Lögberg - 27.05.1954, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 27. MAÍ 1954
„Ja, nú þykir mér það skána, að ætla að fara að gista á næsta
bæ. Ég býst nú reyndar við því, með montinu og öllu saman, að
ég gæti haldið á honum undir hendinni yfir um, hvort sem hann
eða þú vildir það eða ekki. Og svo er bezt að fara að halda heim,
ræfill minn“, sagði hún og tók í handlegginn á manni sínum.
„Nei, þið drekkið kaffi fyrst. Kannske stillast skapsmunirnir
eitthvað við það“, sagði Sigþrúður.
„Ekki í þetta sinn, kona góð. Ég á eftir að hrifsa saman þrjá
flekki, áður en ég fer að mjólka“.
„Þú verður nú líklega ekki lengi að því, Ketilríður“, sagði
Páll með smjaðurslegu brosi, „þegar ég kem líka. Ég get ósköp
vel þegið Tcaffið, en býst ekki við að þú gefir þér tíma til þess“.
„Ég hef hvorki tíma né vilja til þess“, svaraði Ketilríður og
dró Pál upp af kistunni. „Þú þykist svo sem ætla að taka til
höndum, þegar þú kemur heim. Það er kannske munur. En kaffið
færðu ekki“.
Þau köstuðu kveðju á Sigþrúði og fóru fram úr búrinu og út
göngin. Sigþrúður fór fram í dyrnar til að sjá til ferða þeirra.
Ketilríður geystist áfram með löngum skrefum, en Páll labbaði
langt á eftir með hendurnar í vösunum. Krakkarnir komu á móti
þeim ofan túnið. Páll tók yngsta barnið á handlegg sér og bar
það heim að bænum. Svo fór öll fjölskyldan með hrífur út fyrir
túnið. Þar voru þrír flekkir, er þurfti að taka saman fyrir náttfallið.
Þórarinn bóndi hafði einnig horft á eftir hjónunum á leiðinni
heim. Hann stanzaði við dyrnar hjá konu sinni.
„Aumingja, vesalings maðurinn“, andvarpaði Sigþrúður, þeg-
ar hún sá Pál hverfa í heyrakinu frá hrífu Ketilríðar.
„Hún hýðir hann í kvöld“, sagði Þórarinn og glotti.
„Það held ég geti skeð“, sagði Sigþrúður kvíðandi. „Þetta er
nú meiri ofsinn í manneskjunni".
Morguninn eftir þegar Sigþrúður kom heim af kvíunum og
ætlaði að fara að hella á könnuna, sat Páll á kassa rétt við hlóð-
irnar. Sigþrúður hörfaði til baka. Hún hafði ekki búizt við neinum
þar inni.
„Láttu þér ekki verða bilt við, Sigþrúður mín“, sagði hann og
glotti kynduglega. „Ég lék á konuna í gærkvöldi og laumaðist í
burtu meðan hún var að hátta Dísu litlu. Ég þóttist vita, að hún
ætlaði að svala sér á mér þegar ég væri háttaður. Það var nú meiri
hamagangurinn í henni. Hún hratt börnunum og skammaði þau;
ég ætla nú ekkert að tala um mig. Ég þóttist vita, að þið meinuðuð
mér ekki að sofa í hlöðunni ykkar. Það fór vel um mig þar og
mér var nægilega heitt. En samt langar mig í morgunkaffið hjá
þér. Ég sé, að það sýður á katlinum“.
Sigþrúður greip ketilinn úr hófbandinu og hellti á könnuna.
Páll ók sér ánægjulega yfir ilminum af kaffinu. „Gott væri nú
að eiga hlýju út í, kona góð“.
Sigþrúður kom með leka neðan í hálfflösku. „Þetta er bara
svo lítið, en það yljar þér samt“.
„Ég sá úr hlöðunni, að Ketilríður var að leita kringum bæinn
og inni í hlöðunni, en þar er nú svo sjóðandi heitt, að engin
skepna gæti lifað þar. í geðofsanum og ósköpunum hefur hún
rifið töðuna saman hálf þurra. Það má mikið vera, ef hún brennur
ekki. En mér stendur á sama um það allt, því ég er búinn að
hugsa mér að fara alfarinn frá þessu, þegar ég tek út straffið, þá
kem ég ekki aftur í dalgreyið, ef hún ætlar að búa svona við mig“.
„Þú yfirgefur ekki börnin, Páll. Það geturðu ekki“.
„Það er allt hart aðgöngu, kona góð. Það er líka hart að þora
ekki að sofa inni fyrir þessari óhemju. Við tölum svo ekki meira
um það. Ég veit, að þú getur ekki um þetta við neinn, sem ég
sleppi við þig, þú ert ekki svoleiðis manneskja. Börnunum líður
ekki alltaf vel hjá henni, en ekki vantar blíðuna og kjassið, þegar
einhver er gestkomandi. Þá eys hún hólinu á þau. Nei, þau þurfa
tæplega að kvíða því, að eiga harðara, þótt þau færu til vanda-
lausra. Mér sagði hún nú bara að fara til . . . ég hef það ekki eftir.
Guð fyrirgefi manneskjunni þann munnsöfnuð“.
Sigþrúður heyrði minnst af þessari ræðu Páls. Hún þurfti
öðru að sinna, færa fólki sínu kaffi og koma mjólkinni fyrir. Páll
hafði gætur á hvað gengi heima á Jarðbrú. Þegar hann sá, að
Ketilríður var farin að mjólka kýrnar, hélt hann heimleiðis, tók
orfið sitt í bæjarsundinu og gekk út fyrir túnið til sláttar.
Það var komið fram undir veturnætur, þegar Páll Þórðarson
reið fram að Nautaflötum. Hann hitti vinnumennina úti. Siggi
fylgdf honum inn í eldhús. Þangað kom Jón fram til hans. Páll
heilsaði honum kumpánlega og þakkaði fyrir allt gott.
„Það er nú óþarfa þakklæti, Páll minn“, sagði Jón. „Þér hefur
víst ekki fundizt við sveitungarnir neitt sérlega góðir við þig nú
upp á síðkastið?"
„Það er nú dálítið misjafnt. Ég er ekki vanþakklátur, eg man
vel eftir tóbaksbitanum, sem þú gafst mér þegar við skildum á
Ósnum í sumar. Þú gazt látið það vera eins og aðrir. Þeir létu
sér nægja að lítilsvirða mig í orði og verki — já, ekki kannske í
verki, en með augunum gerðu þeir það“.
„Fáðu þér sæti, Páll minn“, bauð Jón í annað eða þriðja sinn,
því gesturinn gekk um gólf með hendur í vösum, og gaut út
undan sér augunum til kvenfólksins, sem snerist hvað utan um
annað í búri og eldhúsi við sláturstörf. Hann hafði grun um, að
það hlægi máske að sér, því var hann ekki óvanur.
Hann var óálitlegur maður, lítill vexti, með ódjarfmannlegan
svip, sem minnti helzt á hrætt rándýr. Hárið var ógreitt, í þykkum
lubba, óþarflega sítt, og maðurinn var allur frekar óskemmtilegur.
Borghildur gaf varpslitnum skónum og ótútlegum sokkunum,
sem buxurnar voru girtar niður í, allt annað en hýrt auga. „Ósk-
andi, að hann reyndi að sitja kyrr á stólnum, en væri ekki að
þessu sífellda rölti fram og aftur um nýþvegið gólfið“, hugsaði
hún. Vinnukonurnar töluðust við með augunum inni í búrinu.
önnur þeirra, sem var trúlofuð vinnumanninum á Ásólfsstöðum,
og þekkti ekki annað en logn og blíðu hveitibrauðsdaganna, hugs-
aði: „En að nokkur manneskja skuli geta séð manninn sinn svona
til fara, jafnvel þótt hann sé eins vesæll og Páll að útliti“. Augu
hennar sögðu eitthvað á þessa leið: „Aldrei skal ég giftast manni,
sem ekki er svo laglegur, að ég hafi gaman af að horfa á hann og
láta hann ganga vel til fara“.
Finnur gamli sat við borðsendann og horfði út um gluggann,
eins og hann gerði svo oft. Loks sagði hann hálfhátt: „Ójá, hann
lítur þá svona út, þegar hann kemur“.
Páll hrökk við og leit til Finns gamla. „Er hann að tala um
mig“, var hann búinn að segja áður en hann vissi af því sjálfur.
„Nei, mikil ósköp, nei“, flýtti Jón sér að segja. „Hann talar
svona bara við einhvern, sem hann er að hugsa um þá stundina,
aumingja gamli maðurinn“.
Finnur tók vettlingana sína, brosti flírulega til Borghildar
og fór út.
Páll hélt áfram að ganga um gólfið. Óhugurinn í heimilis-
fólkinu virtist hafa áhrif á hann. Jón fór nærri um hvað honum
leið og spurði Borghildi, hvort það væri ekki heitt á könnunni.
„Jú, auðvitað er alltaf heitt á könnunni núna í sláturtíðinni“.
„Þá skaltu láta okkur Pál fá kaffi“.
Borghildur setti bollapör á borðið, brauð og sykur, og hellti
kaffinu í bollana. „Það yrði þó líklega til þess að hann settist á
meðan hann sypi kaffið“, hugsaði hún.
Jón sótti vín inn í búrskáp og bauð ges’ti sínum út í. Páll
hýrnaði við að sjá flöskuna og fékk sér vel út í. Stúlkurnar fóru
allar fram, svo að þeir urðu tveir einir í eldhúsinu. Það fann'st
Páli allra bezt; nærvera þeirra gerði honum óhægt um mál, enda
var erindi hans þannig, að hann vildi helzt að sem fæstir heyrðu
það. Hann reyndi að ræskja sig nokkrum sinnum áður en hann
byrjaði.
„Ég býst við að ég verði að fara að leggja upp í þessa ferð,
'þessa hörmungarferð, sem þessum blessuðum yfirvöldum hefur
þóknazt að dæma mig til. Hversu réttlátt sem það er, veit sá einn,
sem allt veit. En hvað er að tala um það. Ég er ekki fyrir þeim, sem
dæmdur var ranglega“. Hann stanzaði og hikstaði, ’og hætti loks
alveg við það, sem hann átti eftir ósagt.
„Þú hefur gott af þessu, vandar Jþig betur eftirleiðis, og lætur
þetta ekki koma fyrir þig aftur“, sagði Jón.
„Ætli ástæðurnar batni nokkuð við það. Ég býst við að fá-
tæktin verði sú sama, og ekki minni“.
„Þú ert ekki svo fátækur, Páll, að þú þyrftir að haga þér
svona. Það eru margir hér í sveitinni, sem eru miklu fátækari en
þú, sem lifa heiðarlega“, sagði Jón stuttlega.
„Hverjir skyldu það nú svo sem vera? Ég veit ekki hvernig
aumara getur verið“, sagði Páll klökkur.
„Gísli í Hvammskoti er ólíkt skepnufærri en þú og hefur
fleiri börn og yngri fram að færa“.
„Það er ólíku saman að jafna. Hann rétt á sjávarbakkanum
að heita má, rær eins og fjandinn hvenær sem gefur á sjó og
leggur inn fisk fyrir fleiri tugi króna á hverju ári, og selur sveita-
manninum fisk fyrir okurverð“.
„Þetta hefðir þú líka getað, ef þú hefðir nennt því. Það er ekki
svo langt hérna ofan að sjónum, að ekki sé hægt að stunda sjó á
haustin fyrir þá, sem eiga eins duglega konu og þú. Henni hefði
ekki orðið mikið fyrir því að hugsa um þessar fáu skepnur með
svona uppkomnum strákum eins og þú átt. En það er bara þessi
munurinn, að Gísli er dugnaðarmaður, en þú letingi“.
„Ojá, gott eiga þeir, sem náðarinnar njóta, að helztu menn
sveitarinnar hæli þeim. Það er ekki hann Páll minn, sem verður
fyrir því láninu. En hitt er eftir að vita, hvað sá, sem lítur í
hjartalagið, segir um okkur Gísla karlinn. Honum hefur nú þótt
nokkuð gott í staupinu, og ég man ekki betur en að hann berði á
manni í fyrra“.
„Hann hefur velþóknun á Gísla“, sagði Jón glettnislega. „Hann
hefur ekkert á móti því, að menn fái sér í staupinu, enda er það
ekki oft, sem Gísli gerir það. Og þó hann káklaði þetta í strákinn,
átti hann það skilið. Hann lét eins og vitlaus maður“.
„Já, einmitt það“, sagði Páll og leit í kringum sig, en það
hafði ^nginn komið inn þótt honum heyrðist það. „Margt veizt þú
blessaður. En ætli það mætti ekki ímynda sér að þú vildir að
himnafaðirinn hefði mætur á drykkjumönnunum, af því að þú til-
heyrir áreiðanlega þeim flokknum“, bætti hann við hreykinn af
einurð sinni, að geta sagt þetta svona beint upp í opið geðið á
herppstjóranum.
„Það er áreiðanlega ekkert syndsamlegt við það að fá sér í
staupinu“, sagði Jón glettinn, „og mér þykir líka gaman að draga
fisk, og gerði miklu meira af því, ef konunni væri ekki svo lítið
um það gefið. Öðru máli er að gegna með þig. Ketilríður letur þig
varla að fara á sjó eða bjarga þér að neinu leyti“.
„Já, en hvernig heldurðu að þér liði nú. Ég set nú svo, að þú
værir við sjó langt frá heimili þínu, konan og börnin ein heima,
og svo kæmi stórhríð; þú kannast við þær stórhríðarnar hérna í
dalnum. Konan brytist út til að reyna að ná fénu, og skildi börnin
eftir ein, með ungbarn kannske. Það getur svo sem margt komið
fyrir hálfvitlausa krakka. Þau gætu kveikt í bænum, og þau gætu
misþyrmt barninu, og svo margt óskaplegt, sem gæti komið fyrir.
Það er ekki víst, að konan yrði eins hýr og blíð við þig eins og
hún er núna, þegar þú kæmir svo heim“.
„Svona lagað þarft þú ekki að óttast. Strákarnir þínir eru
orðnir það stórir, að þeir gætu haft féð víst á hverju kvöldi og
hýst það. Þá gæti engin hætta verið, þó þú værir við sjóinn.
Konan ætti ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur út af því“.
„Það er hægara um að tala en í að komast. Þeir geta lítið sett
sig inn í kjör fátæklinganna, sem alltaf hafa búið við allsnægtir.
En ævina mína vildi ég feginn láta þeim eftir, sem komu mér í
þessa klípu. Allt var það vegna heimilisástæðna minna, að ég fór
að játa á mig einhverja endileysu; ég man ekki einu sinni hvað
það var, svo ruglaður var ég orðinn af svefleysi og áhyggjum út
af því að hugsa til þess, að hún væri nú ein við heyskapinn; en
ég hefði víst setið þarna enn þann dag í dag hefði ég ekki tekið
þetta ráð“.
„Þú hefur áreiðanlega ekki meðgengið of mikið, þó þú látir
svona — og hefðir sjálfsagt getað talið fleira upp“, sagði Jón
kuldalega. „Svo ættirðu að hætta þessari þvælu, ég er orðinn
leiður á að heyra þig vera að reyna að þvo þig hreinan af þessu
máli. Þú getur það aldrei, og það trúir þér heldur enginn maður,
sem þekkir þig“.
Borghildur var komin inn og raðaði diskum á hvítskúrað
borðið, og lét hnífapör og skeiðar hjá hverjum diski.
„En myndarskapurinn hjá þér, kona góð“, sagði Páll upp-
veðraður. „Þú berð á borð fyrir fólkið eins og í kaupstað“.
„Þú borðar með okkur, Páll“, sagði hún.
„Ég get nú sagt þér, að þær eru teljandi þær máltíðirnar, sem
ég hef borðað nú undanfarið, enda er ég orðinn eins og mjógörn
innan undir fötunum", sagði Páll skjálfraddaður.
„Það var ekki hyggilegt af þér að gera það“, sagði Jón ertnis-
lega. „Það er sagt, að það sé heldur léleg vist þarna fyrir sunnan.
Þú hefðir átt að fita þig“.
„Það er nú svona, að vera ekki alveg tilfinningarlaus“, sagði
Páll. „Það kemur nú aldrei fyrir þig, þykist ég vita, að villast af
réttri leið, til þess ertu of skynsamur og vel upp alinn. En ég býst
við, að þú fyndir það, ef slíkt kæmi fyrir; ég segi það nú bara
svona, að það er heldur þægilegra að fremja brotið en bæta fyrir
það. En hvað segir ekki blessaður postulinn Páll: Allir hrösum við
margvíslega“.
„Já, auðvitað erum við alltaf á nösunum“, sagði Jón brosandi.
„En seztu nú hérna að borðinu með okkur, Páll minn. Hér eru ný
svið; þér hljóta að þykja þau góð, eins og öðrum“.
Páll horfði hýrum, löngunarfullum augum á stórt fat, hlaðið
sviðakjömmum, sem Borghildur lét á mitt borðið. „Þakka þér
fyrir, Jón minn, það er minn bezti matur“.
„Það datt mér í hug“.
Vinnufólkið kom inn og settist við borðið. Páll settist við
hliðina á Sigga og tók álitlegan kjamma á diskinn, seildist svo
eftir sjálfskeiðung sínum, sneiddi eyrað af og kastaði því út í horn.
Siggi skellihló að varfærni Páls.
„Maður gæti hugsað sér, ef hann væri ekki alinn upp á öðru
eins heimili og þessu, pilturinn sá arna, að hann hefði það til að
hæðast að fólki, en það þótti nú ekki fallegur siður í mínu ung-
dæmi“, sagði Páll og ranghvolfdi augunum í áttina til húsbóndans.
„Það er heldur ekki af því. Hann er bara svona kátur og
ræður ekki við sig. Svo er ekki ólíklegt, að stúlkurnar hafi eitt-
hvað verið að tala við hann með augunum; hann er nú kominn á
þann aldur, að hann fer að hafa gaman af því, að kvenfólkið gefi
honum gaum, eða finnst þér það ekki, Páll?“
„Ójú, það get ég nú vel skilið“, sagði Páll og glotti. Tortryggni
hans var fokin burtu, og Siggi var líka hættur að hlæja. „En
erndindið var nú reyndar11, byrjaði hann eftir stundarþögn, „að
biðja þig að líta eftir þessu heimili í fjarveru minni. Við erum nú
orðin sveitföst hér, eins og þú veizt líklega“.
„Já, það veit ég vel. En þetta er nú svo stuttur tími, sem þú
verður í burtu; en ég skal líta eftir því. Hún getur sent til mín, ef
það er eitthvað, sem ég get gert henni til þægðar. En heldurðu,
að þú sért birgur með hey fyrir skepnurnar?“
„Það býst ég við að ég sé, eins og vant er. Reyndar held ég
þessir forðagæzlumenn líti nú á það. Hvað er það, sem ekki þarf
að aðgæta hjá manni? Ég veit það ekki. Það er reynt að reka
nefið ofan í hverja kirnu og hvern kima. Það er víst ekki hætta á,
að þeir geti ekki sagt um það, hvort ekki sé nóg hey á Jarðbrú.
Ég fann Erlend á Hóli í gær, eða hann gekk svona í veg fyrir
mig, því að ég hafði hugsað mér að troða ekki á tánum á honum.
En hann var þá bara þetta litla glenntur og bauð mér að hirða
fyrir mig þennan tíma. Ég sagði honum, að það væri vel boðið.
Ketilríður skyldi ráða því. Ekki veit ég hvað það hefur átt að
þýða. Líklegast að samvizkan segi honum til syndanna, greyinu.
En Ketilríður aftekur, að hún verði ein heima. Hún er svo myrk-
fælin. Heldurðu að þú getir útvegað einhverja manneskju?
Kannske eitthvað af þesum skara, sem þú hefur hérna á
heimilinu?“
„Ekki býst ég við því. Mér veitir ekkert af þeim. Heimilið er
stórt og sláturtíðin langt frá því að vera búin ennþá. Ég skil ekkert
í Ketilríði, þessari dugnaðar- og kjarkmanneskju, að vera myrk-
fælin. Mér finnst, að krakkarnir séu orðnir svo stórir, að það
ætti að nægja henni þennan stutta tíma“.
„Það er ekki gott að segja, hvað hann verður langur“, sagði
Páll drýgindalega. „Ég er nú að hugsa um að gera mér glaðan
dag, fyrst ég fer á annað borð, og finna bróður minn, sem á heima
suður með sjónum einhvers staðar. Ég Jnlýt að hafa uppi á honum
með einhverjum ráðum“.
„Þú verður þó alltaf kominn heim fyrir jól“.
„Já, það þykir mér líklegt", sagði Páll.
Svo kvaddi hann alla með virktum, þegar hann hafði rætt við
hreppstjórann einslega frammi í skála og margsagt, að hann tryði
engum nema honum fyrir konu sinni og börnum, vegna þess hversu
vel hann hefði komið fram við sig þarna í óláninu í sumar.
„Ég fer að halda, að þú sért hræddur um, að þú komist ekki
lífs af úr þessari ferð“, sagði Jón; hann var orðinn þreyttur á að
hlusta á þetta þýðingarlausa smjaður Páls.
„Enginn veit, hvað fyrir kann að koma. Margur hefur farið í
styttra ferðalag og ekki komið aftur“, sagði Páll og rétti fram
höndina enn einu sinni til að kveðja og óska honum langra og
góðra lífdaga.
„Hvað ætli sé nú að brjótast um í honum Páli?“ sagði Jón og
horfði á eftir gesti sínum, þegar hann reið úr hlaði.
Það leið ekki á löngu þar til sú gáta var ráðin. Erlendur á Hóli
kom einn daginn og sagði fréttirnar. Taðan var öll kolbrunnin,
svo að það var var ómögulegt að nokkur skepna lifði á henni, og
útheyin voru sáralítil. Samt bauðst hann til að reyna að fóðra
kindurnar og hrossin á því, en kúnum yrði að koma niður annars
staðar. Hann sagði það líka eftir hjónunum á Hjalla, að Páll hefði
áreiðanlega ekki ætlað sér að koma heim aftur, því að konan hefði
verið svo vond við hann, að hann hefði ekki þorað að sofa heima
frá því að hann játaði á sig þjófnaðinn og allt þangað til hann
fór í burtu. Sigþrúður hafði víst búið hann út að fötum, svo að
hann gæti látið sjá sig.
„Og nú heimtar kerlingin, að við komum sér niður strax og
krökkunum, náttúrlega kúnum líka“, endaði Erlendur frásögnina.
„Þetta hefur það verið, sem Páll átti við, þegar hann var alltaf
að tala um, að það væri ekki víst að hann kæmi strax aftur, og
alltaf að biðja mig fyrir krakkana“, sagði Jón. „Það verður ekki
þægilegt að ráðstafa þessu svona á haustnóttum“.
„Við — hreppsnefndin — skulum bara taka sinn krakkann
hver til vorsins. Karlinn hlýtur að koma með vordögunum“, lagði
Erlendur til málanna. „Ég skal taka strákgreyið hann Steina og
aðra kúna, og segðu nú, að ég sé ekki alveg ómögulegur í nefnd-
inni“.
„Það er nú eitthvað annað, ef allir nefndarmenn verða svona
ráðagóðir, þá verða engin vandræði með þetta, enda er þetta ekki
langur tími. Lakast, ef Páll kemur svo fyrir jólin, eins og hann
bjóst við. Hann vill enginn taka“, sagði Jón hlæjandi“.
„Jú, það máttu vera viss um. Sigþrúður tekur hann undir eins.
Ekki er betra að taka kerlingarflagðið“, sagði Erlendur. „Það er
meiri hörmungin, að geta ekki losnað við þetta hyski úr sveitinni“-