræðalega. „Ekki var það nú beint erindið“, svaraði Þóra. „Nei, það er ekki satt“, hélt María áfram. „Ármann hefur ekki látið neitt til sín heyra, síðan hann fór, enda engin ástæða til þess, að hann skrifi mér, því, eins og ég var búin að segja þér, ætlaði ég aldrei að yfirgefa mömmu hans vegna. Við kvöddumst því fyrir fullt og allt, þegar hann fór“. „Svo? Annað hef ég nú heyrt?“ „Það er nú svo margt talað, sem ekki er satt“, sagði María. „Já, ég hef heyrt margt talað um þig, María mín, sem mér fellur ekki sem bezt að heyra og ég ætlaði að reyna að koma þér til Ameríku, heldur en að þú gefir þig sveitinni fyrir bitbein, en móðir þín bjóst við, að það þýddi ekkert fyrir mig að minnast á það framar. Svo að ég var að hugsa um að snúa við á Hvoli. Mér fannst ég ekki geta séð þig, eins og nú er komið fyrir þér“. „Jæja, varstu að hugsa um að snúa við án þess að sjá mig- Svo bregðast krosstré sem önnur tré“, sagði María gremjulega. „Já, ætli það ekki. Það geta víst flest tré brostið“, sagði Þóra og roðnaði. „Mig furðaði líka á því, að þú varst komin. Ég var búin að sjá það, að þú getur gleymt því að vera þakklát“. „Hvað meinarðu?“ tók Þóra upp eftir henpi. „Ég hef ekki gleymt því, þegar Björn litli var skírður“, svaraði María og hélt áfram að brosa, en það var kalt bros. „Er það satt, að þú sért búin að gefa þig á vald þessum manni núna strax?“ sagði Þóra, en gaf ekkert um að ræða um skímar- veizluna hans Björns litla. „Mér finnst ég ekki geta trúað því“- „Mér finnst nú samt, að þú ættir að geta skilið það. Varla hefur nú Siggi verið búinn að dorga lengi við þig, þegar þú beizt á hjá honum“. Nú var það Þóra, sem roðnaði, Maríu til samlætis. Það var naumast, að það var reynt að kasta því framan í hana, að hún hefði verið fljótráð, og það var tengdafólkið, sem lét sig í það- Henni fannst þó, að það ætti að vera hreykið af því, að hún skyldi lúta svo lágt að mægjast því. Svolítil hreyfing í rúminu fyrir ofan hana gerði enda á þessar óviðfelldnu samræðu. María laut yfir rúmið og tók smábarnið upp og kyssti það á rjóða kinnina. Það horfði á Þóru dálitla stund, stakk svo andlitinu undir vanga Maríu. Þetta var fallegt barn, með glóbjart, silkimjúkt hár, alveg eins og hárið á engilbarninn frammi í dalbotninum. Því hefði Þóra ekki trúað, ef henni hefði verið sagt það. Hún hafði búizt við, að þessi börn væru ólagleg og illa hirt, eins og flest önnur börn, sem hún sá á þessum bæjum, er hún hafði komið á þarna á ströndinni, en þetta var þá spikfeit, tárhrein stúlka, sem skríkti af ánægju í fanginu á fóstru sinni. „Hvað heitir litla stúlkan?“ spurði Þóra og hafði ekki augun af barninu. „Hún heitir Sigrún“, svaraði María. „Var skírð yfir kistunm hennar mömmu sinnar“. Þá hvarf gremjan algerlega úr huga Þóru. Ekkert getur vakið samúð í konuhjartanu eins og móðurlaust ungbarn. Hún tók litlu, hvítu höndina, sem nær henni var, og kyssti hana. „Blessuð litla stúlkan. Ósköp hefurðu átt bágt“. María settist við hlið hennar á rúmið og gældi við barnið. „Ég býst við, að hún hafi þó átt bezta hlutskiptið, vegna þess að hún skildi ekki, hvað hún hafði misst. En það var átakanlegt sjá hin börnin, þegar ég kom hingað í haust, þrem dögum eftir að hún dó. Þau kúrðu þarna uppi í rúminu í myrkrinu, hálfgrátandi- Ég er viss um, að engin manneskja hefði getað fengið af sér yfirgefa þau aftur, þótt mér sé láð það. Þau eru líka svo þæg skemmtileg, angarnir litlu“. Nú kom húsbóandinn inn og dálítill snáði með honum, grat' andi, með blóðuga hendi og horfði hræðslulega á dropana, sem duttu ofan á gólfið. „Ég er hræddur um, að þessi drengur þurfi að fá einhverja aðhlynningu hjá mömmu. Hann hefur nú reyndar rifið sig 1 putann á einhverju járndrasli, sem hann var með, og hágrætm- svo yfir öllu saman“, sagði bóndi hlýlega, um leið og hann’ tók við litlu stúlkunni, svo María gæti hugsað um litla drenginn. Svona gat hann þá talað hlýlega við börnin sín, þessi kota' bóndi. Það var meira en hún hafði getað trúað — hugsaði Þóra og horfði á hann allt öðrum augum en áður. Aldrei gæti maður hennaf talað í þessum róm við Björn litla, ekki þótt hann yrði móðurlaus móðurlaus. Hana sveið undan því hugtaki.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.