Lögberg - 28.10.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 28.10.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 28. OKTÓBER 1954 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF á— ..... .................................—r „Lína var ekki skreytin“, sagði Anna. „Það þarf enginn á vopni að halda fyrr en hann þarf að verja sig. En það er margsannað, að svikin geta ekki verið án lyginnar. Það fer líka bezt á því, að þú sjáir ekki langt út fyrir glerskálina, sem Lísibet fóstra þín setti þig í, þegar þú komst hingað, munaðar- laust barn. Ég var þá á Asólfsstöðum og vissi vel hvernig með þig var farið. Það var víst fljótt byrjað á því að skrökva að þér“. „Engin móðir hefði getað verið mér betri en hún“, sagði Anna dálítið skjálfrödduð. Hana langaði til að bæta þessu við: Hún hefði forðað mér frá því að þurfa að hlusta á þig, ef hún hefði verið hér núna. Ketilríður hélt áfram: „Það var víst ekkert út á atlætið að setja. En það var, bara, eins og ég sagði áðan: hún setti þig í glerskál eins og veikt blóm, sem þarfnast nákvæmrar umhugsunar. Og það fór vel um þig í henni; en hún aðgætti það, að þú sæir ekki of langt út fyrir barmana á henni. Og hún hafði líka lag á heimilisfólkinu, konan sú, þurfti ekki annað en veifa hendinni, þá var allt heimilið komið á harðasprett eftir þeirri bendingu“. „Það var ólíkt eða hún tengdadóttir hennar“, skaut Anna inn í og brosti beiskjulega. „Það er vel líklegt“, sagði Ketilríður. „Sonur hennar hefur sama siðinn. Það væri ljótt að segja, að hann væri ekki góður við þig; en hitt er dálítið annað, hversu einlæg þau gæði eru. Og hann aðgætir það einnig, að útsýnið sé takmarkað. Hann hefur líka trúa liðsmenn, þar sem þau eru Borghildur og Þórður. Ég er sú eina, sem er anzi illkvittin og tannhvöss. Það eina góða, sem mætti segja um mig er það, að ég vil alltaf láta sannleikann koma í ljós, hversu kámugur sem hann kann að vera. Þess vegna er Jóni ekki rétt vel við mig. Mér finnst hann alltaf eiga hjá mér dálítið, og mig hefur alltaf langað til að borga skuldir mínar, þegar ég hef getað það. En ef svo færi nú, að skálin brotnaði einhvern tíma, þá sæirðu margt, sem gerði þig hissa. Þá sæirðu kannske, hversu Lína hefur verið sannorð gagnvart þér, og hvers vegna Hildur á Ásólfsstöðum hvarf svo skyndilega til Ameríku. Það var verið að þvæla um það, að fóstra þín hefði haft þar ein- hverja hönd í bagga. Ekkert skal ég um það segja, hvort nokkur hæfa var í því. Þá sæirðu sjálfsagt líka, hver endalok föður þíns urðu. Þér var víst ekki sagt, að hann væri dáinn, fyrr en hann var búinn að liggja marga mánuði í gröfinni. Þetta þótti fjarska skynsamlegt, eins og allt, sem Lísibet gerði, en mér féll það ekki vel í geð. Ég get aldrei fellt mig við undirferli, í hvaða mynd sem það kemur fram“. Anna riðaði við og fálmaði eftir stól. Því í ósköpunum kom ekki einhver að innan eða utan, til að binda endi á það, að hún þyrfti að hlusta á öll þessi ósköp, sem ætluðu að gera út af við hana. En þó langaði hana til að heyra meira. „Talaðu skýrar, manneskja. Hvað áttu við? Hvað var um föður minn?“ „Nei, ónei. Ég lærði það í haust, að það er hollara að tala ekki of mikið. Mig langar ekki til að láta reka mig burtu í annað sinn. Það er ekki búið að grípa upp annan eins stað fyrir mig og Dísu mína. Þú getur alveg eins spurt manninn þinn eða Borghildi að því. Ég býst við, að Þórður gæti einnig sagt þér það. Jón hefur náttúrlega sagt þér það, að hann setti Fálka undir Sigurlínu um kvöldið? Hún fór svo sem ekki gangandi úr vistinni“. „Það er ómögulegt að hann hafi látið hana fara á honum, þessum glanna“, sagði Anna. „Þetta hlýtur að vera einhver þvættingur“. „En það er nú samt satt. Þórður flutti hana út eftir um kvöldið, þegar komið var myrkur. Greyið, hann hleypur eins og hundarnir, þegar honum er sagt, í þeirri von, að fá leyfar hús- bóndans í staðinn“. „Hver hefur sagt þér þetta?“ spurði Anna vantrúuð. Hún gat ekki ímyndað sér, að neinn hefði vitað um það, þó að Lína hefði farið ríðandi út eftir í myrkrinu. „Ég hef aldrei verið geymd í glerskál Anna mín, og þess vegna heyri ég og sé hvað fer fram í kringum mig. Erlendur á Hóli mætti þeim niðri á eyrunum. Stelpan hafði verið svo anzi hnarreist, og orðið fyrir svörunum. Hún sagði, að móðir sín væri veik, og að hún ætlaði að stunda hana“. En það hefur verið einhver vitleysa, að hún hafi riðið Fálka? Það hefur verið einhver annar hestur“. „Hann hefur nú líklega þekkt hann, jafn glöggur maður og hann Erlendur er“. Þá komu þær Borghildur og Manga fram. „Loksins er þetta prjón búið“, sagði Borghildur, sótti diska inn í búrið og jós á þá súpunni. „Það þýðir ekkert að bíða eftir piltunum. Við getum víst borðað án þeirra. En hvað er að þér, Anna?“ sagði hún þegar hún aðgætti útlit húsmóður sinnar, sem var allt annað en álitlegt. „Mér varð allt í einu svona illt“, sagði Anna vesaldarleg. „Ég get víst ekki borðað neitt“. „Ég er nú bara aldeilis hissa“, sagði Ketilríður og faldi ill- girnisglottið undir samúðarviprunum. „Hún var svona glöð og hress að skrafa við mig um alla heima og geima“. Borghildur gaf Ketilríði allt annað en hlýlegt hornauga. Hún gat sér þess til, að hún ætti einhverja sök á þessum snöggu um- skiptum, sem orðin voru á heilsufari húsfreyjunnar. Ef vel átti að vera, veitti ekkert af því að höfuðsitja hana, svo að hún gæti aldrei náð tali af henni einslega. „Það hefur víst ekki verið neitt sérlega hollt umræðuefni, sem þú hefir valið þér?“ hreytti hún úr sér. „Alltaf er það jafn notalegt, sem þú bugar að mér, eða hitt þó heldur“, sagði Ketilríður gremjulega. „Það er ómögulegt annað að segja, en að það sé orðið vandlifað nærri þér. Guð gefi, að mér leggist eitthvað annað til en að vera hér lengi. Oft hefur það verið erfitt, en nú tekur þó út fyrir“. „Það reiknast þá mér til syndar, ef ég hef sett í þig hornið að ósekju“, sagði Borghildur og sló undan að nafninu til. Svo sneri hún máli sínu til Önnu, og varð nú blíð og innileg: „Það er bezt, að þú komir inn og farir að hátta, góða mín. Ég kem með matinn inn til þín, ef þú hressist eitthvað seinna“. Þær fóru inn. Möngu fannst Ketilríður horfa á þær með einkennilegum svip. „Það er orðið vandbúið með Borghildi“, sagði hún þegar þær voru horfnar inn úr dyrunum. „Þvílík vanstilling og tortryggni. Það er engu líkara en að hún haldi, að ég hafi hellt ofan í hana eitri“. „Er hún ósköp heilsulítil?“ spurði Manga. Henni var vel við Önnu, þó að hún hefði lítið kynnzt henni. En Lína hafði sagt henni, að hún væri indæl manneskja, — bezt af öllu heimilisfólkinu. „Það er svo sem ekki hægt að segja, að hún hafi hestaheilsu“, svaraði Ketilríður. „Hún er heldur engin kjarkkona, og þolir þess vegna illa að „reka sig á“.“' „Á hvað rak hún sig?“ spurði Manga einfeldnislega. „Það er nokkuð sama hvað það er, ef það er óþægilegt við- komu og svíður undan því“, sagði Ketilríður. „Og hún gat ekki einu sinni borðað súpuna, sem er svo góð“, sagði Manga. Hún naut þess að borða lyst sína, án þess að nærvera karlmannanna gerði hana feimna og hlédræga. Nokkru seinna komu þeir allir inn. Jón var að koma úr kaupstaðnum. Hann tók bréf upp úr vasa sínum og rétti Þórði. „Ég held bara, að þetta sé frá stúlku, — líklega bónorðsbréf. Þær sjá, að annaðhvort verða þær að byrja, eða þá að aldrei verður neitt af neinu fyrir þér“. Þórður greip bréfið flausturslega. Hann sá að það var frá Línu. Hann kenndi afbrýði við að hugsa til þess, að það hefði legið við brjóst hans alla leið utan úr kaupstað. Hann las það ekki fyrr en allir voru háttaðir um kvöldið. Þá kveikti hann á kerti og las það margsinnis. Þetta var ákaflega gott bréf. Hún þakkaði honum fyrir síðast, sagði að sér liði vel, og hún kynni vel við sig, en samt langaði sig fram í blessaðan dalinn. Það yrði víst fjarska langt þangað til þau sæjust aftur. Og svo voru svo falleg nöfn og orð innan um, sem gerðu hann sælan. Þau tilheyra ást manns og konu. Hann geymdi þetta bréf í vasa sínum í marga daga, las það á garðabandinu í ærhúsunum, meðan ærnar hámuðu í sig sílgrænt valllendisheyið af bökkpnum við Selsá. Loks var hann búinn að læra það eins og faðirvorið. Þá læsti hann það niður í koffort hjá Ameríku-bréfunum, sem hann hafði fengið frá systkinum sínum. Leiðinlegast þótti honum, hvað umslagið var orðið óhreint. Það mátti ekkert koma nærri ást þeirra, sem ekki var hreint og fágað. Nú varð hann að svara þessu indæla bréfi. Lína hafði óskað eftir því. Hann skrifaði við eldhúsborðið, þegar aðrir sváfu í rökkrinu. Manga varð að vera inni, skipaði hann, svo að hún fipaði hann ekki, og hún þorði ekki annað en hlýða. Hann skrifaði vel læsilega hönd, en var lengi að því, sökum þess hve sjaldan það kom fyrir. Bréfsefnið var heldur lítið, eins og við mátti búast. Hann byrjaði á því að segja henni, að sér hefði gengið ágætlega heim, og að enginn hefði haft minnsta grun um ferðalagið. Svo sagði hann henni frá Möngu, hvað henni gengi illa við eldinn, og að Siggi stríddi henni og væri ótuktarlegur við hana, og hvað það væri leiðinlegt, að sjá hana hátta í rúmið, sem hún hefði áður sofið í. Þetta var mesta bréfsefnið. Þá gat hann þess, hve mörg hross hefðu verið tekin í hús síðan hún fór. Hún var svo mikill dýravinur, að hún hafði gaman af því. Loks var minnzt á búskap- inn í Selinu, hvernig hann ætti að verða. Hann skrifaði í þrjú kvöld, þá var bréfið loksins búið, og hann sló utan um það og skrifaði utan á. Ósköp hlyti henni að þykja vænt um svona langt bréf. En þá var þyngsta þrautin eftir, og það var að koma því-til hennar, svo að lítið bæri á. Fáir fóru út af heimilinu um þennan tíma árs nema Jón. Að biðja hann fyrir það, var sama og að játa fyrir honum, hvernig allt hafði verið; játa ósigur sinn og lítils- virðingu. Nei, það skyldi hann aldrei gera. Heldur skyldi það bíða þar til Siggi færi út eftir. Honum var óhætt að treysta. FRÁ ÞÓRU í HVAMMI En hvernig Þóru í Hvammi hefur liðið öll þessi ár, býst ég við að margan fýsi að heyra. Það hefur lítið verið minnzt á hana nýlega. Sveitungum og nágrönnum hennar sýndist henni líða vonum betur. Hún hafði nú einu sinni gert þá alla rothissa, þegar hún giftist þessum Ieiðindamanni, sem þeir gátu aldrei talið henni samboðinn, eins duglegri, myndarlegri og vel gefinni stúlku. Með hverju árinu sem leið vann hann þó á með dugnaði sínum. En engum duldist það þó, að Þóra hafði „tekið mikið niður fyrir sig“ við giftinguna. Þóru leið álíka og þeim, sem hefur dreymt fagran draum, en vaknað skyndilega af honum til ömurlegs veruleika, og veit það jafnframt, að sig muni aldrei framar dreyma slíkan draum. En hann verður ógleymanlegur Eða þá eins og farmanninum, sem átt hefur fallegt skip, sem hann hefur elskað og verið stoltur af, og búizt við, að óvíða gæti að líta fegurra fley. En hefur svo allt í einu séð það liðast í sundur og flökin og brakið úr því liggja við fætur sér á eyðilegri strönd vonbrigðanna. Sjálfur er hann þögull áheyrandi að því, sem fjöldinn segir um þetta brotna, fallega skip, sem átti að bera hann til sólgyllta framtíðarlandsins. Það er sagt, að þetta hafi verið bráðónýtt „hrákasmíði“, sem hafi verið gyllt og málað bara fyrir augað, því að nógu hafi það litið stásslega út. Hann sér líka, að þetta er satt. Hann hefur farið ógætlega að ráði sínu, að leggja út á ólgandi haf á slíku fari, án þess að láta athuga það vandlega áður. Og hann sér, að það er aðeins um tvennt að velja: Annað hvort er að breyta alveg um lífsstefnu, hætta við allar siglingahugmyndir, eða að fá sér annað skip. Náttúrlega eignast hann aldrei svona fallegt fley aftur. Þau voru ekki fáanleg; en hann ætlar að láta það vera traust, svo að hann þurfi ekki að óttast, að eins fari í framtíðinni. Á stuttum tíma er hann orðinn hygginn af reynslunni. Hliðstæðar þessu voru hugsanir Þóru, þegar æskuást hennar beið skipbrot. Hún undraðist það, hversu langt hún hafði látið leiða sig í blindu trúartrausti á þennan glæsilega og góða æskuvin sinn. Þegar hún hugsaði til mjúku hjónasængurinnar, sem þau höfðu búið sér úr ilmandi heyi og hvílt þar hlið við hlið, hlegið og skrafað um ást og æsku — eiginlega allt, nema það eina, sem raunverulega hafði einhverja þýðingu fyrir framtíðina. Hún hafði hikað við að tala um hana. Honum hafði sjálfsagt fundizt það ákjósanlegt, að sniðganga slíkt umtalsefni. Þá fylltist hún svo ákafri beiskju, að hún var sannfærð um það, að hún hefði ekki hikað við að slá hann í andlitið með krepptum hnefa, ef hann hefði verið svo nálægur, að hún hefði náð til hans. Meðan faðir hennar lifði, hafði það verið söknuðurinn og gremjan, sem bjuggu í huga hennar. Hún hafði einsett sér að hugsa aldrei um giftingu framar. En þegar hann var allt í einu horfinn, með öll sín hollu og góðu ráð, en hún stóð ein eftir með jörðina og búið, þóttist hún sjá, að annaðhvort yrði hún að selja Hvamm og allar skepnurnar, kannske fara til Ameríku eins og fleiri jafnöldrur hennar gerðu, eða þá að fá sér einhverja meðhjálp, sem treysta mætti. Þá varð Sigurður á vegi hennar, og hún hafði, í fljótfærni æskunnar, valið hann. En hún hafði iðrazt þess, hversu fliótt hún gekk að samn- ingum hans. Hún hefði þurft að þekkja hann betur. En um það tjáði ekki að tala. Hún var búin var búin að sætta sig við hlutskipti sitt; ekki þýddi annað. Maður hennar hefur aldrei verið henni neitt fyrir augað, en hún getur treyst honum bæði sem eiginmanni og bústjóra. Verkin hans eru bæði mikil og góð. Bærinn er allur orðinn nýr, þó að hvert hús stanc^ á sama stað og áður, þau eru ný að viðum og veggjum. Hlöður eru komnar í stað tóftanna. Það fannst Þóru ágætt, því þá þurfti ekki að rista heytorf á hverju vori. Flögin höfðu alltaf minnt hana á brunafleiður á lifandi holdi. Á hverju vori bættist stór slétta við túnið, þar sem áður voru leiðinlegar og grettar þúfur. Nýjar tvævetlur bætast við ærtöluna; ný lömb og folöld fæðast. Þóra hlakkar til vorsins með allt sitt nýja, gróandi líf, þó að því sé samfara nýtt strit og nýjar áhyggjur. Venjulega bætist nýr barnskroppur í rúmið hennar þriðja hvert ár. Allt er þetta nóg til að láta hugann snúast utan um. Það er ekki mikill tími til að láta sér leiðast. Hjónasambúðin er orðin árekstralítil. Þegar Þóra hugsar um allar rimmurnar fyrsta og annað hjúskaparárið, segir hún við sjálfa sig: „Þvílíkur asni sem ég gat verið, að láta mér detta í hug, að honum yrði breytt að nokkru leyti. Það var lítil von til þess að hann, sem var alinn upp í kuldanum og allsleysinu þarna út frá, gæti líkzt þeim að neinu leyti, sem höfðu alizt upp í vellíðan- inni og sólskininu í blessuðum dalnum. En samt hefði munurinn getað verið minni. Öðruvísi var María systir hans, sú ágætis stúlka“. Þóra hafði grafið upp úr rykföllnum minningum æskuáranna dásamlegt gullkorn. Henni hafði sézt yfir það fyrstu ár hjóna- bandsins í öllu öngþveiti vonbrigðanna, sem þá höfðu skollið a henni eins og geigvænlegar holskeflur og ætlað að gera út af við hana. Móðurástin hafði bent henni á þessa skínandi perlu, sem faðir hennar gaf henni einu sinni þegar hún hafði verið óþæg við Möggu, og Magga hafði klagað hana fyrir honum með háværum orðal'laumi, sem hann gegndi litlu. Þegar Magga var farin fram, hafði Þóra spurt föður sinn: „Hvers vegna talarðu aldrei við hana, þegar hún hamast svona? Af hverju skammarðu hana ekki á móti?“ Þá hafði hann svarað, sá skynsami maður: „Það er leiðinlegt, að láta heimili sitt loga í ófriði og arga- þrasi; því fylgir sjaldan mikil blessun. Magga vinnur verkin sín vel. Það verður að virða það, sem vel er gert, Þóra mín. Þú att eftir að stillast, og þá skilurðu þetta betur. Sízt af öllu má láta börnin hlusta á deilur og ljótan munnsöfnuð. Það skaltu muna, ef það á fyrir þér að liggja að verða móðir“. Það var þetta gullkorn, sem Þóra var farin að gæta svo vel. Börnin máttu ekki heyra, að hjónin deildu eða óvirtu hvort annað í orðum. Þess vegna reyndi hún að búa friðsamlega við mann sinn. Aftur á móti tók Sigurður ekki mikið tillit til krakkanna; hann sá og fann, að það var ólíkt skemmtilegra að hafa frið við konuna en sífellt jag og óánægju. Hann var lítið hrifinn af þessari sífelldu mannfjölgun, sem hrúgaðist á heimilið. Það leit út fyrir, að það ætlaði að verða sama útkoman og á Hvoli. Hann langaði helzt til að kenna Þóru um þetta í gremju sinni, en af því varð þó samt aldrei. Hann þóttist vita hvað það myndi kosta. Hitt var hann alveg hættur að láta sér koma til hugar, að þau væru ekki sin börn. Þau sýndu það, að þau voru skyld honum. Hún hafði heldur ekkert tækifæri til þess að líta utanhjá. Hann var sjaldan fjar' verandi heimilinu, nema á haustin, þegar hann var einhvern tima til sjós, en þá fékk hann alltaf einhverja systurina frá Hvoli til að vera heima og líta eftir skepnunum. En hann var þögull °8 þungbúinn í nokkra daga, eftir að hann uppgötvaði það kannske einhvern morguninn, að konan var orðin æði gildvaxin. Hún var . hætt að segja honum frá því, að von væri á barni, fyrr en hann sa það sjálfur, og þá spurði hann ævinlega: „Hverslags svo sem vöxtur er þetta.á þér, manneskja? Það er þó líklega ekki ....?“ Hún vissi vel, hvað það var, sem hann ætlaði að spyrja um, hló að því hvað hann varð rothissa. „Hvað er um annað að tala. Þú ert ekki ánægður nema heimilisfólkinu fjölgi svona annað og þriðja hvert ár“, sagði hun- „Ég er nú svo sem aldeilis hissa á þessum . . . .“ Hann sagði ekki meira. Hún þóttist vita, að þa§ hefði verið blótsyrði, sem hann hefði kingt. Líklega fundizt það ekki vel við eigandi, en áreiðanlega hafði hann ekki glaðzt yfir því, svo harkalega sparkaði hann í rúmgaflinn. En Þóra var góð og ástrík móðir, sem hlakkaði til nýs lífs og erfiðleika, sem því voru samfara. Hún fann ekki svo mikið til þess, hversu verkahringurinn var erfiður og allt öðru vísi en hún hafði hugsað sér hann. Krakkarnir voru stál- hraust og komust fljótlega á fót. Þau dunduðu mikið út af fyrir sig, höfðu fljótt gaman af að útbúa lítið heimili, sem þau kölluðu „bú“, og höfðu mikinn áhuga fyrir því að safna sem flestum völum og hornum og öðru drasli í búið. Hún þóttist sjá, að þau ætluðu að líkjast föður sínum. Hún sá það líka, að Sigurður fylgdis'; dálítið með þessum búskap þeirra. Einu sinni heyrði hún hann segja við eldri bræðurna: „Þið verðið að gefa Stínu litlu svolítið meira. Þetta er ekkert, sem hún hefur til að búa við“. Þá hófust hávær mótmæli frá hinurn: „Ekki læt ég hana hafa neitt. Ég á svo margt“. En Björn, sem alltaf var beztur, gaf henni talsvert af sínum bústofni. Hún fann það, að hann var líkur sér í sjón og reynd, enda var hann eftirlætið hennar, þó að hún léti ekki a því bera. Hann var ekki skyldari heniji en hin börnin.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.