Lögberg - 17.06.1954, Síða 6

Lögberg - 17.06.1954, Síða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 17. JÚNI 1954 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF V....- —r „Er það nú samt ekki það, sem margt barnið og unglinginn hefur vantað, að fá magafylli sína?“ sagði Ketilríður. „Stundum virtist, sem Lísibetu heitinni, þeirri miklu sómakonu, veitti ekki af að líta eftir því hérna í sveitinni, að börnin hefðu nóg að borða. í>au voru nokkuð mörg fátæku börnin, sem hún tók heim til sín, þegar þröngt var í búi hjá kotungunum hérna í dalnum. Það var dásamlegt hvað börnin gátu tekið stakkaskiptum. Þvílíkt lán fyrir þessi blessuð börn, sem hún tók að sér munaðarlaus, eins og hann Sigga og blessaða húsmóðurina. Ég er líka að vona, að hún muni eftir sínu munaðárleysi, og láti Dísu mína ekki frá sér. Henni hefur sjálfsagt, eins og mér, ekki fundizt það alveg þýðingarlaust að hún skyldi berast til hennar, því að hún er fædd sama daginn og hún Lísibet litla var jörðuð“. „Það hefur nú sjálfsagt verið eins og hver önnur tilviljun“, sagði Borghildur fálega. Hún vissi, að Anna var inni í búrinu og heyrði til þeirra. Það vissi Ketilríður líka. Það var vani Önnu að borða egg sér til sælgætis milli máltíða. „Já, auðvitað er það tilviljun, ekki efast ég um það. En það er víst líka tilviljun flest, er fram við mann kemur, sem hefur mesta þýðingu“, sagði Ketilríður spekingslega. „Maður er víst heldur skilningssljór á það allt saman, fyrr en þá helzt á eftir“, sagði Borghildur. Svo bætti hún við til að reyna að eyða þessu' umtalsefni: „Þú ættir að fá þér egg þarna, nóg er til af þeim. Hænurnar eru farnar að verpa svo vel“. „Ekki spyr ég að búsældinni hjá þér í einu og öllu“, sagði Ketilríður á nægjuleg á svip. Seinna þennan sama dag bar Jón það undir Borghildi og konu sína, hvort það myndi geta komið til mála, að Ketilríður yrði kyrr þar á heimilinu næsta ár. Þær urðu báðar seinar til svars. „að mæðir náttúrlega mest á þér, Borghildur mín. Hún hefur verið svo erfið við þig“, sagði Jón. „Sízt ætti ég að mæla með því, að sú manneskja yrði hér á heimilinu, sem gerði þér lífið leitt“. „Hún hefur nú verið ólík til skapsmunanna nú í seinni tíð, og ekki vil ég setja mig upp á móti því, að hún verði hér, þó að okkur hafi samið skammarlega, því að hún er aldeilis víkings manneskja til vinnu. Það fer allt einhvern veginn. Svo er nú kannske ekki þægilegt fyrir hana að koma sér niður hér, eftir að komið er fast að krossmessu^ af því að fólki er svo sem ekkert um hana gefið, konuvesalinginn, eins og við þekkjum öll“. Þetta var svar Borghildar. Jón sneri máli sínu til konu sinnar: „Hvað segir þú, góða mín? Ég þykist vita, að þér hafi ekki þótt skemmtilegt að heyra alla þá óánægju, sem Ketilríður kom til leiðar í vetur, jafn friðsamri konu og þú ert“. „Náttúrlega þótti mér það leiðinlegt“, svaraði hún. „En ég á bágt með að láta Dísu litlu í burtu. Hún er svo hænd að okkur og kallar okkur pabba og mömmu, og hún fæddist sama daginn sem litla stúlkan okkar var jarðsungin. Svo mér finnst, að það hafi verið ráðstöfunGuðs, að hún kom hingað. Þess vegna langar mig til þess að þær verði hér að minnsta kosti í sumar. Þetta hefir nú gengið svo ágætlega um langan tíma“. „Það er bara að það sé ekki eitthvert svikalogn, rétt á meðan hún er að koma því í kring, að hún þurfi ekki að fara héðan“, sagði Jón. Hann var vantrúaður á það, að Ketilríður gæti setið á sér til lengdar. „Kannske hefur hún nú verið hálftryllt yfir því að tvístra börnunum frá sér, konu greyið“, sagði Borghildur svo sem til málsbóta fyrir óhemjuskapinn í Ketilríði. „Ekki væri það ólíklegt“, sagði Jón. „Þó ekki væri hægt að merkja það á neinu, að henni félli það þungt, enda þurfti hún þess ekki. Elzti strákurinn var svo stór, að hún hefði vel getað verið kyrr í kofanum hefði hún kært sig um. En ég kenni í brjósti um hana fyrir að eiga þessa mannleysu, sem ekki hefur neina hugsun á að koma börnunum upp með henni. Hún hugsar sér að vinna fyrir tveim yngstu krökkunum“. „Hver gefur þá með hinum?“ spurði Anna. „Búið verður selt, og það sem fæst fyrir það, gengur upp í meðgjöfina með þeim. Elzti strákurinn verður fermdur í vor, svo að hann er algerlega sloppinn“. „En þegar það er uppgengið? Fara þau þá á sveitina?“ spurði Anna. „Það er mjög líklegt, nema það komi til, að þau komi sér svo vel, að þau verði tekin meðgjafarlaust. En þau eru víst ekki svo geðþekk, heyrist mér, að líkindi séu til þess“, svaraði Jón. „Það er þó mikill munur eða hún Dísa litla, sem er svo eftirlætisleg“, sagði Anna. „Hún er nú eins og hver annar óviti ennþá, anginn litli“, sagði Borghildur. „Ekki líkaði nú alls kostar við hana í vetur, þegar hún var að fela allt, sem hún fann. Nú er hún haétt því að mestu leyti. En samt held ég að hún hafi hálfleiðinlegt innræti". „En þú tekur þó ekkert með henni, góði minn“, sagði Anna. „Okkur munar ekkert um það,sem hún borðar. Ketilríður gefur þá með Steina og Ástu“. Jón hló ánægjulega. „En hvað þú ert ágæt núna, Anna mín. Svona búkonulega hefurðu aldrei komið fram. Þetta er líkt mömmu. Svona var hún. Tók fátæku börnin heim og sagði, að þau munaði ekkert um það, sem þau borðuðu. Það gekk heldur ekki saman Nautaflatabúið, meðan hún stjórnaði því, blessunin. Fyrir þetta skaltu fá góðan koss. Og svo er bezt, að Ketilríður verði kyrr þetta árið“. Daginn eftir sagði Jón Ketilríði, að þau hefðu afráðið, að hún yrði kyrr þetta næsta ár. Það hefði verið Anna, sem þar hefði ráðið mestu um. „Ég þóttist nú þekkja yður, svo að þið færuð ekki að hrekja Dísu litlu frá ykkur. Enda færi hún varla ánægð héðan. Hún er svo skynsamt barn, að hún veit, að það fer hvergi eins vel um sig“, sagði hún ánægjuleg á svip. Og svo bætti hún við: „Ég þyrfti að láta Önnu mína njóta þess, að hún greiddi götu mína nú sem fyrr“. LITLA' KISTAN Seint um sumarið fæddi Anna Friðriksdóttir son, líflítinn og vanþroska. Hann lifði aðeins í nokkrar klukkustundir og var aldrei klæddur í litlu, fallegu fötin, sem búið var að geyma niðri í kommóðuskúffu næstum því í fjogur ár. Hann var jarðsunginn næsta sunnudag, þegar messað var. Anna var ennþá í rúminu. Þóra í Hvammi hafði komið til kirkj- unnar, aðallega til þess að vita hvernig Önnu liði. Hún bauðst til að sitja inni hjá henni meðan fólkið væri í kirkjunni og barnið jarðsungið. Anna var sorgmædd, sem eðlilegt var. „Finnst þér ekki eitthvað undarlegt við það, að okkar börn skuli ekki lifa eins og börnin þín og flestra annara hér í sveitinni?“ spurði Anna. Það var það fyrsta, sem hún sagði. Þær höfðu setið þegjandi hvor við annarar hlið, því að þótt Anna væri í rúminu, sat Þóra svo fast við rúmstokkinn, að Anna gat grúft sig að öxl hennar til að gráta, þegar litla kistan var borin fram úr húsinu. Jón og Þórður í Seli höfðu borið hana inn, eftir hennar ósk. „Hérna kemur litla kistan, góða mín“, hafði Jón sagt og látið hana í rúmið hjá henni. „Nú skaltu kveðja hana, svo fer ég með hana út í kirkju. Vertu stillt, vina mín. Þetta er bráðum búið“. Þetta hafði hann sagt í óstyrkum málrómi, þessi stóri, sterki maður, en tekið það þá fram, að hún yrði stillt, vegna þess að hann átti bágt með að sjá hana gráta. Svo hafði hann gengið eirðarlaus fram og aftur um gólfið, meðan hún baðst fyrir yfir litlu kistunni og signdi yfir hana, stillt og róleg. En þegar kistan var horfin fram, leitaði hún sér styrks hjá Þóru, eins og hún hafði gert svo oft áður, þegar eitthvað hafði komið fyrir, sem var erfitt fyrir hana að skilja. Þess vegna bar hún upp þessa vandsvörðuðu spurningu. „Það hafa fleiri en þið misst börnin sín“, sagði Þóra. „Manstu, þegar Hjálmar í Seli sagði okkur frá því, að þau hefðu misst tvö fyrstu börnin sín?“ „Já, ég man það. Mig dreymdi þessi börn svo oft á eftir. Ég var svo hrygg yfir því, að missa hana Lísibetu litlu. Og núna aftur. Er þetta ekki óvenjulegt, Þóra? Ég fer að halda að það sé satt, sem Ketilríður segir, að það séu álög á þessu heimili, að hér geti ekki lifað nema einn sonur“. „En sú fjarstæða. Hver svo sem skyldi hafa lagt það á? Það hefði þá eins mátt álíta, að það væru álög á Hvammi. Mamma mín var einbirni, og faðir hennar var það líka, og svo var ég ein. En það lítur út fyrir, að ég ætli að fjölga mannkyninu heldur betur. Líklega stafar það af því, hvað Sigurður á mörg systkini“. „Náttúrlega er það þess vegna. En við erum bæði einbirni“, sagði Anna. „Þið eigið eftir að eiga mörg falleg börn eins og Jakob“, sagði Þóra. „Ég er búin að biðja Guð þess, að gefa mér ekki fleiri börn, fyrst honum þóknast ekki að lofa þeim að lifa hjá mér. Hann verður látinn við hliðina á mömmu sálugu, litli drengurinn okkar, og svo á að láta litlar grindur kringum litla leiðið hans; þá verður eins og hann sofi einn í svolitlu rúmi". Þetta var víst eina huggunin, sem hún hafði, — að hugsa um gröfina hans, þóttist Þóra vita. „Já, það fer vel um hann þar“, sagði hún. „Já, það veit ég vel. En skemmtilegra finnst mér hefði verið, að hann hefði fæðzt heilbrigður og fengið að lifa hjá okkur og orðið stór og fallegur eins og Jakob okkar“. „Var hann líkur honum?“ spurði Þóra. Hún var að hugsa um litla líkið, sem hún hafði séð fyrir fjórum árum. Það leit út fyrir, að Anna hugsaði það sama. Hún spurði: „Hvers vegna komstu ekki frameftir til að sjá líkið af honum, eins og þú komst, þegar Lísibet heitin lá á líkbörunum? Mér þótti svo vænt um að þú komst þá. Manstu, hvað hún var falleg?“ „Já, ég man það, Anna mín. En nú á ég ekki alltaf þægilegt með að yfirgefa heimilið. Þá var ekki nema einn krakkinn; nú eru þeir orðnir þrír“. „Er ekki litla stúlkan þín orðin stór og falleg?“ „Hún er stór, telpan, og farin að skríða um allt. En hún er ekkert falleg, heldur stórskorin eins og ég“, sagði Þóra og brosti dauflega. „Þú ert alltaf svo tilkomumikil, Þóra. Mér fannst ég vera eins og brúða hjá þér, fyrst þegar við fórum að vera saman. Alltaf var sjálfsagt að bera öll vandræði undir þig, því að þú kunnir ráð við öllu. Eins er það enn. Ég vildi óska, að þú gætir verið hjá mér; ég er svo einmana á daginn, þegar allir eru á engjunum nema Borghildur og krakkarnir“. „Sendu út eftir, ef þig langar til að tala við mig. Ég ber stelpuna á handleggnum heldur en að lofa þér ekki að sjá mig. Jakob getur komið. Ég sé, að hann er farinn að geta setið á hesti“. „Já, pabba hans finnst hann vera heldur óduglegur á hesti, samanborið við hann sjálfan. Hann verður sjálfsagt heldur hæg- gerðari, blessaður vinurinn minn. Það voru nú meiri lætin í ykkur á hestunum. Ég var heldur vesældarleg fyrst í stað. Manstu það ekki, Þóra, fyrst þegar þú fórst með mig fram að Seli?“ „Æskunni gleymir enginn“, sagði Þóra og fór að rifja upp margt frá þeim árum, til að dreifa huga vinkonu sinnar frá ömur- leikanum og sorginni. „Lilja bjóst við, að þú gætir aldrei komið inn í Selið, þegar hún sá, hvað þú varst fín og falleg; og þáðar vildum við líkjast þér, verða eins siðprúðar og nettar. En strákseðlið var of mikið í okkur til þess að við gætum lagt það niður með nokkru móti“, sagði Þóra. „Þið voruð ekki strákslegar, bara duglegar“, sagði Anna. „Auðvitað fannst mér þið vera það í fyrstu, en svo fór mér að þykja svo vænt um ykkur; þið voruð mér svo góðar, eins og allir, síðan ég kom á þetta heimili, nema ef það hefði verið Sigga mín, aumingja stráið, sem særði mig stundum, aldrei þó eins mikið og þegar myndirnar af foreldrum míntim voru hengdar upp í stofuna“. Ketilríður þurfti að tala við marga konuna, sem var við kirkju þerínan sunnudag. En þær voru fálátar og daufar í bragði. Það hefur óþægileg áhrif á konuna, að sjá ungbarnskistu sökkt ofan í djúpa, þrönga gröf. Margar þeirra höfðu séð sín eigin börn fara þangað. En Ketilríður var ekkert hrygg. Hún talaði líkt við þær allar, aðeins misjafnlega fram borið: „Það var lítil von til þess að menn eins og þessi vesalings faðir gæti eignazt svo hraust börn, að þau ættu langt líf fyrir höndum. Þessi drykkjuskapur og ógætni í orðum. Og svo er þá heldur ekki ómögulegt, að það komi einhverntíma að skuldadögunum fyrir honum og fleirum fyrir það hvernig farið var með mitt heimili síðastliðið haust; börnin slitin frá mér grátandi og látin til al- ókunnugra, eins og farið er líka með þau; það veit nú enginn nema ég og Guð almáttugur. Þau voru ekki fá tárin, sem þar voru felld. Hann tók sér það ekki nærri, frekar en þeir hinir hreppsnefndar- mennirnir. En það ber ekki allt upp á sama daginn“. Konurnar svöruðu fáu, en reyndu að fjarlægjast Ketilríði. Fæstum þeirra var mikið um hana gefið og fannst, að slíkt mundi ekki verðskulda hegningu, þótt Páll fengi makleg málagjöld, og þjófabælið á Jarðbrú væri rifið í sundur. Helzt var það Sigþrúður á Hjalla, sem entist til að hlusta á hana : „Það er ekki óvenjulegt, að barn fæðist andvana“, sagði Sig- þrúður. „Það er náttúrlega alltaf hægt að fella dóm yfir foreldr- unum, því að allir hafa gert eitthvað af sér, og allir eru syndarar. En Anna er svo góð og guðhrædd manneskja, að slíkt getur ekki átt sér stað hér“. „Það datt mér nú heldur ekki í hug að segja“, flýtti Ketilríður sér að svara. „Heldur er það líklega á hina hliðina. Framferðið hans Jóns fyrr og síðar, og drykkjudrabbið, það er óskaplegt, eða finnst þér ekki sjálfri hálf óviðkunnanlegt hvernig hann talar stundum?“ „Nei, ég hef alltaf kunnað vel við hann, bæði sem barn, ungling og fulltíða mann“, sagði Sigþrúður og strauk vasaklútnum yfir augun. „Það vantar ekki, að hann geti komið nógu skemmtilega fyrir sig orði, en mér finnst helzt til mikill glannaskapur og kaldhæðni fylgja hans tali stundum, til þess að þú gætir fellt þig við það. Mér er nóg boðið stundum. Eins og til dæmis í vor, þegar hann Sigurður gamli á Hóli lá fyrir dauðanum, þá sagði hann, að séra Benedikt mætti tala hátt yfir honum, ef hann ætti að heyra til hans gegnum kistulokið, og svo hermdi hann eftir karlskrattanum. En hvað hann gat verið líkur honum. Svona lagað tal lætur hann hana ekki heyra, heldur glamrar hann það við útivinnuna. Sig- urður getur tekið undir með honum, fíflið það“. Sigþrúður saug upp í nefið og brá klútnum yfir andlitið, það var líka heitt í veðri. „Ójá, svo lagað kannast ég við. Það er náttúrlega léttúðugt hjal, og ekki held ég að hann hafi vogað sér að láta hann föður sinn heyra þetta og annað eins. En ef þetta verðskuldar hegningu, Ketilríður mín, þá megum við gæta að okkar tungu, því að margt ógætlegt orðið látum við út úr okkur“. „Ekki þú að minnsta kosti“, sagði Ketilríður og hló. „Það er kannske heldur ég, sem er ekki eins prúttin, en svona lagað of- býður mér þó“. Hún tók undir handlegg Sigþrúðar og leiddi hana afsíðis. „En hefurðu heyrt um Reykjavíkur-túrinn hans í vor?“ spurði Ketilríður illkvittnislega. „Ég vissi, að hann fór til Reykjavíkur. Var nokkuð sérstakt við það?“ „Ekki annað en það, að hann hefði verið með konuna með sér á leiðinni norður, laglega konu, kallaði hana góðuna sína í hverju orði og hún hann. Sjálfsagt hafa þau sofið saman á hverri nóttu, til þess hafa refirnir líklega verið skornir“. Sigþrúður setti upp vandlætingarsvip: „Ég skil nú ekki svona lagað. Hvernig gat hún verið með honum, sem var heima?“ „Auðvitað var hún heima. Annars hefði það ekki verið neitt til frásagnar“, sagði Ketilríður hálfönug yfir skilningsleysi Sig- þrúðar. „Þetta var bara einhver kvensnift, sem hann sagði, að væri konan sín. En hún fór víst ekki með honum í land á ósnum. Hefurðu nú nokkurn tíma heyrt annað eins?“ „Hver segir þér þessa fjarstæðu?“ „Það hefur einhver frétt það“, sagði Ketilríður, hreykin af vizku sinni. „Flest allt, sem fara á leynt, frétta munu lýðir“. „Þú segir þó vonandi ekki Önnu svona lagaðan þvætting. í guðsbænum, Ketilríður, gerðu það ekki“. Ketilríður glotti ánægjulega. Hún hafði aldrei skilið það fyllilega, hvers góð spil hún hafði á hendi, fyrr en hún sá geiginn í augnaráði Sigþrúðar. „Nei, það geri ég ekki hennar vegna. En ég gæti vel unnt honum að fá það framan í sig“. „Ósköp eru að heyra til þín. Mér ofbýður alveg, hvernig þú talar um hann. Ekki var hann upphafsmaður að þessu ólukku málastappi, sem sýður í þér. Það var Erlendur, sem kom því af stað“. „Hinn var honum hjálplegur. Enda býst ég við, að Erlendur eigi eftir að súpa sitt seyði, þótt seinna verði; og varla mundi ég hlífa kauða þeim, ef ég næði til hans. Og líklega er ekki merkileg ævi, sem Þorsteinn minn á hjá þeim“. „Ég heyri engan nefna annað en að honum líði vel þar“, sagði Sigþrúður fálega, þolinmæði hennar var á þrotum. „Það er líklega enginn, sem kærir sig um það, hvernig um þau fer, börnin mín, gæti ég hugsað mér heldur“, sagði Ketilríður. Sigþrúður gerði sig líklega til að yfirgefa hana, en hún gaf hana ekki lausa. Það var dálítið eftir ennþá, sem hún mátti ekki missa af. „Hvernig heldurðu að þér hefði litizt á, ef þú hefðir séð það, sem ég sá í morgun? Mér varð svona gengið fyrir stofugluggana. Hann er þá bara að hvolfa í sig víni inni í stofunni. Bezt gæti ég trúað, að hann væri hálf fullur núna, þegar hann fylgir barninu sínu til grafarinnar. Þvílík hugsun, herra minn góður. Slíkt framferði!“ „Láttu þetta ekki heyrast, Ketilríður. Það yrði þér aðeins til minnkunnar að láta þetta út úr þér. Ég veit það, að það er ekki nokkur manneskja stödd hér í dag, sem ekki kennir innilega i brjósti um þau hjónin. Og þó að þú sért hefnigjörn kona, ættirðu þó að virða það, hvað barninu þínu líður vel á heimili hans“. Ketilríður sefaðist dálítið. Það var aldrei hægt að tala við Sigþrúði. Hún bar allt í bætifláka fyrir þetta heimili og raunar fyrir alla. Það hlaut að vera þó nokkuð rólegra að hafa svoleiðis lundarfar, en að berjast við sams konar skaplyndi og henni var gefið í svo ríkum mæli, hugsaði Ketilríður. „Já, það er satt, henni líður vel anga skinninu mínu. Þau hjónin og Borghildur eru ósköp góð við hana, en ekki yrði ævin hennar merkileg hjá vinnufólkinu, ef ég væri ekki að bíta bein fyrir hana“. Samræðurnar trufluðust við það, að Helga á Hóli kom til þeirra með Dísu litlu við hlið sér. „Dísa var alls staðar að leita að mömmu, og hún bað mig að hjálpa sér til að finna hana. Ef hún hefði verið eldri, hefði ég haldið, að hún þekkti mig“, sagði Helga hálfhikandi og heilsaði Ketilríði með kossi. Hún tók glaðlega kveðju Helgu. „Þú þarft ekki að efa það> að hún hafi þekkt þig, hún Þórdís litla. Hún er svo skýrt barn, að það tekur til þess fólkið, sem talar við hana“. „En hvað hún hefur stækkað síðan ég sá hana síðast, og hvað hún er fín“, sagði Helga.

x

Lögberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.