Lögberg - 24.03.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 24.03.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 24. MARZ 1955 --- V. GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF Hún hellti kaffi í bolla og drakk það. Það var ljúffengt og bragðgott. En það var eitthvað, sem hún hafði ætlað sér að muna. Hvað gat það verið? Jú, nú mundi hún það. Hún var búin að hugsa sér að líta eftir þessu hrossi, sem hafði dregið að sér athygli hennar, þegar hún leit fyrst út. Henni fannst hún endilega þurfa að gæta að því, áður en hún drykki úr bollanum. Hún fór út í annað sinn. Það var orðið hálfbjart, og þarna var þetta hross komið heim í túnið. En hvað var þetta? Það var þó líklega ekki hann Skjóni hans Þórðar? Nú sneri hliðin að henni. Það var ekki um að villast. Hún þekkti hvítu skelluna á lendinni og geirann, sem náði niður undir hnéð á öðrum afturfætinum. Þetta var hann. Hvað gat hafa komið fyrir? Hún hljóp suður túnið til hestsins. Hann var með hnakknum og beizlinu. Taumarnir voru uppi og snærisspotti bundinn utan um þá undir kverkinni, svo áð þeir drægjust ekki. En svarta gæruskinnið, sem alltaf var yfir hnakkn- um var horfið. Borghildur virti hestinn fyrir sér um stund. Hann var alveg eins og hann var vanur. Ekki þurfti heldur að búast við neinni skýringu frá honum. Það var ekki um annað að gera en að vekja Jón, ef hann var þá ekki vaknaður, og segja honum tíðindin. Það varð að fara að leita að Þórði. Ann^rð hvort var hann dauður eða í hættu staddur. Þarna kom hugboðið fram, sem hún hafði fengið, þegar hann reið úr hlaði. Hún flýtti sér heim að bænum aftur. Gróa og Manga voru komnar fram í eldhúsið. Manga geispaði og kvartaði yfir því, hvað hún væri uppgefin eftir smalamennsk- una. Gróa stóð sig betur. Hún bjóst við því, að kaffið hressti þær, svo að þær næðu sér. Borghildur gekk samstundis inn í hjónahúsið. Það var dimmt inni, og þau sváfu bæði. Hún strauk með kaldri hendinni um vanga Jóns, svo að hann vaknaði. „Varstu að koma með kaffið, góða?“ spurði hann og tók kalda hönd hennar milli heitra handa sinna, eins og til að verma hana. „Nei, ekki kom ég með það, en það bíður á könnunni frammi“, hvíslaði hún, svo að Anna skyldi ekki heyra það. „En það er annað, sem ég þurfti að tala um við þig. Ég er hrædd um, að það sé eitthvað að honum Þórði. Hesturinn er kominn mannlaus heim“. „Getur hann ekki verið hérna einhvers staðar úti við?“ „Nei, ég sá til hestsins framhjá Klifi“. Anna heyrði til þeirra, þó að henni væri ekki ætlað það. „Góða Borghildur, taktu frá glbgganum, svo að það sé ekki svona hræðilega dimmt inni. Það minnir mann á dauðann. Náttúrlega hefur hann orðið úti á fjallingu. Aumingja Þórður!“ andvarpaði hún. „Heldurðu, að hann hafi orðið úti í sólskininu, sem var í gærdag?“ spurði maður hennar. „Þá hefur hann hrapað eins og maðurinn, sem hún Sigga sagði svo oft frá. Mér finnst, að það ætli að líða yfir mig af hræðslu“. „Láttu ekki svona óskaplega. Það er ekkert að Þórði. Það geturðu verið viss um. Hann er gætnari maður en svo, að hann fari að ganga fram af klettunum. Líklega hefur hann séð kindur, sem hefur vantað, og farið að eltast við þær, en hesturinn lötrað heim á meðan. Reyndu bara að sofa og vera róleg“, hughreysti Jón hana. Hann var klæddur á svipstundu. „Hvað ætlaður að gera, ef þú finnur hann dáinn?“ spurði Anna, þegar Jón var að fara fram. „Ég býst ekki við því, að hann sé dáinn“, sagði hann. „Þú skalt ekki gráta hann, fyrr en þú sérð líkið af honum. Mér þykir ákaflega ótrúlegt, að nokkuð hafi getað orðið að honum“. Gróa fjasaði í eldhúsinu, þegar hann kom fram. „Veiztu það, að hesturinn hans Þórðar er kominn heim, en hann sézt hvergi? Hvað er eiginlega hægt að gera?“ Jón drakk kaffið í flýti meðan Gróa náði í áburðarklár, sem var á túninu. Á hann lagði Jón hnakkinn sinn og sagði brosandi: „Ég get nú sagt eins og Skotta, að ekki er nú vakurt, þótt riðið sé, þegar Rauður gamli er orðinn reiðhesturinn minn. Svo skuluð þið ekkert undrast yfir því, þó að ég verði lengi. Ég fer alla leið vestur að Bjarnastöðum, ef ég finn ekki Þórð, sem ég býst þó við að verði fljótlega“. Borghildur horfði á eftir Jóni. „Hvaða tíðindi skyldi hann segja, þegar hann kemur aftur?“ sagði hún. Og svo fór hún að segja Gróu frá því, hvað Þórður hefði verið undarlegur, þegar hann var að leggja af stað í þetta ferðalag. Gróa kunni margar sögur, svipaðar þessu, og sagði henni þær allar hverja á eftir annarri. Hún sagði Önnu þær líka, þegar hún kom fram, og þær gerðu hana hálfu hræddari en hún var áður. Jón reið sem leið lá fram að Seli. Hann gat ekki getið neins til í huga sínum, sem gæti hafa tafið Þórð, nema ef hann hefði farið að snúast eitthvað við kindur, sem þó var ólíklegt, þar sem hann hlaut að hafa verið á ferð í náttmyrkrinu. Gatan lá rétt við túnið í Seli. Kofarnir stóðu enn uppi. En í þetta sinn voru bæjar- dyrnar opnar. Þær áttu ekki að vera það, og höfðu áreiðanlega verið aftur daginn áður, þegar hann hafði rekið féð um túnið. Hann reið heim að bænum og steig af baki. Hundur Þórðar kom út í dyrnar og flaðraði vinalega upp um hann. Jón klappaði honum um hausinn. „Þarna er þú, karlinn“, sagði hann. „Þá er Þórður ekki langt frá“. Svo gekk hann hálfboginn inn til baðstofu. Hún var hálf opin. Fjórir rúmbálkar voru í baðstofunni. Uppi í einu þeirra lá Þórður með húfuna yfir andlitinu og gæruskinnið af hnakknum undir höfðinu. Jón stóð nokkra stund við rúmstokkinn og virti hann fyrir sér. „Skyldi hann vera veikur eða hvað?“ hugsaði hann. Svo tók hann húfuna ofan af andliti hans, settist á rúmið fyrir framan hann, tók andlit hans milli handa sinna og sagði hlæjandi, fast við eyra hans: „Góðan daginn, Tóti min-n! Ætlarðu ekki að fara að vakna?“ Þórður vaknaði, en opnaði þó ekki augun. í hug hans börðust tvær andstæðar tiifinningar. Undanfarna daga hafði hugur hans brunnið af hatri til þessa manns, og honum hafði fundizt það ómögulegt, að þeir gætu verið á sama heimili lengur. Nú var hann kominn þarna með sinn mikla hlýleik, sem smaug eins og eldur um taugar hans, alla leið inn að hjartarótum. Var þetta allt saman vondur draumur, sem hann var að vakna af? Nei, því miður var það veruleiki. Jón talaði til hans í annað sinn: „Ætlarðu ekki að fara að vakna, Þórður minn?“ Þá opnaði Þórður augun og leit á vin sinn. Svipur hans var þungbúinn og augnaráðið kalt. „Ertu veikur, Þórður?“ spurði Jón. En Þórður svaraði ekki. Hann spurði aðeins: „Hvers vegna vaktirðu mig svona, Jón?“ „Svona hvernig?’“ „Eins og þegar við vorum drengir?“ „Manstu, þegar ég var kominn hingað frameftir á morgnana, stundum áður en þú vaknaðir? Þá vakti ég þig ævinlega svona. En því í ósköpunum liggurðu hérna, maður, ef þú ert heilbrigður?“ „Ég var seint fyrir í gærkvöldi og tók mér hér gistingu“, sagði Þórður. „Það var gaman, að gista eina nótt í Seli“. „Gaman, að sofa hérna inni í þessari myglulykt? Ég er hissa á því, að þú skulir vera lifandi í þessu andrúmslofti“. „Mér stæði hjartanlega á sama, þó að svo væri ekki“, svaraði Þórður. „En hvað ert þú eiginlega að fara svona snemma til að rífa mig upp úr fastasvefni?“ bætti hann við. „Ég er að leita að þér. Hesturinn kom heim með hnakkinn og beizlið, en þig vantaði. Og þú hefðir nú átt að heyra þau ósköp, sem gengu á fyrir kvenfólkinu. Ég hef aldrei heyrt það eða séð fyrr, hvað þú ert elskaður af stúlkunum. Jafnvel Borghildur var óróleg, og er hún þó ekki talin neitt sérlega karlmannskær. Blessuð konan bað svo mikið fyrir þér; hún hélt, að þú hefðir orðið úti á fjallinu í sólskininu í gær eða hrapað í Tröllagljúfrun- um eins og einhver vesalingur, sem Sigga kunni sögu af. En Gróa grét og faðmaði Skjóna. Ég gleypti í mig kaffið án þess að fá mér nokkra lýsu út í“. % „Þér tekst upp núna“, sagði Þórður þurrlega. „Já, þó það væri, að maður gæti talað. En samt dettur þér ekki einu sinni í hug að brosa. Hvað svo sem gengur að |>ér, ef þú ert ekki veikur? Hefurðu kannske farið í bónorðsför og fengið hryggbrot? Reyndu að hrista slíkt af þér. Stattu upp og komdu í eina glímu til að hita þér“, sagði Jón og kitlaði hann í hnésbótunum. „Reyndu að láta mig vera í friði“, sagði Þórður. „Ég er ekki í því skapi, að ég geti tekið kitlum eða káfi“. „Hvað er eiginlega að þér? segi ég. Hverslags dauðyflis- háttur er þetta? Auðvitað hafa draugarnir gert þig hálf vitlausan í nótt. Það er því mál fyrir þig að rísa á fætur og koma út í góða veðrið, eins og sagt er við krakkana, þegar þau eru löt að fara á fætur. Eða ætlarðu kannske að láta kvenfólkið gráta út af þér í allan dag og álíta þig slasaðan eða dauðan, en liggja svo hér með fýlu út af engu?“ „Mér er víst engin þægð í því, að þær gráti mig, þó að ég væri dauður, sem ekki er ennþá, því er nú ver. Nema ef konan þín vildi gefa mér fáein tár, þá veit ég, að mér liði betur í kistunni“. „Hana nú, þar rofar þó svolítið til. Þér er farið að lítast svona vel á önnu, líklega orðinn ástsjúkur, sem kallað er, og liggur svo hér í þunglyndi út af öllu saman. Þetta er nú hreint það bezta, sem ég hef heyrt nýlega. Hvenær tók þetta þig svona, Þórður minn?“ „Ertu orðinn vitlaus?“ var það eina, sem Þórður sagði. „Mér finnst þú sama sem segja það með því, að þér muni líða betur í kistunni, ef hún felldi fáein tár yfir þér. Hvað getur verið meiri aðdáun en slíkt og þvílíkt?“ „Nei, ég hef aldrei fellt ást til hennar, svo heimskur er ég ekki. En hún hefur alltaf í mínum augum verið hrein og saklaus sem engill, hafin yfir allt, sem er ljótt og óheiðarlegt, og það verður hún alltaf. Ég þykist líka sjá það, að hún muni vera eina heiðar- lega konan í veröldinni. Og svo varð það hlutskipti hennar, að verða konan þín“. ' „Var það kannske eitthvert vandræða hlutskipti?“ spurði Jón brosandi. „Það hafa víst fáir kennt í brjósti um hana fyrir það, þó að ég hafi nú kannske ekki verið alveg eins saklaus og hreinn. Ég býst frekar við, að hún hafi verið öfunduð en hitt, af kven- fólkinu hérna í sveitinni“. „Þær gangast alltaf fyrir þvíf sem gyllt er, og þó að það sé svikagylling, þá hugsa þær ekkert um það“, sagði Þórður. „Þú talar við mig, eins og þér sé illa við mig eða lítilsvirðir mig“, svaraði Jón alvarlegur. Þórður anzaði engu. Það varð dálítil þögn. Jón var í vandræðum og skildi hvorki upp né niður í Þórði. Hann var farinn að ganga fram og aftur um gólfið og velta því fyrir sér, hvað gæti eiginlega verið að honum. Hann þóttist þekkja hann eins vel og sjálfan sig. En nú kom hann fram í alveg óþekktri mynd, úfinn og kaldur. Honum sýndist hann horfa á sig hatursfullum augum. „Jæja“, sagði hann. „Verðurðu með heim. Ég ætla ekki að sitja yfir þér í allan dag, til þess að reyna að koma þér til að tala eitthvað, sem vit er í. Stúlkurnar eru órólegar heima. Ég fer og læt þær vita, að þú sért lifandi“. „Ég kem með þér eða þá rétt á eftir þér. Ég þykist vita, að þú sért ríðandi, en ég er víst búinn að missa frá mér hestinn, eftir því sem mér skildist áðan“. „Ég kom með hann“, sagði Jón. „Það var gott. En ég þarf að tala við þig, áður en við leggjum af stað“, sagði Þórður. „Er þér ekki sama þó að ég fari núna um næstu helgi? Ég skal útvega þér góðan mann vestan úr Hauksdal í staðinn fyrir mig“. „Ertu aldeilis frá þér? Heldurðu, að ég megi missa þig frá fénu? Það sýndi sig nú í gær. Ég hafði ekki hugmynd um, hvað margt vantaði af kindunum. Þú hlýtur að vera að gera að gamni þínu, að hugsa þér að yfirgefa mig og dalinn allt í einu. Þú hefur oft sagt, að þú yfirgæfir dalinn aldrei, hvað sem mér líður. Nei, góðurinn minn. Ég vil ekki sjá nokkurn mann í staðinn fyrir þig. En nú fer ég þó að sjá til botns í þessu þunglyndiskasti í þér. Það er stúlka í spilinu. Þú ert að hugsa um einhverja þarna fyrir vestan. Segðu mér bara, hvar hún á heima. Svo skal ég ríða vestur strax í fyrramálið, og þar næsta dag skal hún verða komin hingað sem vetrarstúlka. Láttu mig ráða fram úr svona litlu. Manga fer vestur í hennar stað. Finnst þér þetta ekki heldur ráðlegra en að fara að þjóta til handa og fóta vestur, og láta einhvern alókunnugan mann hirða skepnurnar þínar“. „Þú getur aldrei hugsað um neitt annað en kvenfólk“, sagði Þórður óþolinmóður. Hann hafði hvað eftir annað reynt að taka til máls, en aldrei komizt að. „Það er engin stúlka í spilinu, sem er fyrir vestan fjall“. „Nú, jæja, þá er ég alveg uppgefinn á því að geta mér þess til, hvað að þér er. Svo skaltu þá reyna að hafa þig á fætur og komast heim, því að líklegast ertu orðinn matlystugur síðan einhvern tíma í gærdag. Við þurfum víst ekki að búast við því, að hús- freyjan í Seli hiti handa okkur morgunkaffið“. Hann greip í brjóstið á Þórði og reisti hann upp til hálfs. Þórður tók gæruskinnið undir hönd sér og bjóst til að fara. „Nei“, sagði hann, þegar hann slengdi hurðinni aftur á eftir sér. „Það verður aldrei framar hitað morgunkaffi í Seli“. „Svo skulum við reyna að láta klárana stíga liðungt heim, við það léttist lundin vonandi“, sagði Jón, þegar þeir komu út á hlaðið. „Ég gæti hugsað, að þú færir varla í loftinu á þessum reið- skjóta“, sagði Þórður háðslega, þegar hann sá Rauð gamla. „Hrossin voru hérna rétt fyrir framan í gær. Þau hafa sjálfsagt ekki farið langt yfir nóttina“, bætti hann við. Þórður reið einn út dalinn. Jón hafði farið að ná sér í liðlegri reiðhest. Þegar út á klifið kom, stanzaði hann og leit yfir dalinn, uppljómaðan í morgunsólinni. Sjaldan hafði hann verið fegurri en núna, þó að skærustu litir sumarsins væru horfnir. Á eyrunum meðfram ánni lá féð rólegt og jórtrandi. Það hafði verið þreytt, eins og smalarnir, og var fæst af því risið á fætur. Þórður þekkti hverja kind, og gat rakið ættir þeirra allt til þess, er hann var smástrákur í Seli, er ærnar voru hafðar þar framfrá fyrst eftir fráfærurnar. Nú stóðu þær næstu upp og sigu í áttina til hans, eins og þæ vildu fagna því, að hann var kominn heim til þeirfa aftur úr þessu vandræða ferðalagi, sem hann hafði ekki haft nokkurt gagn af. Þetta voru vinir, sem hann fann, að hann gæti aldrei skilið við; og hann var alveg hissa á því, að hann skyldi láta sér detta annað eins í hug og að kasta þessu frá sér fyrir ást einnar konu. Það var líklega óþarfi að nefna það konuást. En það var samt svo, að hann gæti aldrei gleymt henni. Hún myndi fylgja honum eins og skugginn hans. Það var þýðingárlaust að flýja vestur yfir fjallið. Minningarnar um Línu og Selið fylgdu honum ávallt. Hér varð hann að vera, og hvergi annars staðar, við hliðina á þessum glaðlynda æskuvini sínum með öllum hans miklu gæðum og mörgu göllum. Annars staðar gat hann ekki hugsað sér að eiga heimili, fyrst að Selsbúskapurinn var búinn að vera. Jón náði honum fyrst, þar sem hann sat á hestbaki í þessum hugleiðingum. Hann stanzaði hestinn við hliðina á Skjóna. Þórður sá gráan gufustrókinn úr nösum hestsins, en hann leit ekki við, þó að húsbóndi hans kæmi til hans. „Er ekki dalurinn okkar fallegur núna, Þórður minn?“ spurði Jón glaðlega. „Jú, hann hefur aldrei verið fegurri“. „Fer þér ekki líkt og Gunnari?“ „Ég hef alltaf skilið hann vel“. „Heldurðu, að þú hugsir nokkuð um flutning fyrst um sinn?“ „Ekki býst ég við því. Kannske dríf ég mig til Ameríku í vor“. „Hvað svo sem ætlarðu að gera til Ameríku? Það eru víst nógu margir farnir þangað. Þú verður hjá mér eitt árið enn, vinur“, sagði Jón og klappaði á þá öxlina á Þórði, sem að honum sneri. Hestarnir skeiðuðu samsíða seinasta spölinn frá Klifinu og heim að bænum. Allir krakkarnir stóðu úti á hlaðinu og fögnuðu Þórði. Þau höfðu verið á sífelldu rölti út og inn, frá því að þau komu á fætur, og getið og bollalagt, hvað orðið hefði af Jóni. Jakob var elztur og skynsamastur. Hann bjóst við, að Skjóni hefði hlaupið af stað meðan Þórður var að kveðja fólkið á Bjarnastöðum, og að hann hefði svo aldrei náð honum. Dísa bjóst við, að Þórður hefði sofnað á hestbaki í ánni, dottið í hana og drukknað. Kristján litli var yngstur. En samt hafði hann séð margt, sem hin höfðu ekki séð, vegna þess að hann var kaupstaðarbarn. Hann gat þess til, að Þórður hefði fótbrotnað. „Alltaf er Kristján nógu heimskur", sagði Dísa fyrirlitlega. „Hann heldur, að fæturnir á mönnunum geti brotnað eins og diskar og bollar“. Hún var ónotalega kaldlynd við Kristján litla. „Spurðu mömmu, hvort hún hafi ekki séð fótbrotinn mann. Það var komið með hann til læknisins", sagði Kristján móðgaður. „Það er rétt, sem hann segir“, sagði Jakob. „Borghildur hefur sagt mér það, að menn geti fótbrotnað". „Þú heldur alltaf með honum“, sagði Dísa gröm. „En þarna kemur maður á Klifið“, kallaði Kristján. „Þetta er áreiðanlega Þórður“, sagði Jakob, en þorði þó ekki að fara strax inn til að segja fréttirnar. „Og þarna kemur annar maður. Það er pabbi. Nú fer ég inn og segi stúlkunum fréttirnar“. UPPSAGN ARBRÉF Það var nokkrum dögum seinna, að Þórður þurfti að fara niður í kaupstað með nesti til Steina. Það var enginn annar til, nema Jakob. En Anna þorði ekki, að hann væri einn á ferð, því að nú var birtan orðin stutt, en leiðin of löng til þess, að hann næði heim í björtu. Lína stóð brosandi við opinn eldhúsgluggann, þegar hún sá reiðingshestana skokka fram hjá. Hún þóttist vita, að Þórður væri á eftir þeim. Hann átti þetta hlýja bros. En hann leit ekki við, heldur horfði fram á sjó eða á eitthvað í kaupstaðnum. Hvað svo sem gat hrifið huga hans svo, að hann gaf sér ekki tíma til að líta upp í gluggann til hennar? Hún gaf hrossaréttinni gætur allan daginn. En hrossin stóðu þar fram í myrkur. Þegar hún var að hengja fyrir gluggann, sá hún þau labba þunglamalega fram hjá með fiskklyfjarnar. En nú mátti hún ekki vera að því að fara út og heilsa kærastanum, því að húsmóðir hennar var frammi. Samt horfði hún út fyrir ofan gluggatjaldið. Hún sá, að Þórður gekk, en teymdi Skjóna. Siggi var með honum. Þeir voru eitthvað að ræða saman, og Þórði datt ekki í hug að líta til gluggans. En sú feimni, hugsaði hún. Líklega hafði hann skilið eftir bréf og glaðning til hennar hjá Sigga. Nokkru seinna heyrði hún„ að glugginn var opnaður, en hann hafði verið ókræktur, og slorug hendi laumaði sendibréfi inn á borðið. Það var krumlan á Sigga. Lína stakk höfðinu út um gluggann með gluggatjaldið á herðunum. Hann stóð fyrir utan. Hún þóttist vita, að hann væri að glenna sig eftir Þórði. En svo var ekki. Hann var fýlulegur á svipinn og steinþagði. „Ætlarðu ekki að segja eitthvað, hrappurinn þinn?“ sagði hún hlæjandi. „Ég hef ekkert annað að segja en að þú ert bölvaður asni“, sagði hann. „Varstu ekki beðinn fyrir neitt annað en bréfið?“ spurði hún. „Nei, það er víst nóg handa þér, gæsin þín“. „Hefur karlinn verið vondur við þig í dag, fyrst að reiðingur- inn liggur svona skammarlega á þér?“ sagði Lína.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.