Lögberg - 03.03.1955, Síða 6

Lögberg - 03.03.1955, Síða 6
6 J." " ...^ GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF r LOFA SKAL DAG AÐ KVÖLDI „Hvað verður nú um kindurnar hennar Línu? Ætlar hún að eyðileggja þær allar í haust?“ spurði sú umhyggjusama kona, Borghildur, einu sinni, þegar allir sátu að snæðingi. Þær verða hérna í vetur“, svaraði Jón. „Hvað hún gerir við þær í vor, veit ég ekki. En ég þykist vita, að hún ætli að flytja aftur í sveitina, því að hún setur öll lömbin á“. „Varla hafa þau öll verið gimbrar“, svaraði hún. „Hún skipti við Sigga. Svo nú á hún tólf höfuð. Það má kalla góðan bústofn handa henni. Ef hún sálast þá ekki úr kulda í vetur. Mér sýnist hún alltaf krókloppin, þegar ég sé henni bregða fyrir, sem sjaldan er. Þetta er líka óskaplegt að sjá, hvernig kvenfólkið er farið að klæða síg í kaupstöðunum. Bert ofan á brjóst og með handleggina bera upp að öxlum“. „Það þykir víst ákaflega fínt“, sagði Borghildur. „Það er lán með, ef þær gera sig ekki heilsulausar með slíkum klæðnaði“. „Þetta kemst strax í vana“, gegndi Gróa fram í. „Það er verst, þegar þær eru kannske ekki í öðru en ermalausum léreftsskyrtun- um innan undir. Þá getur verið kalt að hengja út þvottinn að vetrinum til“. Morguninn eftir kom Anna húsfreyja með fangið fullt af hvítri vorull og fékk Gróu hana og bað hana að taka ofan af og gera það vel. Manga átti að vinna með henni. Sláturstússið var búið og kvenfólkið farið að hugsa til tóvinnunnar. Manga fann til vankunnáttu sinnar og bað um að mega vera við eldavélina; Borg- hildur kynni svo vel til tóvinnunnar. Það var látið eftir henni. Borghildur tók af sér eldhússkýluna og setti fyrir sig hreina svuntu og tók til starfa með svip þeirrar konu, sem veit vel, að hún er því starfi vaxin, sem hún tekur að sér. Gróa var óhikandi. Hún þóttist kunna að tæta sæmilega. En nú komst hún brátt að því, að hún var léttvæg fundin. Borghildur leit á það, sem hún var búin að vinna og var ekki ánægð. . „Þú verður að læra þetta betur, Gróa“, sagði hún. „Anna vill láta vanda þetta“. „Á þetta að fara utan á hana sjálfa?“ spurði Gróa fálega. „Nei, hún ætlar að farga því“. Og Gróa mátti láta sér vel lynda, að Bolghildur aðgætti hvern lagð og færi yfir þá suma. Henni var misboðið, en samt lét hún ekki á neinu bera, því þarna sat hún móti ofjarli sínum. Svo varð hún að fara að kemba. Ekki var það vandaminna, því að nú kom sjálf húsmóðirin fram fyrir með rokkinn sinn og fór að spinna. Borghildur spann líka. En Dísa, sem aldrei var ánægð, ef hún fékk ekki að vita allt, sem gerðist á heimilinu, fór upp um hálsinn á fóstru sinni og spurði, hver ætti að fá þessi fínu nærföt, sem verið væri að spinna í. Hún hvíslaði því að henni. Og áður en dagurinn var liðinn, vissu allir á heimilinu, að það var Lína, sem átti að fá þessi fínu nærföt, svo að hún dæi ekki úr kulda í eld- húsinu hjá lækninum. Eftir það bauðst Þórður til að kemba á kvöldin. Þá fór spuninn að ganga enn fljótar, og Gróu var sagt að fara að tvinna. Allt þetta gekk eins og í sögu, og prjónavélin var ekki lengi að breyta þessu fína bandi í dásamlegar spjarir, sem húsmóðirin saumaði saman og prýddi með litlum, bleikum, hekluð- um laufum um hálsmálið. Svo voru þær þvegnar og hengdar út á snúru. „Aldrei á ævi minni hefi ég séð annan eins tóskap“, sagði Gróa næstum klökk af aðdáun, „og þetta á að fara utan á eina vinnukonuna, sem hérna hefur unnið. Það mætti heldur ætla, að það ætti að fara utan á einhverja frúna. Satt að segja, datt mér í hug, svona þér að segja, Borghildur, að hún ætlaði henni frú Matthildi þetta, því þær eru svo vel til vina“. Borghildur setti bara upp kuldasvip og sagði: „Hún getur líklega spunnið utan á sig sjálf, konan sú. Það hefði víst ekki verið mikil þörf á að fara að stússast við það. Annað er með hana Línu litlu, sem hefur verið hérna síðan fermingarárið hennar. Hún er líka ágætis stúlka“. „Já, svona er það að koma sér vel“, sagði Gróa. „Þú trúir því ekki, hvað mig langar til að eiga svona falleg og mjúk nærföt“. „Það er líka það, sem þú þarft að eignast — og það strax. Ég hef tekið eftir því, að þú átt ekki annað en flónels- og lérefts- nærföt, og drengurinn ekki heldur. Þetta er ekkert líf að vetrinum. Við verðum ekki lengi, ef við leggjumst allar á eitt, þegar þetta er búið“. Þá bara vafði Gróa handleggjunum um hálsinn á þessari gæðakonu og lagði hana undir vanga. En Borghildur, sem var óvön svona blíðuatlotum, fór að brosa að ákafa hennar. En hún skildi lyndiseinkanir hverrar manneskju, sem á heimilinu vann, og vissi, að það varð að taka hvern eins og hann var gerður. Gróa var blíð- lynd og áhrifagjörn, en hún var dugleg og gæðahjú, þótt hún talaði helzt til mikið stundum, hafði öllum fallið prýðilega við hana, þessa mánuði, sem hún var búin að vera á heimilinu. En það var ekki allt búið, sem Línu var ætlað. Það var spunnið í þrenna sokka; þeir voru prjónaðir, þæfðir og litaðir, og það voru gerðir sauðskinnsskór og fallegir leppar látnir innan í. Allt var þetta svo látið ofan í tösku, innan í hvítum lérefts- poka, og Þórður var beðinn að koma því til skila einu sinni, þegar hann var að fara ofan í kaupstað til að sækja fisk til Steina, sem var við sjó, og færa honum mat. Það var gert einu sinni í viku, en Þórður hafði aldrei farið fyrr. Venjulega var það Jakob, sem fór ofan eftir með matinn, en hann flutti aldrei neitt til baka. Anna var óánægð yfir því, að drengurinn var látinn fara í svona slarkferðir, eins og hún kallaði það, en lét þó svo vera, vegna þess að Borghildur sagði henni, að Jón hefði alltaf farið með nesti til sjómannsins, þegar hann var á hans aldri. „Þú færð Línu þetta sjálfur“, sagði Anna við Þórð, „og segðu henni, að ég sendi henni peysu seinna, svo að hún sálist ekki úr kulda í vetur“. Þórður tók hlýlega í hönd henni og sagði brosandi: „Þakka þér fyrir“. , Samt var það ekki venjulegt, að hann kveddi með handabandi, þótt hann færi út af heimilinu. En þakklætið gat verið þessi venju- LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 3. MARZ 1955 legu kurteisisorð, ef einhver bað að heilsa. Samt fannst honum, að l hann hefði komið upp um sig með þessu. En Anna tók ekkert eftir því, að hann hafði rétt henni höndina og þakkað henni fyrir, hvað hún væri góð við stúlkuna hans. Hann reið ánægður út dalinn. Nú gæti hann farið heim til Línu, því að hann átti erindi við hana. Kannske gæti hún talað fáein orð við hann. Það var ekki víst, að læknirinn þyrfti að svolgra í sig viský og sódavatn núna, eins og seinast þegar hann kom. Veðrið var yndiselegt. Blæjalogn og sólskin. Túnin voru græn, þótt komið væri fram yfir veturnætur. Allar skepnur nutu ennþá sumarfrelsisins, nema kýrnar. Dalurinn var svo dásamlega fallegur, að hann gat ekki hugsað sér, að nokkur sveit væri til, sem líktist honum, og enginn maður ætti fegurri framtíð en hann og stúlkan, sem hann elskaði. „Lofa skal dag að kvöldi“, hugsaði Þórður oft, þegar hann lifði þennan dag upp í huganum. Það var samt engin veðrabreyting í náttúrunni, en það voru sólhvörf í hans eigin lífi. Fyrir nokkrum dögum hafði húsbóndi hans spurt hann, hvort hann yrði ekki kyrr eftirleiðis, eins og vant væri. En hann hafði ekki orðið; en „um það tölum við seinna“, sagði hann. gert hann hissa með því að segja honum, en það gæti nú líklega „Þú ert þó líklega ekki að hugsa um að fara að yfirgefa dalinn?“ „Nei, það dettur mér ekki í hug. Samt verður það líklega þú, sem ræður því“. Hann hafði ætlað að tala um Selið. Jón hafði oft sagt, að það væri sjálfsagt að hann fengi það, þegar hann færi að hugsa til búskapar. En það var ekki víst, að það hefði verið alvara. Hann sagði svo margt, sem ekki var alvara. En þá þurfti einhver endi- lega að ónáða þá, svo að málið var óútkljáð ennþá. Það hefði verið gáman að geta sagt henni, að ábúðarjörðin væri fengin. Bara að systkinin í Ameríku gætu séð kotið þeirra, þegar búið væri að byggja þar upp nýjan bæ og falleg húsfreyja komin í hann. Hann reið ofan með læknishúsinu og gaf eldhúsglugganum hornauga um leið og hann fór framhjá. Gluggatjöldin voru dregin fyrir, líklega af því að sólin var komin í vestrið, og þá var víst óþolandi hiti í eldhúsinu. Varla var hann svo óheppinn, að húsið væri mannlaust. Hann fór að hestaréttinni, og lét klárana inn. Þarna stóð þá reiðhestur húsbónda hans og tók vingjarnlega á móti félögum sínum, þegar þeim var hleypt inn til hans. Jón hafði farið út á Strönd daginn áður, til að bjóða upp einhverjar reytur eftir karlanga, sem hafði burtkallazt á þessu sumri. Þórður hafði búizt við að mæta honum einhvers staðar, en hann var þá ekki kominn lengra en þetta. Hann var heldur ekki vanur því að sneiða hjá Ósnum. Þeir yrðu þá samferða heim í kvöld. Þá yrði hægt að tala samat> í næði um jarðnæðið. Sjómennirnir voru komnir og farnir að skipta aflanum, þegar Þórður kom ofan í fjöruna. „Bærilegur afli núna, Þórður minn“, kallaði Siggi á móti honum. „Það hefur gert gott, að þú varst á ferðinni, alltaf fengsæll í öllum greinum. Nú verðurðu að koma hérna inn í sjóbúðina og fá kaffi hjá okkur. Þar rázkar kærastan mín, þó að hringarnir séu ekki komnir ennþá, þá vita það allir. Ég er ekki svoleiðis maður, að ég sé að pukra, eins og sumum finnst sjálfsagt“. „Það er þá óþarfi, að vera að setja upp hringa, þegar allir vita um trúlofunina“, sagði Þórður. „Annars finnst mér þú tala helmingi fleira en þú gerðir fram í dalnum, og þótti þó flestum nóg um þig þar“. „Það veitir ekki af að nota talfærin hérna niður frá, enda býst ég við því, að jafnvel eins fátalaður maður og þú yrðir orðinn símasandi eftir vikudvöl í þessu kjaftabæli“. Þegar búið var að skipta aflanum, fóru allir sjómennirnir inn í sjóbúðarkofa þar skammt frá. Þar beið þeirra heitt kaffi, og þar stóð ung blómarós við eldavélargarm og steikti kleinur með kaffinu. Það var Rósa, kærasta Sigga. Hann heilsaði henni líka með kossi, ófeiminn, þó að allir sjómennirnir horfðu á hann. „Finnst þér hún ekki heldur álitleg, þessi blessuð stúlka. Sjáðu bara, hvað hún hefur stór brjóst og er þéttholda. Þú ert alltaf svo holdvandur, Þórður minn. Hún var ekki lengi að bíta á hjá mér, skal ég segja þér. Og við ætlum að fylgjast að í lífinu, svona án prestlegra aðgerða. Það fer vonandi eins vel fyrir því“. „Ég er hissa á því, að þú skulir hafa náð hylli hennar með þessum vaðli“, sagði Þórður. En stúlkan var laus við alla feimni og bar fram kaffið á eitt- hvert borðskrifli, sem Þórður var hálfhræddur um að myndi detta um koll með öllum bollapörunum. Ekki gæti hann boðið sinni stúlku önnur eins húsakynni og aðra eins búslóð. Reyndar var þetta ekki heimili þeirra. En hann gat heldur ekki hugsað sér Línu í svona stöðu, að elda mat og hita kaffi fyrir marga sjómenn, sem allir horfðu á hana í einu. Hún átti bara að elda handa honum einum fram á afrétt. Hann athugaði Rósu vandlega, þótt hann hefði séð hana áður. Hún var kafrjóð holdahnyðja, góðleg á svip, ósköp mikið síðri en stúlkan hans. „Ætlarðu að setja upp hringa?“ spurði hann Sigga. „Já, það erum við nú að hugsa um að gera á jólunum. Það verða þá kannske fleiri, sem gera slíkt hið sama, að minnsta kosti hún Lína hjá lækninum og ekkjumaðurinn utan af Ströndinni, sem sagt er að heiti Gísli. Það verður svei mér gaman að kynnast honum, þeim kauða“. „Já, líklega verður hann dálítið einkennilegur, sá maður“, sagði Þórður brosandi. Björn gamli, faðir Rósu, sem var ákaflega upp með sér yfir því að fá fóstursoninn frá Nautaflötum fyrir tengdason, hneggjaði og tísti af kæti yfir grófgerðu spaugi, sem sjómennirnir létu óspart fjúka um hina tilvonandi hjónarúmssælu, sem ungu hjónaefnin ættu í vændum. Og Siggi, sem alinn var upp á heimili, þar sem slíkt orðbragð heyrðist aldrei, skemmti sér ágætlega, og Rósa lagði ófeimin orð inn í samræðurnar. Svona lagað gæti hann ekki Mustað á um stúlkuna sína, hugsaði Þórður. Enda hafði hann aldrei getað fellt sig við sjó- mannstalið meðan hann var við sjó, og því síður tekið sér snið af því. Hann varð því sárfeginn, þegar kaffidrykkjunni var lokið. Það var komið undir rökkur, þegar hann var búinn að búa upp á hestana. Þó var það allra skemmtilegasta eftir, að fara með töskuna til Línu. Fálki var enn í réttinni, en Jón sást hvergi. Hann sat sjálfsagt hjá lækninum að víndrykkju. Læknishúsið stóð efst af öllum húsunum, og þangað stefndi Þórður með töskuna í hendinni. Það stóð heima við það, sem hann hafði rétt verið að enda við að hugsa. Þarna kom Jón á móti honum frá læknishúsinu, svo þétt- kenndur, að hann reikaði. Þá var hann þó búinn að smakka talsvert. „Þú ert þá kominn Þórður, heilladrengurinn. Það er bærilegt að fá þig til samfylgdar heim. Er virkilega farið að bregða birtu? Svona gleymir maður tímanum, þegar flaskan er annars vegar. Varstu að koma, væni minn?“ masaði hann, þegar hann sá Þórð. „Ég er rétt að fara“,- sagði Þórður. „Það er langt síðan ég kom, og því lengra síðan Siggi kom að“. „Jæja, þú ert að fara, það er ágætt. Mér veitir ekki af samfylgd núna. Engum trúi ég betur fyrir sjálfum mér en þér, Þórður minn. En ég hefði hvergi verið smeykur að fara einn fram dalinn, ef ég hefði setið á gamla Fálka mínum. Hann er óstilltur, folaskömmin, ætlar aldrei að læra að verða stilltur og fullorðinn“. „Það gengur oft erfiðlega að læra það“, sagði Þórður og hélt áfram. „Þú bíður mín við réttina. Ég verð ekki stund“, sagði hann, þegar þeir voru komnir kippkorn hvor frá öðrum. Hann fór að eldhúsdyrunum. Þær voru hálfopnar, en engin manneskja sjáanleg þar inni. Lína var víst heima; það var búið að draga gluggatjöldin frá, enda þurfti ekki að óttast sólbirtuna lengur, og það sauð á gljáfægðum katli á eldavélinni. Hann beið dálitla stund í von um að einhver kæmi fram, og litaðist um í eldhúsinu. Þar var allt fínt og fágað. Á hvítskúruðu borðinu stóðu tvenn bollapör, sykurker og rjómakanna, og kökufat með fínu kaffibrauði, flaska með skrautlegum miða og tvö staup. Þórður horfði tortryggnisaugum á flöskuna. Einhver rödd hvíslaði því að honum, að það hefði verið húsbóndi hans, sem hefði tæmt þessaflösku og drukkið úr þessum pörum. En sú fjarstæða, andæfði skynsemi hans. „Skyldi honum hafa verið boðið sæti í eldhúsinu? Auðvitað hafði þetta verið borið fram innan úr stofunni frá ein- hverjum gestum. Hann barði á hurðina, til þess að einhver kæmi fram, en enginn kom. Skyldi húsið vera mannlaust? hugsaði hann og barði öllu fastar. Þá heyrðist einhver hreyfing uppi á loftinu, og létt fótatak nálgaðist stigann. Lína kom hægt ofan stigann og studdi sig með annari hendinni. Skyldi hún vera lasin? var fyrsta hugsun hans. Hún stanzaði neðst í stiganum, og honum fannst hún horfa á flöskuna og pörin á borðinu með vandræðalegum hræðslusvip. Hún var í ljósleitum léreftskjól, með hvíta, blúndaða svuntu. Um hvítan hálsinn hékk gullhjarta á flauelsbandi. Hárið var vafið utan um höfuðið, og einhverjar hornsylgjur, ákaflega fallegar, festar í það á vögunum. Hann gleymdi öllu öðru en því, að þetta var stúlkan hans, svona fín og falleg. Hann tók hana í faðm sinn og bar hana fram að dyrunum. „En hvað þú ert falleg, elsku stúlkan mín“, sagði hann og kyssti hana. En var þetta virkilega hans stúlka? Hann sneri andliti hennar móti birtunni og horfði rannsakandi í augu henni. Þau voru vot og þokukennd. „Guð hjálpi þér, Lína!“ sagði hann ásakandi. „Ertu farin að drekka?“ Hún faldi höfuðið við barm hans og hló hátt og óviðkunnan- lega. Þetta var ekki fíngerði, lági hláturinn, sem hann þekkti svo vel. „Taktu þetta ekki alvarlega, vinur minn. Þetta er bara eins og hver annar kjánaskapur úr mér. Það skal svei mér ekki henda mig aftur. Geiri bróðir var hér með vín í flösku, og ég fór að bragða á því, en ég þoli víst ekki mikið, því að ég finn bara talsvert á mér“. „Ég skil ekkert í þessu“, sagði hann alvarlega. „Ekkert er eins viðbjóðslegt og drukkin kona. Að minnsta kosti vona ég, að stúlkan mín geri sig ekki seka í svo ókvenlegu athæfi“. Hún strauk yfir enni hans, eins og hún vildi strjúka burtu hrukkurnar, sem komu á það. „Vertu nú ekki svona alvarlegur, alveg eins og þú værir faðir minn“, sagði hún. „Þetta kemur ekki fyrir aftur, því skal ég lofa þér“. Hann opnaði töskuna og fékk henni böggulinn. „Þarna sendir Anna þér hlý og falleg nærföt. Seinna færðu peysu“, sagði hann. Hún tók sundur fötin og skoðaði þau með fálmandi, óvið- kunnanlegum handatiltektum. „En þau fínheit og gæði. Hún er víst búin að fyrirgefa mér það, að ég þekkti hestana í sundur í sumar?“ sagði hún og hló ennþá þessum óviðfelldna hlátri, sem Þórði fannst óþolandi. Hann tók súkkulaðistykki úr brjóstvasa sínum og rétti henni. Tíu króna seðli var stungið undir miðann eins og vant var. „Alltaf eru að gefa mér, blessaður dalakarlinn minn“, sagði hún. „Þú ættir bara að sjá, hvað ég er búin að kaupa mér fyrir peningana frá þér. Borðdúk, bakka, bollapör og kaffikönnu, og allt í búið okkar . . .“ Hún masaði og gjálfraði svo kveljandi líkt Gróu, að Þórður var alveg eyðilagður. Hann, sem var búinn að hlakka svo mikið til þessa fundar, og þá varð hann svona. Hann hugsaði allt annað en hlýlega til þessa tilvonandi mágs síns. Svona voru þessir sjóstrákar. Hann fór suður til sjóróðra á hverjum vetri. Þar var sjálfsagt algengt, að kvenfólk drykki með karlmönnum. Og svo hafði honum fundizt sjálfsagt að gæða systu rsinni á víni, svo að hún liti eins út. Og endilega þurfti að hittast svo á, að hann sæi hana svona leiðinlega útlítandi. Hann gat ekki flutt heim með sér fallegu myndina í huganum, eins og seinast. Eina bótin var, að þetta kæmi ekki aftur fyrir. Það var hann viss um. Hún gat ekki verið svo breytt, þessi góða stúlka. „Seztu niður, góði. Nú tefurðu lengi hjá mér“, sagði Lína og kyssti hann frekjulega. „Nú getum við rabbað saman um fram- tíðina og búskapinn. Nú er ég bóndinn og húsfreyjan í húsinu, skal ég segja þér. Hjónin og krakkarnir riðu út að Kárastöðum í morgun; veðrið var svo indælt. Ó, mikið var nú gott að ríða honum Skjóna þínum. Ég á eftir að margkyssa þig fyrir það“. Þórður var setztur á annan stólinn, en stóð snögglega upp aftur. Grunur hans var að verða að vissu. Mýflugan var að blása sig út og verða að úlfalda á svipstundu. „Hefurðu verið ein í húsinu í allan dag?“ spurði hann. „Já, svo má það heita, nema meðan Geiri stanzaði hjá mér“. Honum veittist erfitt að stynja upp næstu spurningu. Samt tókst það. „Kom Jón í heimsókn til þín?“ „Hvað?“ spurði hún og greip annan yfirbollann, fyllti hann af köldu vatni og drakk það áfergjulega. „Ég var að spyrja þig, hvort Jón hefði heimsótt þig“, sagði hann. „Hvaða Jón?“ spurði hún skilningssljó. „Jón hreppstjóri, ef þú kannst við hann?“ svaraði Þórður fastmæltur.

x

Lögberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.