Lögberg - 14.10.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 14.10.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 14. OKTÓBER 1954 - ---------- ^ GUÐRÚN FRÁ LUNDÍ: DA LALÍF ^--------- --------------------------------------------------r ,Mér dettur ekki í hug að kenna þér um þetta eða vera reiður við þig“, svaraði hann. „En mér finnst þetta geta orðið eins og það var. Ag minnsta kosti er það svo frá minni hálfu. Mér þykir jafn vænt um þig og mér þótti áður. Ég er svona gerður, að ef mér þykir vænt um einhverja manneskju, þá þykir mér alltaf vænt um hana — líklega ævina út, býst ég við. Heldurðu áð þér gæti ekki þótt vænt um mig eins og áður, þó að þetta kæmi fyrir?“ Hún hugsaði sig um, áður en hún svaraði. Hana langaði til að sættast við hann og sjá hlýjuna og aðdáunina í augnaráði hans í stað kuldans og myrkursi'ns, sem þar hafði verið undanfarnar vikur. Hún vissi það vej, að hann elskaði hana ennþá, og fannst það ánægjulegt, að geta grætt þau sár, sem höfðu blætV af völdum hennar sjálfrar. „En heldur þú, að þú getir gleymt þessum leiðindum, sem fyrir hafa komið? Heldurðu, að þau verði ekki sífellt þér í minni?“ „Það get ég vel, af því það var þessi maður“, svaraði hann. Og hún skildi það vel, að það var ekki sama, hvaða maður það var, sem hún hafði tekið fram fyrir hann. Hvort það var þessi maður, eins og hann hafði sagt, eða einhver ræfill, sem hún þyrfti að skammast sín fyrir. Þórður hélt áfram: „Það er ómögulegt að vera reiður við hann, nema þá svolitla stund. Við vorum líka búnir að vera þessir „perluvinir“, síðan við vorum börn. Það getur ekkert slitið þá vináttu. Jafnvel þótt hann hefði skilið okkur alveg, þá hefði ég orðið hjá honum eftir sem áður og við verið sömu vinirnir. AUar þær velgjörðir, sem hann og foreldrar hans sýndu okkur í Selinu, voru svo miklar, að þeim er ómögulegt að gleyma. Mér finnst ég líka hvergi geta hugsað mér að eiga heima, nema á Nautaflötum eða í Selinu“. „Manstu“, sagði hún barnslega glöð, „allar ráðagerðirnar um búskapinn í Selinu?“ „Já, og nú getum við bætt við nýjum ráðagerðum“. Þau voru komin út á ströndina. Tunglið var komið upp og glóandi birta framundan. Dalurinn var í svörtum skugga hárra fjalla að baki þeirra. En að sama skapi birti í sálum þeirra, sem þarna voru á hraðri ferð. Myrkrið var horfið og átti aldrei að koma aftur. „Ég held, að mamma verði hissa, þegar við komum“, sagði Lína, þegar þau stigu af baki á hlaðinu í Háakoti rétt fyrir vöku- lok. Hún tók í hurðarklinkuna. Það var búið að loka. Þá barði hún þrjú kröftug högg í bæjarþilið. Tveir ungir bóndasynir komu til dyra og horfðu alveg forviða á gestina. Lína kyssti þá báða. Annar þeirra flýtti sér inn aftur til að segja fréttirnar. Hjónin komu fram og fögnuðu dóttur sinni og tilvonandi tengdasyni. Lína var fyrir löngu búin að segja þeim frá trúlofuninni. Þeim fannst hún náttúrlega heldur ung til að fara að hugsa um svoleiðis. En hún hafði sagt þeim, að þau ætluðu að vera lengi trúlofuð og safna í búið. Þau heyrðu, að allir, sem til þekktu, hældu manns- efninu, og sögðu að hann væri efnaður maður. Hvað var þá að hafa á móti því? Konunni fannst dálítið skrítið að sjá, hvernig dóttir hennar leit út, reiðpilslaus, stytt og ríðandi í hnakk. Slíkt þótti hálfleiðinlegt á þeim árum. En hún nefndi það ekki á nafn, heldur bar fyrir þau allt það bezta, sem til var í kotinu. Lína sagði mömmu sinni, að sig langaði til að vera heima dálítinn tíma, hún væri ekki vel frísk. Konan vissi, að það gat komið fyrir, að trúlofaðar stúlkur yrðu lasnar. En samt sýndist henni Lína langt frá því að vera vesaldarleg. Hún var sælleg og kát og sat í fanginu á Þórði, alveg feimnislaust. En litlu bræð- urnir, sem aldrei höfðu séð fólk haga sér svona fyrr, hlupu fram í fjós til þess að hlæja þar eftir vild. En systurnar dáðust að fallegu flauelstreyjunni, sem Lína var í, og öfunduðu hana af henni. Lína fylgdi kærastanum úr hlaði, þegar hann fór. Hann var eins og ölvaður af gleði yfir því, að hafa endurheimt hana. Þau kvöddust, fóru að tala saman, og kvöddust svo aftur. Hann ætlaði aldrei að geta skilið við hana. Hann hélt í taumana á hestunum með annari hendinni, en með hinni benti hann fram í dalinn, sem nú var orðinn bjartur af tunglsljósinu. „Sérðu blessaðan dalinn, Lína? Er hann ekki yndislegur? Það er margt skrítið, sem manni dettur í hug, þegar maður er krakki. Ég var einu sinni á ferð hérna utan af Ströndinni, í sama veðri og nú er, og glaða tungísljósi; dalurinn var svona fannhvítur, en Ströndin var auð og hrjóstrug, eins og hún er venjulega, þó að hún ætli nú að gefa mér það dýrmætasta, sem lífið hefur að bjóða — góða konu. Þá fannst mér dalurinn vera stór, hvítur engill, sem breiddi faðminn á móti mér, og mér þótti sem hann héldi á dálitlum ljóshjálmi í annari hendinni, en í hinni hélt hann á einhverju, sem helzt líktist svörtu pilsi. Það var Ströndin. Hitt voru ljósin á Ósnum. Og nú fmnst mér þetta líta nákvæmlega eins út. Þarna frammi í þessum dýrðlega fjallafaðmi eigum við að búa alla ævi. Heldurðu að það verði ekki gaman? En í vor getur það ekki orðið. Ég er ráðinn næsta ár, og svo verð ég að byggja upp í Selinu, því að ekki getum við búið í gömlu kofunum, þó að mér þyki vænt um þá“. „Ég get verið hvar sem er, bara að þú sért hjá mér“, greip Lína fram í fyrir honum og grúfði andlitið við vanga hans. „En þér má ekki þykja vænt um nokkurn mann annan en mig“, hélt hann áfram. „Ást mín er svo viðkvæm, þótt hún sé sterk. Ef það kemur fyrir aftur, er öllu lokið á milli okkar. En ég lofa því samt, að vera ekki eins skammarlega fljótfær og ég var síðast. Reyndu að fá þér vist hérna á Ströndinni. Þú mátt ekkþverða á vegi „hang“. Það stenzt hann engin kona. Þú skrifar mér“. Lína játti þessu öllu saman. Svo kvöddust þau enn einu sinni, og hann reið af stað á harðaspretti. Hún horfði á eftir honum þangað til hann var orðinn að lítilli svartri þúst langt inn á Strönd. SÁTTFÚS EIGINKONA „Þú mátt til að koma heim, Jakob minn, og sitja inni hjá henni mömmu þinni, hún er svo lasin“, kallaði Borghildur rétt eftir að Lína var búin að kveðja hann og Dísu. Drengurinn fór hálfnauðugur heim; veðrið var svo gott, og skautafæri ákjósanlegt. „Það verður kannske gott veður á morgun", sagði Borghildur, þegar hún sá að hann var ekki ánægður. „Það er enginn til að vera hjá henni, og henni leiðist, þegar fer að dimma“. „Viltu að ég lesi fyrir þig, mamma?“ spurði hann þegar hann var setztur við rúmstokkinn hjá móður sinni. „Æi, ekki held ég það“, sagði hún. „Ég get ekki fest hugann við það“. „Segðu mér þá sögu“, datt honum allt í einu í hug. „Þú hlýtur að kunna einhverja sögu eins og allir aðrir. Það er nokkuð skrítið, hvað Borghildur kann margar sögur, og pabbi og Þórður líka, en þau kunna engar sögur af þér. Segðu mér eitthvað af þér, þegar þú varst lítil“. „Það var víst af því, að pabbi þinn var svo skemmtilegur drengur, að öllum þótti vænt um hann, en það var ég víst ekki. Ég var alltaf sívolandi aumingi, sem allir gerðu sér að skyldu að hlæja að og stríða og kalla ýmsum nöfnum, sem særðu mig, svo að ég hágrét. Mér finnst barnæskan hafa verið eintómt stríð og grátur. Enginn hefur gaman að heyra sögur um það. Þegar ég var á þínum aldri, var ég búinn að missa bæði pabba minn og mömmu. Þau dóu bæði sama árið“. „Það hefur verið leiðinlegt fyrir þig, mamma. Þá hefurðu víst grátið mikið“. „Já, það var víst ekkert mjög lítið“, sagði hún. „En ég eignaðist strax aðra mömmu, sem var mér miklu betri en mín eigin móðir. Hún var oft hörð við mig. Það var pabbi þinn, sem var svo góður við mig, að gefa mér pabba sinn og mömmu, og flytja mig hingað heim, þegar ég átti engan að í lífinu“. Svo fór hún að segja honum sögur af því, þegar hún var á Ósnum. Eftir þeim árum mundi hún bezt. Strákarnir kölluðu hana „væluskjóðu" og fleiri leiðinlegum nöfnum. Stelpurnar voru öfund- sjúkar yfir því, að hún var fínni en þær. En þegar pabbi hans fór að venja komur sínar ofan eftir, þorði enginn að stríða henni lengur. En bezt leið henni þó eftir að hún kom hingað. Hér voru allir krakkarnir svo góðir við hana. Hún bað Jakob að fara út og vita, hvort hann sæi ekki Þórð. Sig langaði að tala við hann. Hann fór út og var lengi í burtu. Hún rifjaði upp bernsku sína á meðan. Sögurnar, sem hún var að segja drengnum, fram- kölluðu löngu gleymdar myndir í huga hennar. Hún sá leiksystkini sín, sem flest voru flutt í burtu og gleymd, og foreldra sína, sem hún var fyrir löngu hætt að sakna. Móður sína, skapstóra, van- stillta konu, og föður sinn, blíðlyndan, veikbyggðan mann, sem alltaf hafði verið henni fjarska góður. Síðan hún varð fullorðin, skildist henni, að hjónaband foreldra sinna hefði verið allt annað en gott. Hún minntist háværra deilna og langra þykkjukasta, og hún hugsaði oft um það, hvað þeim hefði getað borið á milli, fyrst að hann var ekki drykkjumaður. Það fannst henni hljóta að vera aðaldeiluefni allra hjóna. Það var mikill munur eða sambúð fósturforeldra hennar. Öll þau ár, sem hún var þeim samtíða, heyrði hún aldrei neina misklíð milli þeirra. Sama var hægt að segja um hennar eigið hjónaband, þar til Ketilríður kom á heimilið. Síðan hafði margt breytzt. Hún fann til þess sjálf oft og einatt, að hún hafði verið kenjótt og kaldlynd við mann sinn. Og fyrir kom það líka, að henni fannst hún vera allt of góð handa honum, einkanlega þegar Ketilríður var nýbúin að benda henni á einhvern galla í fari hans, sem henni fannst óþolandi. En svona langt hafði það aldrei gengið fyrr. Það, sem gerzt hafði í eldhúsinu, var líka aldeilis ófyrirgefanlegt. Fóstra hennar hafði oft sagt við hana: „Vertu stillt, Anna mín, þá er allt fengið“. En gat nokkur manneskja verið stillt, þegar svona lagað kom fyrir? Hvernig skyldi henni hafa orðið við, ef hún hefði orðið sjónarvottur að öðru eins? Hvað mundi hún hafa sagt, sú mikla kona, sem allir dáðust að, og hún átti það líka skilið, ef hún hefði séð mann sinn faðma einhverja vinnukonuna og kalla hana gælunöfnum? En hugur hennar neitaði algerlega að fullgera slíka mynd. Það hefði aldrei getað komið fyrir Jakob hreppstjóra, þann prúða og dyggðuga mann, að hegða sér svo- leiðis. Þeir voru ólíkir feðgarnir, hann og Jón. Hvernig gat staðið á því, að Jón líktist ekki föður sínum að neinu leyti? Því var fljótsvarað: Það var vínhneigðin, sem þar skildi á milli. Já, það var vínið, sú ólyfjan, sem gerði góða menn að viðbjóðslegum vesalingum, ef svo leiðinlega mætti komast að orði. Jakob kom inn og sagðist hvergi finna Þórð. Siggi vissi ekkert um hann. Nú versnaði það heldur. Hún hafði ætlað að biðja Þórð að fara yfir að Ásólfsstöðum og vita hvort Jón væri þar ekki, og jafnvel að koma með hann heim. Þórður gat haft mikil áhrif á húsbónda sinn. Borghildur kom inn, kveikti og hengdi fyrir gluggann. „Ég er alveg að missa þolinmæðina“, sagði Anna. „Hvernig stendur á því, að Jón skuli ekki koma heim?“ „Hann er náttúrlega að spila eins og vant er. Bárður er alveg vitlaus í spil“, sagði Borghildur. „Þú sérð það, góða mín, að það getur ekkert orðið að honum. Áin er á hestísi, og hann skeið- ríðandi“. „Hann reiddist við mig í gærkvöldi“, hvíslaði Anna. Jakob mátti ekki heyra það. „Nú, hvað svo sem?“ sagði Borghildur. „Það verður nú sjálf- sagt gleymt, þegar hann kemur heim. Þú ættir að þekkja það, að hann er ekki langrækinn". „Ég er bara svo hrædd um, að hann komi ekki heim aftur. Þetta var dálítið óvenjulegt“. „Ef hann verður ekki kominn eftir tíu mínútur, þá skal ég sækja hann“, sagði Borghildur. „Og nú skaltu horfa á klukkuna“. „Ætlar þú að fara það í myrkrinu. Þú verður að fá annan hvorn piltanna með þér“. „Nei, gerðu nú ekki svo lítið úr mér, að ég komist ekki fylgdar- laust til næsta bæjar“. Það heyrðist umgangur frammi í eldhúsinu. Borghildur flýtti sér fram. Þar stóð þá sjálfur húsbóndinn. „Loksins kemurðu þó“, sagði Borghildur, þegar þau höfðu heilsazt. „Anna var orðin svo óróleg út af þér, að ég var að hugsa um að fara að sækja þig. Ég er ákaflega hrædd um, að mömmu þinni hefði ekki líkað alls kostar við þig, að sitja á bæjum allan daginn, og nóttina líka, þegar hún er lasin í rúminu“. Hún var dálítið ströng á svipinn. „Er hún í rúminu?“ sagði hann. „Hvernig átti ég að vita það? Ég er hissa á Sigga, að tala ekkert um þetta í morgun. Ég hefði þá líklega verið kominn heim fyrir nokkru“. Svo fór hann inn í baðstofuna. Þar var enginn annar en Siggi og Ketilríður. Dísa svaf fyrir ofan móður sína. Hann heilsaði og bætti svo við: „Mér þykir vera fámennt hér“. „Þeim er, trúi ég, farið að fækka, vinnukonunum þínum“, sagði Ketilríður með nöpru glotti. „Einmitt það“, sagði hann og opnaði húsið. Anna leit hræðslulega til dyranna. Hún bjóst við að sjá mann sinn þungbúinn og alvarlegan. En það leit út fyrir, að hann væri í bezta skapi. Hann kyssti Jakob. „Þú ert að lesa fyrir mömmu þína, góði minn“, sagði hann. Svo kyssti hann konu sína ósköp léttum kossi á ennið, eins og hann þyrði varla að snerta hana. „Svo að þú ert í rúminu, Anna mín. Og ég sit á bæjum allan daginn. Ég er alveg hissa á Sigga, að nefna þetta ekki; en hann kom svo snemma, að hann hefir ekki vitað um það. Okkur Bárði verður alltaf svo skrafdrjúgt“. Hann klappaði Jakobi og bað hann að skreppa fram í elhúsið og ná pípunni sinni og vasaklútnum, það hlyti að vera á borðinu. Drengurinn fór fram, en Jón settist í sætið hans við rúmið. „Ég vona, að þú sért búin að fyrirgefa mér, hvað ég var skammarlega harðleikinn við þig í gærkvöldi“, sagði hann í sínum blíðasta málrómi, og klappaði henni á hendina, sem lá ofan a sænginni. Hún átti von á, að hann færi að tala um að fá fyrirgefningu á öðru, sem sárara sveið. Þessu var hún nú búin að gleyma að mestu leyti. „Ég er altaf svoddan ofsi, ef ég reiðist á annað borð“, hélt hann áfram. „Ég kom víst heldur ekki vel fram“, sagði hún lágt. Hún var eitthvað svo feimin, að hún þorði varla að draga andann, því síður að líta á mann sinn. „Þetta er allt gleymt, góða mín, eins og vant er“, sagði hann. Hún rétti honum hina hendina. Hann gat vel falið þær báðar í stórum, hraustlegum höndum sínum. Svo stundi hún upp þessari áleitnu spurningu: „Fann Lína þig?“ Hún leit ekki á hann. „Já, hún var ákaflega eyðilögð, aumingja stúlkan, sem von var. Það þykir engu góðu hjúi gott að fara úr vistinni á miðju ári. Ég efast um, að það fáist önnur eins stúlka í hennar stað“. „Hún bað mig að lofa sér að fara“, flýtti Anna sér að segja. „Ég ætlaði mér ekki að segja henni í burtu“. „Það er víst í fyrsta skipti, sem vinnuhjú á þessu heimili, gengur úr vistinni. Ég er hræddur um, að það spyrjist skrítilega fyrir“. „Hún sagðist ætla að segja, að mamma sín væri veik, og það verðum við að segja líka. Það veit enginn annað en að það sé satt“, sagði Anna. „Já, það getur verið. En það var alveg ástæðulaust að gera veður út af því, sem ekkert var nema sakleysið. Fáeinir kossar, annað ekki. Þó að við hefðum verið ófermd börn, þá gátum við ekki verið saklausari“. „En hvernig svo sem gat ég vitað það?“ sagði hún, og hlé- drægnin var nú algerlega horfin. „Ketilríður hélt meira að segja einu sinni, að hún hefði farið út í hesthús til þín“. „Kemur hún til sögunnar, konan sú. Þú varst þó búin að lofa því, að láta hana ekki hafa áhrif á þig. En þú getur aldrei varazt hana. Það var ekki trúleg't, að jafn varkár stúlka sem Lína er, hefði farið út í hesthús til mín“. „Hún sagðist heldur ekki hafa gert það“, sagði Anna. „Ég trúi henni vel“. „Þér er það alveg óhætt. En mig minnir ekki betur, en að sa tími sé útrunninn, sem Ketilríður átti að vera hér. Ég vil helzt fara að losna við hana héðan, ef hægt er“, sagði hann til þess að breyta umtalsefninu. „Ja, það er nú hreint ekki hægt að hugsa til þess að hún fari á meðan ekki kemur stúlka í stað Línu. Það sér staðar með verkin hennar. Hún var bæði dugleg og velvirk. En það var ómögulegt fyrir mig að hafa hana, og eiga það á hættu, að þú elskaðir hana meira en mig. Það er eitt af því, sem engin kona getur þolað“- „Datt þér í hug, að ég færi að elska vinnukonuna okkar meira en þig, sem hefur átt æskuástina óskipta öll þessi ár? Ég skil ekkert í því, að þú skulir geta hlustað á svona lagað, því að auð- vitað hefur hún talið þér trú um þetta, kerlingarfátið“. „Ég get hvergi fundið pípuna þína, pabbi“, sagði Jakob. „Þu hefur ekki látið hana á borðið“. „Kannske mig hafi misminnt“, sagði Jón og þreííaði á vösum sínum. „Hún er hérna. Ég hef verið að narra þig, vinur minn“- Borghildur kom inn, dálítið ströng á svip, og aðgætti hjónin vandlega. Þar var ekkert að sjá nema sátt og samlyndi. „Mér þykir líklegt, að þú farir nú að hafa lyst á einhverjum matarbita, Anna mín“, sagði hún, „fyrst þú ert búin að heimta manninn“. Svo sneri hún máli sínu til Jóns: „Mér finnst það nú nokkuð mikið, að ástin og umhyggjan fyrir giginmanninum skuli vera svo ofsaleg, að hún taki matar- lystina frá konunni. Ég efast um, að þið karlmennirnir eigið það skilið“. „Þið konurnar eruð nú svona“, sagði hann. „Ekki hefðir þu líklega látið fara illa um manninn, ef þú hefðir átt hann einhvern. En nú skaltu fara að hita súkkulaði og kaffi handa okkur, því að það var heldur lítið um samdrykkju fyrir okkur í gærkvöldi. Hún hefur það til, að vera dálítið fljótráð og ósanngjörn, þessi blessuð kona“, sagði Jón brosandi. Anna hengdi handleggina um háls manni sínum og sagði, að hann væri elskulegasti maðurinn, sem til væri í veröldinni. Það hafði hún sagt ótal sinnum abur. Og hún bætti því við, að hún ætlaði aldrei framar að láta sér detta svona lagað í hug. Ekki leið á löngu, þar til Borghildur kom með bakka, sem a voru bollapör og brauðföt. Skrautleg súkkulaðikanna stóð í miðj" unni. Ketilríður gaf bakkanum illt auga. Hún hafði verið í slæmu skapi allan daginn yfir því að geta ekki náð tali af önnu, svo að hún gæti fengið að vita viss,u sína um það, hvað fyrir hefði komið kvöldið áður. Hún gægðist inn með húshurðinni. Borghildur hafði ekki getað lokað henni alveg. Jú, það var ekki öðru vísi en svona. Þarna sátu þau hjónin og Jakob að súkkulaðidrykkju, svona ssel og brosandi, eins og þau hefðu trúlofazt á þessum klukkutíma. „Hún er nú meiri vesalingurinn þessi manneskja, það má nu segja. Henni er ekki við bjargandi“, tautaði hún við sjálfa sig- „Er hún þá ekki búin að slétta yfir þetta allt saman á sömU’ stundu?“ Rokkurinn fór að ganga rösklega, eftir að hún var setzt niður. En þá kom Borghildur með annan bakka. Þar var á kaffi handa Sigga og Ketilríði, og súkkulaði í könnu handa Dísu.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.