Lögberg - 28.04.1955, Blaðsíða 4

Lögberg - 28.04.1955, Blaðsíða 4
4 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 28. APRÍL 1955 Lögberg Ritstjóri: EINAR P. JÓNSSON GefitS St hvern fimtudag af THE COLUMBIA PRESS LIMITED 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MaNITOBA J. T. BECK, Manager Utanáskrift ritstjórana: EDITOR LÖGBERG, 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MAN PHONE 743-411 Verð $5.0U um árið — Borgist fyrirfram The “Lögberg't ia printed and published by The Celumbia Press Ltd. 695 Sargent Avenue, Winnipeg, Manitoba, Canada Authorized as Second Class Mail, Poet Office Department, Ottawa Sumri fagnað Erindi, flutt af ÞÓR VÍKING í Fyrstu lúlersku kirkju á sumardaginn fyrsta 1955 Hr. samkomustjóri Góðir áheyrendur: Ég vil hefja mál mitt með því að óska ykkur öllum gleðilegs sumars. Eins og ykkur öllum er kunnugt hefir sumardagurinn fyrsti verið haldinn hátíðlegur heima á Islandi í háa herrans tíð, því miður veit ég ekki hvenær fyrst var farið að halda upp á hann, eins og við segjum heima, en það skiptir í sjálfu sér ekki svo miklu máli; hitt er meira um vert, að hann hefir verið og er enn talinn einn mesti hátíðisdagur ársins á fslandi. fslenzkir landnemar, sem fluttust hingað í Vesturveg, tóku þennan fagra sið með sér að heiman, eins og margt annað gott, er þeir hafa trúlega varðveitt allt fram á þennan dag. Það er vissulega gleðilegt að sjá, hversu margir eru hér samankomnir í kvöld. Sýnir það glöggt, að Vestur- íslendingum finnst ekki síður ástæða til að fagna sumrinu en þjóðbræðrum þeirra heima á landinu okkar kæra. Eitt er það þó, sem ég hlýt að taka eftir og harma, þegar mér verður litið yfir áheyrendahóp minn, þótt hann sé fjöl- mennur og glæslegur. Hvar eru blessuð börnin? Hvers vegna eru þau ekki þátttakendur í þessum hátíðahöldum? Við vitum öll svarið við þessum spmrningum. Börnin eru hætt að mæla á tungu feðra sinna, og að því, er ég bezt veit, þá fagna ekki önnur þjóðarbrot, sem hér eru búsett, komu sumarsins á sama hátt og við fslendingar, þótt hitt verði vart dregið í efa, að hver og einn fagni í hjarta sínu komu sumarsins hverju sinni eftir langan og oft strangan vetur. Eg minnist ekki á þetta atriði hér til að særa tilfinningar ykkar, áheyrendur góðir, heldur vegna þess, að heima á Fróni er þessi dagur fyrst og fremst hátíð barnanna, enda setja þau mestan svip á hann, þótt hinir eldri séu þar að sjálfsögðu virkir þátttakendur engu að síður. Þegar ég byrjaði að semja þetta erindi lét ég það verða mitt fyrsta verk, að viða að mér fáeinum bókum í þeirri von, að ég gæti haft af þeim nokkurn stuðning. A meðal þessara bóka voru m. a. „íslenzkir þjóðhættir“ eftir séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Þykir mér vel við eiga að birta hér stuttan kafla um sumardaginn fyrsta eftir séra Jónas, og er hann á þessa leið: „Sumardagurinn fyrsti var lengi mesta hátíð á landi hér, næst jólunum. Enda var það ekki að furða, þar sem ísland er hart land og hverjum manni kært áhugamál, að sumarið komi sem fyrst. Þá var fyrrum haldið heilagt og messað, en það var aftekið með tilskipun 29. maí 1744, 23. gr., en venja hefir það verið, að minnsta kosti hér nyrðra, að fólk ætti frí þann dag. Þá var vant að lesa, undir éins og komið var á fætur, en síðan var skammtað ríflega af öllu því bezta, er búið átti til: hangiket, magálar, sperðlar, pottbrauð, flot, smér og önnur gæði. Víða var og sent í kaupstað fyrir sumarmálin til þess að fá sér á kút, því að þá var oftast tekið að gerast tómlegt heima; og eftir að kaffi fór að flytjast, varð algengt að gefa kaffi og lummur á sumardaginn fyrsta. Það mátti ekki til sleppa með það, að geta fagnað sumrinu sem bezt auðið var. Þá var og annað, sem ekki einkenndi þann dag síður; það voru sumar- gjafirnar. í stað þess að aðrar þjóðir hafa jólagjafir og nýársgjafir, hafa sumargjafirnar einar .verið hér þjóðlegar um langan aldur og eru enn í dag, að minnsta kosti hér norðanlands. Hjónin gáfu hvort öðru gjafir og börnum sínum og stundum öllu heimafólkinu. Börnin og heima- fólkið gáfu stundum húsbændunum gjafir aftur, og svo hvert af öðru. Oft voru gefnar heljar-stórar pottkökur og þóttu þær kostagjafir á þeim árum, þegar lítið var um brauð hér á landi. Nú er þessi siður að leggjast niður, að minnsta kosti í kaupstöðunum og í grennd við þá, og útlenda lagið með jólagjafir að koma í staðinn. En svo fátt eigum vér Islendingar af þjóðlegum menjum, að það má ekki minna vera, en haldið sé í það, sem enn er til. Algengt var það og þann dag, að unglingar söfnuðust saman til þess að glíma, og bændur riðu út til þess að hressa sig hvor hjá öðrum, þegar bærilega voraði og ekki var kúturinn orðinn tómur. Nú er víða orðið mjög dauft yfir þessum degi, einkum syðra, og er illt til þess að vita“. Þannig farast séra Jónasi orð um sumardaginn fyrsta. Eins og ég sagði fyrr í erindi mínu, þá er komu sumars- ins enn minnst hátíðlega í borg og byggð á íslandi með ýmsu móti og þá að sjálfsögðu nokkuð á annan veg, en lýst er í kafla séra Jónasar. Og nú hefir sumardagurinn fyrsti verið lögskipaður frídagur um árabil. Ég er uppalin í sveit, eins og sennilega flest ykkar, sem hér eruð stödd í kvöld. Frá því er ég man fyrst eftir mér, var sumardagurinn fyrsti alltaf haldinn hátíðlegur þ>ar í sveit. Ævinlega fengum við krakkarnir einhvern glaðning þann dag, og hátíðamatur var á borðum, eins og vera bar. Fólk skiptist á heimsóknum, óskaði hvort öðru gleðilegs sumars og rabbaði um daginn og veginn; en við krakkarnir fórum í ýmsa leiki svo sem „Slagbolta“, „Felu- leik“, „Útilegumannaleik“, „Eitt par fram fyrir ekkju- mann“, „Skessuleik“ o. s. frv. Var oft glatt á hjalla hjá okkur. Víða í sveitum á íslandi var það venja og er enn, að hleypa kúnum út á sumardaginn fyrsta, þegar vel viðraði. Var þá oft spaugilegt að sjá hvernig kýrnar höguðu sér. Þær stuttu upp í loftið og hlupu um allt túnið með halana sperta beint upp í loftið. Ef moldarbarð varð á leið þeirra, þá ráku þær í það hausinn af slíkum krafti, að moldargusurnar stóðu í allar áttir. En mest gaman þótti okk- ur krökkunum þó að sjá til kálfanna, sem sumir hverjir litu nú dagsins ljós í fyrsta sinni. Þeir bókstaflega kunnu sér ekki læti, greyin, heldur hlupu og hoppuðu þar til þeir voru spreng móðir og dauðuppgefnir. Þegar ég var 17 ára að aldri, fluttu foreldrar mínir til Reykja víkur, og þar átti ég svo heima, þar til ég kom hingað vestur. Skal ég nú í fáum orðum lýsa sumardeginum fyrsta í Reykja- vík, eins og hann kom mér fyrir sjónir. • Það er heiðskír og bjartur morgunn og sólin sendir geisla sína yfir borgina. Ég finn þá leika um andlit mitt, og vor- ilmur berst inn um opinn glugg- ann. Á svipstundu er ég glað- vaknaður, klæði mig í snatri og dríf mig út í ferskt morgun- loftið. Það er allt of gott veður til þess að sofa. Heillaður virði ég fyrir mér hið dásamlega út- sýni. Fjöllin í nágrenni borgar- innar sýnast fegurri og hlýlegri en nokkru sinni fyrr. Þau hafa þegar kastað af sér vetrarhamn- um og eru jafnvel byrjuð að klæðast sumarskrúða sínum. — Mér verður gengið niður að höfninni, hún er spegilslétt og yfir henni svífa fuglar, sem öðru hvoru stinga kollinum niður í sjóinn í leit að síli eða einhverju öðru góðgæti. Við bryggjurnar liggja skipin, stór og smá, skreytt íslenzkum fánum stafna á milli. Á ýmsum helztu bygg- ingum borgarinnar blaktir okk- ar fagri fáni í morgungolunni. Það er vorangan í lofti og maður fyllist innilegum fögnuði yfir hinni fögru mynd, sem við sjón- um blasir, hvert sem litið er. Á slíkum stundum, sem þessari, minnist maður með þakklæti og lotningu „gjafarans allra góðra gjafa“. Er ég hefi dvalið við höfnina góða stund, verður mér gengið upp í bæinn. Klukkan er nú farin að ganga tíu. Margt fólk er þegar komið út á strætin. Mest ber þó á börnum á öllum aldri. Þau eru öll klædd sínum beztu fötum, mörg þeirra í þjóð- búningum, og öll eru þau með lítinn íslenzkan fána í hendi. Þarna getur að líta kynslóðina, sem á að erfa landið, hún er frjálsmannleg og ber höfuðið hátt. — Börnin raða sér nú upp í langa fylkingu. Lúðrasveit Reykjavíkur bætist í hópinn og stillir sér upp í fylkingarbrjósti. Svo fer þessi glæsilega fylk- ing af stað og lúðrasveitin leikur ættjarðarsöngva. Þannig fara börnin í skrúðgöngu um götur borgarinnar, en hinir eldri standa á gangstéttunum beggja megin og virða fyrir sér með velþóknun æsku landsins, sem framhjá gengur. Eftir hádegið hefjast vandaðar og fjölbreyttar barnaskemmtanir í öllum sam- komuhúsum borgarinnar. — Að kvöldinu skemmtir svo full- orðna fólkið sér við dans og annan gleðskap fram eftir nóttu. Ég veit vel, að þessi fátæklegu orð mín verða aðeins ófullkom- in mynd af hátíðahöldunum heima á sumardaginn fyrsta eins og þau voru og eru enn þann dag í dag, því að eins og þið vitað, er sjón sögu ríkari. En til þess að skýra og fullkomna þessa mynd, leyfi ég mér að lesa hér fjögur kvæði, enda á það vel við, því að enginn hefir sungið vori og sumri fegri óð en einmitt skáldin okkar góðu fyrr og síðar. Kvæðin, sem ég les eru eftir Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein og Guðfinnu Þorsteinsdóttur. Jónas lýsir vorinu þannig: Vorið góða, grænt og hlýtt, græðir fjör um dalinn: allt er nú sem orðið nýtt, ærnar, kýr og smalinn. Kveður í runni, kvakar í mó kvikur þrastasöngur; eins mig fýsir alltaf þó aftur að fara í göngur. Hannes Hafstein kveður um vorið á þessa leið: Heill þér ylur, heill þér ljós, heill þér vorsins andi. Heill til fjalls og heill til sjós. Heill sé öllu landi. Blessað sértu, blessað vor, blessun öllum gefðu. Rek í fjörðu fiskamor, foldina gróðri vefðu. Eitt þó blessist allra mest æ með hverju vori, drottins gjöfin drýgst og bezt: dugur, með kjark og þori. I kvæði, er nefnist „Sumar- kveðja“, farast Hannesi þannig orð: Velkominn, andsvali vordagsins bjarta, von og gleði fagna þér, hressandi blær. Anda þú, lífþrunginn, eins á vort hjarta eins og hvert það blóm, sem nú vaknandi grær. Vek hjá oss æskunnar andheita mál, eins og þú vekur upp sofandi fræin. Hreinsa þú allt eins vorn anda og sál, eins og þú lofthreinsar bæinn. Jörð, þú sem rís nú frá kuldum og klaka, kenn þú oss að grípa hvern frjóvgandi blæ, kenn oss mót sérhverjum sólgeisla’ að taka, svo vér getum lífgað upp blómanna fræ. Kenn þú oss snær, sem hið blíðheita bál bræðir, svo verður þú streymandi alda, þannig að láta úr sjálfra vor sál sannleikann bræða hið kalda. Kvikstreymu vötn, þið sem kastið nú böndum, kennið oss að fylgjast í aflþéttum straum, jökum og kraphroða kasta oss af höndum, kennið oss að magnast við byltingaflaum. Kenn þú oss, kenn þú oss, fagnandi foss, fall er ei hel, það er þrek, sem oss varðar. Fallandi rænir þú regnbogans koss, rennur svo lengra, því harðar. Velkomið, velkomið, sumarið sæla, sumardagur fyrsti, þú hátíð vors lands! Elskar þig barn hvert, sem mál vort kann mæla, minningar og vonir þér bindum í krans. Vorsql, sem framleiðir vínberja glóð, vorgjöfum þínum vér að þér nú snúum. Glaðir vér færum þér gleðinnar óð, gladdir af blikandi þrúgum. Guðfinna kveður um vorið á þessa leið: Loksins finn ég létta löngum vetrardvala. Glaðnar í geði. Grænka lít ég bala. Blíður við blómin blærinn fer að hjala. Vetur frá völdum veik á sumarmálum. Vordísir veita veig af gullnum skálum. Unaðsleg ölvan örvar gleði sálum. Andvarinn ylnar. Eyðist vetrarklaki. Oft er mér órótt undir lágu þaki. Fagna ég sem fangi frjáls á andartaki. Skært geislar skína. Skuggar burtu læðast. Gulbleikar grundir gróðurmöttli klæðast. Vorhugur vaknar. Vonir djarfar fæðast. Sólgeislinn svási sál úr dróma leysti. Fljótt kveikti funa falinn orkuneisti. Teygum og teygum táp og fjör og hreysti! Allt, sem að andar, opnar þyrsta munna. Lífið er leikur, ljúft er að starfa’ og unna. Bergjum og bergjum bikar vors til grunna! • Dimmir í dölum. Degi tekur halla. Sólin er sigin. Svalar daggir falla. Kvöldið er komið. Kyrrðin laðar alla. Vott glitrar vengi. Vængjum fuglar blaka. Lofgerð til lífsins lóur glaðar kvaka. Lengur og lengur langar mig að vaka. Ljúft er að lifa ljósar maínætur. Vaknandi vorið vinnur öllu bætur. Hátt er til hæða. Huggast allt, sem grætur. Húmar og húmar. Hljóðnar fuglakliður. Flyzt mér úr fjarlægð fossa’ og vatna niður. Hjarta mitt heillar höfgur næturfriður. Þau þrjú skáld, sem ég hefi hér lesið ljóð eftir, urðu ekki fyrir valinu vegna þess að ég teldi þau öðrum góðskáldum Islendinga fremri, heldur valdi ég þau aðeins af handahófi. Það hefir oft verið sagt um íslendinga, að þeir ættu erfitt með að vinna saman í einlægni, þeir deildu um alla skapaða hluti milli himins og jarðar. Þetta mun rétt vera að miklu leyti, og hefir það bæði sína kosti og galla. Vestur-lslend- ingum svipar í þessu, eins og svo mörgu öðru, til þjóðbræðra sinna austan hafsins. Þeir deila um trúmál og pólitík og eflaust margt fleira. Um þetta er ekki annað en gott eitt að segja, svo framarlega, sem þessar deilur ganga ekki út í öfgar, því að slíkt þjálfar hugann og skerpir hugsunina, — og dauflegt væri í heimi vorum, ef allir hugsuðu á sama veg. Hlustendur góðir, ykkur finnst eflaust, sumum hverjum a. m. k., að ég sé kominn út fyrir efni það, sem erindi mitt átti að fjalla um. En ástæðan til þess, að ég minnist á þetta hér, er sú, að, eins og ykkur öllum er kunnugt, þá er annar hópur Is- lendinga að fagna sumrinu á öðrum stað með svipuðum há- tíðahöldum og þeim, sem hér fara fram. Fyrir mitt leyti þá finnst mér, að það væri ólíkt ánægjulegra, ef íslendingar hér í borg fögnuðu komu sumarins sameiginlega hverju sinni með einni vandaðri samkomu í stað tveggja, eins og verið hefir undanfarna áratugi. Það hafa vafalaust margir sömu sögu að segja í þessu efni, eins og mað- urinn, sem átti tal við mig hér á dögunum. Hann sagði við mig meðal annars: „Þú ætlar að halda ræðu á sumardaginn fyrsta; ég hefði gjarnan viljað hlusta á þig, en það er önnur sumarmálasamkoma haldin hér í kvöld og þar flytur glæsileg ung stúlka ræðu — ég má til með að hlusta á hana!“ En svo bætti hann við, mér til hugg- unnar og andlegrar hressingar, „að konan sín vildi heldur hlýða á mig! Þetta er alvarlegt mál. Sennilega lýkur því með hjóna- skilnaði!" Að endingu kveð ég ykkur með þeirri ósk, að sumarið, sem nú fer í hönd, megi færa ykkur öllum sanna hamingju og far- sæld. Gjafir til Betel Mrs. G. Thomasson, Beaver, Man., $10.00; Mrs. Magný Helga- son, Winnipeg, Man., $25.00; Mr. Kristinn Johnson, Gimli, Man., $5.00; Sæunn Bjarna- son, $10.00 til minningar um Fröken Þórunni Einarsdóttur og Sigurð Kristófer Pétursson rit- höfund á Laugarnes-sjúkrahúsi; Einar Sigurdson $25.00 í minn- ingu um ástkæran bróður Jó- hannes Einarson; Mrs. Elín Anderson, Vancouver, B.C., $10.00; Selkirk Lutheran Ladies Aid, Selkirk, Man., $25.00; H. Sigurdson, Winnipeg, Man. $25.00; Vinur Betels, Gimli, $5.00; Mr. og Mrs. Árni Sigurd- son, Foam Lake, Sask., $5.00 í minningu um Guðrúnu Johnson; Mr. og Mrs. John Goodman, Leslie, Sask,, $5.00 í minningu um Guðrúnu Johnson; T. J. Gíslason, Morden, Man., $10.00; Guðrún Sturlaugsson, Betel, $1.00; Sigurður Goodman, Betel, $2.00; Mr. og Mrs. Peterson, Betel, $5.00; S. A. Sveinsson, Betel, $20.00; Mrs. G. Berg, Betel, $2.00; Mrs. N. Friðriks- son, Betel, $10.00; Henrietta Johnson $5.00 í minningu um Mrs. Breckman; Ingibjörg Sveinsson, Gimli, $20.00; Ice- landic National League, Gimli, $40.00; Lutheran Ladies Aid, Gimli, $25.00 í minningu um Thorbjörn Magnússon; Luth- eran Ladies Aid, Winnipeg, $205.00. S. M. Bachman. Treasurer, Ste 40, 380 Assiniboine Ave. Winnipeg, Man. Sendið peninga á öruggan hótt Hvenær, sem þér hafið í hyggju að senda peninga til ættlands yðar, eða hvar, sem vera vill í Canada, skuluð þér syrjast fyrir í The Royal Bank of Canada. Engu máli skiptir um upphæðir, vér sendum þær á öruggan hátt, vafningalaust og með litlum tilkostnaði. Viðskipii yðar eru kærkomin! THE ROYAL BANK OF CANADA Sérhvert útibú nýtur trygginga allra eigna banlcans, sem nema yfir $2,675,000.000

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.