Lögberg - 16.06.1955, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 16. JÚNl 1955
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
„Ja, þá þýðir ekkert að hafa þessa lækna“,
sagði Doddi og sló í kringum sig með handleggj-
unum, eins og til þess að tekið yrði eftir því, sem
hann sagði.
Móðir hans leit aðvarandi til hans. Þá stakk,
hann höndunum í buxnavasana og vissi, að hann
hefði hagað sér eins og kjáni.
Daginn eftir kom Helga á Hóli og hafði
lækningabókina með sér. Hún heilsaði Línu án
þess að kyssa hana. Lækningabókin var búin að
kenna henni, að til væru sóttkveikjur, sem gætu
borizt með kossum og eiginlega allri snertingu,
og hún settist heldur ekki á rúmið. Hún ætlaði
að lesa hérna úr bókinni, ef þau vildu senda til
læknis lýsingu af veikinni. Hildur gladdist svo af
velvild hennar, að henni vöknaði um augu. En
það var ekki hægt að sjá á Línu, að henni fyndist
mikið til um hana. Helga byrjaði að lesa um
lungnabólgu. Lesturinn gekk ógreiðlega, en þegar
honum var loksins lokið, spurði hún Línu, hvort
henni virtist ekki þetta vera lýsing á sjúkleika
hennar. Hún svaraði því til, að það gæti ekki
ólíkara verið. Þá fór Helga að lesa um brjóst-
himnubólgu og spurði svo Línu, hvort henni
virtist þessi lýsing líkari. En það var sama svarið
hjá Línu.
„Hvað svo sem getur þetta verið, sem gengur
að manneskjunni?“ sagði Helga alveg hissa. Hún
blaðaði lengi í bókinni, en loks fór hún að lesa
um magaveiki og uppsölu.
Mæðginin sátu með spenntar greipar eins og
undir húslestri. Allt í einu kallar Doddi:
„Nei, hættu nú alveg, Helga. Hún er sofnuð
undir Iestrinum“.
„Hún hefur svo sem ekki mikinn áhuga á
þessu“, sagði Helga móðguð yfir háttalagi Línu,
sem hafði snúið sér til veggjar og breitt sængina
yfir sig upp á eyra..
Helga drakk kaffið fram í eldhúsi og ráðlagði
Hildi endilega að vitja læknis, hvað sem stelpan
segði. Þetta gæti verið eitthvað, sem maður þekkti
ekki. En Lína gerði ekki annað en að hlæja að
lestrinum hjá Helgu, og þá fundu þau Doddi og
Hildur það bæði, að þetta var hálf hlægilegt, og
svo hlyti Lína líka að vera að hressast.
Daginn eftir klæddi Lína sig. Hildur og Doddi
voru yfir sig glöð. Lína var orðin mikið breytt á
þessum stutta legutíma og bragðaði varla mat.
Norðankuldinn var nú horfinn og sólskin og
blíðviðri komið í dalinn, þegar Lína kom út aftur,
föl og tekin, og settist sunnan undir bæjarvegginn.
„Heldurðu að hún fari ekki að hressast,
spurði Doddi með eftirvæntingu í málrómnum.
„Mér lízt ekki vel á það, meðan hún getur
ekki haldið neinu niðri“, svaraði hún kvíðafull.
Henni leizt ekkert á heilsufar Línu.
Helga á Hóli kom seinni part dagsins til að
vita, hvernig liði, og hún ráðlagði það sama og
áður, að vitja skyldi læknis. Þetta væri ekki
nokkur meining, að láta þetta afskiptalaust.
Stúlkan væri ekki orðin að neinu innan í fötun-
um. Þetta væri áreiðanlega eitthvað illkynjað,
sem að henni gengi. Og Hildur varð kvíðafull í
hvert skipti eftir komu hennar. Loksins lét Lína
undan þrábeiðni hennar og ætlaði að fara sjálf
ofan í kaupstaðinn og tala við lækninn. Doddi
söðlaði þann rauða og bauðst meira að segja til
þess að fara með henni.
„Nei, svo aum er ég ekki, að ég þurfi fylgd“,
sagði Lína, en þakkaði Dodda samt fyrir um-
hyggjuna. Hún sárkveið fyrir því að sitja á þess-
um níðhasta hesti alla leið ofan eftir og heim
aftur.
Mæðginin stóðu úti og horfðu á eftir henni.
Hún lét Rauð lötra fót fyrir fót ofan tröðina.
„Hún verður seint komin, ef hún fer alltaf
svona hægt“, sagði Doddi.
„Það er dálítill munur að sjá hana núna eða
þegar hún reið í hlaðið á krossmessudaginn, svona
líka káta og blómlega“, sagði Hildur raunalega.
„Það gengur svo, það er ekki lengi að skipast
veður í lofti“.
„Já, það var heldur skárra útlitið á henni þá.
Það var nú skemmtilegur dagur“, sagði Doddi
glaðlega, „en við skulum nú vona, að læknirinn
geti eitthvað bætt heilsu hennar“.
Hildur gekk í bæinn áhyggjufull. „Það væri
óskandi, að hún yrði ekki svona vesöl lengi“,
hugsaði hún. En það var líka eitthvað annað,
sem gekk að Línu. Hún hafði svo oft orðið vör
við það, að hún grét í einrúmi. Það var náttúr-
lega allt annað en álitlegt fyrir unga manneskju
að missa heilsuna, en samt fannst henni svona
lagað vera of miklar áhyggjur, meðan hún vissi
ekki álit læknisins. En hún var líklega veiklynd,
aumingja stúlkan.
En Lína hélt áfram út dalinn fót fyrir fót.
Hún þoldi ekki að hesturinn færi harðara. Það
var óskaplegt að hafa ekki þýðari hest en þetta.
Svo var hún allt í einu farin að hugsa um, hvað
Skjóni hans Þórðar hefði verið þýður. Aldrei
framar fengi hún að setjast á bak þeim hesti.
Hún þóttist vita, að nú væri komið að skulda-
dögunum fyrir sér. Hún hefði ekki átt að vera
svona örugg og montin yfir því, að vandalaust
væri að, leika sér að eldinum, án þess að brenna
sig. Hún var víst áreiðanlega búin að brenna sig.
Hún var ekki svo heimsk, að hún vissi ekki hvað
mundi vera að sér. Þess vegna vildi hún ekki láta
vitja læknis. Samt var hún að reyna að telia sér
trú um að sér skjátlaðist. Nú var komið að því,
sem Þórður hafði sagt, að endirinn yrði ekki sem
ákjósanlegastur á þessu ástalífi hennar og hrepp-
stjórans. Nú var hún jafnhrygg og hann hafði
verið fyrir hennar aðgerðir, svik og undirfeijli.
Hvað skyldi nú liggja fyrir henni, ef þetta reynd-
íst rétt? Nú sá hún eftir því, að hafa ekki drifið
sig til Ameríku. Það var víst ekki verra að gubba
þar en heima á Jarðbrú. Henni heyrðist vera
hvíslað að sér, þegar hún var að festa svefninn á
kvöldin: „Ólánsbjálfinn þinn! Ólánsbjálfinn þinn!“
Og það var málrómur Ketilríðar. Það hefði sjálf-
sagt hlakkað í henni, ef hún hefði verið tórandi.
Og þegar hún sá spegilmynd sína, fannst henni
hún svo ólánleg, að hún hræddist hana.
Áfram sóttist, þótt hægt væri farið. Aldrei
hafði henni fundizt dalurinn eins langur og núna.
Hún minntist krossmessudagsins. Þá hafði hún
þeyst fagnandi fram dalinn á þessum sama hesti,
sem henni fannst ómögulegur núna. Hún mundi
eftir svarta skugganum, sem Hildi hafði verið
svo illa við, en það kom sólskin á eftir þeim
svarta skugga. Kannske rættist úr þessu fyrir
henni. Kannske var þetta ekkert annað en ímynd-
un. Skyldi læknirinn sjá það, hvernig ástatt væri
fyrir henni? Ef svo væri, þá hefði hún verið flón
að fara til hans. Hún ætlaði annars að hætta við
það, fara þetta bara að gamni sínu, en segja
Hildi, að hún hefði fundið lækninn.
Lína var komin ofan / undir Hrafíisstaði,
neðsta bæinn í dalnum, þegar maður kom þeysi-
ríðandi á móti henni. Það var fyrsti maðurinn,
sem mætti henni. Hún kaus það helzt, að enginn
sæi sig. Honum litist víst ekki á reiðlagið hjá
henni. Hún fór að reyna að toga hausinn á Rauð
ofurlítið upp á við, en hann var þyngri en allt,
sem hún gat hugsað sér. Allt verður þeim til
angurs, sem lasnir eru, og þessi þungi hestshaus
gerði Línu svo gramt í geði, að hún sló í hann
af öllum kröftum með svipuólinni og togaði af
öllu afli í tauminn annars vegar. Hann lét undan
og hún stýrði honum út úr götunni og ofan að
ánni. Reiðmaðurinn var kominn svo nálægt, að
hún þekkti hann, og engum hefði hún síður kosið
að mæta en honum. Það var Þórður. Hér áttu
þau að mætast. Það var þó ekki vanalegt að
Þórður væri á ferðinni, en nú þurfti hann endi-
lega að verða á vegi hennar. Hún dró slæðuna
fyrir andlitið, svo að hann sæi ekki, hvað hún
var aumingjaleg. Kannske þekkti hann hana ekki
eða virti hana ekki viðlits. En hann þekkti hana
víst og stýrði hestinum ofan á eyrina til hennar.
„Góðan daginn“, sagði hann og stöðvaði
Skjóna rétt hjá henni. „Því ríðurðu svona hægt,
Lína? Ertu eitthvað lasin eða er hesturinn svona
latur?“
„Hvort tveggja“, sagði hún, „ég hef verið í
rúminu undanfarna daga og hesturinn er svo
óttalega hastur, að ég þoli ekki að hann fari
hraðara“.
„Þú lítur aumingjalega út“, sagði hann.
„Þakka þér fyrir bréfið það í vetur“, sagði
hún án þess að geta litið framan í hann.
„Það er víst óþarfi að þakka það“, sagði hann.
„Því fórstu ekki til Vesturheims, eins og sagt var
að þú hefðir ætlað þér?“
„Ég treysti mér ekki. Ég er svo sjóveik“, sagði
hún lágt.
„Það hefði nú samt verið betra fyrir þig“,
sagði hann og sneri Skjóna til brottferðar.
„Ég þyrfti svo margt að tala við þig, Þórður“,
sagði hún óstyrk í máli. „Þú ert víst fjarska
reiður við mig, sem von er“.
„Því ætti ég að vera það?“
„Ég hef breytt svo illa við þig“, kjökraði hún.
„Berðu ekki áhyggjur út af því, Lína. Þú
hefur um nóg annað að hugsa“, sagði hann í hlýrri
málrómi en áður. „Okkar reikningar eru kvittir.
Ég vona, að þér líði betur en ef þú hefðir fylgzt
með mér“.
Svo kvaddi hann í flýti og reið burtu. Ein-
stæðingsháttur hennar var farinn að hafa meiri
áhrif á hann en hann vildi. En Lína grét það
sem eftir var leiðarinnar. Hún reyndi þó að hressa
sig upp, þegar hún kom að hestaréttinni, og gekk
síðan heim að læknishúsinu. Hún bankaði ofur-
lítið á hurðina og opnaði um leið. Það var eitt-
hvað svo skrítið að banka nú á eldhúsdyrnar á
þessu fyrrverandi heimili sínu. Það var orðin
mikil breyting á eldhúsinu á þessum fáu vikum,
og hún sízt til batnaðar. Unglingsstúlka, sem
hún hafði aldrei séð áður, var að sjóða miðdegis-
matinn. Silla Jóhanns sat við borðið og sagði
fréttir eins og vant var.
„Ja, stjórni mér nú sá, sem vanur er“, hrópaði
Silla áður en Lína gat heilsað. „Hvað er að sjá
þig, manneskja? Nú hefurðu fengið kast eins og
í haust. Almáttugur! Þú hlýtur að vera búin að
liggja rúmföst í marga daga og engan mat borðað
í mánuð“.
Nýja stúlkan horfði á gestinn stórum augum-
Svo að þetta var þá þessi makalausa Lína, sem
frúin gat aldrei nógsamlega lofað, þessi náhvíti
vesalingur. Það var þó aldrei. En Silla kallaði
svo hátt sem hún gat inn um hálfopnar stofu-
dyrnar:
„Frú Svanfríður! Viljið þér ekki koma fram
fyrir og sjá afturgönguna hennar Línu?“
Svo skellihló Silla að fyndni sinni. En Lína
tók á öllu hugrekki sínu til þess að fara ekki að
kjökra á ný. Rétt á eftir kom frúin fram í dyrnar
og horfði fyrir ofan gleraugun til þess að sjá,
hvað um væri að vera. Lína rétti fram höndina í
kveðjuskyni. Frúin tók hlýlega í hond hennar og
kyssti hana þar að auk.
„Aumingja Lína mín! Hvað hefur komið
fyrir? Yður hefur hreint ekki farið fram við að
fara í sveitina“. Svo sneri hún máli sínu til Sillu,
sem ennþá var hlæjandi: „Mér fyndist nú nær
að þér biðuð Línu sæti heldur en að hlæja að
henni“.
Silla þeyttist upp af stólnum. „Hvenær læt
ég svo sem öðruvísi en bjáni“, sagði hún ásakandi.
„Seztu, Lína mín. Ég skal taka hestinn þinn og
spretta af honum“.
Lína sagðist hafa látið hestinn í réttina. Þá
gerði Silla sig líklega til að klæða hana úr reið-
fötunum. En Lína sagðist ekki vera neinn sjúkl-
ingur, hún gæti sjálf klætt sig úr og í. Silla
strauk eftir síðum hennar og mjöðmum: „Al'
máttugur, hvað manneskjan er orðin tággrönn.
Náttúrlega ertu komin til að tala við læknirinn,
og þá er hann ekki heima“. Lína andvarpaði af
feginleik. Hún settist og fór að segja frúnni frá
því, hvernig hún hefði ofkælt sig og hvað sér
sér hefði liðið hræðilega síðan. Verst af öllu væri
þó, að hún gæti ekki haldið nokkrum mat niðri-
Silla hlustaði á hana með eftirtekt.
„Alltaf er það eins að vera í sveitinni, bölvað-
ur þrældómurinn og drullan. Skyldi maður þekkja
það“, sagði Silla og setti upp fyrirlitningarsvip-
„Það var ekki þeim að kenna“, sagði Lína.
„Það er engum að kenna nema sjálfri mér. ÞaU
hafa verið mér reglulega góð þessar vikur, sem ég
er búin að vera hjá þeim“.