Lögberg - 28.04.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 28.04.1955, Blaðsíða 6
6 J ~ GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF ^— —r „Hvað er þetta, mamma, því liggur þú þarna? Þú ert þó von- andi ekki mölbrotin?“ spurði hann og hringsnerist alveg ráðalaus. Svo sparkaði hann í moðpokann. „Það hafðist þetta gott af því að Helga fór að biðja þig að reykja þetta kjöt. Hún hefði víst alveg eins getað gert það sjálf“. „Reyndu að koma mér heim á litla sleðanum“, lagði hún til málanna. „Ég get víst ekki gengið, hversu fegin sem ég vildi“. Doddi var fljótur eftir sleðanum. Hildur var sezt upp, þegar hann kom aftur. „Heldurðu að þú sért mölbrotin, mamma?“ spurði hann áhyggjufullur. „Æ, ekki held ég það. Ég get bara ekki hugsað til þess. Guð varðveiti mig“, stundi hún. Doddi kom henni inn í rúm. „Þetta var nú það lakasta, sem fyrir gat komið“, sagði hann. „Á ég ekki að skreppa yfir að Hjalla og biðja hana Sigþrúði að finna þig?“ „O-jú, líklega verð ég að reyna að biðja hana að vera hjá mér í dag að minnsta kosti. Samt vona ég, að ég sé ekki brotin. En ég finn mikið til“. Doddi var horfinn, áður en hún hafði lokið því, sem hún var að segja. Nú var áin lögð og ekki nema nokkurra mínútna gangur á milli bæjanna, enda voru þau komin aftur eftir ótrúlega stutta stund. Sigþrúður athugaði meiðslið og fullvissaði þau um, að ekki væri um beinbrot að ræða, en hún væri háskalega marin og fóturinn væri að bólgna. „Ég fann, að hann bögglaðist undir mér, þegar ég datt“, sagði Hildur. Doddi ranglaði um gólfið kvíðafullur og spurði hvað eftir annað: „Heldurðu að það verði að sækja lækni, Sigþrúður? Heldurðu það?“ „Það held ég ekki. Ég hita vatn í bakstra. Verst að hafa ekki arniku. Hún er afbragð við marinu“, sagði hún. Doddi varð rólegri, þegar hann heyrði, að það myndi ekki þurfa að sækja lækni. „Hefur ekki læknirinn það meðal?“ spurði hann. „Jú, náttúrlega hefur hann það“. „Ég get nú líklega skroppið ofan eftir, meðan kindurnar eru úti. Það eru engar hættur núna, og það getur hreint ekkert orðið að þeim“, sagði Doddi ákafur. „Aumingja Doddi minn, alltaf er hann eins hugsunarsamur“, sagði Hildur. Doddi dreif sig úr hversdagsfötunum í snatri, klæddi sig í skárri föt, fór í sokka með bláum fitjum og þvoði vandlega vörpin á skónum, því að aðrir skór voru glerharðir og nú var ekki tími til að bleyta þá. Hann batt á sig skauta, svo að hann yrði fljótari. Áin var ísi lögð alla leið til sjávar. Doddi fór sjaldan í kaupstaðinn. Helzt hefði hann kosið að koma þangað aldrei. Hann var feiminn við Ósbúa, einkanlega þá, sem bjuggu í þessum stóru, fínu húsum. Það voru líka þessi vandræði að muna þessar þéringar. Hann leysti af sér skautana og gekk hikandi heim að læknishúsinu. Hvar skyldi nú svo sem eiga að berja á þessari fagurgrænu höll? Hann gekk allt í kring- um húsið. Kannske væri betra að hann færi að þessum, hugsaði hann og nálgaðist eldhúsdyrnar. Lína var inni í eldhúsinu og sá, hvað Doddi var vandræðalegur. "Hún opnaði gluggann og bauð góðan daginn. Doddi varð alveg hissa. „Góðan daginn! Ert þú hérna, Lína? Ég hélt, að þú væri úti á Strönd“, sagði hann. „Ég hef verið hérna síðan í vor á krossmessunni“, svaraði hún og hló að vandræða- og undrunarsvipnum á honum. Hann starði á hana dálitla stund. Svo spurði hann eftir lækninum. „Hann er ekki heima“. „Ekki heima! Nú lízt mér á það“, sagði Doddi og sló á lærið. „Er nokkuð að hjá þér, Doddi minn?“ spurði hún og hætti að hlæja. „Ég hefði nú haldið það. Hún mamma bara datt nú svona þetta litla. Ég mátti bera hana inn. Hún gat ekki tyllt í fótinn. Ég hélt, að hún hefði stórslasað sig og brotið, en Sigþrúður heldur, að svo sé ekki. En ég átti að fá eitthvað hjá lækninum, en ham- ingjan hjálpi mér, ég er alveg búinn að gleyma, hvað það hét, þetta meðal“, sagði Doddi og hristi höfuðið yfir sínum margföldu vandræðum. „Svo að þú hefur ekki ætlað að fá lækninn fram eftir?“ spurði Lína. „Nei, blessuð vertu. Það væri nú held ég ekki fyrir hann að koma inn í kofana á Jarðbrú. Reyndar kom hann nú fram eftir, þegar veikindin voru hjá okkur. Ég get nú svo sem ekki dáðst að honum, þau dóu bæði, pabbi sálugi og hún“, rausaði hann. Lína beit sig í varirnar, svo að hún færi ekki að hlæja. Doddi var nú einu sinni syona vandræðalega hlægilegur, að það var arfitt að stilla sig í návist hans. „Heldurðu að það hafi kannske verið arnika, sem þú áttir að fá hjá lækninum?“ spurði hún. Henni fannst það líklegast, fyrst hann var ekki með neina sjúkdómslýsingu. „Alveg rétt hjá þér, það hét því nafni“, sagði Doddi og andlit hans ljómaði af ánægju. „Blessuð vertu fyrir að muna það fyrir mig“, bætti hann við. „Þá getur frúin tekið það til. Komdu inn í eldhúsið og settu þig niður á meðan“. Doddi gekk hikandi inn á hvítskúrað gólfið og tyllti sér á stólinn, sem Lína bauð honum að sitja á. Lína fór inn til að tala við læknisfrúna fyrir Dodda. Hann horfði athugull kringum sig. Skárri voru það nú fínheitin. Það var allt hreint og glansandi. Það átti víst vel við hana að vera innan um þetta, þessa fínu stúlku. Hann sárlangaði í kaffið, sem rauk upp af í kaffikönnunni LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 28. APRÍL 1955 á glansandi vélinni. En það var víst aldrei gefið kaffi í þessum fínu húsum. Lína kom fram aftur. Frúin ætlar að taka þetta til handa þér, svo að þú farir ekki erindisleysu. Er mamma þín ein í bænum, meðan þú fórst hingað ofan eftir?“ „Nei — Sigþrúður á Hjalla er hjá henni. Það er nú kona . . . .“ „Sem um er talandi", botnaði Lína. Þetta var svo leiðinlegt að hafa það svona, þó að Doddi gæti ekki látið það líta betur út. „Já, já“, sagði Doddi feginn og tók upp vasaklút og þurrkaði sveitt andlitið. „Það var -einmitt það, sem ég ætlaði að segja“. „Þú ert sveittur", sagði Lína. „Hljópstu alla leiðina?“ „Nei, ég var á skautum. Ég verð að flýta mér, ef þetta gæti bætt líðan aumingja mömmu“. Frúin kom fram rétt í þessu. Doddi spratt upp og heilsaði henni virðulega. Hún setti glas á borðið. „Þarna er nú arnikan“, sagði hún og athugaði gestinn frá hvirfli til ilja. Doddi spurði, hvað hann ætti að borga. Hún nefndi upp- hæðina, sem ekki var há, og hann fékk henni borgunina án þess að lenda í neinum vandræðum með að telja það saman, sem Lína hafði þó kviðið fyrir að kannske yrði. „Látið þér manninn fá kaffi, Lína. Hann hefur gengið hratt. Náttúrlega góður sonur“, sagði frúin um leið og hún fór inn um sömu dyrnar og Lína hafði farið inn um áður. Doddi horfði á eftir henni, þangað til hurðin lokaðist. „Hún er víst ljúf og lítillát“, sagði hann og leit til Línu. „Já, hún er góð kona“, sagði hún. Lína setti brauðfat og sykurkar á borðið. Doddi horfði á það með ánægjubrosi. Svo kom kaffið. Doddi hrærði lengi í bollanum. „Ég var að hugsa um, hvort skautunum mínum væri óhætt“, sagði hann. „Það gætu einhverjir strákar tekið þá“. „Þú mátt vera rólegur, ég sé þá hérna út um gluggann". „Ó-já, það er rétt, þarna liggja þeir, greyin“, sagði Doddi og fór að drekka úr bollanum. Svo fór hann allt í einu að ræða sín vandamál við Línu, enda voru þau kunnug frá því þau voru krakkar út á Ströndinni. „Það verður bágt, ef mamma auminginn kemst ekki á fætur aftur. Hvernig skyldi ég svo sem geta heyjað handa skepnunum, þó að þær séu ekki margar. Það munar um hana, þegar hún kemur með hrífuna, þó að hún sé farin að eldast“. „Það kemur ekki til þess“, sagði Lína hughreystandi. „Annars tekurðu þér bara kaupakonu eða vinnukonu“, bætti hún við brosandi. Hana langaði alltaf til að hlæja að Dodda. „Já, hver skyldi nú svo sem vilja fara til okkar, fátæklinganna, í þessa þó kofa“, sagði hann og hristi höfuðið. „Það er líklega bezt, að ég fari til þín, Doddi minn“, sagði hún hlæjandi. „Ég á nokkrar kindur á Nautaflötum, sem mér leiðist að eyðileggja, og svo langar mig alltaf fram í dalinn“. Hann brosti. Auðvitað vissi hann, að þetta var gaman. „Ég er hræddur um, að þér brygði við húsakynnin — úr þessum líka fínheitum“, var það eina, sem hann sagði. Lína hellti aftur í bollann, en svo þurfti hún eitthvað frá, en kom svo aftur, þegar hann var að enda við kaffið. „Þetta var nú meiri blessuð hressingin“, sagði hann og rétti henni höndina í kveðjuskyni. „Vertu blessuð, og þakka þér fyrir kurteisina“, sagði hann, setti upp húfuna og tók glasið af borðinu. „Þá gleymdi ég alveg að spyrja hana, hvað ætti að telja marga dropa í einu. Kannske það standi á miðanum?“ „Nei, þetta er bara áburður, en ekki inntaka“, sagði Lína. „Sigþrúður veit, hvernig á að nota það“. Þá hljóp Doddi út, greip skautana sína og var samstundis horfinn. Lína hló dátt. „Aumingja Doddi, alltaf finnst manni hann svo hlægilegur. Þó er þetta ósköp saklaus og góður piltur — það vissu allir“, sagði hún við sjálfa sig. Kindurnar stóðu við fjárhúsdyrnar, þegar Doddi kom heim. Hann opnaði fyrir þeim, svo að þær gætu komizt til rólegheita. Síðan flýtti hann sér heim til bæjar. Sigþrúður var búin að mjólka kúna og ljúka við fjósverkin. Beið hún nú þess, að Doddi kæmi heim til að hjálpa henni að bera Hildi milli rúmanna, svo að hún gæti búið um hana. „Jæja, þá er ég nú kominn og búinn að láta féð inn. Ég var svo hygginn að gefa á garðann í morgun. Svo bara skrepp ég út og gef klárunum tuggu, þegar ég er búinn að borða“, rausaði hann lafmóður, um leið og hann kom inn á gólfið. „Og svo er meðalið hérna. Það á ekki að taka það inn, heldur bera á þar, sem hún meiddi sig“. „Já, auðvitað“, samsinntu þær báðar. „Ég var nú farin að óttast, að þú gleymdir nafninu á því, fyrst Sigþrúður skrifaði það ekki“, sagði Hildur. „Rétt hugsaðir þú“, sagði Doddi. „Ég var búinn að stein- gleyma því, þegar ég kom ofan eftir. En það var þá kannske stúlka þar, sem gat sagt mér, hvað við átti. Og svo bara gaf hún mér kaffi á eftir. Það er víst góð manneskja". „Já, hún Lína, sem var á Nautaflötum“, sagði Sigþrúður. „Já, það er hún. Ég varð hissa að sjá hana þar. Hún hefur ekki ófríkkað, síðan hún fór þaðan, enda vantar ekki fínheitið og stássið“, sagði hann. „Ég kannast nú held ég við hana“, sagði Hildur, „hana Línu litlu frá Háakoti“. „Hún er víst áreiðanlega góð“, sagði Doddi brosleitur. Sigþrúður kvaddi, þegar hún var búin að búa um og hag- ræða Hildi sem bezt hún gat, en hún sagðist koma morguninn eftir til að mjólka kúna. Doddi fór út að gefa hestunum. Þegar hann kom inn aftur, settist hann á rúmstokkinn hjá móður sinni. Henni sýndist hann einkennilega brostleitur. „Það er gott, að þér líður betur“, byrjaði hann samtalið. „En á ég að segja þér nokkuð, sem hún sagði, hún Lína. Hún sagði, að það væri bezt að hún færi til mín sem vinnukona í vor. Hún sagðist eiga kindur, sem sig langaði til að eyðileggja ekki. Hvernig lízt þér á það?“ „Ja, hverslags þó“, sagði Hildur. „Hún hefur bara sagt það í gamni og gríni. Hún gæti nú sjálfsagt ekki gert sér það að góðu að vera í kofunum hérna, eftir að hafa verið í læknishúsinu og Nautaflatabænum“. Þá hætti Doddi að brosa. „Heldurðu það, mamma? Heldurðu að hún hafi bara verið að segja það í gamni? Því á ég bágt með að trúa. Öllu gamni fylgir þó einhver alvara“, sagði hann, og datt þarna allt í einu ofan á íslenzkan málshátt móður sinni til mikillar undrunar. „Ójá, það segir það nú máltækið. En ég er nú ekki trúuð á, að hún hafi meint eitthvað með því. Hún er bara kát og hefur verið að spauga við þig. Henni bjóðast sjálfsagt nógar vistir, sem eru heldur álitlegri en að fara til okkar“, sagði Hildur. Það var svo ekki talað meira um það. En Doddi fór að hugsa allt öðruvísi en hann var vanur. Hann var sífellt að hugsa um lítinn, rauðan munn og broshýr augu, beran, fallegan háls með svörtu bandi utan um, sem gulldjásn hékk neðan í, tággrannan líkam% klæddan í ljósleitan kjól. Og stundum heyrðist honum hann heyra dillandi hlátur einhvers staðar nærri sér. Hann fór að þrá að hafa þetta allt nálægt sér, svo að hann gæti séð hana á hverjum degi, svo að hann gæti horft á hana svona raunverulega* ekki bara svona í huganum. Hann fór að þrá það jafn innilega eins og að búa skuldlaust og fylla út sparijakkann af Páli bróður sínum. Þær óskir hans höfðu rætzt — því skyldi þá ekki eins geta farið með þessa? „Þú hefðir það rólegra, mamma, ef hún kæmi hingað“, sagði hann eitt kvöldið, þegar þau höfðu setið lengi þegjandi. Reyndar var það ekki nema hann, sem sat, því að Hildur var enn í rúminu. „Ertu alltaf að hugsa um þetta, góði minn?“ sagði hún hlý- lega. „En hún þyrfti að fá svo hátt kaup, en við erum ekki fær um að borga mikið“. „Já, en hún sagðist eiga kindur. Þá þyrfti ekki að borga henni út“, sagði hann raunalega. „Það kemur ekki til þess, góði minn. Hún hefur bara verið að segja þetta að gamni sínu. Hún er víst glaðlynd eins og mamma hennar var“, sagði Hildur. Doddi varð enn raunalegri á svipinn. Sigþrúður kom yfir um á hverju máli til þess að mjólka kúna og búa um Hildi. Hitt reyndi Doddi að gera. Fóturinn á Hildi var bólginn og stirður. Morguninn eftir, þegar Sigþrúður sat hjá Hildi og þær voru að drekka kaffi, sem Doddi hafði hitað og hún hældi honum fyrir, hvað það væri gott, sagði Sigþrúður svo til þess að segja ein- hverjar fréttir: „Ég heyrði í gær, að hún kvað ætla til Vesturheims í vor, hún Lína, sem hefur verið á Nautaflötum undanfarin ár“. „Það hefur orðið lítið úr þessari trúlofun, sem Helga á Hóli var að segja eftir Ketilríði. Það var Þórður og hún“, sagði Hildur. „Hún var sí og æ að staglast á því“, sagði Sigþrúður. „Það hafa víst fáir séð það nema hún. Þetta var nú líka meira ruglið í henni, vesalingnum, meðan hún lifði. Ég var alveg hætt að hafa orð á því við nokkra manneskju, sem hún sagði mér“. „Það er hyggilegast að gera það ekki, þegar þessar mála- skjóður eru að segja manni heilaspuna sinn“, sagði Hildur. Doddi, sem hafði verið að drekka kaffið ánægjulegur á svip yfir hólinu, sem hann hafði fengið fyrir kaffilögunina, spratt nú allt í einu á fætur og stóð eins og upphrópunarmerki fyrir framan Sigþrúði og spurði áfergjulega: „Hver hefur sagt þér það?“ „Þóra í Hvammi sagði mér það í gær“. „En ertu nú viss um, að það sé áreiðanlegt?“ spurði Doddi, og nú kom sami raunalegi svipurinn á hann eins og kvöldið áður. „Það drífa sig margar þangað vestur“, sagði Sigþrúður og brosti góðlátlega að framkomu Dodda. „En leiðinlegt er að fylgja börnunum áleiðis þangað. Mér finnst það lítið betra en að sjá á eftir þeim ofan í gröfina“. Hildur deplaði augunum framan í Dodda. Hann skildi, að hann hafði hagað sér kjánalega, og settist afur í sæti sitt daufur í bragði. Hildur sá, hvað honum var brugðið, og þóttist skilja, að hann væri enn að hugsa um Lilju. — Einkennilegt var, að drengn- um skyldi detta þessi heimska í hug, sem aldrei gat orðið að veruleika, hugsaði hún og varð döpur líka. ÉG DRÍF MIG ... „Ég dríf mig ofan eftir einhvern seinni part dags, þegar þú ert orðin svo.frísk, að þú getur farið yfir að Hjalla og setið þar á meðan ég er í burtu“, sagði Doddi, þegar Sigþrúður var farin. „Geturðu ekki hrundið þessu úr huga þér, góði minn?“ sagði móðir hans. „Ég er búin að segja þér, að þetta hefur bara verið glens og gaman“. „Það er ég ekki viss um“, sagði Doddi. Daginn eftir klæddi Hildur sig, en hún gekk hölt. Samt aftók hún, að Sigþrúður væri að ómaka sig oftar yfir um til þess að mjólka. Hún hlyti að geta staulast fram í fjósið. En Doddi var óþalinmóður yfir því, að geta ekki talað við Línu. En hann gat ekki hugsað sér að skilja móður sína eina eftir í bænum. „Þú hlýtur að geta setið í sleða yfir að Hjalla“, sagði Doddi næsta dag á eftir. „Ég verð að vita vissu mína um Línu. Ég á bágt með að sætta mig við það, að hún fari til Vesturheims, svona falleg stúlka“. „Þær hafa nú víst ekkert á móti því, þó að þær séu laglegar. Þar eru nóg fínheitin, og þær giftast ríkum embættismönnum og lifa í allsnægtum“, sagði Hildur. „En þú getur farið, þegar þú vilt mín vegna. Ég get líklega setið ein þann tíma. Hvað skyldi svo sem geta orðið að mér á meðan þú hleypur ofan eftir. Ekki varstu svo lengi um daginn“. Doddi ætlaði að hætta á það. Ólíklegt væri, að hún færi sér aftur að skaða. Hann lagði í bleyti brydda skó, svo að hann þyrfti ekki að fara á hversdagsskónum eins og sbinast. Hann lét féð og klárana inn úr miðjum degi. Hann klæddi sig í sparijakkann af Páli bróður sínum og fór í bláu leistana til fótanna. Nú varð að tjalda því, sem til var. Svo steig hann á skíði sín, því að nú var ekki lengur skautafæri, og geystist úr hlaði. Lína sat upp á eldhúsborðinu og heklaði, þegar Doddi kom kafrjóður inn á gólfið. Hann hafði alveg gleymt því, að það var vanalegt að banka á hurðina. Hann greip svo hastarlega í hendina á henni, að hún missti heklunálina á gólfið. „Sæl og blessuð! Þakka þér fyrir síðast“, sagði hann. „Komdu sæll, Doddi minn“, sagði hún og byrjaði strax að ' hlæja, en reyndi þó að stilla sig. „Er mamma þín ennþá í rúminu?“ spurði hún. „Ó-nei, hún er farin að klæða sig, en hún er ennþá hölt. Ég vona, að það skáni með tímanum“, sagði hann glaðlega. „Ætlaðir þú þó ekki að finna læknirinn?“ spurði Lína. „Nei, ég kom bara til að finna þig upp á þetta, sem þú varst að tala um við mig um daginn, nefnilega þetta, að fara til okkar eftirleiðis. Var það bara glens eða spaug? Það er það, sem mamma óttast“. Hann stóð með húfuna og vettlingana í hendinni fast við hnén á Línu. Hún gat ekki komizt ofan á gólfið til að ná heklu- nálinni. Þetta var allt svo hlægilegt, að hún skríkti af hlátri, og benti honum síðan á stól. „Fáðu þér sæti, Doddi minn“, sagði hún og hoppaði ofan á gólfið, tók upp nálina og settist á annan stól og byrjaði að hekla. Doddi settist, lagði húfuna og vettlingana á gólfið. Það var víst nógu hreint til þess.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.