Lögberg - 25.11.1954, Síða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 25. NÓVEMBER 1954
J-
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
— — —r
Borghildur var alveg hissa á þessu óþarfa umstangi. Þetta
var ólíkt Þórði, þessum húsbóndaholla manni. Ekki var ómögulegt,
að áin væri lifandi niðri í dýinu, og þá var hver mínútan dýrmæt.
En hún kunni ekki við að tala um það við hann; öðru máli hefði
verið að gegna, ef það hefði væri Siggi. Hann Þórður var nú líka
að mörgu leyti undarlegur maður.
Seinast fór hann ofan í koffort og tók þaðan upp loðhúfu og
Vettlinga, og eitthvað, sem hann stakk í vasa sinn. Dísa, sem hafði
þann sið, að hnýsast í allt, sem fram fór á heimilinu, sagði að það
hefði verið sendibréf og súkkulaðistykki, sem hann hefði látið í
vasann innan á jakkanum. Líklega ætlaði hann að éta það á leið-
inni, bjóst hún við.
„Mér þykir Þórður vera búinn að fína sig til“, sagði Manga.
Hún hafði ekki vanizt því, að menn væru að búa sig upp á, þótt
þeir færu til næsta bæjar. Ekki var það siður úti á ströndinni.
Siðirnir þar og hér voru ólíkir.
„O, það liggja nú orsakir til alls, Manga mín“, gegndi Ketil-
ríður. „Hann er nú farinn að potast upp á örvæntingarárin, greyið,
og er því að reyna að strjúka sig framan í nýju ráðskonuna í
Hvammi. Þau eru heldur ekki alveg ókunnug“.
„Hún kemur nú sjálfsagt fram eftir“, sagði Manga. „Hún lét
svo vel af fólkinu hérna“.
Ketilríður glotti lymskulega.
„Lét hún ekki langbezt af piltunum?“ spurði hún.
„Nei, hún lét vel af öllum“.
Þá rauk Borghildur allt í einu upp eins og úfin hæna:
„Það er víst alveg óþarfi að vera að glósa með það, að Lína
hafi verið í karlmannastússi. Hún var ekki svoleiðis stúlka“, sagði
hýn svipmikil.
„Ja, hvað er nú þetta?. Þér dettur þó ekki í hug, að ég hafi
verið að segja þetta í alvöru? Nei, það er víst óþarfi að kenna
hvorugt þeirra við það, Þórð eða hana“, sagði Ketilríður.
„Hvað eiga þá svona lagaðar glósur eiginlega að þýða?“ sagði
Borghildur, og tók nú til við prjónavélina, sem hún hafði gefizt
upp við meðan hún skattyrtist við Ketilríði.
En Ketilríður nöldraði við Möngu í hálfum hljóðum:
„Það eru meiri skapsmunirnir þetta; maður má ekki einu sinni
tala spaugsyrði, svo að það sé ekki tekið sem slettur. Þú skalt
reyna það, Manga mín, að verða ekki piparkerling, því að þær eru
alltaf fjandi geðillar“.
„Er það af því?“ spurði Manga kjánalega.
Þórður gekk beina leið út að Hvammi, án þess að líta á „síkið“
eða „langadýið“.
Suður hjá fjárhúsunum kom Lína á móti honum. Hún var í
reiðtreyju og með yfirsjal um höfuðið.
„Vissirðu að ég myndi koma?“ spurði hann þegar þau höfðu
heilsazt með mörgum kossum.
„Nei, það datt mér nú ekki í hug, ekki svona strax“, sagði hún.
„Ég var að leita að skyrtu, sem ég missti úr þvottinum“. Hún sýndi
honum svolitla spjör, sem hefði verið hægt að fela í lófum sínum.
„Þetta er lítil skyrta“, sagði hann brosandi og hugsaði til þess,
að einhvern tíma eignuðust þau sjálfsagt lítinn barnslíkama, sem
svona spjör væri mátuleg á. Slíkt er unaðsleg tilhugsun fyrir þá,
sem elskast.
„Máttu vera að því, að fylgja mér hérna fram á grundirnar.
Við þurfum svo margt að'tala saman“.
Lína tók undir handlegginn á honum og leiddi hann heim.
„Þú kemur nú líklega inn og bíður meðan ég hita kaffi. Svo
þarftu að sjá, hvernig ég tek mig út í ráðsmennskustöðunni“, sagði
hún kát.
Hann tafði lengi. Til erindis hafði hann náttúrlega að spyrja
eftir ánni. En hún hafði ekki verið saman við. En hann flýtti sér
saiht ekki neitt af stað. Þegar Lína tók mjólkurfötuna, fór hann
að kveðja. Þau urðu samferða út. Hún skildi fötuna eftir við
fjósdyrnar og fylgdi honum fram á grundina. Þau töluðu um
framtíðina. Hún er ljúft umtalsefni fyrir þá, sem eiga víst sólskin
og sælu bak við þetta ógagnsæja tjald, sem flestir vonast eftir að
færi sér eitthvað betra en það, sem nútíðin hefur á boðstólum.
Næsta ár yrðu þau að vera sitt í hvoru lagi. En þau gætu sett
hringana upp á jólunum. Það væri svo miklu skemmtilegra. Hún
gat valið um þrjár vistir þarna á Ströndinni, en henni líkaði
eiginlega engin þeirra. Hún kveið mest fyrir því, hversu sjaldan
þau gætu hitzt. „Því að aldrei kem ég mér að því, að koma fram að
Nautaflötum“, sagði hún hálf feimnislega við tilhugsunina um það,
hvernig hún hefði sk^ið við það heimili. Hann svaraði því heldur
ekki.
„Þú kemur nú einhverntíma aftur meðan ég er hérna“, hélt
hún þá áfram. Já, hann langaði til þess. Þá fór hún að reikna í
huganum, hvaða dagur væri heppilegastur. Hún þurfti að þvo
svo oft. Þá yrði ekkert gaman fyrir hann að koma. „Það er langbezt,
að þú komir á sunnudagskvöldið“.
„Já, þá skal ég koma“, sagði hann. Hann tók bréfið til hennar
upp úr vasa sínum og fékk henni. „Hér er fyrsta ástabréfið til þín.
Ég fékk aldrei neina ferð með það. Nú geturðu skemmt þér við
að lesa það. Ef þú lest það eiíis oft og ég las bréfið frá þér, þá
verðurðu búin að læra það. Ég var farinn að skammast mín fyrir,
hvað það var orðið óhreint“.
Svo kvöddust þau — víst í tíunda sinn. Lína hljóp í einum
spretti heim. Um kvöldið, þegar hún hafði lokið við öll sín verk, og
allir voru sofnaðir, fór hún fram í eldhús, settist á kassa við
hlóðirnar, og tók bréfið upp.
„Ósköp er þetta langt bréf. Ég verð aldrei búin að lesa það“,
sagði hún við sjálfa sig. Svo byrjaði hún að lesa. Hún fann ást og
umhyggju í hverri setningu. Hún stundi, þegar hún hafði lokið
lestrinum. „Aumingja Þórður. Ég ætla að verða honum góð kona
og bæta honum það upp, sem ég hef brotið, og á eftir að brjóta.
En ég get ekki annað en fundið „hann“.“
Hún lagði frá sér bréfið á hlóðarsteininn óg tók annað bréf úr
barmi sínum. Það var volgt, svo nærri hjarta hennar hafði það
legið. Það var bréfið, sem Sigurður hafði fært henni daginn áður.
Hún hafði lesið það með hjartslætti frammi í fjósinu í Háakoti, og
átti í talsverðri baráttu við sjálfa sig, áður en hún hafði afráðið,
hvort hún ætti að leggja út á glerhálan ísinn í annað sinn.
Utanáskriftin var ólæsilegt klór, en bréfið sjálft var skrifað með
fallegri, auðsjáanlega æfðri rithönd. Hún byrjaði að lesa það enn
einu sinni, og þó mundi hún hvert einasta orð og sá í huganum,
hvernig hver stafur var dreginn. Ekkert bæjarnafn eða dag-
setning var á þessu dásamlega bréfi. Hún las upp aftur og aftur
þessar fáu línur:
„Lína mín! Ég vona, að þú verðir bóngóð við Sigurð. Hann
fer ekki fram á annað en að þú rázskir fyrir sig nokkra daga.
Það eru slæmar ástæður hjá honum. Þetta getur orðið þó nokkuð
skemmtilegt fyrir okkur. Við getum fundizt í rökkrinu, þegar aðrir
sofa. Þá skulum við vaka með ást okkar“.
Undirskriftin var eitthvert rósaflúr, sem ómögulegt var að
gera neitt úr. Þar fyrir neðan stóðu þessar setningar: „Ástin
heldur engin loforð. Hún hlýðir aðeins rödd hjartans“.
Lína andvarpaði yfir því, að eiga ást þessa manns, sem gat
skrifað þessar guðdómlegu setningar. Það var eins og hvert orð
væri mælt fram af hlæjandi vörum glaðlynds manns. En Þórður
treysti henni; hún mátti ekki bregðast honum. Hún ætlaði að verða
góð og heiðarleg stúlka, eins og hún hafði lofað Önnu. Hún ætlaði
ekki að fara eftir rödd hjartans. Samt var hún viss um, að hún
mundi gera það. Það var ekki hægt að standast þessa rödd. Bara
að hann hefði aldrei skrifað þetta bréf. Hún tók skörunginn og
skaraði í eldinn, raunaleg á svip. Svo tók hún ástabréfið frá Þórði,
fletti því í sundur og lagði það á glæðurnar, og síðan hitt ofan á,
eftir að hafa borið það að vörum sér áður. Hún horfði á þau
meðan þau brunnu og eftir að þau voru orðin að blaktandi hismi.
Og hún gat lesið á dökkgráum pappírnum hvíta stafina: aðems
rödd hjartans. Svo stakk hún þykkri taðflögu ofan á. Það var
hægt að hugsa margt á einum sólarhring. Nú var það morgun-
dagurinn, sem átti að ráða örlögum hennar.
ANNA REYNIST GJÖFUL OG GÓÐ
Næsta dag kom Ketilríður að Hvammi. Lína var að þvo stóran
þvott frammi í eldhúsi. Hún lét aftur hurðina, þegar hún heyrði
til hennar úti á hlaðinu. Hún vildi helzt vera laus við að sjá hana.
Hún var ekki búin að gleyma því, sem hún hafði sagt við hana
síðast.
Ketilríður hlammaðist inn göngin og alla leið til baðstofu og
heilsaði með sömu virktum og áður.
„Ég kom nú hérna með þessar spjarir frá blessaðri hús-
móðurinni“, sagði hún, þegar hún var setzt og búin að blása
mæðinni. „Hérná eru nú buxurnar á drengina. Hún festi tölur í
þær, svo að þeir gætu strax farið í þær. En þær eru ekki allar
samsorta, enda bjóst ég við, að ekki yrðkfengizt um það. Hér er
kjóllinn, og hér eru tvær svuntur til hlífðar. Önnur þeirra er frá
Borghildi. Ekki dugði að setja Boga litla hjá, svo að hún saumaði
þessar buxur handa honum úr bót, sem hún fann, og þarna eru
aðrar, sem hún sneið upp úr buxum af Jakobi. Og hér er peysa
handa honum, seirt Borghildur prjónaði úr afgöngum. Hún var
ekki lengi að því í vélinni. Það er nú meiri munurinn að hafa það
verkfæri. En húsbóndanum þykir það erfitt fyrir Borghildi, og
það er það víst. Hún hefur verið að reyna að láta Sigga prjóna
það vandaminnsta, og það eru undur, hvað hann getur fest hugann
við það, þessi flughani, sem hann er. Anna má ekki snerta á
henni, svo að Jón sjái til“.
Svona masaði Ketilríður á meðan hún tíndi hverja spjörina
af annarri upp úr bögglinum og lagði á rúmið. Þóra varð alveg
hissa: „Ég skil ekkert í manneskjunni“, sagði hún, „að vera að
gefa mér þetta. Svo hefur hún hlotið að vaka við að sauma þetta“.
„Nei, ónei; hún vakir nú ekki að óþörfu, konan sú, Þóra mín,
enda segði maðuHnn hennar líka eitthvað, ef hún færi að leggja
það á sig. Borghildur hjálpaði henni við það“.
„Mikið er dálætið á þeirri konu“, sagði Þóra. „Hún á víst ekki
að verða gigtveik af þrældómi“.
„Ojá, sei, sei; ekki er hægt að segja annað en að hann sé henni
góður. Hvernig svo sem allt lítur út inn við beinið. En það er nú
svona, eins og maður veit, að allir hafa sína bresti“, sagði
Ketilríður og stundi mæðulega.
Litlu systkinin þyrptust kringum rúmið, og horfðu á nýju
fötin, sem þar voru. Birni duttu í hug sögurnar, sem Magga hafði
sagt honum af jólasveininum, sem kom með föt handa öllum
börnunum fyrir jólin, og skildi aldrei neitt eftir.
„Mega þau ekki fara snöggvast í þetta?“ spurði Ketilríður.
„Hún er bráð barnsþörfin. Ég sé, að þau langar til þess“.
„Jú, þau máttu það. En Þóra bjóst við, að þeim gengi það ekki
öllum vel. Ketilríður hjálpaði þeim yngri í fötin, undarlega lipur í
sínum stóru höndum. Svo hlupu þau öll fram til að sýna Línu
hvað þau væru orðin fín. En Þóra kyssti Ketilríði fyrir. Henni
fannst endilega að þetta hlyti að vera henni eitthvað að þakka.
Anna hafði alltaf verið góð vinkona, en svona hjálpleg hafði hún
aldrei verið. Þóra forðaðist líka að láta hana eða nokkurn annan
vita um ástæður sínar, sem stundum voru nokkuð erfiðar.
„Hvar er stelpuræksnið? Hvar er Sigurlína eiginlega? Hún
lætur ekki sjá sig?“ spurði Ketilríður.
„Hún er að þvo frammi í eldhúsi. Það er víst nóg til fyrir hana,
aumingja stúlkuna. Ekki þvoði hún nema bleijurnar, blessuð yfir-
setukonan, þessa daga, sem hún var hjá mér“.
„Ekki spyr ég að þeim, þessum lærðu píkum“, hnussaði í
Ketilríði. „Og svona ætlaði hún að skilja við þig, ef þú hefðir enga
manneskju fengið. Ekki tók það því, að hugsa um það“.
„Ég veit nú bara ekki hvernig það hefði farið, ef Jón hefði
ekki komið og bent okkur á Línu. Ég sagði honum það líka, að það
hlyti að boða eitthvað gott, að hann skyldi koma. Hann er sjalgl-
séður gestur hér“.
„Var það Jón hreppstjóri?“ flýtti Ketilríður sér að segja.
„Já“.
‘ „Hvenær kom hann hingað?“ spurði Ketilríður.
„Sama kvöldið og þú komst með fötin“.
„Nú, einmitt það“, sagði Ketilríður og brosti lymskulega. „Við
héldum, að tengdafólkið þitt úti á Ströndinni hefði sent þér hana.
Ég þori að fullyrða það, að hún Lína vinnur þér vel. Hún er þæg
og dugleg, og svo er hún líka „ferðug“ í sér hvað sem hún ber við
að gera, stelpan. Það má hún eiga. En hún er dauðans ræfill með
sjálfa sig“.
Þóra gerði enga athugasemd við þetta síðasta, sem Ketilríður
sagði. Það var alvanalegt, ef þeirri konu varð það á, að tala hlýlega
til nokkurrar manneskju, þá fylgdi því ævinlega eitthvert hnjóðs-
yrði eftir á.
Lína sendi Björn inn með kaffikönnuna. Bollapörin voru inni.
Ketilríður hjálpaði sjálf yið að framleiða góðgerðirnar. Þegar
hún hafði drukkið þrjá bolla af kaffi, fór hún að búast til ferðar.
Þóra þakkaði henni fyrir komuna, og bað hana fyrir kveðjur og
þakklæti til Önnu og Borghildar. Ketilríður leit inn í eldhúsið
um leið og hún gekk út. Hún hafði ekkert á móti því að tala við
Línu svona upp á gamlan kunningsskap, og minnast á, að það
hefði órðið fátt um kveðjur með þeim síðast. En hún sá ekkert
nema tvo bala af þvegnum þvotti, því að Lína faldi sig á bak við
hurðina. Hún hefði tæplega haft meiri hjartslátt, þó að mannýgt
naut hefði verið að nasa fyrir framan dyrnar.
„Hún hefur gengið eitthvað í burtu, stelpugægsnið, líklega til
að sækja vatn“, heyrði Lína hana segja, þegar hún sneri fra
dyrunum.
Ketilríður skilaði kveðjunum og þakklætinu til Önnu og
Borghildar frammi í eldhúsinu, þegar hún kom heim. En seinna
hvíslaði hún því að Önnu inni í hjónahúsinu, hver það hefði verið,
sem benti þeim Hvamms-hjónum á Línu.
„Já, auðvitað hefur hann kennt í brjósti um Þóru. Þetta voru
nú svo voðalegar ástæður11, sagði Anna, sem alltaf reyndi að halda
fast við sakleysið og dyggðina.
En Ketilríður var á annari skoðun. Þær hvísluðust lengi á, og
úrslitin urðu þau, að Ketilríður ætlaði í annað sinn að taka að ser
að njósna um húsbónda sinn. Hún vonaði, að sér tækist betur nu
en í fyrra skiptið. En fljótlega rak hún sig á, að það var ekki svo
auðhlaupið að því. í rökkrinu, þegar fólkið fór að sofa, fór hann
venjulega í burtu annaðhvort kvöld, og kom stundum ekki aftur
fyrr en í vökulok. Hann sagðist vera yfir á Ásólfsstöðum, Bárður
þyrfti víst að láta skrifa eitthvað fyrir sig núna, eins og fyrri
daginn. Hann var ákaflega ánægjulegur á svip, þegar hann kom
heim. Það var auðséð, að nágranninn hafði ekki verið svo fátækur,
að hann aetti ekki út í kaffið handa gesti sínum. Anna talaði um
það við Ketilríði, að hún sæi það sjálf, að ekki gæti hann setið
úti í Hvammi allt kvöldið. Það heimili hefði ekkert það upp á að
bjóða, sem honum geðjaðist að. Varla færi Sigurður að veita
honum vín. Og Ketilríður sá það líka, að slíkt gat ekki átt sér stað;
og sjálfsagt hefði Sigurlína annað að gera en þvælast með honum
einhvers staðar og einhvers staðar alla kvöldvökuna. Það leit þvi
út fyrir, að það ætlaði að verða talsveft erfitt að koma honum
fram í dagsljósið í hans eiginlegu mynd. En samt varð að reyna það.
Þóru líkaði betur og betvfr við Línu. Hún hændi krakkana
strax að sér, og svaf bæði með nýfædda drenginn og Boga. Hún
hafði lag á því, að láta litlu systkinin líta svo hreinlega út, að
Þóra fann til minnimáttarkenndar. Þó hafði hún alltaf reynt það
sem hún gat, til þess að heimilið liti þannig út, að það væri sér
ekki til skammar. En Lína tók henni fram. Hún var alveg 'einstök.
Baðstofan breyttist líka. Hún hvítskúraði gólfið á hverju kvöldi,
þegar allir voru háttaðir. Hún hafði heldur enga stund afgangs
til hvíldar. Hún gat ekki einu sinni lagt sig í rökkrinu, eins og
venjulegt var þó í sveitinni.
Eitt kvöldið sagði Björn, að hún hefði hlaupið út og ofan að
Hjalla. Og daginn eftir kom svo annar bóndasonurinn þaðan og
þurfti eitthvað að finna hana. Hún sagði Þóru, að hann hefði verið
að koma með dálítið, sem sig hefði vanhagað um úr kaupstað.
Svo voru hálfgerð vandræði með þvotinn. Lína var sífellt að leita
að barnafötum. Þau fuku. En hún fann þau alltaf, oft eftir langa
leit. Þóra spaugaði við hana um að það væri ekki efnilegt fyrir
stúlku, sem væri komin fast að giftingu, að hafa ekki lag á því að
klemma smábarnsfötin.
„Ég kann svo illa við þessar klemmur, sem þú hefur“, svaraði
Lína. „Anna hefur gormklemmur, og þær eru svo miklu betri a
smádót“.
„Já, sú kona þarf ekki að spara neitt. Ég er nú svona nízk,
að ég verð fegin að spara þá aurana. Sigurður tálgaði þessar
klemmur sjálfur“.
„Þær geta dugað á þykk föt, en mér finnst ég ekki geta látið
svona lítil föt tolla á snúrunni“, sagði Lína.
Það voru ekki liðnir nema tveir dagar frá fyrri heimsókn
Ketilríðar, þar til hún var setzt á rúmstokkinn hjá Þóru enn einu
sinni. Og nú hafði hún meðferðis stærðar smjörsköku og fulla
flösku af rjóma. Hún vissi, að það stóð illa á kúnni hjá Þóru. Og
Þóra verður svo rothissa, að hún getur ekkert sagt yfir allri þessari
góðvild og hlýju, sem Anna sýndi henni allt í einu.
„Blessuð húsmóðirin sagði, að sér fyndist, að ekki mætti
minna vera, en að þú hefðir út í kaffið meðan þú lægir á sæng“,
sagði Ketilríður. Svo spurði hún, líklega til þess að sitja ekki
þegjandi, hvort Lína færi nokkuð út af heimilinu.
Þóra hélt nú, að hún hefði svo mikið að gera, að hún gengi
ekki á bæi. Ekki datt henni í hug, að geta þess, þó að Björn hefði
séð hana fara út að Hjalla eitt kvöldið.
Lína var að steikja kleinur frammi í eldhúsi, og sendi Björn
inn með kaffikönnuna og heitar kleinur á diski.
„Það er engu líkara en að Lína skinnið hafi enga löngun til
að sjá mig“, sagði Ketilríður og glotti háðslega. „Við erum Þ°
búnar að raka nokkur hrífuförin á sama teignum þessi ár, sem eg
hef verið á Nautaflötum. En það er nú eins og máltækið segir, að
hundarnir vita alltaf hvað þeir hafa gleypt“.
„Hún er frammi að steikja kleinur“, sagði Björn litli.
„Já, náttúrlega; ég skil“, sagði Ketilríður. Svo hallaði hún sér
að Þóru, svo að barnið heyrði ekki þessa þarflausu spurningu:
„Hefur Þórður ekki komið út eftir að finna hana?“
„Hann kom út eftir fyrsta kvöldið, sem hún var hérna, en víst
ekki til að finna hana. Hann var að spyrja eftir kindum ,
sagði Þóra.
„Sýndist þér þau vera hlýleg hvort við annað?“
Þóra hikaði við að svara. Hvað svo sem skyldi Ketilríði varða
um, hvernig þau hefðu tekið sig út.
„Ég tók ekki eftir neinum sérstökum hlýleik“, sagði hun.
Ketilríður leggur aftur augun og kinkar kolli. „Það er alltaf
þetta pukur, alveg eins og það sé mannsmorð. En sannleikurinn
er sá að þau eru búin að „dalla“ saman svo árum skiptir. Kom
hann ekki hingað á sunnudagskvöldið?“
„Ekki svo að ég viti“, sagði Þóra.
„Hann læddist í burtu á meðan við sváfum, en sat svo prúð-
búinn í eldhúsinu, í hvítu peysunni með loðhúfuna, þegar ég kom
fram, svo ansvíti glaðklakkalegur“.